Archive

YouTube

Ég er oft spurður hvar best er að geyma myndbönd. Í raun er ekki neitt eitt rétt svar við því, það fer allt eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Ætlarðu að selja auglýsingar, safna áskrifendum, reyna að láta það fara “viral”, tengja við annað efni t.d. á vefsíðu og svo lengi má telja.

Akkurat núna er mikið stríð á milli miðla að vinna “content-keppnina” en það vilja allir að þú geymir efnið þitt hjá sér. Ég ætla að fjalla aðeins um hvernig þú getur nýtt þér þetta stríð til að ná fram þínum markmiðum.

YouTube-logo-full_color (1)YouTube hefur hingað til verið aðal staðurinn til að geyma myndbönd. Þessi samfélagsmiðill tók svakalegt stökk strax og hann fór í loftið og var á endanum keyptur af Google fyrir 1,650.000 dollara árið 2006. Allir í heiminum nota og þekkja YouTube. Það sem ekki allir vita er að YouTube er næst stærsta leitarvél í heiminum með 3 milljónir fyrirspurna í mánuði! Fjölmargir út um allan heim hafa orðið ríkir á YouTube enda er svo ofboðslega auðvelt að annars vegar byggja upp áhorfendahóp (e. audience) og svo auðvitað að selja auglýsingar í gegnum auglýsingakerfi Google.

facebookFacebook hefur heldur betur sótt í sig veðrið hvað myndbönd varðar. Ég get staðfest af eigin raun að ef þú setur myndband inn á Facebook þá fer það á fleygiferð og flestir vinir þínir sjá það. Facebook er hér klárlega að reyna að krækja sér í hlutdeild af YouTube kökunni. Facebook vill gera sem mest til þess að þú þurfir aldrei að fara út af Facebook. Þeir verðlauna þig þannig með áhorfi fyrir að hlaða myndbandinu þínu á Facebook, en refsa þér ef þú linkar á YouTube myndband eða aðra miðla sem taka þig af Facebook. Við skulum samt ekki gefa Facebook of mikið hrós því þó að myndbandið þitt sjáist í öllum fréttaveitum sem þú veist um þá er þar líka pottur brotinn. Myndböndin spilast nefnilega sjálfkrafa á Facebook þegar þú sérð það og það telur sem 1 “áhorf”. Þannig alltaf taka þeim tölum með fyrirvara hjá Facebook.

vimeo logo blueSvo er það Vimeo. Vimeo er videoplatform fyrir myndbandsrúnkara. Allt á Vimeo er miklu fallegra en á YouTube. Þú hefur sömuleiðis betri stjórn á hlutum eins og stillimynd, læsingum og slíku og er þannig alveg frábær miðill til að nota til dæmis ef þú ætlar að setja myndböndin þín á vefsíður (e. embedded videos), til dæmis á vörusíður á heimasíðu fyrirtækis þíns. Að sama skapi geturðu stjórnað því betur hvað birtist þegar myndbandið þitt er búið.

Þetta eru svona þessir þrír helstu.  Það eru fullt af öðrum miðlum í boði eins og til dæmis myndbönd á Twitter og svo örmyndbönd á t.d. Vine og Instagram. Þá er hér ekki einu sinni minnst á myndbandsspilara fyrir fjölmiðla, sem vilja geta stýrt læsingunni ennþá betur og jafnvel handvalið auglýsingar á undan eða eftir hverju myndbandi. Það er líka allt önnur pæling.

En hvað af þessu er best?

Eins og ég sagði áðan þá fer það rosalega eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Það er hægt að kafa gríðarlega djúpt ofan í algórythma, pælingar um að byggja upp áskrifendahóp og hvar þú ætlar að græða peninga en þumalputtareglan hjá mér er:

Facebook – Til að sjást sem víðast (e. most impressions)

YouTube – Til þess að finnast

Vimeo – Til að “embedda” á aðrar síður.

Þetta er svona þokkalega algilt fyrir flesta auglýsendur og vörumerki. Til þess að nýta kosti hvers miðils má líka hlaða myndbandi inn á alla þessa miðla.

Vonandi hjálpar þetta einhverjum.

Ég rakst á mjög svo skemmtilega tilraun á alnetinu um daginn.

Hljómsveitin Garcia Goodbye frá Belgíu var að gefa út nýtt lag og vildi vekja athygli á því. Þeir hefðu getað farið venjulegu leiðina, hringt í þáttastjórnendur á útvarpsstöðvum, sent tölvupósta á vefmiðla og látið vita á Facebook. En það sem þeir ákváðu að gera er að kaupa slatta af USB lyklum, blöðrur og kút af helíum gasi. Þeir settu svo lagið á USB lykill ásamt stuttum skilaboðum, fylltu blöðrurnar með gasinu og slepptu þeim svo á völdum stöðum. Blöðrurnar flugu svo út í himinhvolfið og þeir félagarnir biðu eftir að einhver myndi setja sig í samband við þá eftir að hafa fundið blöðru. Ein blaðran flaug alla leið til Sönderborg í Danmörku og keyrðu þeir þangað að hitta manninn sem hafði fundið lagið. Allt þetta var svo tekið upp á myndband og sett á YouTube.

Þetta er virkilega skemmtileg leið til þess að vekja athygli á sér. Það er gefið að blöðrurnar væru ekki allar að fara að skila sér. Meirihluti þeirra hefur væntanlega fokið úr á sjó. En það var ekki markmiðið. Það var að taka upp myndbandið og vekja þannig athygli á nýja laginu.

Eins og áður segir er hægt að fara venjulegu leiðina, hringja í útvarpsstöðvar, reyna að fá umfjöllun í blaðinu og setja status á Facebook – og eflaust hafa þeir gert það líka. En með því að gera þetta svona ná þeir líka til fólks sem hefði líklega aldrei heyrt af hljómsveitinni Garcia Goodbye. Ég væri til dæmis ekki að renna plötunni í gegn á Spotify og þaðan af síður að segja þér frá því.

Ég skrifaði einu sinni um að gera eitthvað einstakt. Þetta er eftir nákvæmlega sömu línu.

Og lagið er bara ágætt.

Í ár var furðu auðvelt að setja saman þennan lista. Fyrstu 8 plöturnar röðuðu sér í raun bara sjálfar þökk sé “big data”. Ég skoðaði bara það sem var mest spilað hjá mér á Last.fm og það stemmdi svona nokkurn veginn við það sem ég var búinn að vera að hugsa. Er ekki eðlilegast að þú hlustir mest á þær plötur sem þér þykir bestar?

Þær sem voru næstar inn á listann voru m.a. If You Wait með London Grammar, Evil Friends með Portugal. The Man, og Immunity með Jon Hopkins. Það sem mér fannst standa upp úr var hversu mikið af góðri erlendri popptónlist kom út. Justin Timberlake átti góða plötu sem og rappkóngarnir Jay-Z og Kanye West. Svo voru nýgræðingar á borð við Haim og Lorde að koma sterkar inn sem mótvægi við Miley Cyrus og Justin Bieber. Það er semsagt von fyrir popptónlist ennþá!

Það sem olli mér mestum vonbrigðum þetta árið var íslensk útgáfa. Árið 2012 var rosalegt í íslenskri tónlist þar sem hver önnur snilldarskífan var gefin út. Það voru þó nokkrir ljósir punktar þar sem t.d. Mammút, Tilbury og Emelíana Torrini gáfu út mjög góðar plötur. 2014 verður betra, ég finn það á mér.

En svona er listinn:

10. Urban Cone – Our Youth

urban cone

Urban Cone eru hressir sænskir guttar sem spila elektró-popp. Our Youth er fyrsta plata þeirra. Ég rambaði á þá fyrir tilviljun þegar ég var að skoða norska tónlistarhátíð og varð strax hrifinn. Ég myndaði sterk tengsl við þessa plötu í vor, enda er eins og hún sé samin til að hlusta á hana með hækkandi sól.

Í heildina er platan mjög sterk en að sjálfsögðu eru nokkur lög sem standa upp úr. Mín uppáhalds eru “Kids & Love”, “We Should Go To France” og “Winter’s Calling”.

9. Nick Cave & The Bad Seeds – Push The Sky Away

push the sky

Ég er tiltölulega nýbyrjaður að hlusta á Nick Cave. Eins og fólk veit þá getur hann oft verið frekar erfiður og þannig er það með þessa plötu. Ég var mjög lengi að taka hana í sátt. En sem betur fer komst ég yfir þann barnaskap því þessi plata er frábær. Tónsmíðarnar eru æðislegar og það er rosalegur stígandi í henni, alveg út í gegn, sem sést einna best í þekktasta laginu, “Jubilee Street”. Svo skemmdi ekki fyrir að sjá hann troða upp á bestu tónleikum sem ég hef séð á All Tomorrow’s Parties í sumar. Þvílíkur nagli!

8. Mammút – Komdu til mín svarta systir

komdu til mín

Fyrri íslenska platan á þessum lista. Mammút er orðin ein af okkar helstu hljómsveitum og stimplar sig sko rækilega inn með þessari plötu. Textarnir eru fallegir, ljóðrænir og minna helst á hryllingsmynd. Þegar ég hlustaði fyrst á plötuna þá sá ég fyrir mér yfirgefið hús við sjóinn þar sem enginn býr nema draugar og brimið skellur á fjörunni nokkrum metrum neðar. En það sem er alltaf best við Mammút er að fara á tónleika. Hvert gigg er einstakt og þú labbar aldrei vonsvikinn út.

Lögin “Salt”, “Tungan” og “Blóðberg” komu öll til greina á listann yfir bestu lög ársins.

7. On An On – Give In

give in

Eina Airwaves platan þetta árið. On An On er mjög fallegt þríeyki frá Minneapolis í Bandaríkjunum. Give In er þeirra fyrsta plata. Þau komu og spiluðu frábært gigg í Hörpunni laugardagskvöldið á Airwaves og áttu eitt af 10 bestu lögum ársins.

Give In er falleg og heilsteipt plata þar sem gítar og synthar blandast saman til að búa til melódíu. Þau lög sem standa upp úr eru “Every Song”, “The Hunter” og “Bad Mythology”.

6. Haim – Days Are Gone

haim days are gone

Þrjár systur sem semja létta popptónlist og syngja um samskipti kynjanna. Þessi fjölskylda er ein sú mest umtalaða í bransanum í dag enda hafa þær verið að vekja athygli fyrir frumraun sína Days Are Gone. Og eins og allt annað gott fólk eru þær Íslandsvinir, en þær spiluðu á Iceland Airwaves í fyrra.

Days Are Gone er eiginlega æðisleg plata. Melódíurnar eru mjúkar og grípandi og textarnir fjalla um eitthvað sem maður getur auðveldlega tengt við.

Lög sem standa upp úr eru m.a. “The Wire”, “If I Could Change Your Mind” og “My Song 5″.”The Wire” var til dæmis fyrsta lagið inn af bekknum á listann yfir bestu lög ársins.

5. Autre Ne Veut – Anxiety

anxiety

Autre Ne Veut er eins manns hljómsveit frá Brooklyn, New York. Eftir að hafa útskirfast með Masters gráðu í sálfræði ákvað hann að fara út í tónlistarbransann og nýta hann í að fá útrás fyrir kvíðaröskun. Anxiety er hans leið til að eiga við þá röskun. Textarnir á plötunni fjalla um að díla við fráfall náinna ættingja og að líða eins og utangarðsmanni í samfélaginu. Þau lög sem standa upp úr eru “Gonna Die”, “Counting” og “Ego Free, Sex Free”.

4. Tilbury – Northern Comfort

northern comfort

Tilbury átti bestu plötu ársins í fyrra, Exorcise. Það kom mér því á óvart að þeir skyldu senda frá sér nýja plötu strax ári seinna. Northern Comfort er frábrugðin eldri systur sinni. Hún er mun dimmari og drungalegri. Eins og sú fyrri er gott flæði í gegn um plötuna en hún nær ekki alveg sömu hæðum og Exorcise gerði. Engu að síður er hér fantagóð plata á ferð!

Textarnir fjalla um sambönd og samskipti kynjanna en þeir hljóma eins og þeir séu sungnir til ákveðinnar manneskju. Lög eins og “Turbulence”, “Transmission” og “Animals” standa upp úr á annars mjög heilsteiptri plötu.

3. Daft Punk – Random Access Memories

random access memories

Hversu oft á ég að lýsa yfir ást minni á þessari “hljómsveit”? Þessir menn eru náttúrulega lifandi snillingar. Random Access Memories skók heimsbyggðina eins og jarðskjálfti. Markaðssetningin var svo fullkomin að það vissi hvert einasta mannsbarn að Daft Punk var að gefa út nýja plötu. Bætum við monster-hittaranum “Get Lucky” og platan bara gat ekki klikkað.

