Archive

Bækur

Bækur

trustmeimlyingTrust Me I’m lying: Confessions of a Media Manipulator

Þessa er ég að hlusta á. Ryan Holiday er jafn gamall mér en hann hefur verið markaðsstjóri American Apparell fatarmerkisins frá því hann var 21 árs. Síðast liiðin ár hefur hann “sérhæft sig” ef svo má segja í að hafa áhrif á fjölmiðla, með misfallegum aðferðum. Hann hefur m.a. unnið með rithöfundum, hljómsveitum og bíómyndum. Bókin er mjög fræðandi kennslubók í því hvernig hægt er að nýta netið, nýmiðla og fjölmiðla til að koma efni á framfæri en á sama tíma er hún líka ádeila á bandarískan fjölmiðlamarkað og beinist ádeilan einna helst að því hvernig bloggheimurinn er uppbyggður. Mjög áhugavert og sérstaklega þægilegt að hlusta á þegar maður hjólar í vinnuna þessa dagana.

shiningThe Shining

Þessa er ég að lesa og til að gera langa sögu stutta þá er The Shining ástæðan fyrir að ég ligg hérna kl. 1 að nóttu og skrifa. Ég get ekki farið að sofa . Ég hef aldrei lesið neitt eftir Stephen King og ákvað af einhverri ástæðu að kíkja á Bókasafn Kópavogs eftir vinnu á mánudaginn og fá hana lánaða. Fyrsta flokks hrollvekja.

P.s. Ég hef ekki séð myndina heldur…

Tónlist

Lykke Li – I Never Learn

I Never Learn er þriðja plata sænsku söngkonunnar Lykke Li. Platan er ágæt. Hún er rólegri heldur en síðasta plata, aðeins dimmari og melankólískari – eins og maður segir á slæmri íslensku. Guði (eða kannski bara Daniel Ek) sé lof fyrir Spotify!

Horfa á:

Mad Men

Ég er mikill Mad Men maður og hef alltaf haft þvílíkt gaman af því að fylgjast með því sem vinur minn Don Draper tekur sér fyrir hendur. Ég fór loksins í það að horfa á 6. seríu af Mad Men, enda var hún loksins að detta inn á Netflix. Ég verð að segja að ég er að verða þreyttur á þessu. Það er engin karakterþróun í gangi og í raun er verið að endurnýta hugmyndir úr fyrri seríum. Ef þú hefur ekki séð 6. seríu ennþá ertu ekki að missa af miklu. Sama hvað þá er þetta alltaf besta atriðið:

Silicon Valley

Hér erum við að tala um eitthvað nýtt og skemmtilegt! Þátturinn er framleiddur af HBO, sem þýðir yfirleitt að um gæðaefni sé að ræða, og þeim sem samdi Office Space. Hann fylgist með 5 strákum sem stofna fyrirtæki í Kýsildalnum og hvernig þeim gengur í samkeppninni við risann Hooli, sem er auðvitað Google. Þetta er ekta efni fyrir nörda!

dontmakemething

Ég var að klára bókina “Don’t Make Me Think” eftir Steve Krug. Hún er eins konar “common sense” kennslubók fyrir vefstjóra. Af hverju var ég að lesa hana? Ég er ekki tölvunarfræðingur eða vefhönnuður heldur viðskiptafræðingur (næstum því). Stór hluti af minni vinnu fer hins vegar fram á netinu. Ég er að rýna í og segja mína skoðun á lendingarsíðum, vörusíðum, forsíðunni, sölulínum á vefnum og margt fleira. Og flestir þeir sem starfa í markaðsgeiraum í dag eru að gera það nákvæmlega sama.

Steve Krug er sérfræðingur í “web usability”, eða vef nytsemi á íslensku. Fyrsta útgáfan af bókinni kom út árið 2000. Á þeim tíma var partý í gangi sem heitir “Dotcom”-bólan og allir og amma þeirra kepptust við að smíða vefsíður og veffyrirtæki og allt sem hét staðlar og samræmt úti var að verða til. Önnur útgáfa af bókinni kom út árið 2006 og þriðja útgáfa í desember á síðasta ári. Ég las aðra útgáfu, enda var sú nýjasta ekki til á Bókasafni Kópavogs. Ég bjóst fyrirfram við að ég myndi rekast á fullt af úreldum stöðlum og hugmyndum um hvernig ætti að nota vefinn en raunin var allt önnur. Vissulega eru dæmin oft frekar gömul en undirstöðuatriðin eru í grunninn þau sömu.

En það besta við bókina er að það var ekkert nýtt í þessu. Í raun var verið að segja manni frá hlutum sem flestir geta sagt sér sjálfur. Þetta er nefnilega oft “common sense”. En stundum þarf bara að benda manni á það.

Nokkur atriði sem ég greip úr bókinni:

Ekki láta mig hugsa

Samkvæmt Steve eigum við að reyna eftir fremsta megni að koma í vef fyrir að gestir á síðunni okkar þurfi að hugsa. Þeir eiga að komast að upplýsingunum sem þeir eru að leita að með sem einföldustum hætti og leiðin á áfangastað á að vera skýr. Í hvert skipti sem einhver þarf að stoppa og hugsa er hann líklegri til að gefast upp og fara eitthvað annað. Höfum hlutina einfalda og skýra.

dmmt example

Less is more

Við dettum rosalega oft í þá gildru að reyna að segja allt á einni síðu. Troðum öllum upplýsingum um vörurnar okkar þar inn og reynum að koma öðrum vörum þangað inn því auðvitað viljum við selja meira. Það sem þetta gerir samt er oftar en ekki að flækja málin fyrir þeim sem heimsækir síðuna. Hann er kannski að leita sér að upplýsingum um eitthvað eitt og ef það er erfitt fyrir hann að finna þær þá er hann líklegri til að loka síðunni og fara annað.

Staðlar eru af hinu góða

Ég hef tilhneigingu til að vilja gera allt upp á nýtt. Finna nýjar leiðir. Vera svo ótrúlega skapandi. En við skulum ekki gleyma því að ef við fáum lánaða staðla sem virka frá öðrum síðum þá erum við að gera notendum auðveldara fyrir að nota okkar síðu vegna þess að þeir þekkja leiðakerfið og veftréð, jafnvel þó þeir hafi ekki heimsótt þig áður.

video_testingTesting, testing, testing

Láttu prófa síðuna þína. Þó þú skiljir hana mjög vel þá þarf ekki endilega að vera að pabbi þinn geri það. Hann eyðir ekki öllum vinnudeginum að lesa hana og yfirfara eins og þú. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að láta prófa allt vegna þess að þú færð ómetanlega innsýn í það hvernig aðrir upplifa síðuna þína.

Það er líka mikill misskilningur að prófin þurfi að vera flókin og dýr. Í raun er nóg að vera með 2 stóla, tölvu og myndavél. Tilgangurinn er einfaldlega sjá það sem notendur sjá þegar þeir nota síðuna þína.

“There’s no such thing as an offline business”
– Aaron Shapiro

Vefurinn er nefnilega eitt mikilvægasta markaðstólið sem við höfum. Hugsaðu þér hvernig þú sjálf/ur leitar þér að upplýsingum um vörur. Ef þú sérð auglýsingu athygli þína, til dæmis frá Intersport, er ekki það fyrsta sem þú gerir að fara á Intersport.is eða Google og skrifa Intersport til að leita þér að frekari upplýsingum.

Ég mæli með “Don’t Make Me Think” fyrir alla þá sem koma á einhvern hátt að heimasíðum. Sama hvort það sé lítið frumkvöðlafyrirtæki sem þarf bara að sýna símanúmerið sitt, flóknar vefverslanir eða bara einyrki með prjónablogg. Ég kann ekki að forrita, hef aldrei opnað InDesign og er nýbúinn að læra fyrir hvað skammstöfunin CSS stendur. Ég lærði samt heilmikið á bókinni sem ég get nýtt við í leik og starfi.

Við þurfum öll að hugsa eins og vefstjórar og þess vegna ættu sem flestir að tileinka sér fróðleik frá mönnum eins og Krug.

Lesa:

secret footballer

I Am The Secret Footballer

“The Secret footballer” er karakter sem hefur skrifað í blaðið Guardian á Englandi. Hann er fyrrverandi/núverandi leikmaður í ensku úrvalsdeildinni og skrifar undir dulnefni. Ég rakst á þessa bók á flugvelli í London og hún vakti strax áhuga minn. Í bókinni er fjallað um fótbolta frá sjónarhóli leikmanns. Dulnefnið hjálpar honum að deila skoðunum sínum á málefnum leikmanna, knattspyrnustjóra, umboðsmanna o.s.frv. Þetta er greinilega maður með mikla leikreynslu og hefur spilað fyrir nokkur félög.

