Archive

Monthly Archives: January 2014

Í dag var síðasti dagurinn minn hjá Símanum.

Kjúklingur

Kjúklingur

Ég byrjaði að vinna sem þjónustufulltrúi í versluninni í Ármúla í október 2007 og vann við það ásamt ýmsum aukaverkefnum til haustsins 2009 þegar ég byrjaði í háskólanum. Ég var samt alltaf í fastri vinnu hjá fyrirtækinu nokkra daga í mánuði í búðinni í Smáralindinni og svo alltaf í aukaverkefnum.

Það var svo vorið 2011 sem ég var ráðinn inn á markaðsdeildina og vá hvað tíminn hefur flogið þar. Ég er búinn að koma að allskonar verkefnum eins og Meira Ísland, Höldum fókus, Iceland Airwaves, Spotify og ótal öðrum stærri og minni verkefnum. Í leiðinni er ég búinn að kynnast alveg frábæru fólki og mörgum sem ég kalla nána vini í dag.

Ég hef alltaf sagt að ég sé alinn upp hjá Símanum, enda er það fyrsta fyrirtækið sem ég hef unnið hjá í fullri vinnu. Í raun má segja að ég hafi slitið barnsskónum hjá Símanum – tvisvar. Fyrst haustið 2007 með því að upplifa hvernig er að vera á almennum vinnumarkaði og svo þegar ég kem í markaðsdeildina og fékk smjörþefinn af markaðs- og auglýsingabransanum.

Síminn fær mín hæstu meðmæli sem vinnustaður og ég er gríðarlega þakklátur fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið þar. Það eru ekki öll fyrirtæki sem eru tilbúin að gefa óreyndum mönnum tækifæri til þess að sprikla og sanna sig.

Takk fyrir mig!

Nú taka við spennandi tímar en á mánudaginn tek ég við nýrri stöðu hjá Íslandsbanka. Ég mun þar fara inn á Samskiptasviðið og einbeita mér að rafrænum viðskiptum og markaðssetningu á netinu.

Kveðja,
Banka-Hjalti

0204873999 Hjalti Rögnvaldsson

20140104_094705_resized

Í dag tók ég þátt í málstofu sem haldin var af ÍBR í aðdraganda Reykjavíkurleikanna sem verða haldnir seinna í mánuðinum. Ragna Ingólfsdóttir, fyrrum badmintonkona og ólympíufari hélt fyrirlestur um hennar reynslu af því að sækja um og þyggja styrki frá fyrirtækjum. Ég næstur á svið og hélt stutt erindi um samskipti við styrktaraðila frá sjónarhóli styrktaraðilans, ímynd og svo kynningu í gegn um samfélagsmiðla. Í kjölfarið fylgdi vinnustofa um það hvernig íþróttafólk og íþróttasambönd eiga að kynna sig og sínar greinar.

Það var mjög lærdómsríkt að taka þátt í þessari vinnu enda var þarna fólk á öllum aldri úr mörgum mismunandi greinum.

Það sem helst stóð upp úr var hversu samfélagsmiðlarnir eru orðnir samofnir kynningu hjá yngra fólki. Þegar farið var að tala um miðla eins og Facebook sperrti fullorðna fólki eyrun til að læra á meðan yngra fólkið geispaði. Þau vita þetta og nýta miðlana óspart bæði í kynningu á sjálfu sér og í almenn samskipti. Það þarf ekki að útskýra fyrir þeim hvernig miðlarnir virka eða hversu mikilvægir þeir eru, heldur frekar að leiðbeina hvaða efni á að setja inn til að ná fram tilætluðum árangri.

Annað sem var gaman að upplifa er hversu mikið af hugmyndum kemur úr öllum hornum. Þegar þú blandar saman svona ólíkum hópi með jafn ólíkan bakgrunn verður til samsuða af alls konar þekkingu sem hægt er að læra af og nýta sér.

Ég þakka kærlega fyrir mig og set hérna glærurnar frá minni kynningu hér á netið ef einhver vill njóta þeirra.