Archive

Monthly Archives: August 2011

Stórfréttir heyrðust í tækniheimum Bandaríkjanna í þessari viku þegar Steve Jobs ákvað að segja starfi sínu lausu sem forstjóri Apple. Þar með líkur 14 ára valdatíð Jobs og einu lengsta blómaskeiði nokkurs fyrirtækis, en Steve Jobs kom aftur til Apple árið 1997 eftir að hafa verið hrakinn í burtu frá fyrirtækinu sem hann tók þátt í að stofna árið 1984. Til að gefa gróft dæmi um hvaða stakkaskiptum Apple hefur tekið undir stjórn Jobs þá var verð á hlutí ársbyrjun árið 1997 um $4 en núna er verðið um 8300% hærra og stóð í $383.58 við lokun markaða á föstudag (Google Finance). Auðvitað skiptir verð á hlut ekki öllu máli en það hefur ákveðna hugmynd um stækkunina sem hefur átt sér stað.

Söguna af Steve Jobs þekkja mjög margir. Manískt tölvunörd sem stendur á bakvið margar af helstu uppfinningum síðasta áratuginn – iPod, iPhone, Macbook, iPad o.s.frv. Hann kemur fram við lófatak í svörtum rúllukragabol og kynnir nýjungar fyrir æstum eyrum lýðsins. Hann er semsagt hættur sem forstjóri næst verðmesta fyrirtækis í heimi en situr þó ennþá sem stjórnarformaður. Steve vinur okkar hættir þó ekki af vilja heldur af nauðsyn. Síðustu mánuði og ár hefur hann glímt við erfitt krabbamein og hefur staðgengill hans, Tim Cook stýrt fyrirtækinu meira og minna frá 2009. Ég vona að Steve nái sér að fullu og haldi áfram að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins enda er alltaf gaman að sjá karlinn á sviði.

En hver er þessi Tim Cook?

Tim Cook er fæddur 1960 í Alabama. Hann er með gráðu í iðnaðarverkfræði frá Auburn University í Alabama en sá skóli er einmitt vel þekktur meðal Íslendinga þar sem þeir hafa verið duglegir að sækja sér knattspyrnumenn í lið sitt hingað til lands. Svo er hann með MBA gráðu frá Duke University. Hann hefur verið hjá Apple síðan 1998 en áður vann Tim hjá Compaq og þar áður IBM í 12 ár. Þar að auki situr hann í stjórn Nike.

Tim Cook hefur þurft að leysa Steve Jobs af sem forstjóri nokkrum sinnum síðustu 7 árin á meðan hann hefur farið í veikindaleyfi. Fyrst árið 2004 þegar Jobs glímdi við krabbamein í brisi, svo árið 2009 þegar hann fékk nýja lifur og svo núna frá því í vetur. Cook var því rökrétt ráðning þar sem hann hefur verið lengi hjá fyrirtækinu og í raun hægri hönd Steve Jobs í gegn um árin. Hann hefur verið rekstrarstjóri (chief operation officer, COO) fyrirtækisins frá árinu 2005.

Tim Cook er sagður vera íþróttafrík og vinnualki. Hann á það víst til að kalla saman fundi á sunnudögum til að plana vikuna framundan og fyrstu póstarnir frá honum eru farnir að detta inn upp úr hálf 5 á morgnana. Sem rekstrarstjóri hefur hann tekið í gegn alla verkferla hjá fyrirtækinu og er hann sagður vera aðalmaðurinn á bakvið það að Apple hætti allri framleiðslu. Núna eru Apple vörur settar saman úr pörtum sem framleiddir eru hjá hinum ýmsu fyrirtækjum, sem dæmi eru örgjörvarnir í allar Macbooks framleiddir af Intel og myndavélarnar í iPhone hjá Sony.

Þegar kemur að vinnu er hann kaldur, harður og æsir sig aldrei. Hann hefur víst rifið fólk í sig á milli þess sem hann hámar í sig orkustykki, spyr spurninga sem fólk á ekki að vita svarið við og heldur alltaf áfram. Þrátt fyrir það er honum lýst sem “skemmtilegt að vinna með“. Utan vinnu virðist hann eiga fáa vini og kemur ekki mikið fram opinberlega. Hvort hann er feiminn, félagsfælinn eða bara illa við fólk veit enginn en þegar hann er ekki á skrifstofunni er hann í ræktinni, að hjóla eða úti að ganga á fjöll.

En hvað með framtið Apple?

Tim Cook er hæfur forstjóri, á því leikur enginn vafi. Undirmenn treysta honum og hann hefur mikla reynslu í stjórnun. Honum tókst að lækka gjöld hjá Apple og spara milljarða í leiðinni. En sama hvað hann gerir og hefur gert þá er hann ekki Steve Jobs. Steve Jobs er sífellt hugsandi um einfaldar lausnir fyrir notandann og vill hugsa út fyrir kassann í leit að nýjum vörum. Mun Apple halda þessu áfram þó foringinn sé farinn og nýr kominn í staðinn?

Auðvitað eigum við eftir að sjá nýja iSíma, iPöddur og Macbækur á næstu misserum. Það sem Cook þarf að gera er að finna og halda í það fólk sem bætir upp það sem hann hefur ekki. Karlinn er náttúrulega brjálæðislega gáfaður og eldri en tvævetur í þessum bransa þannig ég hef ekki áhyggjur í bili. Steve Jobs er líka þarna handan við hornið að fylgjast með úr stjórnarhásætinu.

Fyrir þá sem vilja vita meira um Steve Jobs geta horft á þáttinn um hann í Game Changers þáttaröðinni frá Bloomberg. Hann má sjá hér.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Tim_Cook
http://money.cnn.com/2008/11/09/technology/cook_apple.fortune/index.htm
http://thenextweb.com/apple/2011/08/25/who-is-the-new-apple-ceo-tim-cook/?awesm=tnw.to_1AW5A&utm_campaign=&utm_medium=tnw.to-other&utm_source=t.co&utm_content=spreadus_master
http://www.apple.com/pr/bios/tim-cook.html
http://mashable.com/2011/08/24/tim-cook-apple-ceo/

Advertisements

Við erum í miðri tilboðsmaníu. Hún hófst snemma í vor með tilkomu Hópkaup.is, með stuðningi frá Dilar.is og fékk svo byr undir báða vængi með fæðingu Aha.is. Í kjölfarið spruttu upp bæði Kaupmáttur.is og Kaupnet.is og  svo nú fyrir stuttu kom fram á sjónarsviðið WinWin.is. Það gera samtals SEX síður sem bjóða upp á það sama hérna á litla Íslandi.

Þessar síður græða sína peninga með því að hafa samband við fyrirtæki og bjóða þeim að selja hjá sér vöru eða þjónustu á mun lægra verði en gengur og gerist. Það eru allskonar fyrirtæki sem nýta sér þjónustuna, t.d. er Veggsport að selja árskort á Hópkaup.is og Sumarferðir eru að selja ferð til Tenerife á WinWin.is. Tilboðssíðurnar kaupa þessi gjafabréf t.d. á 50% afslætti og smyrja síðan ofan á einhverri álagningu. Fyrirtækin fá fjöldakaup, nýja viðskiptavini og auglýsingu en vefsíðan tekur mismuninn. Viðskiptavinir fá svo vöru á mun lægra verði en ella. Þetta getur verið mjög sniðug leið til að kynna sig og fá nýja viðskiptavini. Einnig er þetta sniðugt til að selja vöru með hárri framlegð í miklu magni, nú eða losa sig við úreldar birgðir.

Nú þegar virðast sigurvegararnir vera farnir að skera sig frá og skilja hina eftir, en Dilar.is hefur ekki verið með nýtt tilboð svo vikum skipti og það virðist vera lítil hreyfing bæði á Kaupmætti og Kaupneti. Hópkaup hafa náð miklum vinsældum út á það að hafa verið fyrstir á markaðinn en Aha var fyrsta síðan til að vera með tilboð fyrir fólk úti á landi. WinWin.is virðist síðan vera með ágætis bakland en áður en hún fór í loftið voru meðal annars auglýsingar á strætóskiltum og í blöðum til að vekja athygli á henni. Hún er síðan að skera sig úr sem svona “fínni” tilboðasíða fyrir konur, þ.e. verið að selja snyrtimeðferðir, spaferðir og nudd svo eitthvað sé nefnt.

En hvaðan kemur þessi snilldar hugmynd sem allir fengu á sama tíma?

Fyrirmynd allra þessara síða kemur frá vefsíðu sem sett var í loftið í nóvember 2008 og heitir Groupon. Groupon var fyrsta síðan til að slá í gegn með þessu viðskiptamódeli en hún hefur riðið tröllum um öll Bandaríkin síðustu misseri og hefur síðan hasslað sér völl út um allan heim í gegn um kaup á svipuðum síðum. Til dæmis keypti Groupon síðurnar Darberry.ru í Rússlandi og Qpod.jp í Japan og rekur þær nú undir eigin nafni. Samkvæmt Wall Street Journal eru um 83 milljónir notendur sem fá tilboð sent daglega í gegn um tölvupóst og starfsmenn eru rétt yfir 7000 talsins og helmingurinn af þeim eru sölumenn.

Groupon er eitt af stjörnufyrirtækjunum sem er að ýta undir alla þá maníu sem ríkir í Kísildalnum þessa dagana og í byrjun júní sóttu þeir um skráningu á hlutabréfamarkað. Þeir eru all svakalega góðir með sig og höfnuðu til að mynda 6 milljarða dollara tilboði frá Google síðasta haust. Heildarverð fyrirtækisins er allt að 30$ milljarðar samkvæmt sumum fréttum. Og nota bene, á þeim 3 árum sem það hefur verið til hefur það ekki skilað hagnaði á einum einasta ársfjórðungi. Sagan segir að þegar bjallan glymur muni Groupon byrja í $25 milljarða virðinu.

Andrew Mason forstjóri Groupon

En það eru ekki allir sannfærðir um ágæti þessa fyrirtækis. Í fyrsta lagi hafa þeir eins og áður segir ekki ennþá skilað hagnaði og það lítur ekkert út fyrir að það gerist strax. Þeir hafa jú vaxið ógurlega mikið á fyrstu árunum og eitt gífurlegum fjárhæðum í þann vöxt en það vill svo til að þeir eru á markaði sem frekar auðvelt er að koma inn á.

Eftir að yfirtökutilboðinu var hafnað, ákvað Google að rúlla út Google Offers. Fyrst í Portland, Oregon og svo fylgdu New York City og San Fransisco í kjölfarið. Amazon, risinn í verslun á netinu ætlar ekki að láta þetta framhjá sér fara, og er farinn að keyra á “Daily deals”. Einnig eru síður eins og Living Social einnig að hassla sér völl án þess að vera að sporta keppnistapi eins og Groupon. Þeir þurfa einfaldlega að fara á markað til að geta haldið áfram að lifa því nú þegar þrengir að þá lokast allar lánalínur og það hægist á vextinum. Við skulum vona að það standi eitthvað eftir þegar markaðurinn jafnar sig aftur.

Ég hef talað um netbóluna hér og Kísildals-mafíuna hér. Ég myndi aldrei setja pening í þetta fyrirtæki eins og staðan er í dag.  Ég reikna með að þeir sem séu að fjárfesta í Groupon í dag séu að leita sér að skammtímaávinningi – þ.e. að kaupa bréfin og reyna að selja þau á sem hæstu verði – og sá sem kaupir sé með sama ávinning í huga. Þetta gerir ekkert nema að skapa bólu.

Rob Wheeler tók þetta allt saman í bloggfærslu á Harvard Business Review sem ber nafnið “Groupon doomed by too much of a good thing“. Ég leyfi honum að eiga síðasta orðið.

Update 8/9/11 – Ég var að taka eftir því að það fer að opna ný síða – www.kraftkaup.is! Hvar endar þetta?

Jæja, mér finnst ég hafa verið svo dramatískur, pólitískur og heilsusamlegur undanfarið að ég held að það sé klárlega kominn tími á einn nörda-síma-forrita-pistil. Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil undir heitinu “Íslensk “Öpp””. Sá pistill var mjög Android miðaður, enda er ég Android maður eins og flestir vita. Nú eru liðnir sirka 4 mánuðir og fleiri forrit hafa bæst í hópinn. Einnig fæ ég reglulega fyrirspurnir hvort það séu ekki fleiri íslensk forrit og svo vísar Google fólki oft inn á síðuna mína þegar fólk er að leita sér að upplýsingum um íslensk forrit. Er Google Analytics ekki dásamlegt?

Sem fyrr eru QR kóðarnir bara fyrir Android en ég set hlekki sem vísa beint inn á viðkomandi forrit í hverja færslu sem við á.