I Am The Secret Footballer ætti að hitta í mark hjá öllum áhugamönnum um enska boltann og ég auglýsi hérmeð eftir næsta eiganda þessarar bókar. 

Horfa á:

walking dead

The Walking Dead

Sería 3 af Walking Dead var að detta inn á Netflix og ég er er alveg hooked. Uppvakningar eru bara eitthvað svo áhugaverðir. Alltaf eitthvað í gangi þegar þú ert umkringdur uppvakningum. Fyrir þá sem hafa ekki horft á Walking Dead, þá mæli ég með þeim þáttum fyrir heilalaust splatter.

Kvinden i buret

Okei, ég er kannski ekki að horfa á Kvinden í buret. En það er síðasta kvikmynd sem ég horfði á. Danskur spennutryllir byggður á samnefndri bók eftir Jussi Adler-Olsen. Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari mynd. Hún var gríðarlega vel leikin og spennandi frá fyrstu mínútu. Allar Adler-Olsen bækurnar eru komnar á náttborðið í kjölfarið. Áfram Danmörk!

Hlusta á:

London Grammar – If You Wait

Þriggja manna band sem var stofnað í háskólanum í Nottingham. Þau gáfu út sína fyrstu plötu If You Wait í febrúar á þessu ári. Söngurinn hjá Hannah Reid er nauðalíkur Florence Welch úr Florence and the Machine en lögin eru ögn rólegri. Breska pressan beið eftir plötunni með mikilli eftirvæntingu og hefur hún fengið ljómandi fína dóma. Lagið “Strong”, númer 6 á plötunni, er svo bara eitt það besta sem hefur komið út á þessu ári.

 

Dale Earnhardt Jr. Jr. – The Speed of Things

Þessi hljómsveit heillaði mig upp úr skónum á Airwaves 2011 og átti að mínu mati eina af bestu plötu þess árs. Nú tveimur árum seinna er The Speed of Things nýkomin út. Létt syntha-popp og dansvænar melódíur. Það vill svo til að annar af meðlimum bandsins á íslenska konu. Ætli það verði íslenskir útgáfutónleikar?

Malcolm Gladwell

Malcolm Gladwell

Ég er að lesa bók sem heitir Blink eftir höfundinn Malcolm Gladwell, sá sama og skrifaði þá frábæru bók The Tipping PointBlink fjallar um það sem gerist í undirmeðvitundinni þegar við erum að taka ákvarðanir og vega og meta lífið hverju sinni. Ég er kominn nokkuð áleiðis í henni og það hefur einn kafli gripið mig sérstaklega.

Þegar við heyrum ákveðin orð, þá er ofurtölvan sem heilinn á okkur er mjög fljótur að geta unnið úr þeim upplýsingum og segir okkur hvað það orð þýðir. Að sama skapi er hann mjög fljótur að ákveða hvaða tengingar það orð hefur.

Þetta á sér allt stað í undirmeðvitundinni þannig við erum í raun ekki meðvituð um að þegar við heyrum nafnið “Pétur” þá er heilinn fljótur að finna þá tengingu að hér sé um karlmann að ræða. Sama þegar þú heyrir nafnið “Anna” þá veistu strax að um er að ræða konu. Hér vinnur heilinn upp úr gagnasafni sem búið er að safna í mörg ár.

blink

En hvað gerist þegar þú ferð að spyrja út í aðeins flóknari hluti? Til dæmis hvort að orð sem tengjast starfsframa eða heimilisstörfum? Hvoru megin liggja þau, XX eða XY?

Það er hægt að kanna viðhorf þitt til þessara hluta. Á síðunni https://implicit.harvard.edu er hægt að taka svokölluð IAT-próf sem mæla til dæmis viðhorf til húðlitar eða viðhorf þitt hvað varðar kynin og störfin. Þetta er mælt með því að þú átt að setja ákveðin orð í ákveðna flokka. Þú byrjar til dæmis á því að raða karlmanns og kvenmannsnöfnum í karlkyns og kvenkyns flokka. En svo vandast dæmið þar sem flokkar eru sameinaðir og þú átt að raða orðum eins og “corporation” í flokkana “Family/Male” eða “Career/Female” og svissað. Þér er svo gefin einkunn eftir því hversu fljótt þú getur svarað. Ég mæli bara með að þú prófir til að sannreyna sjálf/ur.

Ég var alinn upp við að maður á að vera fordómalaus hvað varðar kynþætti, kyn, húðlit, trúarbrögð og allan nnan hátt. Þess vegna var ég ekki að stressa mig fyrir þetta próf. Ég hlyti að koma vel út úr því. En niðurstaðan var sjokkerandi fyrir mig.

implicit association test

iat graph

Ég tengi semsagt orð sem tengjast fjölskyldu við konur og orð sem tengjast starfsframa við karla!

Ég tók prófið tvisvar og fékk sömu niðurstöðu. Eftir því sem stendur í bókinni fá lang flestir sömu niðurstöðuna sama hversu oft er reynt.

Ég veit að svona á ekki að hugsa. Ég vil heldur ekki vera gaurinn sem er hlutdrægur heldur vil ég vera hlutlaus. En er þá öll nótt úti? Er þetta bara það sem mér finnst?

Í Blink er sagt frá manni sem tók kynþáttaprófið á hverjum degi, vegna þess að hann var ósáttur með niðurstöðuna sem var alltaf sú sama. Þangað til einn daginn þá batnaði hún, það var eins og viðhorfið hafði breyst. Aðspurður sagðist maðurinn ekki hafa verið að gera neitt öðruvísi þann daginn en þegar farið var að kafa dýpra ofan í málið kom í ljós að maðurinn hafði verið að horfa á Ólympíuleikana um morguninn og þar séð svart fólk vera að skara fram úr í íþróttum. Þannig áður en hann tók prófið var hann óafvitandi búinn að gera sig jákvæðari gagnvart fólki af afrískum uppruna, bara með því að horfa á það skara fram úr.

Þess vegna eru fyrirmyndir svo mikilvægar í baráttunni á gegn mismunun og fordómum. Við þurfum nefnilega að breyta því hvernig undirmeðvitundin hugsar. Við erum nefnilega ekki eins rökvísar verur og við höldum.

wom marketingÉg er búinn að vera með Word of Mouth Marketing eftir Andy Sernovitz á náttborðinu hjá mér í heilan mánuð. Það var ekki fyrr en ég hoppaði upp í bústað núna um helgina sem ég komst í að lesa hana. Og viti menn, hún var straujuð á einni helgi.

Það er talað um fyrirtækið og vörumerki, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Fólk deilir því hvernig þjónustan á veitingastaðnum var, hvort maturinn hafi verið góður eða hvort þjónninn hafi verið í hvítum sokkum. Þannig hefur það verið frá örófi alda og mun halda áfram. Þessi bók reynir að kenna þér hvernig þú átt að nýta þetta umtal þér í hag.

Grunnhugmyndin í bókinni er semsagt, finndu rétta fólkið til að tala um þig og gefðu því eitthvað að tala um.

Sernovitz brýtur þetta niður í “T-in 5” (The Five T’s):

  1. Talkers – Hverjir eru að tala um þig? Hverjir viltu að tali um þig?
  2. Topics – Um hvað er fólk að tala? Hvað viltu að það tali um?
  3. Tools – Hvar er fólk að tala um þig? Skapar þú einhvern vettvang fyrir þá umræðu?
  4. Taking part – Tekur þú þátt í þessari umræðu? Hvað gerir þú til að kynda undir hana?
  5. Tracking – Hversu vel mælirðu þetta umtal?

Fólk treystir umsögnum frá öðru fólki betur heldur en auglýsingum. Þess vegna viltu gefa því eitthvað til að tala um og segja frá í fjölskylduboðinu, í vinnunni eða í saumaklúbbnum. Þetta gæti orðið einn af stærri tekjustraumunum þínum. Þess vegna þarftu að gera eitthvað sem sker þig úr fjöldanum og fær fólk til þess að tala.

Andy Sernovitz

Andy Sernovitz

Að sama skapi getur það skipt öllu hver það er sem talar um þig. Leitar þú ekki til sama aðilans þegar þig vantar ráðgjöf varðandi tölvumál? Eða bílamál? Eða nýja tónlist til að hlusta á? Þú vilt ná til þeirra sem hafa áhrif á almenningsálitið. Þess vegna er mjög mikilvægt að komast að því hverjir hafa mest áhrif í þínum markhópi og svo þarftu að höfða til þeirra svo þeir vilji tala um þig.

Hljómar þetta kunnuglega? Já auðvitað, þetta er líka mjög kunnuglegt! Höfundurinn er greinilega mjög klár og kann sitt fag. En hann fær líka helling lánað frá öðrum séníum, eins og t.d. Seth Godin (t.d. Purple Cow) og Malcolm Gladwell (t.d. Tipping Point). Þessari bók er samt beint eingöngu á það málefni að fá fólk til að tala um þig og gefur þér hugmyndir um hvernig þú getur gert það.

Það ætti ekkert af þessu að vera nýtt fyrir þér. Hins vegar er alltaf gott að dýfa sér í svona léttmeti inn á milli, aðeins til að fá smá innblástur, hugmyndir nú eða bara til að hafa eitthvað til að skrifa um á  bloggið þitt.

Þetta er m.a. það sem mér fannst standa upp úr:

  • Samfélagsmiðlar eru ekki umtal. Mér fannst flott hjá Andy að tækla þá umræðu. Þeir eru hins vegar mjög mikilvæg pípa í að dreifa og stuðla að umtali
  • Það er enginn að fara að tala um þig ef þú ert leiðinleg/ur. Nema þá um hversu leiðinleg/ur þú ert. Stattu upp úr fjöldanum og finndu það sem gerir þitt fyrirtæki áhugavert.
  • Áttu aðdáendur? Hverjir elska vöruna þína eða vörumerkið? Talaðu við þá! Verðlaunaðu þá á einhvern hátt.
  • Taktu þátt í umræðunni. Þakkaðu fyrir góð ummæli. Reyndu að lagfæra ef eitthvað fór úrskeiðis.
  • Allt lifir að eilífu á Google!

Bókin er ágæt. Hún er létt og skemmtileg og þægilega upp sett. En hún fellur í sömu gryfju og langflestar svipaðar bækur gera: hún er alltof löng. Það hefði verið mjög auðvelt fyrir Andy karlinn að skrifa 70 blaðsíðna bók og hún hefði ekki verið neitt verri. En það er erfitt að selja 70 blaðsíður fyrir $10-15, og þannig er það. Ég mæli með henni fyrir alla þá sem eru að leita að innblæstri til að auglýsa sig eftir ódýrum leiðum, jafnt lítil sem stór vörumerki.

Bækur er hægt að nýta sér til skemmtunar og fróðleiks. Þær er hægt að lesa eða hlusta á einhvern lesa þær. Ég geri mikið af báðu. Hljóðbækurnar henta vel núna þegar hlýnar í veðri og sólin hækkar. Þá fer maður að vera meira úti, til dæmis að hjóla í vinnuna. Venjulegar bækur er gott að lesa uppi í sófa, í bústaðnum eða úti á palli (þegar hann verður tilbúinn.

Akkurat núna er ég með 3 bækur í gangi:

Hljóðbókin – Marketing 3.0 eftir Philip Kotler, Hermawan Kartajaya og Iwan Setiawan

marketing 3.0

Í tilefni þess að Philip Kotler er að koma til Íslands í næstu viku ákvað ég að kíkja á hugmyndafræðina sem hann er að fara að prédika . Marketing 3.0 er hugmyndafræði sem segir að þau fyrirtæki sem ætla að lifa af þurfa að tileinka sér ákveðin gildi sem þau vilja standa fyrir og uppfylla þau. Neytendur með svipuð gildi munu þá vilja eiga viðskipti við fyrirtækið og báðir græða. Í Marketing 1.0 snérist allt um vöruna og í Marketing 2.0 snérist allt um viðskiptavininn.

Ég er rétt að verða hálfnaður með bókina. Það sem hún segir er kannski ekkert nýtt og brautryðjandi, en mér finnst hugmyndafræðin er þó gríðarlega áhugaverð og því gaman að kafa dýpra í hana. 

Rafbókin – The Truth About E-mail Marketing eftir Simms Jenkins

truth about e-mail

Þetta er biblía þeirra sem vilja ná árangri með tölvupóst markaðssetningu. Í henni fer höfundur í alla anga hennar, allt frá því hvernig þú átt að stækka póstlistann þinn, yfir í hvernig pósturinn á að líta út og hvað þú átt að segja. Í mínu starfi sé ég meðal annars um að halda utan um netklúbb og þess vegna keypti ég bókina á sínum tíma.

