Archive

Auglýsingar

Hefurðu einhverntíman horft á auglýsingu og fengið gæsahúð? Ég reikna með að svarið sé já, enda margar almannaheillaauglýsingar sem heimta fulla athygli og fá hárin til að rísa.

Fyrir mér virðist það vera orðin regla að allt sem tengist Nike og fótbolta gerir karlinn helvíti meyran. Nike á það líka til að tjalda öllu til þegar stórmót er í vændum. Gott ef ég hef ekki skrifað um þetta áður.

En síðustu tvær risa auglýsingar frá Nike eru bara úr annarri veröld. Við erum ekkert að tala um auglýsingar lengur heldur miklu frekar stuttmyndir fyrir fótboltaáhugamenn.

Ég er að sjálfsögðu að tala um auglýsinguna fyrir síðasta heimsmeistaramót og nýjustu auglýsinguna með Cristiano Ronaldu

#RISKEVERYTHING

#SPARKBRILLIANCE

En hvað er það sem gerir þessar auglýsingar svona góðar?

Þær fagna öllu því sem er svo geðveikt við fótbolta. Þær berjast gegn staðalvæðingu, þær fagna hinu óvænta, þær hvetja fólk til að taka áhættu, leggja hart að sér og umfram allt hafa gaman að því sem það gerir.

Ég er allavega búinn að horfa að minnsta kosti 5 sinnum á hvora og er alveg í gírnum fyrir Evrópumótið.

Eins mikið og ég elska Cristiano Ronaldo þá vona ég bara að hann þurfi 1 leik til að koma sér í gang.

Áfram Ísland!

Advertisements

Ég fékk sendan áhugaverðan fyrirlestur í gær þar sem ástralski próferssorinn Mark Ritson fór yfir hans sýn á stafræna miðla.

Oreo-Dunk-in-the-DarkTil að byrja með tók hann sig til og drullaði yfir ofuráherslu allra markaðsstjóra í heiminum á samfélagsmiðla. Hann tók dæmi um “The tweet hear around the world” þegar Oreo stal senunni í Super Bowl XLVII árið 2013 þegar rafmagnið fór af vellinum. og allt varð svart. Miðlar út um allan heim gripu söguna á lofti og Oreo voru sagðir hafa unnið keppnina um bestu Super Bowl auglýsinguna. Seinna vann Oreo Clio auglýsingaverðlaunin fyrir nákvæmlega þetta litla tvít. Og Ritson finnst það algjörlega fáránlegt!

Samfélagsmiðlar hafa breytt heiminum, það er engin spurning. Fólk ver heilu og hálfu dögunum á þessum miðlum svo það er mjög eðlilegt að markaðsfé leiti þangað. Það eru allir að tala um samfélagsmiðla. Ég vinn stóran hluta dagsins við að ná til fólks á samfélagsmiðlum og ég hef fulla trú á því að þeir séu tilvalin staður til að ná til neytenda í ákveðnum tilvikum.

Markaðsfólk er alveg jafn áhrifagjarnt og hver annar. Það eru allir að tala um samfélagsmiðla og okkur finnst við stundum þurfa að hoppa á ákveðinn vagn til þess að missa ekki af lestinni. Oftar en ekki eru markmiðin óljós og því er peningum eytt út í bláinn af því við vitum ekki hvað við ætlum að fá út úr fjárfestingunni. Ég er sekur um þetta sjálfur, að viðurkenna það ekki væri hræsni.

En þarna erum við komin að mergi málsins. Það er ósanngjarnt að horfa á samfélagsmiðla eina og sér og segja að það sé kjaftæði að eyða tíma og peningum þar. Á sama hátt er kjaftæði að eyða 30 milljónum í sjónvarpsauglýsingu þegar markmiðin eru ekki skýr. Hvað ætlum við að fá út úr markaðsstarfinu okkar?

Annað sem hann talaði um var munurinn á stafrænu (e. digital) og hefðbundnu markaðsstarfi. Samkvæmt honum er ekki til neitt “stafrænt markaðsstarf” haldur bara MARKAÐSSTARF. Og þar ég gæti ekki verið meira sammála.

Stop spending money on “digital”. Why build a silo in the middle of your marketing budget?

  • Mark Ritson

Margt af því sem hann segir í fyrirlestrinum er ég ósammála og mér finnst hann vera oft á tíðum þröngsýnn og ósanngjarn. En hins vegar eru góðir punktar í þessu. Ekki eyða peningum nema að vera með hugmynd um hvað við ætlum að fá út úr því. Og hættum að horfa á netið sem sér part af markaðsstarfinu okkar í stað þess að horfa á hlutina í einu stóru samhengi.

Ég læt fyrirlesturinn fylgja með. Hann er mjög áhugaverður sama hvort þú ert sammála Ritson eða ekki.

Björgólfur Thor er snjall bissnessmaður. Hann hefur átt í mörgum af umsvifamestu viðskiptum Íslandssögunnar og af honum fara góðar og slæmar sögur.

En ég ætla ekki að spá í það núna.

Björgólfur er nýbúinn að gefa út afar áhugaverða bók sem ber nafnið Billions to bust – and back. Titillinn hljómar reyndar aðeins eins og ferðasaga Bilbo Baggins en ég hlakka engu að síður mikið til að lesa hana.

Og þar sem ég var í sakleysi mínu að lesa Vidskiptabladid.is í síðustu viku rakst ég á þennan fína vefborða og verandi áhugasamur um að kaupa bókina smellti ég á hann til að fá að vita meira.

Hugrenningar: vb bjoggi thor

 

Vonbrigðin leyndu sér ekki því lendingarsíðan var þessi, forsíða BTB.is sem er persónuleg heimasíða Björgólfs Thors.

Hugrenningar - btb.is

 

Á þessari síðu er enginn hlekkur þar sem hægt er að kaupa bókina, ekkert um það hvort bókin sé komin út, engar upplýsingar um hvar má nálgast hana eða hvort það sé yfir höfuð hægt að kaupa hana hérlendis.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og lokaði síðunni án þess að fjárfesta í eintaki. Þarna varð Björgólfur Thor af örfáum krónum frá mér.

Ég reikna með að markmiðið með þessum vefborða hafi verið að vekja athygli á bókinni. Það tókst, enda smellti ég á borðann. Það sem þarf hins vegar að hugsa er hvað tekur við þegar maður er búinn að smella. Lokamarkmið hlýtur svo að vera að maður kaupi bókina og meðtaki boðskapinn. Það er alltaf jákvætt þegar það er gert auðveldara fyrir mann.

Og hérmeð segi ég ráðleggingum mínum til Björgólfs Thors lokið. Vonandi kemst þetta til skila og vonandi finn ég einhversstaðar hvar ég get keypt bókina.

daftpunk3

Nú er ég spenntur.

Þann 21. maí verður nýjasta plata franska rafdúettsins Daft Punk gefinn út. Gripurinn ber nafnið Random Access Memories og er fyrsta stúdíóplata þeirra Guy-Manuel de Homem Christo og Thomas Bangalter síðan Human after all árið 2005. Þeir hafa þó ekki setið auðum höndum því í millitíðinni hafa fóru þeir á Alive tónleikarferðalegið (besta live plata ever?) og stjórnuðu heilli sinfóníusveit í bland við elektró þegar þeir gerðu tónlistina fyrir myndina Tron: Legacy.

Daft Punk er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum. Discovery platan var ein sú mest spilaða á meðan ég var í menntaskóla og hún opnaði í raun glufuna á það að ég fór yfir höfuð að hlusta á danstónlist. Ég er því búinn að fylgjast með Daft Punk lengi þannig ég er alltaf spenntur fyrir nýju efni frá þeim.

Það sem er ennþá skemmtilegra að fylgjast með, fyrir svona nörda eins og mig, er öll markaðssetningin í kringum útgáfuna. Hún er eiginlega case study útaf fyrir sig. Ég hef bara aldrei séð annað eins.

Í febrúar uppfærði Daft Punk heimasíðuna sína og vísuðu á hana á Facebook síðu sveitarinnar. Í kjölfarið trylltist internetið. Daftpunk.com hrundi og Twitter-inn logaði af sögum um að Daft Punk væri að fara að gefa út nýtt efni. Tilkynningin var þó ekki alveg svo stór, heldur voru Frakkarnir tveir að tilkynna að þeir hefðu skrifað undir hjá plötuútgefandanum Colombia. Þetta var 26. febrúar.

daftpunk2

Fljótlega bættust við sjónvarpsauglýsingar í kringum Saturday Night Live þættina. Þær byrjuðu frekar dularfullar en hafa verið að afhjúpa meira og meira varðandi plötuna eftir því sem vikurnar líða.  Svona var fyrsta auglýsingin:

Þann 24. mars fór svo markaðsvélin í gang af alvöru. Þá var tilkynnt nafn á nýrri plötu og vísað á sérstaka slóð – randomaccessmemories.com.

