Archive

Monthly Archives: December 2011

Þetta var klárlega erfiðasti listinn til að setja saman. Mig langaði til að gera topp 10 lista en til að halda sanngirni við hina topplistana ákvað ég að hafa bara 5 efstu sætin. Ég gat ekki gert upp á milli fyrsta og fimmta sætis þannig þær eru allar jafnar á topp 5. Ég var að breyta samsetningu listans alveg fram á síðustu stundu en ég er orðinn 100% viss núna. Mér finnst ég samt ekki geta verið heiðarlegur án þess að minnast aðeins á þær sem komust ekki inn á topp fimm. Bon Iver gaf út frábæra plötu, Foo Fighters komu með skemmtilegt comeback út bílskúrnum hjá Dave Grohl, ég fékk að kynnast The Antlers sem áttu yndislega plötu og svo má ekki gleyma snillingunum Jay-Z og Kanye West sem gáfu út rosalega plötu saman. En topp fimm hljómar svona:

1. Florence and the Machine – Ceremonials

Íslandsvinirnir í Florence and the Machine fygldu eftir plötunni Lungs með öðru meistarastykki – Ceremonials. Þetta er 12 laga gripur, fullur af orku og flottri tónlist. Florence Welch, söngkona, fer mikinn í öllum lögunum eins og hún gerði á Lungs. What the water gave me var fyrsta lagið sem heyrðist í útvarpi í lok sumars og svo byrjaði Shake it out að hljóma með haustinu. Besta lagið að mínu mati er númer 5, Breaking Down.

2. The Wombats – This Modern Glitch

Ég er alveg rosalega skotinn í þessu bandi. Allt frá því ég heyrði Moving to New York af fyrri plötunni þeirra hef ég verið hooked á hljóminn frá þeim. Ég beið eftir This Modern Glitch í marga mánuði, setti útgáfudaginn í dagbókina hjá mér og elti Twitterstrauminn hjá þeim til að missa nú örugglega ekki af neinu. Og viti menn, platan er geðveik. Það eru öll lögin góð. Textarnir fjalla ennþá um partý og stelpur, en það má samt greina smá trega í þeim, eins og frægðin sé að reynast mönnum erfið. Ég vona bara að þessir strákar frá Liverpool brenni ekki út á eiturlyfjanotkun. 1996 er lagið sem fylgir með.

3. WU LYF – Go tell fire the to mountain


Hefurðu einhverntíman hlustað á plötu og fengið gæsahúð af öllum lögunum? Þessi plata er þannig! Mér var bent á hana þegar ég var að leita eftir tilnefningum um bestu plötu ársins, gaman að segja frá því að hún var sú eina sem kom til greina af þeim sem ég hafði ekki hlustað á áður. WU LYF eru nokkrir magnaðir peyjar. Þeir koma frá Manchester og eru rétt skriðnir yfir tvítugt. Þeir neituðu öllum plötusamningum og gáfu hana út sjálfir. Sömuleiðis hafa þeir aldrei gefið blaðaviðtöl og tóku plötuna sína upp í gamalli kirkju en ekki stúdíó. Allt þetta hefur valdið því að breska tónlistarpressan heldur ekki vatni yfir sveitinni. Enn hlustaðu bara, það heyrn er sögu ríkari, eins og máltækið segir.

4. Awolnation – Megalithic Symphony

Megalithic Symphony kom inn á borð til mín eins og þruma úr heiðskíru lofti. Vinnufélagi minn lét mig fá hana þegar ég byrjaði í vor og hún var í spilun í allt sumar sama við hvaða aðstæður. Awolnation samanstendur af einum manni – Aaron Bruno. Ég get eiginlega ekki lýst tónlistarstefnunni, en Wikipedia skilgreinir hana sem “electronic rock” þannig ég reikna með að það sé rétta skilgreiningin. Hún á allavega vel heima á þessum lista. Hér er lagið Not Your Fault.

5. The Vaccines – What Did You Expect From The Vaccines

3 Bretar og 1 Íslendingur. Hefðu komið og spilað á Airwaves en það var ekki hægt þar sem söngvarinn þurfti að fara í aðgerð á hálsi. Ég græt það enn. Þessi sveit er búin að vera í eyrunum á mér allt árið, allt frá því að If You Wanna fór að hljóma á X-inu. Síðan þá hafa þeir komið með hvern slagarann á fætur öðrum. Frábær sveit sem á framtíðina svo sannarlega fyrir sér! Ekkert meira hægt að segja um þá nema hlustaðu á plötuna! Wetsuit er lagið sem fylgir.

Þá er þessari listamaníu lokið og ég get farið að einbeita mér að markaðsmálunum aftur. Færslurnar sem ég á inni alveg hlaðast upp þannig það verður nóg að gera á Hugrenningunum á nýju ári. Ég þakka allar 46 færslurnar og 7000 lesningarnar á árinu og hlakka til að upplifa nýtt markaðs-, fjárfestinga-, snjallsíma og tónlistarár með ykkur öllum.

Gleðilegt ár!

Þá ætla ég að halda áfram að fara yfir árið. Núna eru það bestu íslensku plöturnar. Þar var ein plata sem bar höfuð og herðar yfir hinar. Ég vind mér beint í þetta.

1. Mugison – Haglél

Var einhver sem efaðist um að Mugison ætti bestu plötu landsins? Ég hef alltaf haft lúmst gaman af tónlistinni frá Mugison, en hef aldrei virkilega dottið í hana. Það merkilega við Haglél er að hún fékk mig til að hlusta enn meira á eldi diskana, sem eru frábærir sömuleiðis. Haglél er alveg frábær hjá honum og nær til alveg merkilega breiðs hóps. Hún nær til tengdamömmu minnar sem hlustar á Bylgjuna sem og treflana sem fara á Airwaves. Hann hélt frábæra tónleika fyrir alla landsmenn í Hörpunn sem og út um allt land. Þau lög sem hafa verið mest í spilun eru Kletturinn og Stingum af. Lagið sem er í mestu uppáhaldi hjá mér er lagið Gúanó stelpan.

2. GusGus – Arabian Horse

Gusgus mega eiga það að allt sem kemur frá þeim er gott. Síðustu 3 plötur frá þeim hafa selst eins og heitar lummur enda er þar um að ræða flotta danstónlist. Þeir troðfylla NASA trekk í trekk og valda aldrei vonbrigðum. Það tók mig samt nokkurn tíma að melta Arabian Horse. Hún er ein af þessum plötum sem ég fílaði ekki í fyrstu en þegar ég hlustaði á hana nokkrum mánuðum seinna fór hún að síga betur inn. Kannski er ég þrjóskur og neita að finnast vinsælir hlutir skemmtilegir. Mér finnst samt Forever alltaf vera besta platan. Hér titillag plötunnar, Arabian horse.

3. Of Monsters and Men – My head is an animal

Ég er búinn að velta þessari plötu fyrir mér lengi. Ég varð virkilega hrifinn af fyrstu smáskífunni, Little Talks, strax og ég heyrði hana og keypti plötuna um leið og hún kom út. My head is an animal er gott fyrsta verk. Þau sækja innblástur í sveitir eins og Arcade Fire og Edward Sharpe & The Magnetic Zeros. Ég var svo endanlega seldur þegar ég sá þau á Airwaves í ár. Þau náðu þar að standa fyllilega undir athyglinni sem þeim hefur verið sýnd, að mínu mati allavega. Platan er þokkalega heilsteypt og þau eru með skemmtilegan hljóm. Það þarf kannski að slípa hann aðeins en hey, þau stukku nú bara fram á sjónarsviðið á Músíktilraunum fyrir 2 árum. Hér er lagið Six Weeks.

4. HAM – Svik, harmur og dauði

Er einhver hljómsveit á Íslandi sem kæmist upp með jafn mikla bull plötu? Já, kannski Botnleðja. Það er ekki hægt að fíla ekki HAM. Óttar Proppé að urra í míkrófón studdur af Sigurjóni Kjartanssyni í bakröddum. Þetta er önnur hljómsveit sem seldi sig fyrir mér á Airwaves í ár. Svik, harmur og dauði er engu að síður þrusu rokkari. Hún smellur nefnilega alveg þrælfínt í eyru, þrátt fyrir alla vitleysuna og er vel að því komin að vera á þessum lista.

5. Gang Related – Stunts & Rituals

Nú hljómar það kannski eins og ég sé að plögga vinum mínum og það má vel vera að svo sé. Ég er búinn að hlusta á Stunts & Rituals í döðlur. Það er eitthvað við þessa plötu sem smellur svo vel. Ég held án djóks að það sé amatöra sándið sem ríkur af henni. Það skín svo í gegn spilagleðin. Ég styrktist svo ennfrekar í áliti mínu þegar þeir fengu 4 stjörnur frá Morgunblaðinu og voru nefndir á topplistum hjá bæði gogoyoko og Fréttablaðinu. Hér er flott plata á ferðinni með nokkrum snillingum úr Grafarvoginum. Ef þú fílar hresst gítarrokk þá er þessi fyrir þig. Bestu lögin á plötunni eru annars vegar Dumb og hins vegar Sandskank.

Aldrei þessu vant er ég til í að hlusta á gagnrýni á þennan lista, þrátt fyrir að þetta sé minn listi 🙂

Hvaða hljómsveitir ættu heima hér, ef ég myndi stækka hann upp í topp 10?

Já árið er svo sannarlega búið að vera viðburðaríkt í tónlistinni. Sem betur fer hefur það góða staðið upp úr en auðvitað eru einhverjir svartir sauðir inn á milli. Þetta er listinn yfir vonbrigði ársins. Ég ætti kannski að skilgreina vonbrigði, en þau eru í mínum huga eitthvað sem beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu en nær svo ekki þeim standard. Svo það sé á hreinu er ég ekki að telja upp lélegustu plötur ársins. Einungis að benda á hluti sem ég bjóst við meiru af.

Eins og í listanum yfir Topp 5 “too late” uppgötvanir ársins þá er þetta ekki neinni sérstakri röð. Og alveg eins og þá er ég mjög til í að fá ykkar skoðun, þó hún skipti í raun engu máli þar sem þetta er jú minn listi.

1. Justice – Audio Video Disco

Justice eru svo miklir snillingar. Platan The Cross sló alveg í gegn árið 2007 með slögurum eins og DVNO og D.A.N.C.E. Ég beið því eftir nýrri plötu með mikilli eftirvæntingu. Audio, Video, Disco kom út seint í október. Að mínu mati nær hún engu almennilegu flugi. Hún er alveg sæmileg með ágætis partý inn á milli. En í heildina nær hún engum hæðum og hún er eyðilögð með of miklum söng. Það er kannski helst lokalagið á plötunni sem kveikir eitthvað í manni, en það ber sama nafn og platan. Ég held mig samt við það að besta efni sem hefur komið frá Justice er Planisphere sem var DJ set fyrir Louis Vuitton tískusýningu. Skoðaðu það ef þú þekkir það ekki nú þegar.

2. Coldplay – Mylo Xyloto

Ég veit ekki hvort það telst til vonbrigða þegar Coldplay gefur út slaka plötu. Aðalvonbrigðin hjá mér eru í raun að þeir hafi gefið út plötu. Coldplay gáfu út frábæra fyrstu plötu, Parachutes, mjög góða aðra plötu, A Rush of Blood to the Head, og ágæta þriðju plötu, X&Y. Síðan þá hefur leiðin bara legið enn meira niður á við og engin húrrahróp heyrðust fyrir fjórðu plötunni, Viva la Vida, og þau heyrast svo sannarlega ekki fyrir flötustu plötu í heiminum, Mylo Xyloto. Hvernig væri að sleppa því að gera þetta ef þið ætlið ekki að gera þetta vel? Eina lagið sem stendur upp úr að mínu mati er númer 3, Paradise. Erum við ekki bara að horfa á aðra U2 í uppsiglingu?

3. Radiohead – The King of Limbs

Getur einhver sagt það með hreinni samvisku að hann hafi hlustað á King of Limbs síðan í svona mars? Jú hún vakti rosalegt hype þar sem fólk skiptist á að lofsyngja hana eða rakka niður. Ég hélt henni nú á lofti fyrst um sinn og varði hana fyrir gagnrýnendum enda er ég mikill Radiohead maður. En svona þegar ég hugsa til baka, þá hlustaði ég á hana nokkrum sinnum og svo hef ég ekki heyrt eitt einasta lag síðan í mars. Þegar In Rainbows kom út þá hlustaði ég á hana aftur og aftur og ég hlusta ennþá á hana af og til í dag og það er eins með Kid A og OK Computer. Ég hreinlega bjóst við meiru af Radiohead og mér finnst ég eiga rétt á því. Ég mun samt alltaf hafa hljómsveitina í hávegum og mun vera jafn spenntur fyrir næstu plötu. Hér er fyrsta smáskifan af plötunni, lagið Little by Little.

4. The Strokes – Angles

Það er frekar merkilegt að þessi plata skuli rata inn á vonbrigðalistann þar sem hún er jú alveg þokkaleg. En þegar maður er búinn að bíða í 5 ár eftir nýrri plötu til að fylgja eftir eins rosalegri plötu og mér fannst First Impressions of Earth vera þá er ekki hægt að vera annað en vonsvikinn. Strokes-mönnum fannst þeir samt vera að fara nær fyrstu tveimur plötunum sínum, og það er alveg rétt. Angles er miklu léttari en þriðja platan og líkari This is It og Room on Fire en eins og ég segi minn listi, mínar reglur. Ég hefði viljað sjá meira frá The Strokes, eitthvað í anda við First Impressions of Earth sem ég elska og hlusta enn mikið á. Það vantar einhvernveginn kraftinn sem einkenndi þá plötu. Mér skilst reyndar að hljómsveitarmeðlimum komi bara ekki vel saman og þannig hafi verið mikil streyta í kring um gerð Angles. Ætli það sé útskýringin?

5. Glasvegas – Euphoric///Heartbreak

Ég veit ekki hversu oft ég hlustaði á fyrstu plötuna frá Glasvegas, Glasvegas. Hún á allavega sérstakan sess í hjartanu. Það var eitthvað svo töff við soundið hjá þeim, skoski hreimurinn rosalega einkennandi og gítarhljómurinn einhvernveginn flæddi um allt. Lagið Geraldine er enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi plata er nákvæmlega ekkert sérstök. Hún bætir engu við í tónlistarflóruna og hefði mín vegna alveg mátt sleppa sér alfarið. Gagnrýnendur eru samt ósammála mér enda fékk hún 9 af 10 hjá NME. Hér er lagið Shine Like Stars.

Ég á það nú til að vera yfirlýsingaglaður hvað varðar tónlist og plötur og hef oftar en ekki þurft að éta ofan í mig hvað mér finnst þegar það fær annan séns. Vonandi verður það þannig með þessar fimm.

Topp 5 vonbrigði ársins var annar listinn af fjórum. Nú á ég bara eftir að kynna bestu íslensku plöturnar og bestu erlendu plöturnar. Ég er ekki ennþá búinn að ákveða mig alveg í þeim efnum, þannig það er ennþá hægt að hafa áhrif á valið þar. Endilega sendið mér skilaboð með uppástungur.

Annars segi ég bara gleðileg jól frá okkur í Kópavoginum!

Ég er svokallaður “listophile”. Ég elska vinsældarlista, hvort sem það er vinsælustu bækurnar, mest seldur tölvuleikirnir, aðsóknarhæstu kvikmyndirnar eða bara allt annað. Þannig ég ákvað að fyrst ég er loksins byrjaður að skrifa að ég myndi taka þátt í gleðinni í enda árs þar sem fólk tekur saman það besta sem gerðist á árinu 2011. Ef þið eruð ósammála mér í einhverju af listum ársins megiði að vanda skilja eftir athugasemdir, hvort sem það er hér, á Twitter eða á Facebook. En það er ólíklegt að það verði tekið mark á þeim þar sem hey, þetta er minn listi.

Til að byrja með ætla ég að fara í Topp 5 “too late” uppgötvanir ársins, en það eru þær plötur sem komu ekki út á árinu en ég byrjaði ekki að hlusta á fyrr en nýlega. Stundum er maður svo sljór, en því miður er bara ekki allur tími í heiminum til að uppgötva nýja tónlist, þó það væri nú ekki leiðinlegt starf. Life gets in the way. En það er önnur saga!

Það ber að taka fram að þetta er ekki í neinni sérstakri vinsældarröð, númerin eru bara til að hjálpa mér.

1. Titus Andronicus – The Monitor

Þessi plata er svo geðveik! Hresst pönk – indí – rokk sem ætti ekki að svíkja neinn. Titus Andronicus dregur nafn sitt af tragedíu frá Shakespeare. Hún hefur hlotið verðskuldaða athygli og var m.a. valin ein af áhugaverðustu nýju hljómsveitunum árið 2010 af Rolling Stone. The Monitor er önnur plata sveitarinnar og kom hún út í mars árið 2010. Ég heyrði fyrst af henni þegar ég var að auglýsa eftir nýrri tónlist á Facebook og sótti hana svona með hálfum hug, enda hafði ég ekki heyrt sveitina nefnda á nafn. Það er svo rosalega gaman þegar manni er komið svona á óvart. Lagið sem fylgir heitir No future part three: Escape from no future. Hlustið á þetta!

2. The Naked and the Famous – Passive Me, Aggressive You

Þessi plata er sko búin að hljóma í eyrunum á mér allt árið. The Naked and the Famous er hljómsveit frá Nýja Sjálandi, en hún náði ekki inn á öldur ljósvakans hér á landi fyrr en núna í vor. Ég var háður með fyrsta laginu sem kom í útvarpinu, Young Blood, og platan Passive Me, Aggressive You, olli engum vonbrigðum. Hún kom út í september á síðasta ári og fær því miður ekki að vera á topplista þessa árs. Hún fær þó sæti á aukalistanum mínum. Ég hef áður talað um The Naked and the Famous og lagið Girls Like You, sem fylgdi með þá, fær líka að fara með í þetta skiptið. Það er bara allt of gott.

3. Edward Sharpe & The Magnetic Zeros – Up from below

Það þekkja allir þessa hljómsveit. Ekki endilega af því hún er svo fræg heldur af því lagið Home var í auglýsingu frá Sjóvá. Platan Up from below kom út árið 2009 og það má heyra áhrif frá henni t.d. í lögum frá Of Monsters and Men, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Platan er engu að síður alveg frábær og sækir anda sinn í áttunda áratuginn þar sem allir voru hippar með sítt hár og skegg. Lagið sem fylgir með heitir 40 day dream og er fyrsta lagið á plötunni.

4. Bon Iver – For Emma, Forever Ago

Af hverju ég var ekki búinn að hlusta á þessa plötu hreinlega veit ég ekki. Ég leiddist út í að hlusta á Bon Iver af því hann gaf út frábæra plötu í ár. For Emma, Forever Ago var gefin út af hljómsveitinni sjálfri árið 2007 en svo endurútgefin 2008 með hjálp útgáfufyrirtækisins Jagjaguwar. Frægasta lagið á plötunni er klárlega Skinny Love en það fékk fína spilun á útvarpsstöðvum landsins. Platan er mjög hugljúf og hentar vel á köldum vetrarmorgnum til að minna sig á hvað lífið er fallegt. Lagið sem skilur hvað mest eftir hjá mér er síðasta lag plötunnar, en það heitir Re:Stacks.

5. Kanye West – My Beautiful Dark Twisted Fantasy

Ég fór fyrst að spá í þessari plötu eftir að hafa grúskað í árslistum frá árinu 2010. Þannig í janúar rataði hún í tölvuna mína og hún hefur verið í spilun síðan. Það er allt gott við hana! Kanye hellir sér öllum í hana, talar um ástina, kynlíf, sjálfsfyrirlitningu, frægðina og allt. Textarnir eru frábærir og melódíurnar sömuleiðis. Einhverntíman í sumar var ég að skíta á mig í 10 km hlaupi með ekki nógu góða tónlist. Þá setti ég Kanye í gang og hann reddaði mér síðustu kílómetrana. Þar sem búið er að tala nóg um My Beautiful Dark Twisted Fantasy ætla ég ekki að hafa fleiri orð um hana. Ég mæli hins vegar með að þú skoðir stuttmyndina sem var gerð með plötunni og gefin út á YouTube. Lagið sem fylgir með heitir Lost in the World og Bon Iver einmitt syngur í því.

Þetta var Topp 5 “too late” listinn. Íslenski listinn og erlendi listinn koma á næstu vikunni. Lifið heil og munið að skilja eftir athugasemdir þó það gagnist ekki neitt. Þetta er jú minn listi 🙂

Um leið og þú lest titil þessarar færslu þá veit ég að þú ert að leita eftir einhverjum djúsí endurminningum frá mér. Ég ætla að byrja á því að valda þér vonbrigðum: þetta er bókaumfjöllun. Í gegn um tíðina hef ég aldrei verið mikið fyrir endurminningar og ævisögur. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að maður geti lært af því hvernig aðrir hafa hagað hlutunum hjá sér, tala nú ekki um ef viðkomandi er milljarðamæringur!

Sir Richard Branson er svalasti milljarðamæringur í heimi. Hann er fæddur í Bretlandi árið 1950 og þrátt fyrir að vera lesblindur og hafa aldrei farið í háskóla er hann í dag í 254. sæti yfir ríkustu mönnum heims. Richard Branson er mikið átrúnaðargoð hjá mér, ekki af því hann er ríkur – heldur hvernig hann hefur orðið ríkur. Ekki nóg með að maðurinn eigi eyju í Karabíska hafinu, hafi flogið í loftbelg yfir Atlantshafið og hafi bjargað gíslum úr Íraksstríðinu, heldur er hann núna að fara að selja ferðir út í geim og niður í dýpstu höf. Hann á Virgin veldið en allir ættu að þekkja Virgin Atlantic flugfélagið, Virgin Music útgáfuna, Virgin Mobile farsímafélagið og svo lengi mætti telja. Ég held að Richard Branson sé efni í nokkrar færslur þannig ég mæli með að þið lesið ykkur til um hann og hvað hann er að gera á Wikipedia. Ég ætla að einblína á ævisöguna hans sem ég var að klára.

Ég keypti ævisögu Bransons á Audible og hlustaði á hana í einum rikk í vikunni. Bókin kemur út árið 1998 og er því orðin nokkuð gömul. Richard Branson skrifar hana sjálfur og les sjálfur inn á hljóðbókina sem er mjög skemmtilegt. Ég reikna með að hún sé tekin upp heima hjá honum á Necker Island en stundum má heyra fuglasöng inn á milli. Mjög heimilislegt allt saman.

Eins og áður sagði var Richard Bransson fæddur í Bretlandi árið 1950. Hann sér illa og er lesblindur en samt var hann farinn að gefa út tímaritið Student í kring um 18 ára aldurinn. Í gegn um Student datt hann inn í að selja plötur í gegn um póstlista. Þegar póstburðarmenn í Bretlandi fóru í verkfall stefndi póstlistaþjónustan í gjaldþrot. Til að bjarga litla fyrirtækinu sínu fann hann, ásamt félögum sínum, autt rými í London og setti upp búð á fimm dögum og var þar með kominn í verslunarrekstur. Veldið byggðist hægt og bítandi upp eftir því sem þeir opnuðu fleiri búðir og færðu sig svo yfir í útgáfubransann. Mike Oldfield var fyrsti alvöru tónlistarmaðurinn sem skrifaði undir hjá Virgin en eftir því sem leið á bættust við í hópinn listamenn eins og Sex Pistols, Human League, Boy George og Janet Jackson til að nefna nokkra.

Richard Branson hefur alltaf haft gaman af því að ögra sjálfum sér og öðrum. Ef þú kemur með nógu klikkaða hugmynd til hans, er hann örugglega til í að taka þátt í henni. Þannig datt hann inn í flugfélagsbransann, þrátt fyrir að hafa ekki neina reynslu af slíkum rekstri og Virgin Atlantic varð til. Í dag er Virgin Atlantic eitt þekktasta nafnið í fluggeiranum og flýgur út um allan heim.

Auk þess að segja frá viðskiptasigrum sínum hleypir Branson lesendum (og hlustendum) inn í líf sitt utan peninganna. Hann segir frá hjónabandi sínu, barneignum, hvernig honum líður eða leið og hvað hann var að hugsa á hverjum tíma. Það er mjög gaman að heyra hann segja frá Joan, konunni sinni, sem hann elskar greinilega heitt, og börnunum sínum Holly og Sam. Einnig segir hann frá því hversu nærri sér hann tekur að sjá fólk í neyð, en í fyrra Íraksstríðinu lét hann fljúga Boeing 747 vél til Bagdad til að frelsa gísla stuttu áður en borgin var lögð í rúst af flugherjum vesturveldanna. Hann segir einnig á lifandi hátt frá því þegar hann flýgur í loftbelg yfir Atlantshafið og eins þegar hann reynir að setja heimsmet í því að sigla yfir sama haf. Eins fer hann yfir hápunkta og lágpunkta á sínum ferli og það er virkilega gaman að hlusta á hann tala.

En hvernig var bókin?

Ég gaf bókinni 5 stjörnur af 5 mögulegum. Kannski er ég ekki hlutlaus enda var maðurinn í miklu uppáhaldi hjá mér áður en ég keypti hana. Engu að síður er hún skemmtilega skrifuð, full af kímni og einlægni. Richard Branson hefur gífurlegan húmor fyrir sjálfum sér og greinilega elskað hverja mínútu af því sem hann hefur gert, og það skín vel í gegn.

Ef það er eitthvað sem hægt er að setja út á er það að hann eyðir stórum hluta bókarinnar í að fara í rimmuna sem hann háði við British Airways í byrjun 10. áratugarins, sem á endanum var útkljáð í réttarsal. Hann fer yfir þann slag af kostgæfni og endursegir samtöl orð fyrir orð. Ég held samt að ástæðan fyrir því að hann geri það er bara til að sýna fram á hvað þolinmæði, kjarkur og baráttuvilji skilar miklu í lok dags

Ég mæli með því fyrir alla sem hafa áhuga á viðskiptum að annað hvort lesa eða hlusta á Losing my Virginity. Einnig ætti hún að veita þeim innblástur sem hafa annað hvort áhuga á að stofna fyrirtæki eða eru með hugmynd sem virðist klikkun en langar að láta hana verða að veruleika. Hana má fá á Audible eða Amazon. Einnig er rétt að minna á nýja bók eftir Branson sem heitir Screw Business As Usual en hún kom út í haust. Að lokum er vert að minnast á bloggið hans Richardssem ég les mjög oft. Meistarinn er líka á Twitter og það er hægt að elta hann: @richardbranson.

Hér er viðtal við hann á TED 2007.

Ég er alltaf rosalega hrifinn af framhaldi, hvort sem það eru framhaldsmyndir eins og Transformers 2 og 3 eða framhaldsþættir eins og Dexter nú eða bókaseríur eins og Harry Potter. Þess vegna er ekkert ólíklegt að þið eigið eftir að sjá nokkrar “pt deux” eða “pt troix” hér meðal hugrenninga. Nú þegar hef ég skrifað eina framhaldsfærslu um íslensk farsímaforrit og ég mun ykkur að segja halda áfram að skrifa þær færslur eftir því sem fleiri forrit bætast í hópinn.

Framhaldsfærsla kvöldins fjallar um viðbættan veruleika eða “augmented reality”. Frá því ég skrifaði pt une hefur tækninni fleygt fram (nota bene þá er hálft ár síðan!) og nú eru komin fram ENNÞÁ flottari innsetningar sem fólk og fyrirtæki hafa verið að setja upp. Er eitthvað annað í stöðunni heldur en að vinda sér í þetta?

National Geographic í Ungverjalandi

National Geographic er þekkt fyrir allt annað en tækniinnsetningar. Ef þú segir National Geographic þá hugsa ég: “flottar ljósmyndir og sjónvarpstöðin um dýrin”. Tímaritið setti engu að síður upp magnaða sýningu í þremur verslanamiðstöðvum í Ungverjalandi og afraksturinn má sjá hér að ofan. Sýningin var sett upp af margmiðlunarfyrirtækinu Appshaker, en það eru leiðandi í notkun viðbætts veruleika. Það er hægt að sjá fleiri verk eftir það á heimasíðu fyrirtækisins. Markmið innsetningarinnar var að vekja athygli á háskerpu rásinni frá National Geographic og þeir sem tóku þátt gátu séð risaeðlur, höfrunga og tígrisdýr spandera um á gólfinu í viðkomandi verslunarmiðstöð.

Playstation Vita

Sony hefur ákveðið að stíga auka skref í viðbættum veruleika. Núna í febrúar 2012 mun nýja Playstation Vita leikjatölvan koma á markað. Hvað er svona sérstak við hana? Jú, eru leikirnir farnir út fyrir skjáinn! Playstation Vita er ný leikjatölva í anda PSP tölvunnar sem kom út fyrir nokkrum árum. Þetta video sýnir meðal annars þar sem hún getur gert.

Rock-paper-scissors

Besta hugmynd í heimi er að spila leik við bolinn þinn. Tpostmag.com er fyrirtæki sem sérhæfir sig í “bolatímaritum”. Ég er ekki að grínast. Þú kaupir áskrift á 27 evrur á mánuði og færð sendan bol á fimm vikna fresti með flottri mynd framan á og skrifaðri grein á bakinu. Snillingarnir þarna á bakvið bjuggu þannig til bol sem þú gast spilað steinn-skæri-blað við í gegn um vefmyndavél (webcam).

Pringles fótbolti

Pringles setti upp einfaldan en mjög úthugsaðan leik. Þú spilar fótbolta með viðbættum veruleika í gegn um vefmyndavélina á tölvunni þinni. Þeir passa að hafa vörumerkið sitt alltaf í mynd og þannig notarðu Pringles dósina til að stýra leikmönnunum. Einföld hugmynd og skemmtileg nálgun í markaðssetningu. Reyndar er þetta ársgamalt video og var í boði á framandi mörkuðum eins og Indónesíu, Kína og Filipseyjum.

Tissot

Það er oft erfitt að gera upp við sig hvað maður á að kaupa á netinu, í hvaða stærð o.s.frv. Það á líka við þegar maður er að versla rándýr svissnesk úr. Er þá ekki langbest að geta bara mátað heima og séð hvernig það kemur út á handleggnum á manni? Þú ferð bara á heimasíðu Tissot prentar út dummý úr og svo mátarðu bara í gegn um vefmyndavélina með þartilgerðu forriti.

Það er svo margt sem er til þarna úti. Það virðist bara þurfa hugmyndaflug og góðan forritara.

Í kvöld hef ég verið að leita að réttri þýðingu á enska orðinu “evangelist”. Samkvæmt Dictionary.com er “evangelist” prédikari eða prestur, samkvæmt Google Translate þýðir það trúboði, en Orðabók.is þýðir það sem prédikari. Ég henti spurningunni út í Twitter-heim og eftir smá samtal þar held ég að besta niðurstaðan sé boðberi – einhver sem breiðir út fagnaðarerindið. Talsmaður kom einnig til greina en það náði einhvernvegin ekki að lýsa inntaki enska orðsins nógu vel.

Það er blautur draumur hjá öllum markaðsfólki að eignast sýna boðbera eða “evangelista”. Boðberi fyrirtækisins er ötull talsmaður þess og breiðir einmitt út fagnaðarerindi fyrirtækjanna. Ef þú átt uppáhaldsveitingastað og mælir með honum við alla sem þú þekkir ertu boðberi. Við gerum þetta öll. Það er rosalega mikilvægt að eiga ötula boðbera, enda er miklu líklegra að óánægðir viðskiptavinir viðri skoðanir sínar. Þá verður þú að hafa einhverja sem eru tilbúnir að tala þínu máli.

En hvað geta fyrirtæki gert til þess að vinna sér inn slíka talsmenn. Til dæmis er hægt að veita framúrskarandi þjónustu, vera með besta verðið, bestu vöruna eða fara fram úr væntingum þinna viðskiptavina. Þau fyrirtæki sem ná þessu eru með sterk vörumerki (e. brand). Sterk vörumerki eru það vinsæl í hugum neytandans að hann velur þau framyfir öll önnur, óháð verði. Bestu dæmin um þetta eru annars vegar Coca Cola og hins vegar Apple. Hver heldur þú að ástæðan sé að fólk biðji frekar um Kók heldur en Pepsi? Þetta er það sama, ofsykraður kóladrykkur. Vinsældir Apple þekkja allir. Steve Jobs heitinn virðist eignast nýjan boðbera með hverju seldu raftæki frá Apple.

Fyrirtæki geta líka borgað fólki til þess að tala vel um sig. Til eru dæmi um að stórfyrirtæki reyni að borga bloggurum sem þykja áhrifamiklir. Þetta er því miður leið sem er dæmd til að falla um sjálfa sig, þar sem pistlarnir sem viðkomandi myndi skrifa væru augljóslega litaðir og á endanum myndu lesendur sjá í gegn um skrifin. Og fyrir vikið myndi fyrirtækið sjálft missa trúverðugleika og koma verr út. Betra er að vinna fólk yfir með góðri þjónustu og góðu viðmóti.

En fyrst ég er búinn að tala almennt um vörumerki, boðbera og Apple ætla ég að segja dæmisögu máli mínu til stuðnings. Ég ætla að gerast boðberi fyrir Íslandsbanka og hér kemur af hverju.

Ég er búinn að vera í viðskiptum við Íslandsbanka í tæpt ár. Ég skipti yfir vegna þess að Tinna kærastan mín var með öll sín viðskipti þar og hennar fjölskylda þekkti vel inn í útibúið sem var á Háaleitisbraut. Þannig ég lét til leiðast og hoppaði inn einn daginn og talaði við þann þjónustufulltrúa sem mælt  hafði verið með við mig. Hún sá um allan flutninginn úr Arion Banka og bjó mér þannig í haginn að ég færi nú í aðeins hagstæðari kjaraleið heldur en ég átti að vera í, enda var ég fátækur námsmaður með engar eignir á bakinu. Hún gaf mér nafnspjaldið sitt og ef ég hef þurft eitthvað síðan hef ég bara sent henni tölvupóst og hún reddar því um leið.

Íslandsbanki fyrir Android

Þar að auki get ég stundað mín bankaviðskipti í farsímanum. Ég er með Íslandsbanka forritið sem gerir mér kleift að millifæra og greiða reikninga í símanum mínum sem er einmitt frábært fyrir mann eins og mig. Þar að auki er Íslandsbanki með Twitter aðgang og sér um að veita viðskiptavinum sínum og öðrum þjónustu þar. Ég hef til dæmis verið í sambandi við Íslandsbanka í gegn um Twitter varðandi app-málin hjá þeim. Þjónustan hjá þeim sem lætur þig vita þegar þú ert að fara yfir á kortinu þínu er til dæmis sprottin upp úr Twitter samskiptum, eftir því sem ég heyri. Það er frábært þegar fyrirtæki hlusta og bregðast við.

Í síðasta mánuði var ég aðeins að skoða fjármálin hjá mér og ákvað að líta aðeins yfir bílalánið mitt. Við nánari athugun á láninu komst ég að því að ég var að greiða of háa vexti að mínu mati. Lánið var tekið 2010 þegar fjármögnunarmarkaðurinn var í ruglinu og þar að auki var ég ekki í viðskiptum við bankann á þeim tíma. Ég hafði samband við Íslandsbanka (þessi deild heitir reyndar Ergo) með tölvupósti og spurði hvort hægt væri að færa vextina niður í þau kjör sem ég átti að fá. Það var nú minnsta vesenið og ég fékk þessu breytt samdægurs.

Til að toppa ánægju mína með Íslandsbanka var bréf frá þeim til mín sem beið eftir mér í forstofunni þegar ég kom heim úr vinnunni í morgun. Í bréfinu var skafa merkt Ergo fjármögnun og bréf sem þakkaði mér fyrir viðskiptin. Einnig kom fram hvernig ég gæti komist í samband við þau. Ég kunni vel að meta þetta, enda vantaði mig sköfu á þessum frostatímum.

Það má ýmislegt segja um íslensku bankana. Þeir hafa vissulega stigið rosaleg feilspor síðustu ár og eiga alla gagnrýni skilið. Að mínu mati hefur Íslandsbanki staðið sig best hvað varðar að byggja upp sína ímynd, þið megið alveg rífast við mig ef þið eruð ósammála. Ég er ánægður í mínum bankaviðskiptum hjá Íslandsbanka og ég gef þeim eitt stórt klapp fyrir. Birna Einarsdóttir, ég vona að þú sjáir þetta.

Þetta lesendur góðir var pistill frá boðbera. Ég er á engan hátt tengdur Íslandsbanka utan þess að eiga viðskipti við fyrirtækið. Endilega ekki vera hrædd við að viðra ykkar skoðun, enda getur hún verið allt önnur en mín.