Sem hún gerði ekki! Hún er að vísu nokkuð tormelt og þurfti nokkrar spilanir enda eru þeir að fara á nýjar slóðir. Á RAM fara Daft Punk með okkur í gegn um tónlistarsöguna og fá til liðs við sig nokkra af þeim tónlistarmönnum sem þeir hafa litið upp til í gegn um tíðina eins og t.d. John Williams og Giorgio Moroder. Bætum við nokkrum góðum vinum eins og Pharrell og Julian Casablancas úr The Strokes og úr verður meistaraverk.

2. Arcade Fire – Reflektor

reflektor

Ég var búinn að bíða allt árið eftir þessari plötu. Eins og ég hef áður sagt þá var það einn maður sem olli því – framleiðandinn James Murphy. Arcade Fire hafa alltaf gefið út góða tónlist, en að þessi blanda gat bara ekki orðið annað en epísk!

Reflektor er geðveik plata, mjög ólík því sem Arcade Fire hefur gert áður. Það má klárlega heyra LCD Soundsystem áhrifin í lögum eins og “Reflektor” og “Porno” en líka alls konar nýtt. “Here Comes The Nighttime” er til dæmis skrifað undir áhrifum frá Haítí, en söngkonan Regine Chassange á ættir sínar að rekja þangað. Þá er sterk skírskotun í gríska sagnabálka en tvö lög eru tileinkuð grísku harmsögunni af Orfeusi og Evridís, sem og plötuumslagið.

Í heildina litið alveg frábær plata!

1. Kanye West – Yeezus

yeezus

Ég get ekki annað en sett Yeezus með Kanye West á toppinn. Bæði er hún stórgóð og svo er hún bara sú mest spilaða hjá mér á þessu ári. Gögnin ljúga ekki.

Þessi plata er rosaleg. Ég man að eftir fyrstu hlustun fylltist ég viðbjóði, enda er orðbragðið og viðfangsefnið oft á tíðum ógeðslegt. En það var eitthvað sem fékk mig til að hlusta alltaf aftur og aftur, og svo aftur og aftur. Yeezus er mjög umdeild plata og hafa gagnrýnendur keppst við að annað hvort lofsama hana eða rakka niður. Textarnir koma frá hjartanu líkt og venjulega þegar Kanye á í hlut, hvar sem það hjarta kann að vera, og er einskonar uppgjör hans við fortíðina, frægðina og gremju vegna þess að vera ekki tekinn alvarlega.

Kanye hefur sjálfur verið áberandi á árinu, eignaðist barn með Kim Kardashian, veitti viðtal á BBC Radio 2 sem vakti mikla athygli og lennti í hatrammri orðræðu við Jimmy Kimmell í kjölfarið auk þess að úthúða Nike. En með afrakstur plötunnar getur hann verið ánægður því honum hefur tekist að hrista þokkalega upp í tónlistarheiminum.

“Blood On The Leaves”, “Bound 2”, “Hold My Liqour” eru allt góð lög, en annars er mjög erfitt að draga út eitt og eitt lag þar sem Yeezus er best notið sem ein heild.

—————————————————————————————————————————————-

Þar með líkur árslistinum fyrir árið 2013. Þeir urðu bara 2 á þessu ári, en ég kenni tímaleysi og framkvæmdum á baðherberginu um það. 

Gleðilegt ár!

hjaltitinna

Þessi árstími færir okkur svo mikið gott. Frábæran mat, nóg af fríi, samverustundir með vinum og ættingjum og síðast en ekki síst samantektir á því sem stendur upp úr á árinu.

Að vanda er ég búinn að vera að vinna í mínum topplistum fyrir tónlistarárið 2013 og er svona að detta niður á lokaniðurstöðurnar. Í fyrra gerði ég 3 lista – “Topp 10 bestu plöturnar“, “Topp 5 vonbrigði” og “Topp 5 Come-back“. Í ár ætla ég að aftur að gera 2-3 lista, fer eftir tíma og nennu. Byrjum á Topp 10 bestu lögum ársins.

Þetta var eiginlega erfiðasti listinn til að setja saman af því það er úr svo rosalega mörgu að velja. Ég ákvað, líkt og í fyrra, að vera ekki með sér-íslenska lista í ár þar sem mér finnst það ekki sanngjarnt. Íslensk tónlist er alveg á pari við erlenda og á að vera dæmd eftir því. Lögin eru ekki í neinni sérstakri röð, heldur endurspegla þau það sem virkilega stóð upp úr.

10. San Fermin – Sonsick

Alltaf detta Airwaves-sveitir inn á topplistana. Ég sá þau tvisvar á hátíðinni í ár. Þetta er ein af þessum hljómsveitum sem hefur fullt til brunns að bera, en eru ennþá að finna sinn hljóm, og platan þeirra ber keim af því. Lagið “Sonsick” var spilað á repeat í lok október í aðdraganda Iceland Airwaves. En þó lagið sé frábært er það þó sérstaklega þessi flutningur sem mér finnst stórkostlegur.

9. Pascal Pinon – Ekki vanmeta

Söngkonan úr Samaris er í annarri hljómsveit með tvíburasystur sinni. Sú ber nafnið Pascal Pinon og þær stöllur gáfu úr plötuna Twosomeness snemma á þessu ári. Þær eru líka þess heiðurs aðnjótandi að vera eina íslenska sveitin á þessum lista. Ég renndi plötunni í gegn og það var nú ekkert sem var mikið að grípa mig. Nema þetta lag sem mér finnst alveg frábært!

8. London Grammar – Strong

London Grammar á eina af betri plötum ársins í If You Wait. Það væri hægt að velja nokkur lög af þeim grip en “Strong” var það sem greip mig og var spilað á repeat – aftur og aftur og aftur. Heyrirðu ekki angistina í rödd söngkonunnar? Fallegt og gott.

7. On An On – Every Song

On An On var sú sveit sem ég var einna spenntastur fyrir á Airwaves í ár. Ég var búinn að hlusta á plötuna Give In allt árið og mætti í Hörpuna til að bera þau augum (og eyrum). Flutningurinn var æðislegur og ekki skemmdi fyrir að heyra þetta lag í lok tónleikanna. Fallegt melódískt ástarljóð skotið með synthum og rafmagnsgítar. Gerist ekki betra.

6. Blood Orange – Uncle Ace

Af einhverjum ástæðum er platan Cupid Deluxe að detta inn á mörgum topplistum. Ég get ekki skilið lægtin í kringum þessa plötu eftir að hafa rennt henni í gegn nokkrum sinnum. Það er hins vegar eitt lag á plötunni sem er gjörsamlega geðveikt og það er “Uncle Ace”. Rosalegt grúv í gegnum allt lagið en það er á mínútu 2:45 sem mann langar til að hoppa, kýla út í loftið og dansa af öllum lífs- og sálarkröftum. Og ég mæli með því að þú gerir það!

5. Arcade Fire – Reflektor

Þegar ég heyrði að James nokkur Murphy væri að framleiða nýju Arcade Fire plötuna þá fór sko um okkar mann. Fyrir þá sem ekki vita er James Murphy snillingurinn á bakvið LCD Soundsystem sem er mín allra uppáhalds hljómsveit. Svo heyrði ég Reflektor. Það er allt geðveikt við þetta lag. Í fyrsta lagi er það dansvænt að hætti Murphy, synthaskotið og poppað, með hljómi frá Arcade Fire og til að toppa allt þá syngur David Bowie bakraddir! Ef þú færð ekki gæsahúð á mínútu 4:44 þá ertu eitthvað skrítin/n.

4. Autre Ne Veut – Counting

Anxiety með Autre Ne Veut var ein fyrsta platan sem ég uppgötvaði með hjálp Spotify. Nýtum tækifærið og skellum í eitt HALLELÚJAH fyrir Spotify. “Counting” er lag nr. 2 á plötunni og fjallar um hræðslu höfundarins um að í hvert skipti sem hann heyrir í ömmu sinni þá sé það í síðasta skipti. Þó textinn sé ekki beint að halda uppi partýi getur tónlistin undir gert það. Þvílíkur slagari!

3. Kanye West – Blood On The Leaves

Það voru nokkur lög sem komu til greina af Yeezus. Sumir segja hana eitt mesta sorp sem hefur komið út síðustu ár, aðrir segja hana meistaraverk. Ég er í seinni hópnum. “Blood On The Leaves” byrjar í mixi af “Strange Fruit” með Billie Holiday, fer síðan yfir í rólegt auto-tune af Kanye, hækkar síðan upp í blástraundirspil áður en það endar í rosalegu versi þar sem hann ber saman skilnað milli karls og konu við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku. Þegar lagið er búið veistu ekki fyrir hvaða trukki þú lentir!

2. Arctic Monkeys – Do I Wanna Know?

Þetta lag er það besta sem Arctic Monkeys hafa gefið frá sér mjög lengi. “Do I Wanna Know?” fjallar um að reyna að ná aftur í elskhuga sem er farinn. Dimmur og þykkur bassi með djúpum rafmagnsgítar. Lagið tekur hvorki hæðir né dýfur en keyrir í gegn af þvílíku afli engu að síður. Verst að platan var ekki eins góð.

1. Daft Punk – Get Lucky

Þó að lögin á þessum lista séu yfir höfuð ekki í röð þá get ég samt nokkurn veginn sagt að þetta er langbesta lag ársins. Og þvílíkur monster-hittari! Nógu mörg orð hafa verið látin falla um Daft Punk, Random Access Memories og “Get Lucky”. Meðal annars hér á Hugrenningunum. Hlustaðu bara á lagið og dansaðu.

—————————————————————————————————————————————-

Það höfum við það. Bestu lög ársins 2013 að mínu mati. Eins og áður segir var gríðarlega erfitt að velja listann enda mjög margt mjög gott á árinu. Það var t.d. erfitt að skilja eftir fleiri lög með Kanye West og Arcade Fire. Að sama skapi voru nokkur íslensk lög sem duttu út við síðasta niðurskurð. En til gamans er hérna listinn sem ég var að vinna með. Hann telur 28 lög af öllum tegundum.

Við höfum öll farið á tónleika þar sem hljómsveitin gat varla haldið á hljóðfærunum sökum ölvunar. Flestir halda sér þó þurrum á meðan þeir taka upp tónlistarmyndböndin.

Tónlistarmyndbönd geta verið gríðarlega góð leið fyrir tónlistarmenn til að koma sér á framfæri. Flestir þekkja myndböndin hjá LMFAO sem gerðu ofurhittarann “Sexy and I Know It” (267 milljón áhorf) og svo auðvitað PSY karlinn sem gerði “Gangnam Style” (1,6 milljarður áhorfa). Þessi lög hefðu sennilega aldrei orðið jafn vinsæl og raun bar vitni nema af því tónlistarmyndböndin voru fyndin og fólk deildi þeim áfram.

Ég rakst á geðveikt fyndna tilraun hjá hljómsveitinni Moones þar sem þeir nýttu YouTube annotation virknina til fulls. Fyrir þá sem ekki þekkja þessa virkni þá er það í stuttu máli leið til þess að færa þig á milli myndbanda á YouTube. Þannig geturðu látið notandann skipta á milli myndbanda þannig að sagan breytist eða þá að þú hoppir inn í myndbandið frá öðru sjónarhorni. Þessi virkni hefur verið notuð á skemmtilegan hátt í hinum ýmsu herferðum til dæmis í Meira Ísland herferðinni hjá Símanum og svo í nýlegri herferð frá SUS fyrir kosningarnar í vor.

En þetta hérna myndband slær öllu út að mínu mati.

Hljómsveitin Moones ákvað að taka upp sama lagið, “Better Energy”, upp fimm sinnum og drekka 4 bjóra á mann á milli hverrar töku. Þannig 5 hljómsveitarmeðlimir drukku 16 bjóra á mann. Svo er hægt að fylgjast með því hvernig þeim gengur að fara með lagið eftir því sem svífur á mannskapinn með því að smella á 20, 40, 60 eða 80 bjóra.

Útkoman er alveg eins og maður býst við, undir lokin ráða þeir ekki við neitt og eru fullkomlega út úr heiminum. Það er betur hægt að fylgjast með þróuninni á ástandinu hjá þeim með því að horfa á “Making of” myndbandið.

Ég er kannski ekki að mæla með að hljómsveitir drekki sig haugafullar og bjóði fólki að horfa á, en þetta er allavega ein leið til að nýta tæknina til að koma sér á framfæri.

daftpunk3

Nú er ég spenntur.

Þann 21. maí verður nýjasta plata franska rafdúettsins Daft Punk gefinn út. Gripurinn ber nafnið Random Access Memories og er fyrsta stúdíóplata þeirra Guy-Manuel de Homem Christo og Thomas Bangalter síðan Human after all árið 2005. Þeir hafa þó ekki setið auðum höndum því í millitíðinni hafa fóru þeir á Alive tónleikarferðalegið (besta live plata ever?) og stjórnuðu heilli sinfóníusveit í bland við elektró þegar þeir gerðu tónlistina fyrir myndina Tron: Legacy.

Daft Punk er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum. Discovery platan var ein sú mest spilaða á meðan ég var í menntaskóla og hún opnaði í raun glufuna á það að ég fór yfir höfuð að hlusta á danstónlist. Ég er því búinn að fylgjast með Daft Punk lengi þannig ég er alltaf spenntur fyrir nýju efni frá þeim.

Það sem er ennþá skemmtilegra að fylgjast með, fyrir svona nörda eins og mig, er öll markaðssetningin í kringum útgáfuna. Hún er eiginlega case study útaf fyrir sig. Ég hef bara aldrei séð annað eins.

Í febrúar uppfærði Daft Punk heimasíðuna sína og vísuðu á hana á Facebook síðu sveitarinnar. Í kjölfarið trylltist internetið. Daftpunk.com hrundi og Twitter-inn logaði af sögum um að Daft Punk væri að fara að gefa út nýtt efni. Tilkynningin var þó ekki alveg svo stór, heldur voru Frakkarnir tveir að tilkynna að þeir hefðu skrifað undir hjá plötuútgefandanum Colombia. Þetta var 26. febrúar.

daftpunk2

Fljótlega bættust við sjónvarpsauglýsingar í kringum Saturday Night Live þættina. Þær byrjuðu frekar dularfullar en hafa verið að afhjúpa meira og meira varðandi plötuna eftir því sem vikurnar líða.  Svona var fyrsta auglýsingin:

Þann 24. mars fór svo markaðsvélin í gang af alvöru. Þá var tilkynnt nafn á nýrri plötu og vísað á sérstaka slóð – randomaccessmemories.com.

Í kjölfarið fóru að birtast myndbönd á YouTube undir nafninu The Collaborator Series. Þar er talað við hina ýmsu aðila sem koma að plötunni. Þegar þetta er skrifað hafa birst 4 viðtöl við Giorgio Moroder, Todd Edwards, Nile Rodgers og Pharell Williams. Mér finnst Moroder áhugaverðastur enda einn af frumkvöðlum raftónlistar á sínum tíma. Hann vann meðal annars mikið með Donnu Summer.

Þessir þættir hafa dúkkað upp út um allt! Á tónlistarbloggum, fréttasíðum, á Twitter og síðast en ekki síst í fréttaveitunni á Facebook. Eftirvæntingin virðist vaxa með hverju myndbandi.

Nú síðast var stönt á Coachella hátíðinni í Bandaríkjunum, einni stærstu tónlistarhátíð í heiminum. Á milli atriða kviknaði á risaskjánum og 90 sekúndna trailer fyrir plötuna fór í gang. Fólk greip að sjálfsögðu snjallsímana, tók myndir og myndbönd og tjáði sig á netinu og um leið var Daft Punk orðið eitt umtalaðasta efnið á Twitter. Í þessum trailer var listinn af samstarfsmönnum kunngjörður en þar er til dæmis að finna Julian Casablancas, söngvara The Strokes, Giorgio Moroder, Todd Edwards, Nile Rodgers og Pharell Williams sem ég taldi upp áðan, ásamt fleirum. Núna, 5 dögum síðar, er búið að spila þennan trailer 1,5 milljón sinnum!

Það áhugaverða er að það hefur ekki eitt lag lekið út eða farið í spilun. Venjulega senda hljómsveitir frá sér smáskífur til að vekja athygli á nýjum plötum en ekki Daft Punk. Þeir senda bara frá sér smá hluta úr lagi, sem gerir mann alveg brjálaðan af því mann langar að heyra nýtt efni!

En bíðum við. Það sem hefur gerst er að nú eru fjöldinn allur af myndböndum og lögum á netinu þar sem plötusnúðar um allan heim eru búnir að taka þessi litlu brot og mixa saman. Það er ekki hægt að hlusta á heila útgáfu af laginu ennþá, en þú getur hlustað á “hugsanlega” útgáfu. Og á meðan eru allir að tala um Daft Punk!

Það sem þeir hafa líka gert svo rosalega vel eru allir þessir “teaser-ar”. Dularfull auglýsing á besta tíma í bandarísku sjónvarpi. Óvæntur trailer á Coachella. Viðtöl við samstarfsmenn sem lýsa því hversu frábær þessi plata er. Þetta á allt þvílíkan þátt í því að eftirvæntingin eykst og umtalið sömuleiðis. Daft Punk er allsstaðar!

Ég hef allavega sjaldan verið jafn spenntur fyrir nokkurri plötu. Ég er búinn að kaupa vínylinn í forsölu og stafræn útgáfa fylgir með, þannig ég fæ hana strax og hún kemur út. Þangað til getur verður maður bara að bíða eftir næsta þætti af Collaborator Series.

Já ég ákvað að nota dramatískan titil þar sem það er langt síðan ég bloggaði. Datt í hug að það myndi kveikja í fólki og vekja áhuga á að smella á hlekkinn og lesa færsluna.

Hljómur vorsins gæti verið fuglasöngur, hann gæti verið hlátur í börnum sem eru loksins farin að geta leikið sér úti án þess að frjósa í hel, frambjóðendur í kosningaham, eða það gætu verið strákarnir sem spila körfubolta fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér á kvöldin.

Nei, eftir hina dimmu og þöglu vetrarmánuði janúar og febrúar er allt í einu farið að lifna yfir plötuútgáfu. Með vorinu fara nefnilega aftur að koma út plötur. Hingað til hafa komið út plötur með nokkrum stórstjörnum. Til dæmis gaf David Bowie út sína fyrstu plötu í 10 ár sem kom skemmtilega á óvart, Depeche Mode kom með frekar slaka plötu og Íslandsvinurinn John Grant gaf út frekar skrítna plötu þar sem John Grant er blandað saman við GusGus.

En það sem ég er að hlusta á þessa dagana er:

The Knife – Shaking the Habitual

Ég var búinn að bíða eftir þessari plötu lengi. Sænsku systkinin í The Knife gáfu síðast út hina stórgóðu Silent Shout árið 2006. Shaking the Habitual kom út í síðustu viku og ég er búinn að renna henni í gegn 3-4 sinnum. Hún er mun þyngri en sú síðasta og svolítið erfið í meltingu. Ég mæli samt með að þú sækir hana því mig langar að heyra skoðun annarra. “A tooth for an eye” var eitt fyrsta lagið sem heyrðist af henni og með fylgdi þetta stórskemmtilega myndband.

Nick Cave & the Bad Seeds – Push the sky away

Hörkugóð plata frá Cave-aranum. Ég er tiltölulega nýbyrjaður að hlusta á Nick Cave enda er það ekki létt verk að demba sér í tónlistarmann sem er með rúmlega 30 ára feril og hefur gefið út fleiri en 15 plötur. Push the sky away er stórgóð plata þar sem farið er yfir allt frá gleðikonunni Bee á Jubilee Street yfir í Higgs boðeindina. Hún er róleg en lög og textar alveg frábærir.

Urban Cone – Our Youth

Urban Cone er sænsk rafpoppsveit sem gaf út sína fyrstu plötu, Our Youth, á síðasta ári. Platan er uppfull af hressu rafpoppi sem alveg smellpassar við hækkandi sól og hlýnandi veður. Urban Cone er eins af þessum hljómsveitum sem þú spilar helst bara á fimmtudögum og föstudögum þegar helgin er nærri. “We should go to France” og “Searching for silence” eru lögin sem þú ættir að leita að á YouTube en líka lagið “Freak”.

Justin Timberlake – The 20/20 Experience

Þessi maður og þessi plata eru efni í heila færslu. Justin er orðinn fullorðinn. Karlinn er búinn að gifta sig og er orðinn fjárfestir. Það vill svo til að tónlistin virðist hafa þroskast með honum. Klúbbahittarar eins og “SexyBack” og “Summer love” eru farnir en í staðinn eru komnar poppballöður eins og “Mirrors” og “That girl”….og ég er að fílaða. Diskurinn er frábær og hefur farið nokkrar ferðir í gegn um heyrnartólin hjá mér á síðustu vikum.

Er ég að missa af einhverju?

%d bloggers like this: