Archive

Monthly Archives: January 2012

Það verður mikið um dýrðir í Indianapolis 5. febrúar þegar Superbowl XLVI (46 fyrir þá sem ekki tala rómversku) fer fram. Þar mætast mín lið, New York Giants og New England Patriots, en í tvö ár átti ég heima í klukkutímafjarlægð frá Giants Stadium í New York og svo í klukkutímafjarlægð frá Gillette Stadium í eitt ár. Ég hef samt alltaf haft meiri taugar norður til New England, þannig ég eiginlega vona að Tom Brady stýri sínum mönnum til sigurs.

En ég ætla ekki að tala um ruðning við ykkur, enda er amerískur fótbolti ein sú leiðinlegasta íþrótt sem til er að horfa á í sjónvarpi. Superbowl er nefnilega gósentíð hjá auglýsendum í Bandaríkjunum. Auglýsingapláss í hálfleik er nefnilega dýrasta pláss ársins, enda nærðu þannig inn á flestöll heimili í Bandaríkjunum. Þannig hefur skapast rík hefð að fyrirtæki leggi aðalpúður ársins í auglýsingar á þessum árstíma, sem eru svo frumsýndar í hálfleik á meðan Superbowl stendur. Sagt er að hvert 30 sekúndna pláss í hálfleik hafi kostað um 3 milljónir dollara, eða um 370 milljónir króna!

Manían í kringum auglýsingarnar er meira að segja það mikil að nú eru farin að birtast “teaser” auglýsingar til að hita upp fyrir daginn sjálfan. Hér bregður Matthew Broderick bregður sér aftur í gervi Ferris Bueller í 10 sekúndna klippu sem enginn vissi hver borgar fyrir. Í dag kom svo í ljós að það var Honda sem stendur á bakvið þetta stunt, með margar tilvísanir í myndina sjálfa. Smelltu hér til að sjá alla auglýsinguna.

Partýið byrjar svo daginn eftir hjá okkur sem sitjum annarsstaðar í heiminum og fylgjumst með erlendum bloggsíðum taka saman allar þessar frábæru auglýsingar sem birtust kvöldið áður. Hér eru nokkrar af auglýsingum síðasta árs.

Volkswagen – The Force

The Force var valin auglýsing ársins 2011 af Adweek.

Chrysler – Imported from Detroit

Chrysler ákvað að fara í samstarf með Eminem í þessari auglýsingu. Mjög flott concept sem dregur fram vörumerkið Detroit jafn mikið og Chrysler vörumerkið.

Best Buy – Buy back program

Best Buy fékk gamla brýnið hann Ozzy Osbourne til að skilja ekki tækni (sem hann gerir örugglega ekki) og Justin Bieber til að vera mótvægi við hann í þessari skemmtilegu stiklu.

Coca Cola – Open happiness

Coca Cola hélt áfram með ævintýraþemað sitt.

Ég býð allavega spenntur að sjá hvað auglýsendur heimsins færa manni á árinu 2012.

“Stop trying to sell people facts and start telling them stories”
-Seth Godin

Ég er mikill aðdáandi Seth Godin, eins og ég hef sagt áður. Hann er með flottar hugmyndir sem hann lætur í ljós á blogginu sínu og svo hefur hann líka skrifað fjöldan allan af bókum. Persónulega finnst mér hann vera betri bloggari en rithöfundur en það breytir því ekki að margt af því sem hann segir er mjög flott.

Ég er búinn að vera að hlusta á bókina hans All Marketers are Liars og mér finnst hún sú besta af þeim sem ég hef lesið/hlustað á eftir hann. Ástæðan er sú að ég er sammála hverju orði í henni! Í bókinni talar Seth um að markaðsfólk er allt of upptekið af staðreyndum um vörurnar sem það er að reyna að selja. Fólki er alveg sama um staðreyndirnar! Það vill vita hvað varan gerir fyrir það! Það kaupir söguna sem þú segir því, ekki vöruna sjálfa. Tökum dæmi:

Starbucks selur kaffi. Kaffið þar er rándýrt, en samt er þetta vinsælasta kaffihúsakeðja í heimi. Er það af því kaffið er svona rosalega gott? Kannski. En er það 3x betra en á næsta stað? Varla. Farðu inn á hvaða Starbucks stað í heiminum og allt er útpælt. Þar er sögð saga af því hvaðan kaffið kemur, stærðirnar heita framandi nöfnum, tall, grande o.s.frv. í stað þess að heita small eða medium. Fólk velur Starbucks vegna þess að því finnst gaman að koma þangað. Staðurinn hefur eitthvað með sjálfið að gera og hvernig okkur líður með sjálf okkur. Ef stofnendur Starbucks væru bara að selja “kaffi” þá væri vörumerkið ekkert örðuvísi en sjoppan á næsta horni. Fólk fer ekki á Starbucks til að kaupa kaffi, það er að kaupa Starbucks.

Skilurðu hvert ég er að fara? Tökum annað nærtækara dæmi:

Hefurðu borðað á Hamborgarafabrikkunni? Simmi og Jói eru ekki að selja hamborgara. Þú getur fengið hamborgara með bernaise sósu næstum því hvar sem er. Staðurinn býr til sögu – maturinn, tónlistin, matseðillinn, Blákolla í horninu, bronsstyttan af Rúnari Júl. Það er ástæðan fyrir að fólk kemur aftur og aftur. Maturinn er svo bara bónus. Það eru seldir fínir hamborgarar út um alla Reykjavík, en sagan sem Fabrikkan hefur að segja hefur þau áhrif að okkur langar þangað aftur.

Sagan sem þú þarft að segja er það sem lætur þig standa upp úr. Ef þú stendur upp úr muntu vinna þér inn forskot umfram samkeppnisaðila þína, sem skilar sér í meiri sölu. En nú kemur erfiði hlutinn. Það geta allir sagt sögu og unnið sigra til skamms tíma litið. Þegar fólk heyrir söguna þína og trúir henni þá verðurðu að standa við hana. Þú getur logið upp alls konar hluti, unnið inn fullt af viðskiptum en það mun alltaf koma í hausinn á þér til lengri tíma litið. Passaðu þig á að lofa ekki upp í ermina á þér. Vertu ekta, vertu stöðug(ur) og segðu þina sögu. Þetta á við um allt, sama hvort þú sért að selja vöru, miða á tónleika, vinna þér inn atkvæði í kosningum eða safna peningum fyrir góðgerðarmál.

Hættu að segja staðreyndir, fólki er alveg sama. Segðu því sögur og þá fer það að tala um þig. Horfðu á þetta í samhengi við þitt vörumerki. Ertu að selja tölvur? Fólki er sama um örgjörva og gígabæt. Það vill vita hvað tölvan gerir fyrir það. Ertu að selja hugbúnað? Segðu frá hversu miklu þægilegri vinna fólks er með þessum hugbúnaði, hvað getur gert með tímann sem hann sparar.

Hvað ert þú að selja? Segðu mér sögu.

Flestir Íslendingar hafa verið límdir við sjónvarpsskjáinn síðustu vikuna að fylgjast með Strákunum okkar úti í Serbíu. Í fyrsta lagi langar mig til þess að vekja athygli á því hversu frábær árangur mér þykir það að ná á stórmót trekk í trekk með landslið frá 300 þúsund manna skeri norður í rassgati. Strákar þið eruð hetjur og eruð landi og þjóð til sóma.

Í öðru lagi langar mig til að kvarta yfir hversu illa er haldið utan um útsendingar frá EM í Serbíu. RÚV hefur væntanlega unnið ötullega að því að fá sýningarréttinn yfir til sín aftur, eftir að 365 vann síðasta útboð um HM  í Svíþjóð á síðasta ári. Allt gott og blessað að þjóðin fái að fylgjast með því sem strákarnir eru að gera. Landsliðið er jú auðlind í þjóðareigu og allt það. Við borgum fyrir RÚV í gegn um skattana okkar og ættum því að sjálfsögðu að fá að njóta þess að horfa á landsliðin okkar keppa. Eða hvað? Þarf þetta að vera annað hvort eða?

Sýnt var frá heimsmeistaramótinu í Svíþjóð á síðasta ári á Stöð 2 Sport. Fyrir leik var Þorsteinn Joð með upphitunarþátt þar sem talað var við ýmsa spekinga eins og Geir Sveinsson, Loga Geirs og Hafrúnu Kristjánsdóttur. Þátturinn var yfirleitt um klukkutími, þar sem talað var um andstæðingana, þeirra leikur greindur og spáð fyrir um okkar leik. Eftir leik var umfjöllunin í svipuðum dúr, klukkutíma þáttur leikurinn greindur, farið yfir næstu leiki og hvað var framundan. Umfjöllunin var vönduð og góð og vel að henni staðið.

