Archive

Google

Ég er oft spurður hvar best er að geyma myndbönd. Í raun er ekki neitt eitt rétt svar við því, það fer allt eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Ætlarðu að selja auglýsingar, safna áskrifendum, reyna að láta það fara “viral”, tengja við annað efni t.d. á vefsíðu og svo lengi má telja.

Akkurat núna er mikið stríð á milli miðla að vinna “content-keppnina” en það vilja allir að þú geymir efnið þitt hjá sér. Ég ætla að fjalla aðeins um hvernig þú getur nýtt þér þetta stríð til að ná fram þínum markmiðum.

YouTube-logo-full_color (1)YouTube hefur hingað til verið aðal staðurinn til að geyma myndbönd. Þessi samfélagsmiðill tók svakalegt stökk strax og hann fór í loftið og var á endanum keyptur af Google fyrir 1,650.000 dollara árið 2006. Allir í heiminum nota og þekkja YouTube. Það sem ekki allir vita er að YouTube er næst stærsta leitarvél í heiminum með 3 milljónir fyrirspurna í mánuði! Fjölmargir út um allan heim hafa orðið ríkir á YouTube enda er svo ofboðslega auðvelt að annars vegar byggja upp áhorfendahóp (e. audience) og svo auðvitað að selja auglýsingar í gegnum auglýsingakerfi Google.

facebookFacebook hefur heldur betur sótt í sig veðrið hvað myndbönd varðar. Ég get staðfest af eigin raun að ef þú setur myndband inn á Facebook þá fer það á fleygiferð og flestir vinir þínir sjá það. Facebook er hér klárlega að reyna að krækja sér í hlutdeild af YouTube kökunni. Facebook vill gera sem mest til þess að þú þurfir aldrei að fara út af Facebook. Þeir verðlauna þig þannig með áhorfi fyrir að hlaða myndbandinu þínu á Facebook, en refsa þér ef þú linkar á YouTube myndband eða aðra miðla sem taka þig af Facebook. Við skulum samt ekki gefa Facebook of mikið hrós því þó að myndbandið þitt sjáist í öllum fréttaveitum sem þú veist um þá er þar líka pottur brotinn. Myndböndin spilast nefnilega sjálfkrafa á Facebook þegar þú sérð það og það telur sem 1 “áhorf”. Þannig alltaf taka þeim tölum með fyrirvara hjá Facebook.

vimeo logo blueSvo er það Vimeo. Vimeo er videoplatform fyrir myndbandsrúnkara. Allt á Vimeo er miklu fallegra en á YouTube. Þú hefur sömuleiðis betri stjórn á hlutum eins og stillimynd, læsingum og slíku og er þannig alveg frábær miðill til að nota til dæmis ef þú ætlar að setja myndböndin þín á vefsíður (e. embedded videos), til dæmis á vörusíður á heimasíðu fyrirtækis þíns. Að sama skapi geturðu stjórnað því betur hvað birtist þegar myndbandið þitt er búið.

Þetta eru svona þessir þrír helstu.  Það eru fullt af öðrum miðlum í boði eins og til dæmis myndbönd á Twitter og svo örmyndbönd á t.d. Vine og Instagram. Þá er hér ekki einu sinni minnst á myndbandsspilara fyrir fjölmiðla, sem vilja geta stýrt læsingunni ennþá betur og jafnvel handvalið auglýsingar á undan eða eftir hverju myndbandi. Það er líka allt önnur pæling.

En hvað af þessu er best?

Eins og ég sagði áðan þá fer það rosalega eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Það er hægt að kafa gríðarlega djúpt ofan í algórythma, pælingar um að byggja upp áskrifendahóp og hvar þú ætlar að græða peninga en þumalputtareglan hjá mér er:

Facebook – Til að sjást sem víðast (e. most impressions)

YouTube – Til þess að finnast

Vimeo – Til að “embedda” á aðrar síður.

Þetta er svona þokkalega algilt fyrir flesta auglýsendur og vörumerki. Til þess að nýta kosti hvers miðils má líka hlaða myndbandi inn á alla þessa miðla.

Vonandi hjálpar þetta einhverjum.

Síðasta mánuðinn hef ég orðið háður Spotify. Það er æðislegt að geta nálgast svotil alla tónlist heimsins í fullkomnum gæðum fyrir aðeins 10€ á mánuði. Meira að segja Bubbi Morthens og Sálin hans Jóns míns eru þarna inni. Þar að auki er hægt að hlusta á hana í öllum tækjum, símanum þínum, tölvunni eða spjaldtölvunni – svo lengi sem þú ert í netsambandi. Þú getur notað Spotify þér að kostnaðarlausu en þá færðu auglýsingar á milli laga, auk þess sem þú getur ekki notað snjallsímaforritið eða gert tónlist “available offline”. Þannig ég mæli með tíu evrunum.

Eitt það skemmtilegasta við Spotify er að þú getur tengt forritið við Facebook og þannig fylgst með því sem vinir þínir eru að hlusta á. Einnig geturðu búið til playlista og deilt þeim, búið til “útvarpsstöðvar” eftir tónlistarstefnum og náð þér í öpp.

Svona lítur Spotify út

Svona lítur Spotify út

radioblogclub

Ég hef neytt tónlistar á allan mögulegan máta í gegn um tíðina, allt frá því að kaupa geisladiska, yfir í ólöglegt niðurhal, kaup á MP3 skrám og svo auðvitað streymi á netinu. Hver man eftir RadioBlogClub? RadioBlogClub var fyrsta streymisþjónustan sem maður fór að fikta í. Svo prófaði ég allan fjandann, allt frá Songza yfir í Deezer og svo að sjálfsögðu Grooveshark. Síðan má auðvitað finna alla tónlist heimsins á YouTube.

Síðustu ár hefur krafan frá tónlistarunnendum orðið þannig að þeir vilja geta nálgast sína tónlist hvar sem er og á hvaða tæki sem er, hvort sem um er að ræða tölvu, vinnustöð eða í símanum sínum. Ég leitaði heillengi að almennilegri þjónustu sem bauð upp á þetta, enda er óþolandi að þurfa að vera að færa tónlist á milli úr tölvu með snúru til þess að geta haft hana til dæmis á símanum sínum. Besta lausnin sem ég fann er Google Music. Sá galli er hins vegar á Google Music að þú þarft að hlaða tónlistinni niður, áður en þú hleður henni upp í skýið. Þá ertu með alla þá tónlist sem þú hefur safnað í gegn um tíðina á einum stað og getur nálgast hana hvar sem er.

Auðvitað er eina vitið að tónlistin sé bara geymd á einum stað og þú borgir einfaldlega fyrir að hlusta. Það er líka einfaldast og þá geturðu jafnvel hlustað á tónlist sem þú hefur ekki kynnst áður án þess að stela henni, en þú þarft samt ekki að kaupa plötuna fullu verði. Tónlistarmenn fá svo greitt eftir því hversu mikið tónlist þeirra er spiluð. Þetta er nútíðin og framtíðin.

Nýja Google Music appið

Það er því ekkert skrítið að Google hafi kynnt sína eigin tónlistar-streymisþjónustu í síðustu viku þar sem viðskiptavinum býðst aðgangur að 18 milljónum laga fyrir fast gjald: $7,99 á mánuði. Samhliða þessu fengu bæði Google Music viðmótið og Android appið andlitslyftingu og er orðið svona líka fallegt og appelsínugult.

Miðað við það sem ég hef fundið er þessi nýja þjónusta mjög svipuð Spotify. Hún geymir tónlistina þína, kemur með áhugaverðar ábendingar miðað við þinn tónlistarsmekk og svo geturðu skoðað það sem vinir þínir eru að hlusta á. Reyndar eru það vinir þínir á Google Plus, þannig ekki búast við mikilli virkni þar. Að því ógleymdu að þjónustan virkar ekki á Íslandi nema með smá fiffi.

Samkvæmt internetinu er Apple að vinna í svipaðri þjónustu fyrir sín iTunes, enda á fyrirtækið undir högg að sækja ef fólk hættir að kaupa plötur og streymir öllu.

Alltaf þegar ný þjónusta eða vara kemur á markað og á að keppa við eitthvað aðra vinsæla vöru þá er talað um hana sem hugsanlegan “killer”. Þannig var Kindle Fire titlaður sem hugsanlegur “iPad killer” og það er talað um Samsung Galaxy símana sem “iPhone killer”. Sömuleiðis átti Spotify að ganga frá öðrum þjónustum eins og Pandora þegar þjónustan lenti í Bandaríkjunum.

spotify killer

Samkeppni virkar þannig að nokkrar þjónustur eða vörur keppast um peninga og athygli neytenda. Neytendur velja svo þá þjónustu eða vöru sem hentar þeirra þörfum. Fleiri keppinautar geta líka stækkað markaðinn, þannig að mögulegur viðskiptavinahópur stækkar og allir (flestir) græða. Þannig getur Google Music hentað ákveðnum hópi, á meðan Pandora hentar öðrum og svo koll af kolli. Þá eru örugglega einhverjir þarna úti sem eru fastir í því að hlaða öllu niður í gegn um Torrent eða kaupa ennþá geisladiska. Verði þeim að góðu.

Persónulega nota ég Google Music og Spotify til skiptis. Ég er með allt tónlistarsafnið mitt á Google Music en næstum öll önnur tónlist er á Spotify. Notendaviðmótið þessa stundina er miklu betra á Google Music en úrvalið miklu meira á Spotify. Það getur nefnilega verið truflandi að vera með of mikið úrval, þá getur maður ekki valið hvað maður vill hlusta á. Svo er ég auðvitað Android notandi þannig það er mér eðlislægt að nota Google þjónustur.

Svo getur vel verið að það komi einhver ofurþjónusta á næstu árum sem mun “drepa” allar þessar ofargreindu. Við bíðum bara og sjáum.

P.s. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á Lord of the Rings tilvitnuninni í titlinum.

Google Music er nýjasta undrið frá vinum mínum hjá Google. Þetta er semsagt tónlistarspilari frá þeim þar sem þú getur hlaðið inn öllu tónlistarsafninu þínu og hlustað hvar sem er – svo lengi sem þú ert með Google reikning (Gmail). Þú færð 20.000 lög til þess að byrja með og þarft bara að hlaða niður mjög einföldum “uploader” til þess að byrja að hlaða inn tónlist. Svo velurðu bara hvaða möppu þú vilt henda inn í skýið og voilá – þú getur hlustað á tónlistina þína hvar sem er. Google Music er enn ein viðbótin í Google samfélagið sem ég hef minnst á áður, og styrkir ennfrekar nýju Chromebook tölvuna þeirra (sjá hér).

Þessi nýi fítus hjá þeim er náttúrulega snilld fyrir 21. öldina. Fólk er að vinna á svo mörgum endatækjum. Tökum sem dæmi sjálfan mig. Ég er með tölvuna mína heima með allri tónlistinni minni, svo er ég með tölvu í vinnunni með öðru tónlistarsafni og að lokum er ég með símann minn sem ég nota líka sem tónlistarspilara. Það getur verið þreytandi að færa alltaf á milli ef þú vilt geta hlustað á plötur sem þú hefur kannski keypt heiðarlega, nú eða hlaðið niður óheiðarlega. Einnig er ein mjög lítil en stórskemmtileg virkni í þessum spilara. Ef þú ert með plötu sem vantar umslagið framan á (þetta skiptir suma máli), þá leitar hann sjálfur á netinu og sækir myndina fyrir þig. Þannig allt lítur fallega út.

Svona lítur safnið út

Ég hef núna svo gott sem sagt skilið við iTunes því frá því ég byrjaði að nota Google Music hefur spilarinn ekki hikstað einu sinni og viðmótið er bara svo fjandi skemmtilegt. Það eina sem ég sakna virkilega úr iTunes er að sjá ekki hversu oft einstakt lag hefur verið spilað. Ég er rosalega hrifinn af allskonar listum og finnst gaman að skoða hvaða lög ég hef mest hlustað á í gegn um tíðina. Ég vona að því verði bætt við.

Svona lítur farsímaviðmótið út

Google Music fyrir Android

Að sjálfsögðu er til forrit fyrir Android. iPhone er eitthvað aðeins á eftir, ég fann allavega ekki iOS útgáfu á App store. En þá spyrja sumir: “Er ekki dýrt að streyma tónlist í gegn um síma hvort eð er? Ég ætla ekkert að borga neina formúgu!” Svarið við þessu er jú, vissulega er dýrt að streyma miklu magni af tónlist yfir farsímanet, en það er alltaf hægt að streyma yfir WiFi eða láta símann vista valin lög á minninu, og það þráðlaust! Ég elska tæknina allt of mikið!

Að sjálfsögðu er galli á gjöf Njarðar. Google Music er bara í boði í Bandaríkjunum og er ennþá í Beta útgáfu. Sem þýðir að hver notandi fær aðeins örfáa boðslykla og hann þarf að fara krókaleiðir til þess að skrá sig. Einnig er ekki hægt að ná í Android forritið nema bakdyramegin. Ég reikna með að þetta sé allt leyfisskilt hvað varðar höfundarrétt og annað þannig Google Music verður pott þétt ekki í boði fyrir sótsvartan almúgan í heiminum strax. En eins og áður segir er alltaf hægt að fara krókaleiðir. Ef þú þekkir einhvern sem er með Google Music, biddu hann um að bjóða þér. Ég á ófáa eftir þannig fyrstur kemur, fyrstur fær. Eftir að þú ert kominn með boðslykil, fylgdu þá eftirfarandi leiðbeiningum:

  1. Þú þarft að plata tölvuna þína þannig hún haldi að hún sé í Bandaríkjunum. Það er auðveldlega gert. Þú ferð inn á þessa síðu og finnur þér proxy server í Bandaríkjunum.
  2. Opnar Firefox og breytir proxy settings. Það er undir Tools – Options – Advanced Network. Þar seturðu inn IP tölu proxy þjónsins og port.
  3. Þú smellir á boðslykilinn sem var sendur á þig.
  4. Sækir Music Manager (getur gert það með því að smella hér
  5. Velur möppuna með tónlistinni þinni og byrjar að hlaða upp
  6. Hlustar eins og vindurinn

Eins og með allar nýjar þjónustur hefur Google sett eldhressa auglýsingu á netið. Endum þetta með henni.

Nú er ég búinn að vera tengdur inn á Google+ í rúma viku. Twitterinn logar af umræðum og það hefur myndast hið fínasta nördasamfélag þarna inni. Sökum anna hef ég ekki gefið mér gríðarlegan tíma í það að kynna mér hvað Plúsinn hefur upp á að bjóða en maður er svona að átta sig á þessu hægt og rólega.

Stutt yfirlit

Það fyrsta sem ég gerði var að sjálfsögðu að sækja mér forritið í símann. Þið þurfið að sækja það hér til hliðar þar sem það er aðeins í boði fyrir BNA inni á Android Market. Forritið er mjög stílhreint og fallegt, rosalega Google-legt á hvítum bakgrunni og ekkert verið að flækja hlutina. Það er búið að samræma spjallið (Google Talk) og mjög auðvelt að deila hlutum með vinum sínum. Einnig er núna tekið sjálfvirkt afrit af öllum myndum og myndböndum sem þú tekur á símann þinn. Það er þá komið beint í skýið og þú getur deilt með vinum þínum eins og þér hentar. Ég mæli eindregið með að þið breytið stillingum hjá ykkur kæru lesendur í að þessi afritun gangi einungis yfir WiFi því að annars munið þið sprengja gagnamagnið hjá ykkur og rafhlöðuna á núll einni (tala af reynslu).

Google+ fyrir Android

Vefviðmótið er einnig mjög fallegt og stílhreint, ennþá allavega. Fólksmassinn er ekki orðinn það mikill að spam-ið sé að gera vart við sig. Circles eða hringir er frábær nýjung. Þar velurðu með hverjum þú vilt deila hlutum. Þetta er mun betur útfært en t.d. Facebook Groups af því að t.d. Google+ er glænýtt, sem þýðir að þú getur flokkað vini þína frá byrjun. Með því að búa til huddle eða “hnapp” eins og ég ætla að kalla það, getur maður auðveldlega búið til hópspjall í hringjum hjá sér.

Erum við að tala um nýtt Facebook?

Ég var ekki hrifinn af þessu fyrst. Fannst tímasóun að vera að reyna að stela fólki frá Facebook þar sem allir eru. Facebook hefur náð á örfáum árum svo brjálaðri læsingu á fólk að það er ekki einu sinni fyndið. Allir elska Facebook en fólk elskar líka að hata Facebook. Ef þú ert ekki á Facebook er þér ekki boðið í partý – sönn saga

Geðþekka nördið Mark Zuckerberg

En þá sló það mig allt i einu. Google er ekki að reyna að gera nýtt Facebook. Þeir eru ekki að reyna að stela notendum frá risanum per se, heldur eru þeir að búa til nýttsamfélag. Ef þú spáir í þessari grein hér þá mun Blogger bráðum fá nýtt nafn – Google blogs – og Picasa á að fá nafnið Google photos og fyrir ekki svo löngu síðan var Google Videos hent út af netinu og leitarrisinn ætlar í staðinn að einbeita sér alfarið að YouTube.

Þegar þú spáir í öllum þessum vörum þá er greinilegt að læsingin sem Google hefur er líka svakaleg. Sem dæmi þá nota ég Gmail, Google Docs, YouTube, Android og Blogger – allt Google vörur. Ég sé Google+ sem frábæra tilraun hjá Google að veita notandanum yfirsýn yfir þær allar á einum stað og þannig búa til Google samfélag, allt undir einum hatti. Þeir munu aldrei slá Facebook út af vefnum, massinn er of stór, enda held ég að það sé engan vegin ætlunin.

Ef þú ert ekki ennþá viss með Google+ og finnst tilgangslaust að prófa þá skil ég það vel. En hugsaðu þér hvað þetta gerir gott fyrir þig sem Facebook notanda. Stærsti samkeppnisaðilinn var að rúlla út svakalegu trompi. Hvað gerir Facebook? Nú auðvitað rífur þetta risann upp á tærnar. Félagi Zuckerberg mun svo sannarlega ekki vilja láta Google skilja sig eftir í tækniþróun þannig hann mun setja af stað alls kyns vinnu á viðmótum og vörum sem gera Facebook að þægilegri miðli fyrir notandann. Samkeppni er af hinu góða af því að neytandinn – ég og þú – hagnast á því.

Og ef þú ert ekki ennþá sannfærð/-ur þá skaltu bara gefa þessu smá tíma. Þjónustan er ennþá bara með boðssniði, þ.e. núverandi notandi þarf að bjóða þér svo þú megir taka þátt. Þróunarvinnan er bara rétt að byrja og ég hef engar áhyggjur af því að þeir séu að fara að klúðra þessu. Allt er þegar þrennt er – Buzz – Wave – Plus!

Ef þú vilt prófa láttu mig þá vita og ég skal senda á þig boð.

Endum þetta á Google+ auglýsingunni. Alltaf gaman að auglýsingunum frá þeim.

Þá er Google komið í tölvubransann. Það hefur lengi legið í loftinu að þeir séu að vinna í stýrikerfi fyrir tölvur og nú er komið að því að rúlla þeim út á markaðinn. Gripurinn ber nafnið Chromebook og frá og með 15. júní geta neytendur í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu nálgast einn slíkan. Það er hægt að fá tvær útgáfur, eina framleidda af Samsung og hina af Acer. Tölvurnar líta þokkalega út, þeir hafa ákveðið að halda sig við svarta litinn eins og í næstum öllum símum sem þeir keyra.

Nýjungin sem fylgir Chromebook er að það er í raun ekkert innbyggt minni til að vista gögn eða forrit. Chrome viðmótið er alveg eins og Chrome netvafrinn (sem er að mínu mati BESTI netvafrinn, hægt að nálgast hann hér) og það er í raun enginn eiginlegur harður diskur. Öll forrit eru á netinu og öll gögn eru vistuð í skýi. Þeir lofa því að tölvan sé ægilega hröð, það á víst að taka hana 8 sekúndur að ræsa sig!

Netforrit segirðu? Hvað með forrit sem allir þurfa eins og Office pakkann, iTunes og MSN?

Óþarft! Google Docs verður fullkomnara með hverri vikunni og getur gert meirihlutann af því sem Office getur í Powerpoint, Word og Excel, Google kynnti Google Music Beta, þjónusta þar sem þú getur hlaðið inn allt að 20 þúsund lögum og nálgast þau hvar sem er í gegn um netið. Ég þarf ekki einu sinni að minnast á MSN, það notar það enginn lengur… Einnig verður hægt að nota Gmail, Google Calendar og Google Docs, þó að tölvan sé ekki nettengd.

Til þess að nota tölvuna þarf að sjálfsögðu að vera með Gmail netfang. Þú notar netfangið þitt til að skrá þig inn og út úr tölvunni. Svo ef vinur þinn vill fá að nota hana þá notar hann bara sitt netfang og þá þarf hann ekkert að sjá það sem þú hefur verið að skoða. Það er hægt að fá annað hvort bara með WiFi (þráðlausu neti) eða með 3G tengingu fyrir nokkra auka dollara.  Tölvan er á fínum prís, $499 fyrir 3G útgáfuna frá Samsung.

Þetta lítur allt mjög spennandi út. En hvernig er upplifunin? Snillingarnir hjá Engadget fengu prótótýpu í hendurnar fyrir jól og sögðu að Chrome stýrikerfið ætti ennþá langt í land með að ná hefðbundnum tölvum í virkni og þægindum. Það er einnig erfitt að tengja nokkurs konar utanáliggjandi búnað við tölvuna, en skv. FAQ flipanum á Chromebook síðunni, er einungis hægt að tengja headset, hátalara, USB drif, lyklaborð o.s.frv. Ekkert minnst á Android eða eitthvað slíkt. En hvernig ætli það sé að vera með tölvu sem er sítengd við netið? Þegar maður er farinn að streyma öllu, t.d. bíómyndum og tónlist þarf að passa gagnamagnið sem verið er að sækja, sérstaklega sé maður tengdur á 3G. Reyndar er gaman að segja frá því að Google var að setja í loftið YouTube Movies. Það er skemmst frá því að segja að úrvalið af fríu myndunum sem við getum horft á er vægast sagt hræðilegt!

Ætli niðurstaðan sé ekki sú að tölvan sé langt því frá að leysa tölvurnar sem við notum í dag af hólmi. En það má ekki gleyma að þetta er fyrsta tölvan sinnar tegundar. Þróunin á henni verður að öllum líkindum gríðarlega hröð. Ég held að í framtíðinni munu allar tölvur vera sítengdar við netið og öll gögn verði í skýi.

Auglýsingin frá Google fyrir Chromebooks: