Archive

Monthly Archives: October 2015

Frá fundi FVH á Kex HostelÍ kvöld talaði ég á skemmtilegum fundi á vegum FVH – Félags Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga. Ég er í stjórn félagsins og við höfum á síðustu vikum verið að skoða hvernig við getum þjónustað nýútskrifaða og verðandi viðskipta- og hagfræðinga betur. Þessi fundur var liður í því.

Fundurinn fjallaði um hvað maður setur á ferilskrá eða CV. Ég er mikill áhugamaður um ferilskrár, en ég og Siggi Svans vinur minn ræðum vandræðalega oft hvað á að fara á þær, hvernig þær eiga að líta út og hvaða uppröðun sé best. Því fannst mér tilvalið að segja frá þessu áhugamáli mínu.

Ásamt mér töluðu tveir sérfræðingar sem vinna við að skoða CV allan daginn, Berglind Björg Harðardóttir, deildarstjóri hjá Símanum, og Sigrún Ólafsdóttir, ráðningarstjóri hjá Íslandsbanka.

Það helsta sem kom fram:

CV á að vera stutt og hnitmiðað

Sumir eiga það til að reyna að hlaða á ferilskrána sína til þess að reyna að láta líta út eins og þeir hafi áorkað meiru. Það er miklu betra að vera hnitmiðaður og stuttorður af því reyndur stjórnandi mun fljótt sjá í gegnum allt “flöffið”. Þumalputtareglan er að hafa það alls ekki lengra en 2 blaðsíður. Ef það er meira sem þú vilt segja frá er fínt að nota LinkedIn, en þar ertu ekki eins bundinn við lengd og getur bætt við hlutum eins og verkefnum og námskeiðum sem kannski passa ekki á tveggja blaðsíðna CV.

Söluplagg fyrir þig

Ferilskráin er söluplagg um þig! Þú notar hana til að segja frá afrekum, hvað þú hefur gert og hvaða hæfni þú hefur. Segðu frá afrekum og ábyrgð sem þú hafðir. Til dæmis stöðuhækkanir, einhver ábyrgðarsvið eða verðlaun. Varstu söluhæst í búðinni? Segðu frá því. Varst þú staðgengill yfirmanns í einhvern tíma? Segðu frá því. Passaðu þig bara að vera stuttorður og hnitmiðaður!

Hjalti RognvaldssonMynd eða ekki mynd?

Við vorum ekki sammála um þetta. Ég er á móti því að fólk setji mynd á ferilskrána sína vegna þess að það lætur lesandann sjálfkrafa fá ákveðna ímynd af viðkomandi. Þannig er viðkomandi búinn að mynda sér ákveðna skoðun á umsækjandanum. Sigrún og Berglind voru mér hins vegar ósammála vegna þess að þeim finnst þær ná betri tengingu við manneskjuna sem þær eru að lesa um. Ég ætla að ríghalda í mína skoðun eins og þrjóskur hundur en þið megið ráða á hvorn þið hlustið (örugglega betra að hlusta á þær).

En ef þú ákveður að hafa mynd, þá er eins gott að hún sé vönduð. Ekki setja mynd af þér sem var tekin í partý, þó þú sért klæddur í jakkaföt. Klæddu þig frekar í jakkafötin heima og fáðu vin þinn til að smella af. Það eiga flestir góða síma í dag, þannig það er ekki erfitt að ná góðri mynd.

Vanda sig!

Það er alveg lykilatriði að vanda sig. Það er ekkert verra en að lesa yfir ferilskrá sem er full af stafsetningar- eða málfarsvillum. Eins er alltaf einhver til í að hjálpa. Ef þú þekkir einhvern sem er reyndari í þessu en þú, fáðu hann eða hana til þess að lesa yfir. Það mun margborga sig á endanum.

Að lokum

Ég stal þessari tilvitnun úr grein eftir áður nefndan Sigurð Svansson sem mér finnst súmmera áherslurnar ágætlega upp.

Af hverju ætti fyrirtæki að búast við metnaðarfullum starfskrafti ef hann hefur ekki metnað til að senda frá sér almennilega ferilskrá ?

Hér fyrir neðan má sjá glærurnar mínar frá fundinum. Við í FVH munum halda nokkra fundi í svipuðum dúr á næstunni. Endilega hafið samband við mig ef þið viljið fá að vita meira.

Advertisements