Archive

PR

Ég rakst á mjög svo skemmtilega tilraun á alnetinu um daginn.

Hljómsveitin Garcia Goodbye frá Belgíu var að gefa út nýtt lag og vildi vekja athygli á því. Þeir hefðu getað farið venjulegu leiðina, hringt í þáttastjórnendur á útvarpsstöðvum, sent tölvupósta á vefmiðla og látið vita á Facebook. En það sem þeir ákváðu að gera er að kaupa slatta af USB lyklum, blöðrur og kút af helíum gasi. Þeir settu svo lagið á USB lykill ásamt stuttum skilaboðum, fylltu blöðrurnar með gasinu og slepptu þeim svo á völdum stöðum. Blöðrurnar flugu svo út í himinhvolfið og þeir félagarnir biðu eftir að einhver myndi setja sig í samband við þá eftir að hafa fundið blöðru. Ein blaðran flaug alla leið til Sönderborg í Danmörku og keyrðu þeir þangað að hitta manninn sem hafði fundið lagið. Allt þetta var svo tekið upp á myndband og sett á YouTube.

Þetta er virkilega skemmtileg leið til þess að vekja athygli á sér. Það er gefið að blöðrurnar væru ekki allar að fara að skila sér. Meirihluti þeirra hefur væntanlega fokið úr á sjó. En það var ekki markmiðið. Það var að taka upp myndbandið og vekja þannig athygli á nýja laginu.

Eins og áður segir er hægt að fara venjulegu leiðina, hringja í útvarpsstöðvar, reyna að fá umfjöllun í blaðinu og setja status á Facebook – og eflaust hafa þeir gert það líka. En með því að gera þetta svona ná þeir líka til fólks sem hefði líklega aldrei heyrt af hljómsveitinni Garcia Goodbye. Ég væri til dæmis ekki að renna plötunni í gegn á Spotify og þaðan af síður að segja þér frá því.

Ég skrifaði einu sinni um að gera eitthvað einstakt. Þetta er eftir nákvæmlega sömu línu.

Og lagið er bara ágætt.

Árið er 2030 og þriðja heimstyrjöldin er í hápunkti. Rússar, Kínverjar og Bandaríkjamenn eru að heyja lokaorrustu úti í geimnum og endalok mannkynsins blasa við. Evrópa er lögð í rúst, hún átti sér einskis von gegn stórveldunum þremur. En lítil eyja norður í Atlantshafi heldur enn í sjálfstæði sitt! Þökk sé þrotlausum æfingum í Elliðaárdalnum hefur litla Ísland komið sér upp þróttmesta her í heiminum sem risaveldin hafa ekki roð við. Íslenski herinn er bara í allt of góðu formi!

Nei bíddu ha? Fáum við í alvörunni ekki að æfa varnir Íslands af því Sóley Tómasdóttir er á móti því að Boot Camp fái aðstöðu í Elliðaárdalnum? Þriðja heimstyrjöldin er á leiðinni! Hvað er að henni??

Ný aðstaða BC í Elliðaárdal

Hjá skipulagsfulltrúa í Reykjavík liggur fyrir tillaga að Boot Camp fái að opna líkamsræktaarstöð í húsnæði einu í Elliðaárdalnum. Allt lítur út fyrir að tillagan verði samþykkt með miklum meirihluta, enda engin sýnileg ástæða til að stoppa hana.

Samt varð allt brjálað? Af hverju?

Af því Sóley Tómasdóttir sá sér leik á borði og ákvað að koma á framfæri einu af baráttumálum Vinstri grænna, að Ísland sé herlaust land og að Vinstri grænir séu á móti hernaðarbrölti í allri sinni mynd.

Og Facebook LOGAÐI!

Sóley Tómasdóttir, ég tek hatt minn ofan fyrir þér. Þú ert sannur “newsjacker”.

Sóley Tómasdóttir – © Vísir.is

Haldiði virkilega að hún hafi ekki vitað hvað að þetta myndi rata á fréttasíður? Vísir birti fyrirsögnina “Vinstri grænir leggjast gegn heræfingum í Elliðaárdal” og í framhaldinu var viðtal við eiganda Boot Camp þar sem hann bauð Sóleyju velkomna í prufutíma sem hún svo afþakkaði.

Fyrir vikið fékk Boot Camp mjög flotta auglýsingu á nýju stöðinni sem þeir ætla að opna, þannig þeir geta ekki kvartað. Vinstri grænir komu sínum málefnum á framfæri á mjög sniðugan hátt og ég þori að veðja að Sóley Tómasdóttir fékk klapp á bakið frá flokksystkynum sínum.

Boot Camp á Íslandi er enginn undirbúningur fyrir hernað á vígstöðvum, ég veit það, þú veist það, mamma mín veit það og Sóley Tómasdóttir veit það.

Það að “newsjack-a” er þegar þú nýtir þér fréttir til að koma sjálfum þér og/eða vörum þínum á framfæri. Hugtakið er búið til af David Meerman Scott og hefur verið fjallað um áður hér í Hugrenningum.

%d bloggers like this: