Archive

Monthly Archives: January 2016

Fyrir tæplega 2 árum skrifaði ég pistilinn „Takk Síminn“ þar sem ég þakkaði Símanum fyrir alla þá reynslu sem fyrirtækið hafði gefið mér. Þá stóð ég á tímamótum, var að hætta hjá fyrirtækinu sem ég hafði unnið hjá allan minn „prófessjónal“ feril og við var að taka skemmtilegt og lærdómsríkt tímabil hjá Íslandsbanka.

Ég hef lært mjög mikið hjá Íslandsbanka og ég verð ævinlega þakklátur fyrir þá reynslu sem ég hef fengið þar. Ég hef unnið með eldkláru fólki sem hvetur mann til þess að prófa alltaf nýja hluti, gera ennþá betur en síðast og vinna hlutina eins faglega og mögulega hægt er. Fólkið hjá Íslandsbanka er frábært.

Ég verð samt að koma sérstakri kveðju til eins mans (og ég veit að nú hristir hann hausinn og bölvar mér í hljóði). Það er Már Másson sem var forstöðumaður deildarinnar minnar. Það eru fáir sem ég hef lært jafn mikið af og hann. Hann er flottur yfirmaður, gerir miklar kröfur en er alltaf sanngjarn. Hann veitir alltaf stuðning og er alltaf tilbúinn að bakka upp sitt fólk bæði í vinnunni og ef það þarf hjálp í einkalífinu. Ef það er eitthvað sem ég hef lært af honum þá er það hvernig á að leiða fólk og hvetja það til að bæta sig. Takk fyrir það Mási.

Frá og með 1. Febrúar er ég ekki lengur starfsmaður Íslandsbanka heldur er ég nemandi í fullu námi. Þessi orð eru skrifuð inni á pizzastað í Suður London þar sem ég verð búsettur næstu 6 mánuðina og á morgun hef ég nám við ESCP Europe háskólann. Vorið 2017 mun ég svo útskrifast með gráðu sem heitir M.Sc. in Marketing & Creativity. Ég verð hér í London fram á sumar og svo í París næsta haust. Eftir það tekur við starfsnám og svo þarf ég víst að skila ritgerð að því loknu.

Takk Íslandsbanki.

Ef þú átt leið til London þá skaltu hafa samband við mig. Ég er alltaf til í að fá mér eitt pint!

Kveðja,
London-Hjalti

20160117_151159

Advertisements