Lumman

Lumman er forrit fyrir fótboltafíkla. Það er framleitt af sömu mönnum og hönnuðu Leggja.is forritið, Stokkur Software. Það er til í Android og er væntanlegt í iPhone á næstu vikum segja þeir. Forritið virkar þannig að það tekur nýjustu fótboltafréttirnar af helstu fréttasíðum landsins – Fotbolti.net, MBL.is, Visir.is, Sport.is – ásamt því að vera með úrslitaþjónustu beint í símann, þar sem m.a. er hægt að fylgjast með úrslitum í íslenska boltanum. Forritið er ókeypis og ég mæli hiklaust með að því sé hlaðið niðurÍslandsbanki
Fyrir skömmu setti Íslandsbanki nýjan farsímavef í loftið. Sá er mjög fullkominn og er sérstaklega góður fyrir snjallsíma. Það er hægt að skoða hann með því að fara inn á m.isb.is. Ég fór að sjálfsögðu á fullt og spurði Íslandsbanka á Twitter hvort það væru ekki einhverjar app pælingar í gangi hjá þeim. Ég fékk þau svör að vinna væri í gangi og viti menn, stuttu síðar fæ ég direct message frá þeim sem benti mér á forritið. Ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka Íslandsbanka sérstaklega vel fyrir góða þjónustu. Forritið er frábært, lítið og létt og virkar alveg eins og heimabankinn þinn. Að sjálfsögðu verðurðu að vera í viðskiptum við bankann til að það nýtist þér en það er annað mál. Eina spurningamerkið sem ég set við það er hvernig þeir munu leysa öryggismálin þegar auðkennislyklarnir verða lagðir niður og rafrænu skilríkin tekin upp að fullu. Ætli forritið verði þá úrelt? En það er seinni tíma vandamál. iPhone forritið er einnig væntanlegt samkvæmt Twitternum þeirra.

Smáralind

Smáralind reið á vaðið með tilboðsforrit fyrir snjallsímanotendur. Þeir sem sækja forritið eiga kost á því að sækja sér afsláttartilboð sem þeir svo sýna þegar þeir versla viðkomandi vörur. Það verður að segjast að forritið er frekar hægt og ég reikna með að það taki frekar mikið gagnamagn þar sem það sækir myndir og annað á netið. En hugmyndin er mjög sniðug og ég vona innilega að þeir haldi áfram að uppfæra það og betrumbæta eftir því sem líður á. Það hefur strax stórbatnað miðað við hvernig það byrjaði. Það var hannað af auglýsinastofunni Ennemm og er til fyrir bæði iPhone og Android. iPhone forritið má sækja hér.

Bland.is
Fyrr á árinu fengu vefirnir Barnaland.is, ER.is, Dyraland.is og Bloggland.is yfirhalninu og voru allir sameinaðir í Bland.is. Þar að auki var búinn til farsímavefurinn m.bland.is og einnig smáforrit fyrir bæði iPhone og Android notendur. Fyrir þá sem ekki vita er Barnaland eða Bland eins og það heitir núna, vefur þar sem fólk skiptist á myndum, sögum og ráðum fyrir börnin sín. Einnig hefur myndast eitt öflugasta markaðstorg Íslands þar inni sem og sennilega virkasta spjallborð landsins. Fyrir þá sem vilja fylgjast með sínum þráðum, sérstaklega ef það er að selja eitthvað er náttúrulega tilvalið að fá sér forritið í símann! Sækja má Bland.is fyrir iPhone hér.

Locals recommend
Þetta forrit er mjög skemmtilegt þó það sé kannski ekki endilega hannað fyrir íslenskan markað. Í forritinu má finna samansafn af myndböndum þar sem heimamenn (locals) segja utanaðkomandi hvað þeir eiga að gera í Reykjavík. Hugmyndin er einföld og góð og byrjaði með Reykjavík en af heimasíðunni að dæma ætla þeir félagar svo sannarlega að færa út kvíarnar og mér sýnist Stokkhólmur, Peking og Bangkok vera næst á dagskrá. Ég mæli endilega með að þetta sé skoðað því það er aldrei að vita nema þú finnir einhvern falinn fjársjóð sem þú vissir ekki af. iPhone forritið má nálgast hér.

