Archive

Samfélagsmiðlar

12531078_1046360968792155_462913133_nMyndbönd getur verið skemmtilegt leið til þess að vekja athygli fólks. Þau geta verið gott ítarefni fyrir vef eða eitthvað til þess að deila á samfélagsmiðla. Þau gefa líka viðskiptavininum val um það hvernig hann eða hún meðtekur upplýsingar frá þér. Sumum hentar til dæmis betur að horfa á myndband sem útskýrir eitthvað, frekar en að lesa texta.

En umfram allt geta myndbönd verið skemmtileg og smell passa inn í strategíu fyrir þá sem tileinka sér efnismarkaðssetningu (e. content marketing)

Þegar ég vann hjá Íslandsbanka þá skiptum við myndböndunum sem við gerðum niður í 4 flokka:

  • Auglýsingar / Kynningar – Efni sem framleitt var af auglýsingastofu, pródúserað og er til þess fallið að kynna vörur og þjónustu
  • Upptökur – Íslandsbanki og VÍB halda marga kynningar- og fræðslufundi. Með því að taka þá upp náðum við að margfalda fjölda þeirra sem við náðum til. Í stað þess að tala við þá 50 manns sem sátu í salnum, náðum við kannski til 350 manns sem sátu heima og horfðu á upptökuna.
  • Innra efni – Við framleiddum mjög mikið af myndböndum til innri notkunar. Mest var þetta létt og skemmtilegt efni (eins og t.d. Áki úr markaðsdeildinni að kenna fólki hvernig á að taka þátt í karókí) en einnig viðtöl við bankastjóra eða fjármálastjóra til að útskýra tíðindi sem snéru að bankanum og markaðnum.
  • ISB TV – Ég framleiddi sjálfur heilan helling af myndböndum sem fóru á ISB TV – sjónvarpsrás Íslandsbanka. Þetta voru viðtöl eða stuttar kynningar um afmörkuð mál. Þar á meðal þetta tímamótamyndband:

Þegar þú ert að gera myndband eru nokkrir hlutir sem þarf alltaf að hafa í huga:

  • Fyrir hvern ertu að gera það? Hver er markhópurinn?
  • Hvar á að birta það? (t.d.Facebook eða á vef)
  • Alltaf að skrifa lýsingu með! Það hjálpar bæði upp á leitarvélar og hjálpar fólki líka að ákveða hvort það vill yfir höfuð horfa á myndbandið
  • Ekki gleyma Call to Action! Ef þú ert með myndband sem fjallar um að stofna sparnaðarreikning þá er nauðsynlegt að hafa hlekk í lýsingunni og lok myndbands sem bendir fólki á hvar það getur stofnað reikning.
Umsagnir frá síðasta námskeiði

Umsagnir frá síðasta námskeiði

En af hverju er ég allt í einu að tala um myndbönd?

Myndbönd eru stór hluti af því efni sem ég mun fara yfir á námskeiðinu um efnismarkaðssetningu sem ég er að kenna á 7. og 9. nóvember í Endurmenntun Háskóla Íslands. Námskeiðið er bæði fyrir byrjendur í markaðsmálum en einnig þá sem vilja bæta við þekkingu sína á þessu sviði.

Ég hvet þig til að skrá þig á www.endurmenntun.is

Að lokum eru hér fyrir neðan glærur frá erindi sem ég hélt á hádegisfundi Ský 29. október 2014 sem bar einmitt nafnið “Ég bjó til myndband, hvað svo?”

 

Ég fékk sendan áhugaverðan fyrirlestur í gær þar sem ástralski próferssorinn Mark Ritson fór yfir hans sýn á stafræna miðla.

Oreo-Dunk-in-the-DarkTil að byrja með tók hann sig til og drullaði yfir ofuráherslu allra markaðsstjóra í heiminum á samfélagsmiðla. Hann tók dæmi um “The tweet hear around the world” þegar Oreo stal senunni í Super Bowl XLVII árið 2013 þegar rafmagnið fór af vellinum. og allt varð svart. Miðlar út um allan heim gripu söguna á lofti og Oreo voru sagðir hafa unnið keppnina um bestu Super Bowl auglýsinguna. Seinna vann Oreo Clio auglýsingaverðlaunin fyrir nákvæmlega þetta litla tvít. Og Ritson finnst það algjörlega fáránlegt!

Samfélagsmiðlar hafa breytt heiminum, það er engin spurning. Fólk ver heilu og hálfu dögunum á þessum miðlum svo það er mjög eðlilegt að markaðsfé leiti þangað. Það eru allir að tala um samfélagsmiðla. Ég vinn stóran hluta dagsins við að ná til fólks á samfélagsmiðlum og ég hef fulla trú á því að þeir séu tilvalin staður til að ná til neytenda í ákveðnum tilvikum.

Markaðsfólk er alveg jafn áhrifagjarnt og hver annar. Það eru allir að tala um samfélagsmiðla og okkur finnst við stundum þurfa að hoppa á ákveðinn vagn til þess að missa ekki af lestinni. Oftar en ekki eru markmiðin óljós og því er peningum eytt út í bláinn af því við vitum ekki hvað við ætlum að fá út úr fjárfestingunni. Ég er sekur um þetta sjálfur, að viðurkenna það ekki væri hræsni.

En þarna erum við komin að mergi málsins. Það er ósanngjarnt að horfa á samfélagsmiðla eina og sér og segja að það sé kjaftæði að eyða tíma og peningum þar. Á sama hátt er kjaftæði að eyða 30 milljónum í sjónvarpsauglýsingu þegar markmiðin eru ekki skýr. Hvað ætlum við að fá út úr markaðsstarfinu okkar?

Annað sem hann talaði um var munurinn á stafrænu (e. digital) og hefðbundnu markaðsstarfi. Samkvæmt honum er ekki til neitt “stafrænt markaðsstarf” haldur bara MARKAÐSSTARF. Og þar ég gæti ekki verið meira sammála.

Stop spending money on “digital”. Why build a silo in the middle of your marketing budget?

  • Mark Ritson

Margt af því sem hann segir í fyrirlestrinum er ég ósammála og mér finnst hann vera oft á tíðum þröngsýnn og ósanngjarn. En hins vegar eru góðir punktar í þessu. Ekki eyða peningum nema að vera með hugmynd um hvað við ætlum að fá út úr því. Og hættum að horfa á netið sem sér part af markaðsstarfinu okkar í stað þess að horfa á hlutina í einu stóru samhengi.

Ég læt fyrirlesturinn fylgja með. Hann er mjög áhugaverður sama hvort þú ert sammála Ritson eða ekki.

Ég er oft spurður hvar best er að geyma myndbönd. Í raun er ekki neitt eitt rétt svar við því, það fer allt eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Ætlarðu að selja auglýsingar, safna áskrifendum, reyna að láta það fara “viral”, tengja við annað efni t.d. á vefsíðu og svo lengi má telja.

Akkurat núna er mikið stríð á milli miðla að vinna “content-keppnina” en það vilja allir að þú geymir efnið þitt hjá sér. Ég ætla að fjalla aðeins um hvernig þú getur nýtt þér þetta stríð til að ná fram þínum markmiðum.

YouTube-logo-full_color (1)YouTube hefur hingað til verið aðal staðurinn til að geyma myndbönd. Þessi samfélagsmiðill tók svakalegt stökk strax og hann fór í loftið og var á endanum keyptur af Google fyrir 1,650.000 dollara árið 2006. Allir í heiminum nota og þekkja YouTube. Það sem ekki allir vita er að YouTube er næst stærsta leitarvél í heiminum með 3 milljónir fyrirspurna í mánuði! Fjölmargir út um allan heim hafa orðið ríkir á YouTube enda er svo ofboðslega auðvelt að annars vegar byggja upp áhorfendahóp (e. audience) og svo auðvitað að selja auglýsingar í gegnum auglýsingakerfi Google.

facebookFacebook hefur heldur betur sótt í sig veðrið hvað myndbönd varðar. Ég get staðfest af eigin raun að ef þú setur myndband inn á Facebook þá fer það á fleygiferð og flestir vinir þínir sjá það. Facebook er hér klárlega að reyna að krækja sér í hlutdeild af YouTube kökunni. Facebook vill gera sem mest til þess að þú þurfir aldrei að fara út af Facebook. Þeir verðlauna þig þannig með áhorfi fyrir að hlaða myndbandinu þínu á Facebook, en refsa þér ef þú linkar á YouTube myndband eða aðra miðla sem taka þig af Facebook. Við skulum samt ekki gefa Facebook of mikið hrós því þó að myndbandið þitt sjáist í öllum fréttaveitum sem þú veist um þá er þar líka pottur brotinn. Myndböndin spilast nefnilega sjálfkrafa á Facebook þegar þú sérð það og það telur sem 1 “áhorf”. Þannig alltaf taka þeim tölum með fyrirvara hjá Facebook.

vimeo logo blueSvo er það Vimeo. Vimeo er videoplatform fyrir myndbandsrúnkara. Allt á Vimeo er miklu fallegra en á YouTube. Þú hefur sömuleiðis betri stjórn á hlutum eins og stillimynd, læsingum og slíku og er þannig alveg frábær miðill til að nota til dæmis ef þú ætlar að setja myndböndin þín á vefsíður (e. embedded videos), til dæmis á vörusíður á heimasíðu fyrirtækis þíns. Að sama skapi geturðu stjórnað því betur hvað birtist þegar myndbandið þitt er búið.

Þetta eru svona þessir þrír helstu.  Það eru fullt af öðrum miðlum í boði eins og til dæmis myndbönd á Twitter og svo örmyndbönd á t.d. Vine og Instagram. Þá er hér ekki einu sinni minnst á myndbandsspilara fyrir fjölmiðla, sem vilja geta stýrt læsingunni ennþá betur og jafnvel handvalið auglýsingar á undan eða eftir hverju myndbandi. Það er líka allt önnur pæling.

En hvað af þessu er best?

Eins og ég sagði áðan þá fer það rosalega eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Það er hægt að kafa gríðarlega djúpt ofan í algórythma, pælingar um að byggja upp áskrifendahóp og hvar þú ætlar að græða peninga en þumalputtareglan hjá mér er:

Facebook – Til að sjást sem víðast (e. most impressions)

YouTube – Til þess að finnast

Vimeo – Til að “embedda” á aðrar síður.

Þetta er svona þokkalega algilt fyrir flesta auglýsendur og vörumerki. Til þess að nýta kosti hvers miðils má líka hlaða myndbandi inn á alla þessa miðla.

Vonandi hjálpar þetta einhverjum.

Í gegnum tíðina hef ég átt í ágætis sambandi við mann að nafni Gerard Adriaan Heineken. Ef þú kannast ekki við nafnið þá var hann stofnandi Heineken bruggsmiðjunnar, en Heineken er einn mest seldi bjór í heimi.

Heineken hefur verið einn helsti styrktaraðili Meistaradeildar Evrópu og stór hluti af markaðsefni fyrirtækisins ár hvert er tileinkað keppninni. Þá hafa Hollendingarnir verið duglegir að búa til upplifun fyrir fótboltaaðdáendur og nýta sér svo samfélagsmiðla í ríkum mæli til að ná til fólks. Eitt dæmið er þegar þeir komu hótelgestum að óvörum á leikdag.

Ég er mjög hrifinn af því sem hefur verið gert í vetur. Þá eru fengnar gamlar kempur til að horfa á leiki og koma með komment á hann. Meðal þessara kempa eru menn eins og Ruud van Nistelrooy, Hernan Crespo og Juliano Belletti. Þeir eru þá staddir í Meistaradeildarpartý í boði Heineken og á meðal leik stendur er hægt að spyrja barþjóninn spurninga, sjá skemmtilega sketsa og síðast en ekki síst hægt að tala við kempurnar sjálfar.

sharethesofa

Miðlarnir sem eru notaðir eru annars vegar Twitter síða Heineken og hins vegar videomiðillinn Vine. Allt undir merkinu #sharethesofa.

Twitter er orðinn stór hluti af öllum beinum útsendingum og á í raun stóran þátt í að bæta við upplifun hvers viðburðar. Fótboltaáhugamenn hafa verið mjög fyrirferðamiklir þar og má í raun segja að þeir hafi til dæmis leitt Twitter innleiðinguna hér á Íslandi (nú er ég sennilega að móðga einhverja af nörda-vinum mínum á netinu). Með þessum hætti er Heineken að taka þátlt í umræðunni og vera hluti af leiknum en þú færð í raun að “deila sófanum” með gamalli hetju.

Skál fyrir því!

Ég rakst á mjög svo skemmtilega tilraun á alnetinu um daginn.

Hljómsveitin Garcia Goodbye frá Belgíu var að gefa út nýtt lag og vildi vekja athygli á því. Þeir hefðu getað farið venjulegu leiðina, hringt í þáttastjórnendur á útvarpsstöðvum, sent tölvupósta á vefmiðla og látið vita á Facebook. En það sem þeir ákváðu að gera er að kaupa slatta af USB lyklum, blöðrur og kút af helíum gasi. Þeir settu svo lagið á USB lykill ásamt stuttum skilaboðum, fylltu blöðrurnar með gasinu og slepptu þeim svo á völdum stöðum. Blöðrurnar flugu svo út í himinhvolfið og þeir félagarnir biðu eftir að einhver myndi setja sig í samband við þá eftir að hafa fundið blöðru. Ein blaðran flaug alla leið til Sönderborg í Danmörku og keyrðu þeir þangað að hitta manninn sem hafði fundið lagið. Allt þetta var svo tekið upp á myndband og sett á YouTube.

Þetta er virkilega skemmtileg leið til þess að vekja athygli á sér. Það er gefið að blöðrurnar væru ekki allar að fara að skila sér. Meirihluti þeirra hefur væntanlega fokið úr á sjó. En það var ekki markmiðið. Það var að taka upp myndbandið og vekja þannig athygli á nýja laginu.

Eins og áður segir er hægt að fara venjulegu leiðina, hringja í útvarpsstöðvar, reyna að fá umfjöllun í blaðinu og setja status á Facebook – og eflaust hafa þeir gert það líka. En með því að gera þetta svona ná þeir líka til fólks sem hefði líklega aldrei heyrt af hljómsveitinni Garcia Goodbye. Ég væri til dæmis ekki að renna plötunni í gegn á Spotify og þaðan af síður að segja þér frá því.

Ég skrifaði einu sinni um að gera eitthvað einstakt. Þetta er eftir nákvæmlega sömu línu.

Og lagið er bara ágætt.

20140104_094705_resized

Í dag tók ég þátt í málstofu sem haldin var af ÍBR í aðdraganda Reykjavíkurleikanna sem verða haldnir seinna í mánuðinum. Ragna Ingólfsdóttir, fyrrum badmintonkona og ólympíufari hélt fyrirlestur um hennar reynslu af því að sækja um og þyggja styrki frá fyrirtækjum. Ég næstur á svið og hélt stutt erindi um samskipti við styrktaraðila frá sjónarhóli styrktaraðilans, ímynd og svo kynningu í gegn um samfélagsmiðla. Í kjölfarið fylgdi vinnustofa um það hvernig íþróttafólk og íþróttasambönd eiga að kynna sig og sínar greinar.

Það var mjög lærdómsríkt að taka þátt í þessari vinnu enda var þarna fólk á öllum aldri úr mörgum mismunandi greinum.

Það sem helst stóð upp úr var hversu samfélagsmiðlarnir eru orðnir samofnir kynningu hjá yngra fólki. Þegar farið var að tala um miðla eins og Facebook sperrti fullorðna fólki eyrun til að læra á meðan yngra fólkið geispaði. Þau vita þetta og nýta miðlana óspart bæði í kynningu á sjálfu sér og í almenn samskipti. Það þarf ekki að útskýra fyrir þeim hvernig miðlarnir virka eða hversu mikilvægir þeir eru, heldur frekar að leiðbeina hvaða efni á að setja inn til að ná fram tilætluðum árangri.

Annað sem var gaman að upplifa er hversu mikið af hugmyndum kemur úr öllum hornum. Þegar þú blandar saman svona ólíkum hópi með jafn ólíkan bakgrunn verður til samsuða af alls konar þekkingu sem hægt er að læra af og nýta sér.

Ég þakka kærlega fyrir mig og set hérna glærurnar frá minni kynningu hér á netið ef einhver vill njóta þeirra.

laylowlivingroom

Í gær tók ég þátt í að láta mjög skemmtilegan viðburð gerast. Lovísa Sigrúnardóttir, betur þekkt sem Lay Low, bauð þá til lítilla tónleika í stofunni heima hjá sér. Allt heila klabbið var síðan tekið upp og streymt á alnetinu fyrir allan heiminn að sjá. Sömuleiðis var hljóðið sömuleiðis tekið upp og verður gefið út á geisladisk.

Ég er rosalega hrifinn af svona viðburðum. Eitthvað sem gerist bara einu sinni, eitthvað sem þú getur sagt og munt segja frá. Einhver alvöru upplifun.

Fólk þráir að taka þátt í einhverju einstöku. Það eru allir að leita að þessum “once in a lifetime” viðburði, uppifun eða augnabliki. Það er það sem dregur mann upp úr sófanum heima og af stað.

Fyrirtæki og vörumerki geta nýtt sér þetta sér til framdráttar þar sem þau hafa oft fjármagn til að láta svona hluti gerast. En margir horfa í pyngjuna og tíma ekki að eyða oft háum upphæðum til að búa til upplifun fyrir örfáar hræður sem vonandi segja vinum sínum frá því. Til að þú fáir eitthvað út úr því þarf viðburðurinn að vera hannaður þannig að hann er geðveikur fyrir þá sem eru viðstaddir en líka áhugaverður fyrir þá sem ekki geta verið á staðnum

Eitt besta dæmið sem ég þekki er Eldhúsið: Iceland’s Little House of Food á vegum Íslandsstofu og Inspired by Iceland í fyrra. Þar var örfáum útlendingum boðið í kvöldmat á 12 daga tímabili víðsvegar um landið. Upplifunin hefur örugglega verið stórkostleg fyrir þá sem fengu boðið, en hugmyndin var að ná í frábært myndefni sem svo er hægt að nota í kynningarefni fyrir Ísland. Það virðist hafa heppnast, allavega vann hugmyndin til tveggja Lúðra á síðustu ÍMARK hátíð.

Hugmyndin var svo tekin áfram á Iceland Airwaves í fyrra þegar húsið var notað sem minnsta off-venue hátíðarinnar. Þá spiluðu margar af okkar fremstu tónlistarmönnum fyrir framan 2-5 áhorfendur í einu, en öllum tónleikunum var svo streymt á netinu. Upptakan er svo til á vef Inspired by Iceland. Þeir örfáu sem var hleypt inn fengu einkatónleika, þeir sem fylgdust með streyminu fengu tónleika í tölvuna hjá sér og það sem situr eftir er fyrirtaks auglýsingaefni.

Hvað stofutónleikana hennar Lay Low varðar þá heppnuðust þeir gríðarlega vel. Hún var frábær, áhorfendurnir skemmtilegir og það var virkilega gaman að verða vitni að þessu. Að sama skapi var gaman að fylgjast með umræðunni á Twitter, en þar sást greinilega að fólk út um allan heim var að stilla inn  á streymið og fylgjast með einhverju sem var í gangi í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.

Það væri gaman að sjá meira svona!

Á þessu ári komust GIF síður í tísku. Sú síða sem sló hvað mest í gegn var What Should We Call Me. Í kjölfarið spruttu upp nokkrar GIF síður hér á Íslandi, en ætli þær vinsælustu hafi ekki verið eða séu Gulir miðar úr gleðibankanum og The Berglind Festival.

Þessar síður eiga sér það allar sameiginlegt að byrja á Tumblr, enda er Tumblr.com tilvalið apparat til að hýsa svona myndablogg. Það eiga sér allir (flestir) sína uppáhalds Tumblr síður. Uppáhalds íslenska síðan mín þessa stundina er Hverjir voru hvar, en það er aðallega út af Retro Stefson stöntinu sem kom geðveikt vel út fyrir bæði síðuna og hljómsveitina.

En eins og ég segi þá eiga allir sínar uppáhalds Tumblr síður. Þetta eru mínar:

What happens in Media Planningsögur úr birtingardeildum á auglýsingastofum.

Mo Farah Running Away From Things – Mo Farah er breskur hlaupari sem tók gullið í 10 km hlaupinu á Ólympíuleikunum í sumar. Þegar hann kom í mark náðist þessi mynd af honum, sem hefur svo verið notuð aftur og aftur til að sýna hann hlaupandi í burtu frá m.a. grameðlunni í Jurassic Park, Predator og Voldemort svo dæmi séu tekin.

Rich Kids of Instagram – Þar er safnað saman myndum þar sem ríkir krakkar út um allan heim eru að setja inn myndir af sér í einkaþotum, með $100.000 reikning á veitingastað eða í partý að spreyja Dom Perignon kampavíni út um allt. Það getur verið mjög gaman að fylgjast með!

White People Mourning Mitt Romney – Þegar Obama sigraði forsetakosningarnar um daginn urðu stuðningsmenn Mitt Romney að sjálfsögðu gríðarlega sorgmæddir og í kjölfarið var að SJÁLFSÖGÐU komin upp Tumblr síða daginn eftir með myndum af sorgmæddu fólki að “syrgja” Romney. Sumar myndirnar eru alveg ógeðslega fyndnar.

Hver er uppáhalds Tumblr síðan þín? Sendið mér einhverjar góðar í athugasemdum.

Þann 6. nóvember næstkomandi skunda Bandaríkjamenn á kjörstað og velja sér forseta. Um hituna berjast Barack Obama og Mitt Romney. Obama er núverandi forseti (eins og allir ættu að vita) en Mitt Romney er milljónamæringur og fyrr um ríkisstjóri Massachusetts fylkis.

Þessar kosningar hafa mikil áhrif á heimsbyggðina, líkt og allar aðrar kosningar í Bandaríkjunum, enda eru Bandaríkin sennilega valdamesta ríki í heiminum. Árið 2008 bar Obama sigur úr bítum eftir að hafa gersigrað John McCain í sögulegum kosningum og varð þar með fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna embætti forseta. Obama nýtti netið í miklum mæli í aðdraganda kosninganna og tók samfélagsmiðlum opnum örmum. Menn segja að það hafi verið lykillinn að sigri hans. Ég held að það sé að mjög stóru leiti satt. Það og mótframbjóðandinn var vonlaus.

Við Íslendingar og restin af heiminum sitjum á hliðarlínunni og getum ekki haft áhrif á úrslit kosninganna. Við getum hins vegar fylgst með og fyrir þá sem gera það dettur inn allskonar góðgæti á veraldarvefinn. Það vill nefnilega svo til að pólitískar kosningar eru eins konar karnival fyrir allt markaðsfólk og því er rosalega gaman að fylgjast með hvaða útspilum báðir kandídatar og stuðningsmenn þeirra henda á borðið. Mig langar að kíkja á nokkur dæmi. Það er kannski rétt að minnast á að internetið virðist halda með Obama (hver hefði giskað á það??).

Sarah Silverman

Sarah Silverman er þekktur grínisti og harður stuðningsmaður núverandi forseta. Hún var talsmaður hans í síðustu kosningum og kom fram í herferðinni “The Great Schlep” þar sem markmiðið var að fá eldri Gyðinga í Flórída til að kjósa Obama. Nú er hún komin á ferðina í myndbandinu “Get Nana a Gun” þar sem hún hvetur fólk til að fá sér byssuleyfi til að vera með gild skilríki svo það geti kosið. Silverman notar kaldhæðni og bölvar mikið sem er alltaf vinsælt á internetinu og fær þannig mikla dreifingu og hittir beint í mark í ákveðnum markhópum.

Wake the FUCK up!

Hver elskar ekki Samuel L. Jacksson að öskra orðið “FUCK“? Þeir sömu og greiða fyrir “Get Nana a Gun” eru kostendur að þessu myndbandi. Það gengur út á að virkja fólk á ný. Fólk sem safnaði pening og studdi Obama fyrir fjórum árum virðist ekki vera að gera það í sama mæli núna. WTFU er beint til þeirra. Myndbandið er í svipuðum stíl og þau með Sarah Silverman, vinna með kaldhæðni, beittan húmor og blótsyrði. Alveg tilvalið til að virkja internetkynslóðina.

The Patriot Game

Það er svolítið gaman að fylgjast með ræðunum hjá forsetaframbjóðendunum. Ef þú rýnir í stikkorðin þá nota þeir sömu áherslupunktana og eru í raun að keyra á sömu frösunum. Í “The Patriot Game” eru búið að taka hluta úr ræðum þeirra og stilla upp hlið við hlið þar sem frambjóðendurnir keppast um stig í flokkum eins og “flag power”, “heart power” og “dollar power”. Hver stendur uppi sem sigurvegari?

Eins og ég sagði áðan þá virðist internetið halda með Obama. Hann hefur verið duglegur á samfélagsmiðlum, tók m.a. við spurningum í gegn um Reddit, heimsótti Facebook, hélt Google Hangout auk þess að vera með prófíla á öllum samfélagsmiðlum sem virðast vera til – meira að segja Myspace!

En greyið Mitt Romney er líka bara svo duglegur að gefa færi á sér! Það byrjaði nú ekki vel fyrir hann þegar Clint Eastwood tók “Empty chair” ræðuna sem átti að vera til stuðnings Romney. Þá lak út myndband af honum þar sem hann sakaði 47% þjóðarinnar um að lifa á ríkisstjórninni, internetið fílaði það ekki. Að lokum baðst hann afsökunar og sagðist hafa “said something completely wrong”. Það virkaði nú ekki betur en að hann er búinn að eigna sér þessi tvö orð. Prófaðu að slá inn “completely wrong” á Google og skoða myndirnar. Eru þær svona?

Það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með kosningunum þann 6. nóvember, því sama hver vinnur þá mun það hafa ótrúlega mikil áhrif á heimsbyggðina. En þangað til þá fylgjumst við með efninu sem fer á netið og brosum að því sem við getum brosað að.

Veit einhver um góð stuðningsmyndbönd fyrir Mitt Romney? Eða fleiri góð fyrir Obama?

Ég er rosalega hrifinn af hugtaki sem kallast “branded content”. “Vörumerkt efni” kallaði ég það í færslu einhverntíman í fyrra. Þá erum við að tala um efni sem fyrirtæki láta framleiða í auglýsingaskyni, án þess þó að það sé bein auglýsing, heldur meira í formi vörulaumu (e. product placement). Það fer þó ekkert á milli mála hver kostar til gerð myndbandsins. Yfirleitt er hægt að framleiða svona efni til að sýna fram á notagildi ákveðinnar vöru eða þjónustu en líka til að styrkja ímynd eða vekja umtal og/eða athygli. Dæmi um þetta var til dæmis Doug herferðin hjá Ford, Uncle Drew frá Pepsi Max og myndbandið sem var gert fyrir FM95BLÖ.

Uncle Drew sketsinn er reyndar einn sá besti svona sem ég hef séð.

Það skemmtilega við netið er að birtingarleiðirnar eru tiltölulega ódýrar. Ef efnið er nógu gott þá mun það fá dreifingu. Fréttamiðlar, blogg og notendur samfélagsmiða munu horfa og skoða og deila því á sínar síður. 11 milljón áhorf á Uncle Drew tala sínu máli og það sama má segja með 40.000 áhorf á FM95BLÖ. Þannig er hægt að eyða meira púðri í að framleiða efnið sjálft á kostnað auglýsingabirtinga. Þetta er mjög skemmtilegur möguleiki sem fleiri og fleiri virðast vera að nýta sér.

En titill færslunnar er Daybreak og ég ætla að fjalla aðeins um það. Daybreak er verkefni frá AT&T sem er unnið í samstarfi við auglýsingarisann BBDO. Þetta er 5 þátta sería þar sem leikararnir nota vörur og þjónustur AT&T. Þar eru t.d. allir með HTC One X síma, Galaxy Tab, 4G net og alls konar öpp og fítusar. AT&T virðist hafa farið all in í þetta verkefni en leikstjóri þáttanna er Jon Cassar, sá sem leikstýrði fyrstu 7 seríunum af 24 og framleiðandinn er Tim Kring, en hann færði okkur m.a. Heroes.

Nikola Tesla

Það merkilega er að þættirnir eru spennandi. Venjulega þegar svona er reynt kemur það asnalega og gervilega út, en sú er ekki raunin. Ég datt inn á þá fyrir tilviljun þegar ég var að skoða hvernig AT&T notar YouTube. Senurnar eru hraðar og mikið að gerast og þá tengi ég við söguþráðinn og langar að vita meira. Án þess að segja of mikið fjalla þættirnir um rannsóknir á uppfinningum Nikola Tesla, en hann var einn færasti uppfinningamaður síðustu aldar. Aðalsöguhetjan leiðist inn í æsispennandi eltingaleik og hasar með svikum, byssuskotum, bílaeltingaleikjum og fleiru. Nú þegar eru komnir út 3 þættir en sá fjórði verður frumsýndur annað kvöld (fimmtudag 21. júní).

Eins og ég sagði áðan þá fór AT&T all in í framleiðslu þáttanna. Það eru 2 vefsíður í gangi, annars vegar www.daybreak2012.com þar sem hægt er að horfa á þættina og annað aukaefni sem fylgir.  Ef þú smellir á kristallana á síðunni færðu að sjá aukaefnið.

Jack Boxer

Jack in the box er fígúra sem birtist hvað eftir annað í þáttunum en hún er mikilvægur hlekkur í sögunni. Til að auka á umtal og fá virkni á milli aðdáenda og áhorfenda þá var gert forrit fyrir Android og iPhone sem heitir einmitt Jack Boxer. Í forritinu er innbyggð tenging við Facebook en eins virðist þar vera einskonar ratleikur þar sem þú getur náð í vísbendingar fyrir þættina. Hin heimasíðan sem sett var upp er www.jackboxers.com. Þar er aukaefni en líka að finna vísbendingar og innsendingar frá fólki sem hefur náð í appið.

Það er áhugavert að sjá hversu miklu AT&T hefur kostað til. Vissulega hefur þetta kostað drjúgan skilding, en það kostar allt sem á að gera vel. Ég reikna með að tilgangurinn með þessu sé að kynna 4G netið, kosti snjallsímanna og svo auðvitað HTC One X. Það er greinilega ímyndarfaktor í þessu líka auk þess sem að ég reikna með að appið taki ágætis gagnamagn, sem skapar tekjur.

En eins og áður segir eru þættirnir að fá dreifingu þar sem þeir eru vel gerðir. Fyrst einhver nölli á Íslandi datt inn á þetta fyrir tilviljun þá hljóta einhverjir í Bandaríkjunum að vera að pikka þá upp. Þetta er mjög áhugaverð tilraun og skemmtilegt að sjá öllu tjaldað til. Ég hlakka til að njósna um útkomuna og hvernig allt tókst. Ef maður heyrir ekki neitt veit maður allavega að þetta floppaði!

Hér er fyrsti þátturinn. Ég býð í ofvæni eftir þætti nr. 4 sem kemur á fimmtudagskvöld. Horfðu á þættina, prófaðu appið og segðu mér hvað þér finnst. Fleiri dæmi eru vel þegin!