Í kjölfarið fóru að birtast myndbönd á YouTube undir nafninu The Collaborator Series. Þar er talað við hina ýmsu aðila sem koma að plötunni. Þegar þetta er skrifað hafa birst 4 viðtöl við Giorgio Moroder, Todd Edwards, Nile Rodgers og Pharell Williams. Mér finnst Moroder áhugaverðastur enda einn af frumkvöðlum raftónlistar á sínum tíma. Hann vann meðal annars mikið með Donnu Summer.

Þessir þættir hafa dúkkað upp út um allt! Á tónlistarbloggum, fréttasíðum, á Twitter og síðast en ekki síst í fréttaveitunni á Facebook. Eftirvæntingin virðist vaxa með hverju myndbandi.

Nú síðast var stönt á Coachella hátíðinni í Bandaríkjunum, einni stærstu tónlistarhátíð í heiminum. Á milli atriða kviknaði á risaskjánum og 90 sekúndna trailer fyrir plötuna fór í gang. Fólk greip að sjálfsögðu snjallsímana, tók myndir og myndbönd og tjáði sig á netinu og um leið var Daft Punk orðið eitt umtalaðasta efnið á Twitter. Í þessum trailer var listinn af samstarfsmönnum kunngjörður en þar er til dæmis að finna Julian Casablancas, söngvara The Strokes, Giorgio Moroder, Todd Edwards, Nile Rodgers og Pharell Williams sem ég taldi upp áðan, ásamt fleirum. Núna, 5 dögum síðar, er búið að spila þennan trailer 1,5 milljón sinnum!

Það áhugaverða er að það hefur ekki eitt lag lekið út eða farið í spilun. Venjulega senda hljómsveitir frá sér smáskífur til að vekja athygli á nýjum plötum en ekki Daft Punk. Þeir senda bara frá sér smá hluta úr lagi, sem gerir mann alveg brjálaðan af því mann langar að heyra nýtt efni!

En bíðum við. Það sem hefur gerst er að nú eru fjöldinn allur af myndböndum og lögum á netinu þar sem plötusnúðar um allan heim eru búnir að taka þessi litlu brot og mixa saman. Það er ekki hægt að hlusta á heila útgáfu af laginu ennþá, en þú getur hlustað á “hugsanlega” útgáfu. Og á meðan eru allir að tala um Daft Punk!

Það sem þeir hafa líka gert svo rosalega vel eru allir þessir “teaser-ar”. Dularfull auglýsing á besta tíma í bandarísku sjónvarpi. Óvæntur trailer á Coachella. Viðtöl við samstarfsmenn sem lýsa því hversu frábær þessi plata er. Þetta á allt þvílíkan þátt í því að eftirvæntingin eykst og umtalið sömuleiðis. Daft Punk er allsstaðar!

Ég hef allavega sjaldan verið jafn spenntur fyrir nokkurri plötu. Ég er búinn að kaupa vínylinn í forsölu og stafræn útgáfa fylgir með, þannig ég fæ hana strax og hún kemur út. Þangað til getur verður maður bara að bíða eftir næsta þætti af Collaborator Series.

Það er svolítið fyndið að þegar maður er að skoða hvað er að gerast í auglýsingaheimum þá virðist maður eingöngu horfa til Bandaríkjanna. Jú, það er alveg rétt að Bandaríkin eru land auglýsinganna og þar finnur maður gríðarlega mikið af flottu efni. En það er ýmislegt gríðarlega flott að gerast útum allan heim sem hægt er að finna ef maður leitar. Í kvöld rambaði ég á rosalega flotta herferð sem unnin var í borginni Salvador í Bahia héraði í Brasilíu sem ber nafnið “Me sangue é rubro-negro” sem þýðist sem “Mitt blóð er rautt og svart.

Salvador, Brasilíu

Það er allt of sjaldgjæft í Brasilíu að fólk gefi blóð. Talið er að aðeins um 2% landsmanna gefi blóð, en Alþjóða Heilbrigðisstofnunin (WHO) mælist til að það hlutfall sé a.m.k. 3%. Þess vegna fóru yfirvöld í Bahia í samstarf með Vitoría, til að reyna að auka blóðgjöf.

Í Brasilíu elska allir fótbolta eins og kunnugt er. Stærsta liðið í Bahia héraði er Vitoría sem er einn elsti klúbbur í Brasilíu, en þrátt fyrir að spila í annarri deild hann hefur alið af sér stórstjörnur eins og Bebeto, Hulk og David Luiz.

Alla sína tíð hefur liðið leikið í röndóttum, rauðum og svörtum treyjum og eru það einkennislitir liðsins. Einn daginn stigu leikmenn þess út á völlinn og þá voru rauðu rendurnar horfnar og hvítar komnar í staðinn. Ímyndið ykkur hversu mikið það hefur látið fótboltabullurnar stoppa, nudda augun og horfa aftur. Liðið bara búið að skipta um lit? Hvernig ætli því væri tekið ef Manchester United stigi út á Old Trafford í einhverju öðru en rauðu.

En liturinn snéri aftur. Eftir því sem fleiri gáfu blóð  þá bættust rauðu rendurnar við að nýju. Fyrst ein á botni treyjunnar og svo koll af kolli eins og væri verið að fylla mæliglas. Þetta vakti gríðarlega athygli og þegar átakið kláraðist hafði orðið 46% aukning í blóðgjöfum. Söfnunin vakti líka athygli um alla Brasilíu og varð aukning í blóðgjöfum um alla Brasilíu. Þar að auki var fjallað um herferðina í fjölmiðlum víða um heim.

Þetta er klassískt dæmi um hvernig hægt er að stíla beint inn á tilfinningar með auglýsingu. Með því að breyta litnum þá voru forsvarsmenn herferðarinnar að koma við eitthvað sem snerti alla aðdáendur liðsins djúpum böndum og það besta er að tilgangurinn var að vekja athygli á verðugu málefni. Þar að auki var þetta frábær “út fyrir kassann” hugsun, og fékk fólk til að láta fólk taka þátt og láta gott af sér leiða þar sem auglýsingin fólst í gjörningnum sjálfum. Umtalið og umfjöllunin kom svo í kjölfarið vegna þess að hann var flottur og óhugaverður.

Fyrr á árinu skrifaði ég pistil um það hvernig auglýsingar í Kólumbíu reyndu að stuðla að því að minnka skæruliðahernað. Skilaboðin voru “leggið niður vopnin og komið heim”. Framtakið tókst vel og fjöldi skæruliða komu heim úr frumskóginum í kjölfarið. Herferðin vann til fjölda verðlauna og vakti verðskuldaða athygli um allan heim. Svo víða barst hróður hennar að sá sem að henni stóð  henni hélt fyrirlestur á Íslandi!

Ég trúi því að með réttum skilaboðum getirðu stuðlað að betri heimi. Þú breytir honum kannski ekki á svipstundu en það er hægt að ná til hóps og smátt og smátt setja þitt mark á hann.

Nú hafa staðið yfir átök á milli Ísraels og Palestínu í fjölda áratuga. Íbúar beggja vegna við landamærin eru mjög reiðir enda hafa þeir þurft að búa við mikla hættu, ótta og hræðslu og margir hafa misst ástvini í þessu áralanga stríði. Ég veit samt og trúi að margir eru orðnir þreyttir á þessu ástandi og vilja helst ljúka því á friðsaman hátt. Jafnvel þó friður sé ekki í augsýn eru margir sem reyna að leggja sitt af mörkum til að stuðla að friði.

Á stærstu auglýsingahátíð í heimi í Cannes árið 2010 fór auglýsingarstofan Saatchi & Saatchi Israel af stað með verkefnið “The Impossible Brief” eða “Óframkvæmanlega verkefnið”. Þar gat hver sem er komið með sína hugmynd um hvernig hægt væri að leysa það verkefni sem pólitíkusum heimsins virðist ómögulegt að gera – að binda enda á stríðið.

Hugmyndin sem varð fyrir valinu var “Blood relations”. Hún gengur út á að tengja Ísraela og Palestínumenn blóðböndum og hvetja fólk til þess að gefa blóð til hjálpar hinu. Þegar allt kemur til alls þá getur blóðgjöf af þessu tagi bjargað mannslífum – ekki bara ísraelskum eða bara palestínskum, heldur mannslífum. Til þess að geta endað deilur friðsamlega þurfum við að setja okkur í spor náungans. Þessi hugsun finnst mér falleg.

Ég hef ekki tölur um hversu margir tóku þátt í átakinu en þetta vekur mann til umhugsunar. Herferðin vann til 5 gullverðlauna á Cannes verðlaunahátíðinni núna síðast. Ég mæli með myndbandinu sem fylgir.

Ég er rosalega hrifinn af hugtaki sem kallast “branded content”. “Vörumerkt efni” kallaði ég það í færslu einhverntíman í fyrra. Þá erum við að tala um efni sem fyrirtæki láta framleiða í auglýsingaskyni, án þess þó að það sé bein auglýsing, heldur meira í formi vörulaumu (e. product placement). Það fer þó ekkert á milli mála hver kostar til gerð myndbandsins. Yfirleitt er hægt að framleiða svona efni til að sýna fram á notagildi ákveðinnar vöru eða þjónustu en líka til að styrkja ímynd eða vekja umtal og/eða athygli. Dæmi um þetta var til dæmis Doug herferðin hjá Ford, Uncle Drew frá Pepsi Max og myndbandið sem var gert fyrir FM95BLÖ.

Uncle Drew sketsinn er reyndar einn sá besti svona sem ég hef séð.

Það skemmtilega við netið er að birtingarleiðirnar eru tiltölulega ódýrar. Ef efnið er nógu gott þá mun það fá dreifingu. Fréttamiðlar, blogg og notendur samfélagsmiða munu horfa og skoða og deila því á sínar síður. 11 milljón áhorf á Uncle Drew tala sínu máli og það sama má segja með 40.000 áhorf á FM95BLÖ. Þannig er hægt að eyða meira púðri í að framleiða efnið sjálft á kostnað auglýsingabirtinga. Þetta er mjög skemmtilegur möguleiki sem fleiri og fleiri virðast vera að nýta sér.

En titill færslunnar er Daybreak og ég ætla að fjalla aðeins um það. Daybreak er verkefni frá AT&T sem er unnið í samstarfi við auglýsingarisann BBDO. Þetta er 5 þátta sería þar sem leikararnir nota vörur og þjónustur AT&T. Þar eru t.d. allir með HTC One X síma, Galaxy Tab, 4G net og alls konar öpp og fítusar. AT&T virðist hafa farið all in í þetta verkefni en leikstjóri þáttanna er Jon Cassar, sá sem leikstýrði fyrstu 7 seríunum af 24 og framleiðandinn er Tim Kring, en hann færði okkur m.a. Heroes.

Nikola Tesla

Það merkilega er að þættirnir eru spennandi. Venjulega þegar svona er reynt kemur það asnalega og gervilega út, en sú er ekki raunin. Ég datt inn á þá fyrir tilviljun þegar ég var að skoða hvernig AT&T notar YouTube. Senurnar eru hraðar og mikið að gerast og þá tengi ég við söguþráðinn og langar að vita meira. Án þess að segja of mikið fjalla þættirnir um rannsóknir á uppfinningum Nikola Tesla, en hann var einn færasti uppfinningamaður síðustu aldar. Aðalsöguhetjan leiðist inn í æsispennandi eltingaleik og hasar með svikum, byssuskotum, bílaeltingaleikjum og fleiru. Nú þegar eru komnir út 3 þættir en sá fjórði verður frumsýndur annað kvöld (fimmtudag 21. júní).

Eins og ég sagði áðan þá fór AT&T all in í framleiðslu þáttanna. Það eru 2 vefsíður í gangi, annars vegar www.daybreak2012.com þar sem hægt er að horfa á þættina og annað aukaefni sem fylgir.  Ef þú smellir á kristallana á síðunni færðu að sjá aukaefnið.

Jack Boxer

Jack in the box er fígúra sem birtist hvað eftir annað í þáttunum en hún er mikilvægur hlekkur í sögunni. Til að auka á umtal og fá virkni á milli aðdáenda og áhorfenda þá var gert forrit fyrir Android og iPhone sem heitir einmitt Jack Boxer. Í forritinu er innbyggð tenging við Facebook en eins virðist þar vera einskonar ratleikur þar sem þú getur náð í vísbendingar fyrir þættina. Hin heimasíðan sem sett var upp er www.jackboxers.com. Þar er aukaefni en líka að finna vísbendingar og innsendingar frá fólki sem hefur náð í appið.

Það er áhugavert að sjá hversu miklu AT&T hefur kostað til. Vissulega hefur þetta kostað drjúgan skilding, en það kostar allt sem á að gera vel. Ég reikna með að tilgangurinn með þessu sé að kynna 4G netið, kosti snjallsímanna og svo auðvitað HTC One X. Það er greinilega ímyndarfaktor í þessu líka auk þess sem að ég reikna með að appið taki ágætis gagnamagn, sem skapar tekjur.

En eins og áður segir eru þættirnir að fá dreifingu þar sem þeir eru vel gerðir. Fyrst einhver nölli á Íslandi datt inn á þetta fyrir tilviljun þá hljóta einhverjir í Bandaríkjunum að vera að pikka þá upp. Þetta er mjög áhugaverð tilraun og skemmtilegt að sjá öllu tjaldað til. Ég hlakka til að njósna um útkomuna og hvernig allt tókst. Ef maður heyrir ekki neitt veit maður allavega að þetta floppaði!

Hér er fyrsti þátturinn. Ég býð í ofvæni eftir þætti nr. 4 sem kemur á fimmtudagskvöld. Horfðu á þættina, prófaðu appið og segðu mér hvað þér finnst. Fleiri dæmi eru vel þegin!