Núna árið 2012 eru leikirnir sýndir á RÚV. Útsending hefst stuttu fyrir leik, það er rétt farið yfir málin og svo er skipt út til Serbíu. Að leik loknum er smá umfjöllun, 1-2 leikatriði greind og spiluð viðtöl við strákana eftir leik – ef tími gefst til! Á föstudaginn töpuðum við því miður 34-32 gegn Slóveníu og eftir leikinn beið ég í ofvæni eftir að heyra hvað strákarnir höfðu að segja um tapið. Það rétt vannst tími til þess að tala við Guðmund landsliðsþjálfara og svo þurfti að skipta í hálftíma fréttatíma, fylgt eftir með hálftíma Kastljósi, svo fengum við að sjá seinni hálfleikinn af leiknum á milli Króatíu og Noregs (sem var mjög mikilvægur fyrir okkur) og svo var farið beint í Útsvarið, því ekki má landinn missa af uppáhaldsspurningaþættinum. Á meðan þessu stendur er heil handboltastöð í gangi sem sýnir ekkert! Þetta er alveg til skammar finnst mér! Stöð 2 gerði þetta svo 100 sinnum betur í fyrra að það er ekki fyndið!

Mín skilaboð til RÚV eru þessi: Gerið þetta almennilega eða sleppið þessu! Ef ekki er í boði að hliðra dagskránni nýtið ykkur þá plúsrásirnar, eða þessa blessuðu EM rás sem var sett upp sér fyrir þetta mót.

Það virðist vera einhver mýta í gangi með að það að sýna frá handboltalandsliðinu á Ríkissjónvarpinu þjóni hagsmunum almennings. Það er einfaldlega della ef það er ekki vel gert. Í fyrra sýndi Stöð 2 meirihlutann af leikjum íslenska landsliðsins í opinni dagskrá. Það er hægt að bæta um betur og sýna þá alla í opinni dagskrá, en læsa umfjölluninni og öðrum leikjum. Þá myndu handboltasjúklingar kaupa sér áskrift en hinir rólegri gætu horft á leikinn sjálfan. Þetta er auðveldlega hægt að gera með því að selja kostun til íslenskra fyrirtækja. “Arion banki færir þér landsliðið”, “Össur færir þér Strákana okkar”, “Grímur kokkur færir þér öll mörkin í Serbíu”. Svo þar sem öll augu landsins væru límd við skjáinn er hægt að rukka meira fyrir hverja sekúndu í auglýsingaplássinu. Einfalt, allir sjá landsliðið, Stöð 2 fær áskrifendur og RÚV greiðið ekki morðfjár af skattpeningum fyrir útsendingu sem væri annars sinnt með hangandi hendi. Allir græða.

En þar sem maður á alltaf að vera jákvæður í garð landsliðsins, þú útsendingarnar séu ekki eins og maður vill, þá ætla ég að enda þetta á jákvæðu nótunum. Áfram strákar, þið takið þessa Frakka og Spánverja! Og ef ekki, þá er það allt í lagi líka!

Eftirfarandi pistill er grein sem ég skrifaði fyrir tímaritið Kavalér. Ritið er gefið út á netinu mánaðarlega og er stílað inn á karlmenn á öllum aldri. Efni þess er allt frá bíómyndum yfir í bíla. Auk greina um dægurmál, stjórnmál og heimsmálin. Ég mæli með að allir lesendur kíkið á blaðið á www.kavaler.is.

Hvernig myndi þér lýtast á ef Reykjavíkurborg myndi banna allar auglýsingar utandyra? Ég er að tala um allar auglýsingar, strætóskýli, húsveggir, flettiskilti, leigubílar o.s.frv. Hugleiddu spurninguna í smá stund áður en þú gerir upp hug þinn. Vissulega yrði umhverfið látlausara og þú gætir gengið um miðbæinn óáreyttur fyrir auglýsingum frá 66°norður, enda virðist fyrirtækið eiga öll pláss í 101. Neikvæða hliðin er sú að fyrirtæki ættu erfiðara með að vekja á sér athygli og borgin yrði af tekjum þar sem hún leigir út plássin. Þannig þetta yrði aldrei samþykkt, eða hvað?

Copyright Tony de Marco

Sao Paulo er stærsta borgin í Brasilíu og sjöunda fjölmennasta borg heims. Árið 2007 voru allar auglýsingar utandyra bannaðar í borginni. Í dag, 5 árum seinna, er bannið ennþá í gildi og nýtur stuðnings um 70% íbúa. Hvernig var þetta samþykkt? Hér er borg sem er stærri en New York City og það er bannað að auglýsa utandyra! Þetta er fyrsta borgin í vestrænu ríki sem bannar slíkar auglýsingar, en hingað til hefur það bara þekkst í ríkjum kommúnismans.

Sagan er þannig að borgarstjórinn Gilberto Kassab fór í stríð við mengun – vatnsmengun, loftmengun, hljóðmengun og sjónmengun. Hann vildi hreinsa borgina og byrjaði á sjónmenguninni. Lögin hétu „Lei ciade limpa“ sem þýðist sem „Hreinsum borgina lögin“. Sao Paulo var troðin af auglýsingum og allsstaðar voru auglýsingaskilti bæði á skýjakljúfum og á verkamannablokkum. Ástandið var orðið þannig að helmingurinn af skiltum í borginni var settur upp án leyfis, enda sömdu fyrirtæki við fátæka húseigendur sem að sjálfsögðu gáfu grænt ljós.

Viðbrögð

Copyright Tony de Marco

Sagan er þannig að borgarstjórinn Gilberto Kassab fór í stríð við mengun – vatnsmengun, loftmengun, hljóðmengun og sjónmengun. Hann vildi hreinsa borgina og byrjaði á sjónmenguninni. Lögin hétu „Lei ciade limpa“ sem þýðist sem „Hreinsum borgina lögin“. Sao Paulo var troðin af auglýsingum og allsstaðar voru auglýsingaskilti bæði á skýjakljúfum og á verkamannablokkum. Ástandið var orðið þannig að helmingurinn af skiltum í borginni var settur upp án leyfis, enda sömdu fyrirtæki við fátæka húseigendur sem að sjálfsögðu gáfu grænt ljós.

Í byrjun mætti lagasetningin mikilli andstöðu, þá sérstaklega úr auglýsingaheiminum og frá stórfyrirtækjum. En í gegn fóru þau engu að síður og halda ennþá 5 árum síðar. „Ætlunin var alls ekki að banna auglýsingar að eilífu“, segir Kassab, „heldur bara að hreinsa til.“ Bannið er bara það vinsælt í dag að það þykir ekki ástæða til að afnema það. Þeir sem mótmæltu því mest voru fyrirtæki sem sjá um að setja upp auglýsingaskilti, en þar var atvinnugeiri sem var þurrkaður út á einu bretti.

Þegar bannið var sett á var fyrirtækjum gefinn þriggja mánaða aðlögunarfrestur og eftir það var dagsektum beitt. Borgaryfirvöld náðu á næstu mánuðum inn um 8 milljónum dollara í tekjum af sektum þangað til allar auglýsingarnar voru komnar niður. Við blasti ófögur sjón. Byggingarnar voru ljótar og illa við haldið, enda voru húseigendur ekkert að flýta sér að laga skemmdir sem huldar voru með auglýsingum. Einnig komu félagsleg vandamál í ljós þar sem komumst upp um ólöglega innflytjendur sem bjuggu í íbúðum fyrir ofan vinnustaði, allt hulið af auglýsingaskiltum. Í dag er búið að hreinsa til í borginni, laga skemmdir á húsum, mála þau og úr varð falleg borg með klassískri byggingalist sem fær að njóta sín.

En hvað gera fyrirtækin?

Copyright Tony de Marco

Helstu rökin gegn banninu komu úr auglýsingageiranum. Fyrirtæki höfðu áhyggjur af því að missa viðskipti og hafa ekki möguleika á að vekja á sér athygli. Það er samt ótrúlegt að sjá hversu ört þetta var að breytast. Með „Hreinsum borgina“ lögunum var borgin í alvörunni hreinsuð. Þar sem fólk í auglýsingabransanum eru einnig íbúar í Sao Paulo, geta þau ekki verið annað en fylgjandi hreinni borg. Og fyrir vikið hefur það þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Brasilískar auglýsingastofur eru þekktar út um allan heim sem með þeim fremri í markaðssetningu á netinu. „Guerrilla markaðssetning“ er mjög algeng og þá eru fyrirtæki virk í því að vera með allskonar uppákomur og gjörninga, sem hjálpar borginni að vera ennþá meira lifandi og skemmtileg. Núna fá listir og menning að njóta sín í stað auglýsinga.

Að auki hafa fyrirtæki tekið eftir því að peningum er alls ekki best varið í skilti og útiauglýsingar. Brasilískir neytendur eru mjög virkir á samfélagsmiðlum og landið hefur t.d. eitt hæsta hlutfall Twitter notenda í heiminum. Þannig eru fyrirtæki að ná miklu betri árangri með vel útfærðum herferðum á netinu heldur en þau voru að ná með útiauglýsingum, fyrir svipaðar fjárhæðir.

Hvað finnst þér?

Þetta dæmi sýnir að fyrirtæki geta vel þrifist án þess að merkja sig út um allan bæ. Heldurðu að 66°norður myndi líða fyrir það ef því yrði bannað að leggja undir sig miðbæinn? Kannski, kannski ekki. Hver er þín skoðun? Er þetta eitthvað sem Reykjavíkurborg ætti að skoða eða truflar umhverfisgrafík og útiauglýsingar þig ekki neitt? Hugleiddu spurninguna.

Hér er stutt heimildarmyndband, tekið nokkrum mánuðum eftir að bannið var sett á. Fleiri myndir má sjá hér.

Ég náði loksins að klára bókina The New Rules of PR and Marketing eftir David Meerman Scott í síðustu viku. Ég er búinn að vera að lesa hana síðan í haust en náði aldrei neitt áfram vegna anna. Þannig ég tók mig til yfir hátíðirnar og kláraði kvikyndið. Þetta er frábær bók fyrir þá sem vilja auglýsa sig á internetinu, sérstaklega ef þeir eru nýir inn á þann markað.

David Meerman Scott hefur áratugareynslu úr markaðsheimum. Hann hefur verið markaðsstjóri í stórum B2B fyrirtækjum, unnið sem verðbréfamiðlari en hefur núna síðustu ár unnið fyrir sér sem rithöfundur og fyrirlesari út um allan heim.

Í bókinni tekst Scott á við það sem hann kallar hefðbundna markaðssetningu og ber hana saman við nýju reglurnar sem gilda. Hann talar um mikilvægi þess að vera sýnilegur á netinu og gera það rétt. Til dæmis bara með því að hafa allar fréttatilkynningar þannig upp settar að leitarvélar eigi auðvelt með að finna þær. Annað einfalt dæmi er að vakta umræðu á samfélagsmiðlum og geta þannig brugðist við neikvæðri umfjöllun.

Hefðbundin markaðssetning er auglýsingagerð fyrir sjónvarp, dagblöð, útvarp og slíka miðla. Á meðan hún er ennþá gríðarlega mikilvæg í markaðsstarfi fyrirtækja þá er netið alltaf að koma meira og meira inn, þetta þarf ekki að segja neinum. Gallinn er bara að þeir sem eru vanir þessum hefðbundnu miðlum reyna oft að heimfæra sömu reglur yfir á internetið. Það á því miður ekki við, þar sem eðli miðilsins er bara allt annað. Þannig eru bestu markaðsherferðirnar þær sem samnýta nýmiðla og samfélagsmiðla.

Hér eru nokkur dæmi um netmarkaðssetningu upp úr bókinni sem fyrirtæki og markaðsfólk ættu að íhuga betur:

Blogg

Blogg er alltaf að verða vinsælla meðal fyrirtækja. Þar er hægt að segja frá því sem er að gerast í fyrirtækinu, útskýra vöru, auglýsa, eða segja frá. Þó verð ég að segja að mér finnst skrítið hversu lítið er um íslenskar fyrirtækjabloggsíður. Það eru helst fjarskiptafyrirtækin og sprotafyrirtæki sem eru að blogga. Ég væri til dæmis til í að sjá bílablogg frá Heklu, bjórblogg frá Ölgerðinni, eða orkublogg frá Landsvirkjun. Þá finnst mér fáránlegt hversu fáar auglýsingastofur eru að blogga. Eftir því sem ég veit er Jónson & Le’macks eina stofan.

Blogg er frábær miðill til að vinna traffík inn á síðuna hjá þér, enda ertu að vinna þér inn prik hjá Google með því að uppfæra síðuna stöðugt, og kemur þannig ofar í leitarvélaniðurstöðum. Eins er blogg mjög þægileg leið til að sýna hvað er að gerast í fyrirtækinu. Þá nota ég blogg í minni vinnu til að segja sögu af vörum sem eru nýjar. Textinn sem ég skrifa þá er kannski aðeins of langur til að komast inn á sölusíður en bloggið er einmitt frábær vettvangur til að koma með leiðbeiningar og útskýringar.

Heimasíður

Heimasíðan þín á ekki að snúast um flottheit. Það er öllum sama um hvernig heimasíðan þín lítur út ef það er erfitt að finna upplýsingar á henni. Síðan á að vera byggð fyrir um viðskiptavini þína og með það í huga að leiða þá í gegn um kaupferlið. Þetta leiðir til þess að þeir verða ánægðari fyrir vikið þar sem síðan er auðveld í notkun og upplýsingarnar sem þeir leita að eru á reiðum höndum. Þú verður ánægðari því þetta skilar þér meiri tekjum í gegn um vefinn þinn.

PR eða almannatengsl

Það er alltaf frábært að minnst á nafn fyrirtækis síns á Mbl.is, nú eða í sjónvarpsfréttunum. Það höfðar vel til hégómagirndarinnar og manni finnst maður hafa fengið góða auglýsingu. En hverjir eru að hlusta? Scott færir rök fyrir því að oft er betra að fyrirtæki þitt eða vörumerki að vera í góðu sambandi við bloggara á sínum markaði heldur en að vera getið í fréttunum. Af hverju? Nú vegna þess að ef hátt virtir bloggarar á þínum markaði eru að tala um hvað þú ert að gera góða hluti, þá er virkilega hlustað á það, af fólkinu sem þú virkilega vilt ná til. Þannig er mikilvægt að eiga í allavega jafn góðu sambandi við óháða vefpenna og hæst virta blaðamenn.
————————————————————————————————————

The New Rules of PR and Marketing hefur selst í milljónum eintaka út um allan heim, allt án þess að höfundurinn hafi eitt krónu í venjulega markaðssetningu. Daginn sem hún var tilbúin sendi hann eintak á 300 þekkta bloggara og bað þá um að lesa hana og gefa sér athugasemdir. Seth Godin tók hana og lofaði á blogginu sínu, þá fór boltinn að rúlla.

Bókin er umdeild, en hún er að fá allt frá 5 stjörnum niður í 1. Mörgum finnst hún þunn og bæta litlu við í markaðsflóruna. Ég er því ósammála. Ég var búinn að lesa mér mikið til um markaðssetningu á netinu og samfélagsmiðla þegar ég byrjaði á bókinni en mér fannst hún engu að síður bæta miklu við. Höfundurinn er með bloggsíðuna www.davidmeermanscott.com og er virkur á Twitter undir nafninu @dmscott. Ef þú vilt kynnast bókinni betur mæli ég með þessari e-book, en hún er einskonar útdráttur á PDF formi. Þú getur sótt hana hér.

Ég mæli með þessari bók fyrir alla sem eru að feta sig áfram í markaðssetningu á netinu. Hún hentar sérstaklega vel fyrir fólk í eigin rekstri sem hefur ekki endilega efni á því að nýta sér hefðbundnu miðlana. Hún er full af dæmisögum, allt frá kosningabaráttu Barack Obama niður í indý hjólreiðabúðir. Kauptu nýjustu útgáfuna, t.d. frá Amazon, þar sem internetið hefur breyst mikið frá því sú fyrsta kom út árið 2007. Lestu þessa og sjáðu hvað þú getur gert á netinu.

Tumblr fyrir Android

Flestir sem hafa lesið hugrenninga frá mér þekkið sjálfsagt Twitter. En það eru því miður færri sem virðast þekkja Tumblr. Tumblr.com er síða sem hefur náð mikilli dreifingu í Bandaríkjunum. Hún er þeim eiginleikum gædd að mjög auðvelt er að deila hlutum, hvort sem það er myndband, textafærsla, infógraf eða eitthvað allt annað. Hver er þá munurinn á Tumblr og Facebook, Blogger, Twitter og öllum hinum samfélagsmiðlunum. Ég horfi á þetta svona: ef Twitter er örblogg og WordPress er blogg þá myndi ég segja að Tumblr væri eitthvað akkurat þar á milli. Það er nefnilega svo rosalega auðvelt að deila á Tumblr og það kemur í svo þægilegri tímalínu. Tumblr snýst meira um myndefni heldur en venjulegar bloggsíður og hentar því mjög vel í svona myndablogg, betur en t.d síður eins og Blogger. Skoðið Tumblr-inn hjá mér til að sjá hvað ég er að meina

Tumblr er til dæmis með frábært snjallsímaforrit sem gerir deilingu í rauntíma svona líka þægilega. Eins er skemmtilegt að deila myndum þar til að sjá þær á í tímalínu, frekar en t.d. á Facebook þar sem allt blandast saman, myndir af fjölskyldunni, stöðuuppfærslur og annað. Þá er Tumblr skemmtileg síða til að benda inn á, hvort sem það er af Facebook eða Twitter eða hvað. Tumblr er líka með svona fítus eins og Twitter að þú getur “elt”  (e. follow) hvern sem er, þannig ef þú finnur einhvern með áhugaverða síðu, þá eltirðu hann og uppfærslur frá honum munu koma upp í svona “newsfeed”.

Eins og ég segi þá er þetta skemmtilegur miðill með marga möguleika. Þegar slíkur miðill stekkur fram á sjónarsviðið er gaman að skoða hvernig vörumerki nýta sér hann til að koma sér á framfæri. Við skulum líta á nokkur dæmi.

Barack Obama

Obama hefur hafið endurkjörsherferð sína af krafti. Hann ætlar sér að nýta samfélagsmiðlana til fulls og er á Twitter, Tumblr, Foursquare og á fleiri miðlum, til að ná til sem flestra. Tumblr síðan hjá honum er skemmtileg og lifandi og sýnir forsetan í nýju ljósi. Efsta myndin í dag er til dæmis af honum með hundinn sinn. Með þessari síðu er Obama að gera sig miklu aðgengilegri fyrir kjósandann. Kjósandinn gefur sitt atkvæði að öllum líkindum þeim frambjóðanda sem honum líkar best við. Á Tumblr er hann að ná til ákveðins hóps og hefur þetta mælst vel fyrir.

Mashable

Mashable fréttaveitan er með Tumblr síðu en hún er ekki notuð í að vísa inn á fréttir af síðunni eða vekja athygli á því sem er í gangi á síðunni sjálfri. Nei þau nota Tumblr bloggið sitt til að leyfa lesendum vefsíðunnar að kynnast starfsfólkinu og hvað er í gangi baksviðs. Þannig eru allskonar myndbönd og linkar frá fólkinu sem vinnur hjá Mashable, bæði eitthvað sem tengist vinnunni og svo líka bara skemmtileg innslög inn á milli. Skemmtileg leið til að nota blogg til að kynna vinnustaðinn.

Alexander Mcqueen

Alexander Mcqueen var heimsfrægur fatahönnuður sem dó langt fyrir aldur fram árið 2010. Tískuhúsið og vörumerkið hafa samt sjaldan verið sterkari og það er einmitt að gera skemmtilega hluti á Tumblr. Tískuvörumerkin hafa einmitt verið mjög áberandi í upptöku á Tumblr enda er bæði auðvelt að deila myndum af nýjum og væntanlegum vörum eða myndum af módelum í fötum frá t.d. Alexander Mcqueen. Eins er mjög auðvelt fyrir tískuáhugafólk að fylgjast með bara með því að ýta á “Follow” takkann, og þá fær það nýjustu myndirnar beint í æð.

Universal Music

Tónlistarbransinn er svipaður tískubransanum að því leiti að það er alltaf að koma nýtt efni. Universal Music hefur verið að nota Tumblr á skemmtilegan hátt með því að setja inn myndbönd, viðtöl, gömul plaköt og myndir frá listamönnum sem eru á samning hjá Universal.

Fleiri dæmi um vörumerki sem eru að nota Tumblr má sjá hér í þessari upptalningu.

Eru einhver íslensk dæmi?
Nú þekki ég ekki marga einstaklinga sem eru með Tumblr síður en ég þekki samt engin fyrirtæki eða vörumerki sem nýta sér þennan miðil hér á landi. Mér myndi helst detta í hug að hljómsveitir og fatahönnuðir myndu finna not í Tumblr, enda er þetta frábær síða til að vera með blogg sem snýst aðallega um myndir og myndbönd en minna um texta.
Ef ég fæ einhver góð dæmi fara þau beint hérna undir.