Enn og aftur er ég viss um að þetta sé ekki tæmandi listi því það er fullt af hlutum að gerast í íslenskri hugbúnaðarþróun. Endilega ef ég gleymdi einhverju eða það vantar einhverjar upplýsingar þá skulið þið skilja eftir athugasemd hér fyrir neðan nú eða senda mér skilaboð á Twitter.

Að lokum vil ég benda á fleiri góða sem eru að fjalla um snjallsíma og smáforrit. Í sumar hafa sprottið upp a.m.k. tvær heimasíður sem fjalla um þessi mál. Þær eru Radarinn og Símon.is. Einnig er hægt að elta þær Twitter með @Radarinn og @Simon_is. Það er ánægjulegt að sjá að einhver nennir að spá í þessu annar en ég!

Update: 18/08/11
iPhone appið fyrir Íslandsbanka er komið út. Það má nálgast það með því að skanna kóðann fyrir neðan.

Helsveittur en glaður

Nú nálgast maraþonið óðfluga. Það er hægt að velja úr þremur vegalengdum – 42 km, 21 km og 10 km – auk 3 km Latabæjarhlaupsins. Það kostar ákveðið gjald að keppa en innifalið í því er bolur, mótsgjald, drykkir frá Powerade og miði í sund. Ég er skráður í 10km hlaupið í ár. Í fyrra fór ég hálft maraþon og satt best að segja þá var það bara of langt, ég nenni hreinlega ekki aftur.

En hvað ber að hafa í huga þegar maður undirbýr sig fyrir víðavangshlaup? Ég vil taka það fram að ég er ekki lærður þjálfari en ég hef mikla reynslu úr frjálsum íþróttum, Crossfit, fótbolta, skíðum og svo lengi mætti telja.

Æfðu þig!

Já ekki falla í þá gryfju að ætla að taka þetta bara á hörkunni. Það SÖKKAR að fara óæfður í hlaup. Í fyrsta lagi getur maður fengið blöðrur, meiðsl eða aðra verki og í öðru lagi nærðu engan veginn tímanum sem þú vilt, sem er næstum því jafn slæmt og að meiðast. Ef þú ert að fara að hlaupa 10km, hlauptu þá 5-10km þrisvar í viku. Ef þú ert að fara 21 þá skaltu hlaupa 10-15 km þrisvar í viku. Ef þú færð blöðrur eða verki í fæturnar þá mæli ég með öðrum þolæfingum eins og t.d. hjólreiðum eða sundi til að halda þér við.

Góðir skór

Fólk getur fengið beinhimnubólgu og blöðrur og markt fleira óskemmtilegt. Sjálfur hleyp ég í Asics Nimbus skóm sem hægt er að kaupa á sanngjörnu verði alls staðar annars staðar en á Íslandi. Ég kaupi mína hlaupaskó í gegn um síðu sem heitir Eastbay sem er ein fremsta íþróttavörusíðan vestanhafs. Þess má geta að hún sendir heim til Íslands.

Horfðu á Rocky

Það gildir það sama með undirbúning fyrir hlaup og að ná árangri í ræktinni. Ekkert pumpar mann upp jafn mikið og að horfa á Rocky. Það ég fór yfir það áður í annarri færslu og það er ekki hægt að ítreka það of oft.

Hlauptu til góðs

Það eru margir þarna úti sem eru ekki jafn heppnir og ég og þú. Þegar þú skráir þig í maraþonið gefst þér kostur á að velja þér góðgerðarfélag til að hlaupa fyrir. Eins og í fyrra þá hleyp ég fyrir CP félagið. CP stendur fyrir “cerebral paralysis” en það er ákveðin heilalömun sem veldur hreyfihömlun. Félagið er með marka skjólstæðinga en er alfarið rekið á sjálfboðastarfi og frjálsum framlögum. Ég hvet ALLA sem ætla að hlaupa til þess að hlaupa fyrir Félag CP á Íslandi. Til þess að skrá sig þarf að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið og svo skrá sig inn á www.hlaupastyrkur.is og þá er hægt að heita á þig.

Að sjálfsögðu ætla ég að nýta mér aðstöðu mína og biðja alla sem þetta lesa að heita á mig en allar mínar upplýsingar má finna hér. Hver einasta króna skiptir máli.

Hafðu gaman

Höfum ungmennafélagsandann í heiðri og höfum gaman að þessu öllu saman. Annars er þetta allt til einskis!