Ég er búinn með svona 3/4 af bókinni en er strax búinn að skrifa 3 blaðsíður af glósum upp úr henni með hugmyndum um eitthvað sem hægt er að nota, breyta og bæta. Ég myndi mæla með henni fyrir alla sem eru að spá í þessum málum, sama hvort þú sért vanur tölvupóstmarkaðssetningu eða ert að prófa þig áfram.

Bókin – Gvendur Jóns – Prakkarasögur úr Vesturbænum eftir Hendrik Ottósson

henrikottoson_gvendurjonsogvidhinir

Þetta er kannski frekar óvænt bók á þessum lista. Ég las allar þessar sögur þegar ég var lítill. Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um sögurnar af honum Gvendi Jóns og Vesturbæjargenginu, sérstaklega eftir að mamma sagði mér að hann Bjarni langafi minn hafði þekkt Gvend sjálfan. Það var svo ekki ónýtt að fá að heyra sögurnar frá fyrstu hendi frá honum afa mínum!

Sögurnar af Gvendi Jóns eru stuttar og skemmtilegar. Þær fjalla um prakkarastrik, ævintýri og áflög við strákana hinum enda bæjarins. Þær mála líka skemmtilega mynd af Reykjavík fyrir rúmlega 100 árum þegar borgin var bara lítið þorp. Gvendur og sögurnar af honum eru tilvaldar þegar þarf aðeins að slökkva á hausnum fyrir svefninn.

BÓNUS! Vefsíðan – www.sabotagetimes.com

Ég ákvað að skella síðu sem ég er að elska þessa stundina. Sabotage Times er bresk vefsíða sem á að höfða til karlmanna. Þar er tekin fyrir tíska, tónlist, íþróttir, kvikmyndir og margt annað. Umfjallanir eru flestar vel skrifaðar, pennarnir ískra af breskri kaldhæðni og tónninn á síðunni er svona smá “in your face” sem getur verið alveg gríðarlega skemmtilegur.

Tökum sem dæmi þessa grein um nýju Justin Timberlake plötuna: Justin Timberlake 20/20: The Greatest Pop Album This Century.
Eða The Me Generation: A Celebration of Not Giving A F*ck.
Og svo þessa umfjöllun um David De Gea, markvörð Man Utd: David De Gea: Why United’s Vampire Is Better Than City’s Joe Hart.

Sabotage Times er algjört möst í netrúntinn.

Góðar stundir.

 

Ég á í “love-hate” sambandi við Seth Godin. Ég veit ég hef lýst yfir aðdáun minni á honum svo fólk heyri, en svona er það. Stundum finnst mér hann vera frábær, enda fær maðurinn snilldar hugmyndir sem slá í gegn. Á hinn bóginn fer hann oft alveg gríðarlga í taugarnar á mér. Kannski er það af því hann er vinsæll. Litli bróðir minn segir að ég sé hipster og láti allt sem verður vinsælt fara í taugarnar á mér.

En við skulum vera jákvæð. Þar sem Seth vinur okkar er jú að koma til landsins á fimmtudaginn fannst mér tilvalið að vísa í nokkra hluti sem kappinn hefur skilað af sér. Ég er búinn að lesa nokkrar bækur eftir hann. Þær hafa allar þann kost að vera stuttar og auðlesnar. Helsti ókosturinn við þær allar er hins vegar alltaf sá sami. Seth Godin er nefnilega bloggari en ekki rithöfundur, þrátt fyrir að hafa gefið út fjölda bóka. Hann á það til að segja þér frá aðalhugmyndinni á fyrstu 40 blaðsíðunum, og eyðir síðan næstu 60 í að rökstyðja hana með dæmum. Svona eins og hann sé að reyna að teygja lopann til að ná upp í bók. En það sem Seth hefur er að hann er óþrjótandi heili og er alltaf að fá nýjar hugmyndir.

Internethetja

Hann heldur úti bloggi á vefsvæðinu http://sethgodin.typepad.com/ og setur inn færslu á hverjum degi. Ég kalla það metnað. Bloggið hans er lesið af fólki út um allan heim, og einhversstaðar las ég að þetta væri eitt af 10 mest lesnu bloggum í heimi! Það sem merkilegt er að bloggið er frekar frumstætt. Þemað er frekar gamaldags, það er ekki hægt að kommenta og samfélagshnapparnir líta út eins og þeim hafi verið troðið inn. Það er hins vegar efnið sjálft sem dregur að og hver einasta færsla fær nokkur hundruð like.

Bækurnar

Eins og ég sagði þá hefur hann skrifað fjölda bóka sem hafa margar hverjar selst eins og heitar lummur. Mínar uppáhalds eru:

Purple Cow – Þetta er bókin sem Seth mun byggja fyrirlestur sinn á í Háskólabíó á fimmtudaginn. Í stuttu máli fjallar Purple Cow um það hvernig þú átt að standa út úr fjöldanum til að vinna til þín viðskiptavini. Hugmyndin er einföld, einbeittu þér að ákveðnum markhópi og gerðu eitthvað öðruvísi með þitt vörumerki og láttu taka eftir þér. Annars munt þú aldrei ná árangri. Þetta er týpísk Seth Godin bók sem byrjar af krafti en fjarar svo út eftir því sem líður á bókina. Einkunn: 3/5

Tribes: We need you to lead us – Þessi bók er líka mjög áhugaverð. Þar tala höfundurinn um muninn að stjórna (e. manage) og leiða (e. lead). Leiðtogar sætta sig ekki við óbreytt ástand og halda af stað með breytingar í huga. Fólk safnast saman á bakvið leiðtoga vegna þess að það trúir á hann og hugmyndina sem hann ber með sér. Eitt besta dæmið sem við höfum séð síðustu ár hér á landi er Besti flokkurinn, sem byrjaði sem hugarfóstur Jóns Gnarr en varð síðan að fylkingu sem tryggði sér meirihluta í Reykjavík. Nánar má lesa um Tribes í færslunni Seth Godin og fylkingar sem ég skrifaði fyrir réttu ári síðan. Einkunn 3/5.

All Marketers Are Liars – Þetta er uppáhalds bókin mín eftir Seth Godin, hún snerti einhverja taug í mér. Markaðsfólk er svo upptekið af staðreyndum, af hverju þeirra vara er betri heldur en vara samkeppninnar. Þegar allt kemur til alls þá er það sagan sem þú segir sem skiptir máli. Hvað gerir varan fyrir þig? Ímyndaðu þér að þú sért að selja myndavél. Ertu að selja megapixla og shutterspeed? Kannski þegar þú talar við sérfræðinga. En hinum almenna Jóni er alveg sama um það. Hann vill bara nota myndavélina til að fanga augnablikið þegar sonur hans skorar fyrsta markið fyrir Breiðablik. Málaðu þá mynd upp og myndavélin er seld. Nánar um All Marketers Are Liars má lesa í færslunni Segðu sögur. Einkunn: 4,5/5

Fyrirlesari

Seth Godin er gríðarlega vinsæll fyrirlesari um allan heim. Hann er meira að segja svo vinsæll að hann hefur verið beðinn um að tala á TED, ekki einu sinni heldur tvisvar! Fyrst árið 2003 þegar hann talaði um hvernig hugmyndir dreifast og hversu mikilvægt það er að standa upp úr. Hann hélt þennan fyrirlestur þegar hann var að fylgja eftir Purple Cow bókinni.

Þessi TED fyrirlestur sem hann hélt í kjölfarið af útgáfu Tribes. Þetta var það fyrsta sem ég sá eftir Seth Godin og kveikti áhuga minn. Á þessum 17 mínútum neglir hann nákvæmlega niður hver aðal hugmyndin í Tribes er. Fyrsta dæmisagan er frábær og veitir manni mikinn innblástur.

Þeir sem verða í Háskólabíó á fimmtudaginn eiga örugglega von á skemmtilegum morgni. Seth talar frá klukkan 9 til 10:30 en svo fylgja á eftir George Bryant frá Brooklyn Brothers í London og Magnús Scheving. Ég á ennþá eftir að ákveða hvort ég fer. Mér finnst verðið vera frekar hátt (30.000 kr) fyrir hálfan dag, en hins vegar kostar auðvitað að ferja stjörnur til landsins.

Vonandi getur þessi pistill hitað upp fyrir daginn.

Eru einhverjar bækur sem eiga heima þarna inni frekar en þær sem ég minntist á?