Archive

Monthly Archives: March 2014

Ég rakst á mjög svo skemmtilega tilraun á alnetinu um daginn.

Hljómsveitin Garcia Goodbye frá Belgíu var að gefa út nýtt lag og vildi vekja athygli á því. Þeir hefðu getað farið venjulegu leiðina, hringt í þáttastjórnendur á útvarpsstöðvum, sent tölvupósta á vefmiðla og látið vita á Facebook. En það sem þeir ákváðu að gera er að kaupa slatta af USB lyklum, blöðrur og kút af helíum gasi. Þeir settu svo lagið á USB lykill ásamt stuttum skilaboðum, fylltu blöðrurnar með gasinu og slepptu þeim svo á völdum stöðum. Blöðrurnar flugu svo út í himinhvolfið og þeir félagarnir biðu eftir að einhver myndi setja sig í samband við þá eftir að hafa fundið blöðru. Ein blaðran flaug alla leið til Sönderborg í Danmörku og keyrðu þeir þangað að hitta manninn sem hafði fundið lagið. Allt þetta var svo tekið upp á myndband og sett á YouTube.

Þetta er virkilega skemmtileg leið til þess að vekja athygli á sér. Það er gefið að blöðrurnar væru ekki allar að fara að skila sér. Meirihluti þeirra hefur væntanlega fokið úr á sjó. En það var ekki markmiðið. Það var að taka upp myndbandið og vekja þannig athygli á nýja laginu.

Eins og áður segir er hægt að fara venjulegu leiðina, hringja í útvarpsstöðvar, reyna að fá umfjöllun í blaðinu og setja status á Facebook – og eflaust hafa þeir gert það líka. En með því að gera þetta svona ná þeir líka til fólks sem hefði líklega aldrei heyrt af hljómsveitinni Garcia Goodbye. Ég væri til dæmis ekki að renna plötunni í gegn á Spotify og þaðan af síður að segja þér frá því.

Ég skrifaði einu sinni um að gera eitthvað einstakt. Þetta er eftir nákvæmlega sömu línu.

Og lagið er bara ágætt.

Advertisements

Ég rakst á þessa frábæru ábreiðu með hljómsveitinni CHVRCHES af laginu “Do I Wanna Know” sem var samið af Arctic Monkeys. Það fékk  mig til að hugsa um mismunandi útgáfur af sama hlutnum. Tökum sem dæmi upprunalegu útgáfuna af laginu. Hvor er betri?

Upprunalega útgáfan með Arctic Monkeys er dimm og drungaleg. Textinn og flutningurinn finnst mér lýsa ástsjúkum manni sem fær ekki það sem hann vill. Útgáfa CHVRCHES er hins vegar mun léttari og flutningur textans lýsir frekar trega frá stelpu sem þráir einhvern heitt. Það er stigsmunur þar á. En í báðum útgáfum er verið að vinna með sömu orðin og í raun sömu laglínu. Þá langar mig til að spyrja aftur, hvor er betri?

Af hverju skiptir það svona miklu máli að annað sé betra en hitt?

Hversu marga þekkirðu sem segja “Já myndin var ágæt, en bókin var nú betri”? Stundum er bókin betri, stundum er myndin betri. En stundum þarf ekki að vera í samanburði. Það er nefnilega hægt að njóta mismunandi meðferðar á efni á mismunandi hátt.

Eitt besta dæmið af þessu er Englar alheimsins. Flestir Íslendingar hafa séð bíómyndina, margir hafa lesið bókina eftir Einar Má og nú eru leiksýningarnar komnar yfir 80 talsins. Í öllum tilvikum er verið að vinna með sömu söguna, sama textann, sömu persónur. Hvaða útgáfa er best?

Skiptir það einhverju máli?

%d bloggers like this: