Archive

Monthly Archives: February 2015

Fyrir mörgum árum (3 árum) skrifaði ég færslu um hlaðvörp (e. podcasts). Ég var akkurat að uppgötva snilldina sem hlaðvörp eru. Þú gerist áskrifandi að þætti, sækir hann þegar þér hentar og hlustar á hann í því tæki sem þú vilt – flestir í snjallsímanum sínum.

Síðan þá hafa hlaðvörp heldur betur sótt í sig veðrið. Kjarninn er til dæmis með virka rás þar sem m.a. er talað um efnahagsmál, Tvíhöfði hringir inn í sinn eigin útvarps þátt og enn annar þáttur fjallar bara um hluti sem þáttastjórnandanum finnst kúl. Alvarpið á Nútímanum er með virkilega metnaðarfulla dagskrá sömuleiðis þar sem fjallað er um allt frá kvikmyndum og tónlist yfir í hefðbundna viðtalsþætti.

En ég er latur í dag þannig ég ætla ekki að fara út í neitt gríðarlega greiningu á kostum hlaðvarps eða mismunandi dagskrárliða. Ég ætla einfaldlega að segja ykkur frá 4 uppáhalds hlaðvörpunum mínum þessa stundina.

This Old Marketing

this old marketingÉg er búinn að hlusta örugglega á svona 10 mismunandi þætti um markaðsmál enda er markaðsfólk svo ótrúlega kúl og tilbúið að nýta sér nýja miðla. Og frábært fólk þar að auki! This Old Marketing er stjórnað af Joe Pulizzi og Robert Rose. Þeir skilgreina sig sem “content marketers” þannig það er auðvelt að skilja hvernig það sem þeir fjalla um hittir beint í mark hjá mér. Þættirnir eru vikulegir og koma alltaf á mánudögum. Í síðasta þætti var t.d. verið að fjalla um auglýsingarnar í Super Bowl. Ég mæli með þessum þáttum fyrir markaðsfólk og aðra áhugamenn um markaðsmál.

Here’s The Thing

heres-the-thing-podcast-logoÉg straujaði allar 30 Rock seríurnar á svona 2 mánuðum (NB þá eru það rúmlega 150 þættir!) aðallega vegna þess að Jack Donaghy, leikinn af Alec Baldwin, er maðurinn. Alec Baldwin er fæddur til þess að tala. Því þarf ekki að koma á óvart að ég hlusta á hvern einasta þátt af Here’s the thing, en þættinum er stýrt af Alec nokkrum Baldwin. Hann er þarna að tala við leikara, handritshöfunda og fleiri opinberar persónur. Joe McEnroe var til dæmis gestur í einum þætti, Sarah Jessica Parker í öðrum og Jerry Seinfeld hefur komið í heimsókn a.m.k. tvisvar sinnum. Flestir þessir aðilar eiga það líka sameiginlegt að búa í New York City – bestu borg í heiminum.

Þáttur um kúl hluti (ÞUKL)

thukl í kjarnanumEini íslenski þátturinn á listanum. Þáttur um kúl hluti er frábært hlustunarefni. Það er líka bara brilliant hugynd að útvarpsþætti að fjalla bara um hluti sem manni sjálfum finnst kúl. Frá því ég byrjaði að hlusta hefur verið fjallað um björgunasveitir, loftslagsmál og tjáningarfrelsið. Þáttarstjórnandinn Birgir Þór Harðarson er ávallt vel undirbúinn og yfirleitt er hann með viðmælanda sem kemur með ferska innsýn í þau málefni sem verið er að fjalla um. Frá því ég byrjaði að hlusta hefur m.a. verið fjallað um björgunasveitir, loftslagsmál og tjáningarfrelsið. Mæli með þessu.

americanlife__140321173358This American Life

This American Life er vikulegur útvarpsþáttur á NPR sem hefur verið í loftinu núna í 20 ár. Í hverjum þætti af  er tekið fyrir ákveðið þema og fundnir óvæntir og skemmtilegir angar af því. Fyrsti þátturinn sem ég hlustaði á hét til dæmis “If you don’t have anything nice to say, SAY IT IN ALL CAPS” og fjallaði um nettröll (e. trolls). Í þessum þætti voru sagðar 3 sögur sem allar snérust um mismunandi form af árásum á netinu. Í þeim þætti sem ég er að hlusta á núna eyða þáttastjórnendur heilum mánuði á bílasölu sem þarf að ná ákveðnum markmiði til að fá allt að $85.000 bónus. Ef þau ná ekki því markmiði skilar bílasalan tapi. Eins og sjá má eru umfjöllunarefnin þannig eins ólík og þau eru mörg.

————————————————-

Ég hlusta undantekningalaust á hlaðvörp í símanum mínum. Ég nota appið Pocket Casts. Það kostar örfáa dollara en virkar mjög vel.

Þetta er það sem ég er að hlusta á, en það er alltaf hægt að bæta við. Á hvað ert þú að hlusta?