Archive

Monthly Archives: September 2012

Fyrr á árinu skrifaði ég pistil um það hvernig auglýsingar í Kólumbíu reyndu að stuðla að því að minnka skæruliðahernað. Skilaboðin voru “leggið niður vopnin og komið heim”. Framtakið tókst vel og fjöldi skæruliða komu heim úr frumskóginum í kjölfarið. Herferðin vann til fjölda verðlauna og vakti verðskuldaða athygli um allan heim. Svo víða barst hróður hennar að sá sem að henni stóð  henni hélt fyrirlestur á Íslandi!

Ég trúi því að með réttum skilaboðum getirðu stuðlað að betri heimi. Þú breytir honum kannski ekki á svipstundu en það er hægt að ná til hóps og smátt og smátt setja þitt mark á hann.

Nú hafa staðið yfir átök á milli Ísraels og Palestínu í fjölda áratuga. Íbúar beggja vegna við landamærin eru mjög reiðir enda hafa þeir þurft að búa við mikla hættu, ótta og hræðslu og margir hafa misst ástvini í þessu áralanga stríði. Ég veit samt og trúi að margir eru orðnir þreyttir á þessu ástandi og vilja helst ljúka því á friðsaman hátt. Jafnvel þó friður sé ekki í augsýn eru margir sem reyna að leggja sitt af mörkum til að stuðla að friði.

Á stærstu auglýsingahátíð í heimi í Cannes árið 2010 fór auglýsingarstofan Saatchi & Saatchi Israel af stað með verkefnið “The Impossible Brief” eða “Óframkvæmanlega verkefnið”. Þar gat hver sem er komið með sína hugmynd um hvernig hægt væri að leysa það verkefni sem pólitíkusum heimsins virðist ómögulegt að gera – að binda enda á stríðið.

Hugmyndin sem varð fyrir valinu var “Blood relations”. Hún gengur út á að tengja Ísraela og Palestínumenn blóðböndum og hvetja fólk til þess að gefa blóð til hjálpar hinu. Þegar allt kemur til alls þá getur blóðgjöf af þessu tagi bjargað mannslífum – ekki bara ísraelskum eða bara palestínskum, heldur mannslífum. Til þess að geta endað deilur friðsamlega þurfum við að setja okkur í spor náungans. Þessi hugsun finnst mér falleg.

Ég hef ekki tölur um hversu margir tóku þátt í átakinu en þetta vekur mann til umhugsunar. Herferðin vann til 5 gullverðlauna á Cannes verðlaunahátíðinni núna síðast. Ég mæli með myndbandinu sem fylgir.