Archive

Monthly Archives: June 2013

Við höfum öll farið á tónleika þar sem hljómsveitin gat varla haldið á hljóðfærunum sökum ölvunar. Flestir halda sér þó þurrum á meðan þeir taka upp tónlistarmyndböndin.

Tónlistarmyndbönd geta verið gríðarlega góð leið fyrir tónlistarmenn til að koma sér á framfæri. Flestir þekkja myndböndin hjá LMFAO sem gerðu ofurhittarann “Sexy and I Know It” (267 milljón áhorf) og svo auðvitað PSY karlinn sem gerði “Gangnam Style” (1,6 milljarður áhorfa). Þessi lög hefðu sennilega aldrei orðið jafn vinsæl og raun bar vitni nema af því tónlistarmyndböndin voru fyndin og fólk deildi þeim áfram.

Ég rakst á geðveikt fyndna tilraun hjá hljómsveitinni Moones þar sem þeir nýttu YouTube annotation virknina til fulls. Fyrir þá sem ekki þekkja þessa virkni þá er það í stuttu máli leið til þess að færa þig á milli myndbanda á YouTube. Þannig geturðu látið notandann skipta á milli myndbanda þannig að sagan breytist eða þá að þú hoppir inn í myndbandið frá öðru sjónarhorni. Þessi virkni hefur verið notuð á skemmtilegan hátt í hinum ýmsu herferðum til dæmis í Meira Ísland herferðinni hjá Símanum og svo í nýlegri herferð frá SUS fyrir kosningarnar í vor.

En þetta hérna myndband slær öllu út að mínu mati.

Hljómsveitin Moones ákvað að taka upp sama lagið, “Better Energy”, upp fimm sinnum og drekka 4 bjóra á mann á milli hverrar töku. Þannig 5 hljómsveitarmeðlimir drukku 16 bjóra á mann. Svo er hægt að fylgjast með því hvernig þeim gengur að fara með lagið eftir því sem svífur á mannskapinn með því að smella á 20, 40, 60 eða 80 bjóra.

Útkoman er alveg eins og maður býst við, undir lokin ráða þeir ekki við neitt og eru fullkomlega út úr heiminum. Það er betur hægt að fylgjast með þróuninni á ástandinu hjá þeim með því að horfa á “Making of” myndbandið.

Ég er kannski ekki að mæla með að hljómsveitir drekki sig haugafullar og bjóði fólki að horfa á, en þetta er allavega ein leið til að nýta tæknina til að koma sér á framfæri.

Advertisements

wom marketingÉg er búinn að vera með Word of Mouth Marketing eftir Andy Sernovitz á náttborðinu hjá mér í heilan mánuð. Það var ekki fyrr en ég hoppaði upp í bústað núna um helgina sem ég komst í að lesa hana. Og viti menn, hún var straujuð á einni helgi.

Það er talað um fyrirtækið og vörumerki, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Fólk deilir því hvernig þjónustan á veitingastaðnum var, hvort maturinn hafi verið góður eða hvort þjónninn hafi verið í hvítum sokkum. Þannig hefur það verið frá örófi alda og mun halda áfram. Þessi bók reynir að kenna þér hvernig þú átt að nýta þetta umtal þér í hag.

Grunnhugmyndin í bókinni er semsagt, finndu rétta fólkið til að tala um þig og gefðu því eitthvað að tala um.

Sernovitz brýtur þetta niður í “T-in 5” (The Five T’s):

  1. Talkers – Hverjir eru að tala um þig? Hverjir viltu að tali um þig?
  2. Topics – Um hvað er fólk að tala? Hvað viltu að það tali um?
  3. Tools – Hvar er fólk að tala um þig? Skapar þú einhvern vettvang fyrir þá umræðu?
  4. Taking part – Tekur þú þátt í þessari umræðu? Hvað gerir þú til að kynda undir hana?
  5. Tracking – Hversu vel mælirðu þetta umtal?

Fólk treystir umsögnum frá öðru fólki betur heldur en auglýsingum. Þess vegna viltu gefa því eitthvað til að tala um og segja frá í fjölskylduboðinu, í vinnunni eða í saumaklúbbnum. Þetta gæti orðið einn af stærri tekjustraumunum þínum. Þess vegna þarftu að gera eitthvað sem sker þig úr fjöldanum og fær fólk til þess að tala.

Andy Sernovitz

Andy Sernovitz

Að sama skapi getur það skipt öllu hver það er sem talar um þig. Leitar þú ekki til sama aðilans þegar þig vantar ráðgjöf varðandi tölvumál? Eða bílamál? Eða nýja tónlist til að hlusta á? Þú vilt ná til þeirra sem hafa áhrif á almenningsálitið. Þess vegna er mjög mikilvægt að komast að því hverjir hafa mest áhrif í þínum markhópi og svo þarftu að höfða til þeirra svo þeir vilji tala um þig.

Hljómar þetta kunnuglega? Já auðvitað, þetta er líka mjög kunnuglegt! Höfundurinn er greinilega mjög klár og kann sitt fag. En hann fær líka helling lánað frá öðrum séníum, eins og t.d. Seth Godin (t.d. Purple Cow) og Malcolm Gladwell (t.d. Tipping Point). Þessari bók er samt beint eingöngu á það málefni að fá fólk til að tala um þig og gefur þér hugmyndir um hvernig þú getur gert það.

Það ætti ekkert af þessu að vera nýtt fyrir þér. Hins vegar er alltaf gott að dýfa sér í svona léttmeti inn á milli, aðeins til að fá smá innblástur, hugmyndir nú eða bara til að hafa eitthvað til að skrifa um á  bloggið þitt.

Þetta er m.a. það sem mér fannst standa upp úr:

  • Samfélagsmiðlar eru ekki umtal. Mér fannst flott hjá Andy að tækla þá umræðu. Þeir eru hins vegar mjög mikilvæg pípa í að dreifa og stuðla að umtali
  • Það er enginn að fara að tala um þig ef þú ert leiðinleg/ur. Nema þá um hversu leiðinleg/ur þú ert. Stattu upp úr fjöldanum og finndu það sem gerir þitt fyrirtæki áhugavert.
  • Áttu aðdáendur? Hverjir elska vöruna þína eða vörumerkið? Talaðu við þá! Verðlaunaðu þá á einhvern hátt.
  • Taktu þátt í umræðunni. Þakkaðu fyrir góð ummæli. Reyndu að lagfæra ef eitthvað fór úrskeiðis.
  • Allt lifir að eilífu á Google!

Bókin er ágæt. Hún er létt og skemmtileg og þægilega upp sett. En hún fellur í sömu gryfju og langflestar svipaðar bækur gera: hún er alltof löng. Það hefði verið mjög auðvelt fyrir Andy karlinn að skrifa 70 blaðsíðna bók og hún hefði ekki verið neitt verri. En það er erfitt að selja 70 blaðsíður fyrir $10-15, og þannig er það. Ég mæli með henni fyrir alla þá sem eru að leita að innblæstri til að auglýsa sig eftir ódýrum leiðum, jafnt lítil sem stór vörumerki.