Archive

Monthly Archives: November 2011

Fyrsta kynslóð iPod

Hlaðvörp (e. podcasts) eru eins konar útvarpsþættir á netinu. Hver sem er getur tekið upp hlaðvarp og sett það á netið sem þýðir að næstum hver sem er getur hlustað á það sem útvarpað er á tíma sem honum hentar. Hlaðvörp fóru að verða vinsæl með útbreiðslu iPod-ana góðu en þá fór fólk að sækja þau í gegn um iTunes og svo hlusta á þau í iPod spilaranum sínum.

Fyrir stuttu síðan var ég búinn að ákveða að hlaðvörp væru bara fyrir nörda. Af einhverjum ástæðum var ég búinn að ákveða að þeir sem byggju til og hlustuðu á hlaðvörp væru myndasögulúðar í Bandaríkjunum. Hvað gaf mér þá hugmynd veit ég ekki, en á síðustu vikum hef ég byrjað að hlusta á hlaðvörp sjálfur. Kannski flokkast ég undir skilgreininguna á myndasögulúða en þá er það bara svalt.

Það sem fyrst opnaði glufu fyrir hlaðvörpin hjá mér var bókin The New Rules of PR and Marketing eftir David Meerman Scott, sem ég hef verið að reyna að lesa. Ég segi reyna að lesa af því ég held ég hafi byrjað á henni í september og svo glugga ég í hana á köflum, eftir því hversu mikið er að gera hjá mér. Vonandi næ ég að klára hana fyrir áramót. Nokkrum vikum síðar var ég að tala við frænda minn sem alltaf hlusta á hlaðvörp þegar hann er að vinna. Á endanum keypti ég hugmyndina um hlaðvörp þegar vinnufélagi minn sagðist vera orðinn háður því að hlusta á þau í gegn um forrit í símanum sínum.

Þegar ég heyrði að það væri til forrit í símann var ég undireins seldur. Auðvitað var það eina sem þurfti forrit í símann, það er svo geðveikt sniðugt! Þannig ég sótti forritið Pocket Casts og fór að sækja mér nokkra þætti. Og viti menn, ég er háður. Það vill nefnilega þannig til að það er hægt að finna hlaðvörp um allan fjandann. Ég hlusta mest á eitthvað sem tengist tækni, samfélagsmiðlum og markaðsfræði, en þú gætir fundið allt frá uppistandi til tónlistarþátta, hagfræði eða Sesame Street. Ricky Gervais er til dæmis með geysivinsælt hlaðvarp sem hægt er að gerast áskrifandi að.

Pocket Casts fyrir Android

Síðustu vikuna hef ég m.a. hlustað á This Week in Google (TWIG), vikulegan þátt um hvað Google er að brasa, viðtal við forstjóra Coca Cola á Harvard Business Review rásinni auk nokkurra viðtala á Marketing Profs rásinni. Ég hef verið að hlusta á þetta þegar ég er á leiðinni í vinnuna, úti að hlaupa eða ef ég hef 10 mínútur þar sem ég hef ekkert annað að gera. Þetta er frábær leið til að ná sér í smá fróðleik, og það besta er að maður getur verið að gera eitthvað annað á meðan. Ef fólk fer inn á iTunes og í iTunes Store er hægt að skoða öll þau hlaðvörp sem í boði eru. Ég mæli endilega með að þið prófið þetta.

En hvernig er það, eru einhverjir Íslendingar að taka upp hlaðvörp og senda þau út á netið fyrir okkur hin að hlusta? Ef einhver er með ábendingar má sá hinn sami endilega stíga fram. Ef einhver veit um fleiri góð er ég meira en tilbúinn að hlusta.

Hér fyrir neðan er Michael Porter að tala í podcasti sem heitir Rethinking Capitalism frá Harvard Business Review.

Það er kominn 21. nóvember. Dagurinn verður sífellt styttri og ennþá er heill mánuður í vetrarsólstöður. Við megum því búast við allavega tveimur mánuðum þar sem við förum til vinnu í myrkri og það sé orðið dimmt þegar við komum heim. Nýverið hafa orðið tvö hræðileg slys. Hjólreiðarmaður slasaðist lífshættulega á Dalvegi þegar gámabifreið var keyrt í veg fyrir hann. Þá lést ung stúlka á Siglufirði í síðustu viku eftir hræðilegt slys og önnur liggur illa haldin á sjúkrahúsi. Ég þekki hvorugan aðila en hugur minn er hjá þeim báðum og þeirra nánustu.

Þegar maður heyrir svona hrikalegar fréttir fer maður ósjálfrátt að hugsa um það sem manni er kært og hvað maður vill innilega að ekkert komi fyrir þá sem manni þykir vænt um. Að því tilefni langar mig að koma með vinsamleg tilmæli til allra vegfarenda, akandi, gangandi, hjólandi eða hlaupandi.

Verum sjáanleg. Allt of algengt er að sjá fólk alveg svartklætt á gangi úti á kvöldin og morgnana. Þegar þú labbar um svartklæddur í myrkri eru engar líkur á að akandi vegfarendur sjái þig. Að fara í ljósa yfirhöfn eða að vera með endurskinsmerki gerir þig sýnilegan í myrkri og eykur öryggi þitt. Bæði VÍS og Arion Banki hafa verið að gefa endurskinsmerki þannig það er engin afsökun að segjast ekki eiga þau.

Keyrum varlega. Það er byrjað að frysta og fæst okkar erum komin á almennileg vetrardekk. Í umferðarörtröðinni sem myndast á morgnana er mikilvægt að fara sér engu óðslega og keyra varlega. Þó þú sért aðeins of seinn í vinnuna þá munar þig ekkert um þær 2 mínútur sem það tefur þig að stoppa á rauðu ljósi í stað þess að æða yfir á gulu.

Kveikjum ljósin á bílnum. Það getur vel verið að þú sjáir ágætlega með hjálp ljósastauranna en það þýðir ekki að við hin sjáum þig eins vel. Segjum sem svo að ég sé í svartri úlpu að labba yfir götu og þú kemur keyrandi með slökkt ljósin, hvernig eigum við að vita af hvorum öðrum? Venjum okkur á að kveikja ljósin á bílunum okkar alltaf.

Taktu leigubíl heim af jólahlaðborðinu. Þú hefur gott af tímanum sem það tekur að rölta og ná í bílinn daginn eftir. Ekki taka sénsinn.

Börn eru hvatvís. Lítið smáfólk er á leið í skólann snemma á morgnanna þegar er ennþá dimmt. Þau eiga það því miður til að hlaupa út á götu án þess að horfa til beggja hliða. Hugsum sérstaklega um þetta þegar við erum að flýta okkur út úr íbúðahverfum. Þegar ég lærði á bíl var mér sagt að hafa í huga máltækið “á eftir bolta kemur barn”. Það á jafn mikið við í dag og þegar ég var 17 ára.

Slysin eiga því miður alltaf eftir að gerast. Við getum samt gert það sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þau, og við eigum að gera það!

Audible fyrir Android

Ég hef aldrei hlustað á hljóðbækur. Í vor skráði ég mig samt með aðgang á Audible.com og ætlaði svo aldeilis að fara að hlusta. Nýir meðlimir fá að sækja eina bók sér að kostnaðarlausu og ég rakst á bókina Tribes: We need you to lead us eftir Seth Godin. Svo varð að sjálfsögðu ekkert af allri hlustuninni fyrr en ég fór út að hlaupa um helgina. Þá sótti ég Audible forritið í símann minn og gróf bókina upp úr einhverri möppunni.. Það er furðu þægilegt að hlusta á hljóðbækur, sérstaklega þegar maður er að hlaupa. Maður er aðallega að láta hugann líða þegar maður hleypur og þannig er mjög gott að demba í sig smá fróðleik í leiðinni.

Seth Godin

Seth Godin er nokkuð merkilegur maður. Hann er bandarískur frumkvöðull og rithöfundur. Hann ferðast um allan heim og heldur fyrirlestra auk þess sem hann heldur úti bloggsíðu. Hann setur inn færslu á hverjum einasta degi og hefur gert í yfir 10 ár sem hefur gert hann að einum vinsælasta bloggara í heimi. Hann talar aðallega um markaðsmál og vörumerki, en hann hefur líka farið inn á tengd málefni eins og stjórnun, leiðtogahæfni og sjálfshvatningu. Bækurnar hans hafa selst í milljónum eintaka, þær helstu heita Purple Cow, All marketers are liars og Permission marketing, auk Tribes að sjálfsögðu.

Tribes er bók um leiðtogahæfni. Í henni talar Seth um muninn á því að leiða (e. leading) og stjórna (e. managing). Rauði þráðurinn í bókinni er sá að fólk flykkir sér á bakvið leiðtoga og myndar þannig fylkingar (e. tribes). Leiðtogi segir pattstöðu stríð á hendur. Hann reynir að hafa áhrif á fólk og hrífur það með sér. Ef þú ert leiður á ástandinu sem þú ert í áttu að standa upp og gera breytingar. Ekki láta teyma þig í hjörð heldur taktu af skarið og myndaðu þína eigin fylkingu. Með tilkomu internetsins varð svo miklu miklu auðveldara að mynda fylkingar. Allt í einu voru til blogg þar sem hver var orðinn sinn eigin sérfræðingur því allir hafa rödd á netinu. Miðlar eins og Facebook og Twitter hafa auðveldað fylkingamyndun enn meira.

Bókin er ágæt. Hún er uppfull af dæmisögum og hún veitir sannarlega innblástur. Margt sem hann segir á fullkomlega rétt á sér, sérstaklega þegar kemur að því að segja stöðnun stríð á hendur og gera eitthvað. Ef ég á að setja út á eitthvað þá er hún með full mörgum dæmisögum. Seth kemur efninu frá sér fullkomlega í fyrstu köflunum og virðist vera að reyna að teygja lopann með því að bæta enn fleiri dæmisögum, sem er merkilegt miðað við að bókin er ekki nema 160 bls, eða tæpir 4 tímar sem hljóðbók. Ég myndi gefa 3 stjörnur af 5.

Við tilheyrum öll einhverjum fylkingum. Obama myndaði fylkingu sem skilaði honum forsetastóli. Steve Jobs myndaði fylkingu af fólki sem trúði á hann og hann gerði Apple að verðmætasta fyrirtæki í heimi. Þeir sem ganga nú til kosninga í Sjálfstæðisflokknum á næstu viku munu annað hvort fylkja sér á bakvið Hönnu Birnu eða Bjarna Ben, þau eru leiðtogar hvor í sínu horni með fylkingar á bakvið sig. Jón Gnarr var orðinn þreyttur á stöðnuninni í íslenskri pólitík þannig hann stofnaði Besta Flokkinn. Þá sögu þekkja allir.

Ég tel ykkur lesendur góðir sem meðlimi í minni fylkingu.

Hér fyrir neðan er Seth Godin að tala á Ted fyrirlestri til að fylgja bókinni sinni eftir. Ef þið hafið skoðanir á honum, ekki hika við að skilja eftir athugasemdir.

 

Kauptu bókina fyrir Kindle eða í kilju á Amazon eða hljóðbókina í gegn um Audible.

Í Bandaríkjunum í dag þykir töff að klára ekki háskóla heldur elta drauminn og stofna eigið sprotafyrirtæki. Sögur af fyrirtækjum eins og Twitter, Facebook og Groupon heilla mörg ungmennin og allt í einu þykir ekki flott að vera með gráðu frá Harvard heldur er meira töff að hafa einmitt HÆTT í Harvard. Flest þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að þau eru byggð á einhverskonar vefsamfélagi og flest þeirra eiga það sameiginlegt að eigendurnir vilja ekki ganga með bindi. Skoðum þetta aðeins nánar.

Það fylgir því venjulega að þegar fyrirtækið þitt er skráð í kauphöll þá ertu orðinn frekar mikilvægur maður. Ég vinn í frekar afslöppuðu umhverfi þegar kemur að fatnaði en það er munur á að vera snyrtilegur eða líta út eins og þú sért nýkominn frá því að lana með vinum þínum.

Hvað er pælingin á bakvið þetta? Er þetta einhver uppreisn gegn heiminum sem þeir starfa í, eða er þetta viljandi gert til að ýta undir einfalt og þægilegt umhverfi á vinnustaðnum? Þetta virðist allavega vera trend í tækniheimum og mín kenning er sú að þetta sé þeirra leið til að verða ekki of “corporate”. Þeir semsagt vilja halda í háskólaandann og ekki sýnast vera eins gráðugir og fjárfestarnir sem þeir hafa þurft að leita á náðir til.

Tökum nokkur dæmi:

Nafn: Mark Zuckerberg
Aldur: 27 ára
Fyrirtæki: Facebook
Virði: $80,000,000,000 (sept 2011)

Zuckerberg hefur verið tíður gestur í hugrenningum mínum enda sennilega sá sem setti staðalinn fyrir þessa nýju Kísildals-nörda. Mark kemur alltaf fram í stuttermabol og sandölum, en þegar hann vill poppa sig upp hendir hann jafnvel hettupeysu yfir sig.

Nafn: Seth Priebatsch
Aldur: 22 ára
Fyrirtæki: SCVNGR
Virði: $100,000,000 (maí 2011)

Seth Priebatsch er enn eitt undrabarnið. Hann er aðeins 22 ára og á og stýrir leikjafyrirtækinu SCVNGR sem byggir á sömu hugmynd og Foursquare. Hann titlar sig “Chief Ninja” og labbar um með appelsínugul sólgleraugu á hausnum. Hann einmitt hætti í Princeton til að láta drauminn rætast.

Nafn: Mark Pincus
Aldur: 45 ára

Fyrirtæki: Zynga
Virði: $15,000,000,000 (júní 2011)


Marc Pincus er forstjóri leikjafyrirtækisins Zynga sem bjó til leikina Farmville og Cityville á Facebook. Zynga stefnir á að skrá sig á hlutabréfamarkað núna á næstu vikum. Ætli það komi Pincus úr stuttermabolnum í jakkafötin?

Nafn: Dennis Crowley
Aldur: 35 ára

Fyrirtæki: Foursquare
Virði: $600,000,000 (júní 2011)


Foursquare er ennþá eitt af heitustu sprotunum ytra. Dennis Crowley er annar stofnandi fyrirtækisins og hann stýrir öllum 70 starfsmönnunum í hettupeysu.

En tískan er ekki aðeins bundin við Bandaríkin. Hún teygir sig að sjálfsögðu líka hingað heim. Tökum sem dæmi flottasta tæknifyrirtækið á Íslandi í dag, CCP. Hefur Hilmar Veigar Pétursson einhverntíman komið fram í fjölmiðlum öðruvísi klæddur en í stuttermabol?

En þá spyr maður sig, er þetta ekki bara bransinn? Þeir sem eru í tölvubransanum aðgreina sig greinilega frá þeim sem eru í fjármálabransanum. Fatnaður er ein leið til þess. Eiga fötin að skipta einhverju máli? Eiga verkin ekki frekar að tala frekar en klæðnaður og aldur? Eða eru þeir allir að herma eftir manni sem kom aldrei fram nema í rúllukragabol, gallabuxum og hvítum strigaskóm? Setti hann staðalinn fyrir klæðaburð í tölvugeiranum.

Þetta var svona léttur pistill um tískuna í tölvuheimum, svona eftir alvarleika síðustu færslu.