Archive

Greinar eftir mig

Hér er grein eftir mig sem birtist í Mágusartíðindum skólaárið 2011/12. Mágusartíðindi eru gefin út á hverju ári af grunnnemum í viðskiptafræði við HÍ. Blaðið er hið glæsilegasta og margt áhugavert þar að finna. Þú getur nálgast það hér.


Hvað á maður eiginlega að vera að lesa?

Ert þú einn af þeim sem hefur virkilegan áhuga á því sem þú ert að læra og myndir vilja lesa þér meira til? Ertu kannski að fara að stofna fyrirtæki og vilt læra betur hvernig á að koma sér á framfæri? Eða ertu kannski að leita þér að frekari heimildum fyrir BS ritgerðina? Finnst þér kannski bara gaman að lesa? Hér eru nokkrar bækur sem gætu komið þér á sporið. Allir eftirfarandi titlar eru fáanlegir á Amazon.com, í kilju eða rafbókarformi. Einnig er hægt að fá suma þeirra sem hljóðbók.

A Random Walk Down Wall Street

Höfundur: Henning Malkiel – Prófessor við Princeton háskólann í Bandaríkjunum

Af hverju áttu að lesa hana? Malkiel fer í gegn um sögu hlutabréfa-markaðarins og fer yfir allar bólurnar í efnahagssögu heimsins. Hann segir að maður eigi að fjárfesta í virði, ekki skýjaborgum og horfa til fyrirtækja með rekstur á traustum grunni, ekki til loforða um himinháar fjárhæðir sem svo aldrei skila sér. Malkiel notar dæmi frá Bandaríkjunum sem sýna að sagan endurtekur sig alltaf, sama hversu margar kenningar og módel spretta fram. Fyrsta útgáfan kom út árið 1973 og hún hefur því staðist tímans tönn, enda eiga kenningar Malkiels eins vel við í dag og þá.

Sjá á Amazon.

The New Rules of PR and Marketing

Höfundur: David Meerman Scott rithöfundur

Af hverju áttu að lesa hana? Markaðsfræðin sem kennd er í HÍ miðar því miður allt of lítið að því hvernig á að nota netið. New Rules kennir þér á mannamáli hvernig þú átt að ná athygli neytandans á netinu. Farið er yfir hvernig þú getur notað bloggsíður, samfélagsmiðla, leitarvélabestun og fleiri nýmiðla til að ná til hugsanlegra kaupenda. Hann fer yfir hvernig heimasíður eiga að vera uppbyggðar og notar skemmtilegar dæmisögur. Ef þú vilt ná árangri í markaðssetningu í dag þarftu að ná tökum á hefðbundnum miðlum eins og sjónvarpi og dagblöðum en líka rafrænni markaðssetningu. Þessi bók er frábær byrjun fyrir þá sem eru að þreifa sig áfram í markaðssetningu á netinu.

Sjá á Amazon.

Losing My Virginity

Höfundur: Richard Branson milljarðamæringur

Af hverju áttu að lesa hana? Richard Branson fór aldrei í háskóla en er samt einn ríkasti maður veraldar. Hann á eyju, plötuútgáfu, flugfélag, geimflugfélag, farskiptafyrirtæki og svo áfram mætti lengi telja. Branson er fyrirmynd þeirra sem vilja gera eitthvað sjálfir en hafa ekkert fyrir sér nema dugnað og vilja. Þessi bók er mjög skemmtileg, skrifuð af milljarðamæringnum sjálfum og gefur skemmtilega innsýn inn í líf þessa nettgeðveika manns. Hann fjallar um viðskiptasigra, vonbrigði og samskipti við stjörnurnar. Einnig gefur hann innsýn inn í hvaða áhrif peningar geta haft á vináttu og ástarsambönd. Klárlega bók fyrir alla viðskiptafræðinema.

Sjá á Amazon.

Predictably Irrational

Höfundur: Dan Ariely prófessor

Af hverju áttu að lesa hana? Hefurðu heyrt hugtakið „atferlishagfræði“ (e. Behavioral economics). Hvort sem svarið er já eða nei þá þarftu að lesa þessa bók. Dan Ariely er prófessor við MIT háskólann í Boston. Hann hefur frá unglingsaldri haft rosalegan áhuga á hegðun fólks, hvað mótar hugmyndir þess og hvernig við hugsum. Hann hefur gert fjöldan allan af rannsóknum til að styðja við kenningar sínar og er með virtari fræðimönnum í atferlishagfræði. Það merkilega er hvernig hann nálgast viðfangsefni sín út frá félagsfræðilegum forsendum og sálfræði, frekar en tölulegum upplýsingum. Viltu vita af hverju þú keyptir öll þessi föt sem þú notar ekki , bara vegna þess þau voru á útsölu? Lestu þá þessa.

Sjá á Amazon.

Tipping Point: How little things Make a Big Difference

Höfundur: Malcolm Gladwell markaðsgúrú

Af hverju áttu að lesa hana? Malcolm Gladwell hefur frábæra innsýn og þekkingu á markaðsmálum. Það fyndna er að hann er blaðamaður og rithöfundur, ekki markaðsstjóri eða ráðgjafi. Hann hefur skrifað fjölda greina, leikstýrt heimildarmynd og talað á TED ráðstefnunum – og í öllum tilvikum er umræðuefnið markaðsmál. Tipping Point fjallar um hvernig hlutir verða vinsælir, hvort sem það eru hugmyndir eða klæðaburður. Hann notar sömu nálgun til þess að útskýra velgengni Converse skóna og til að útskýra minnkandi glæpafaraldur í New York. Og það fáránlega er að kenningin gengur upp! Bókin er stutt og laggóð og notar dæmisögur til að styðjast við.

Sjá á Amazon.

VIÐBÓT
Ég hef skrifað áður um allar þessar bækur nema Tipping Point. Sjá færslurnar Fólk er fífl, The New Rules of PR and Marketing, Losing My Virginity og Sjálfbærni í fjárfestingum.