Archive

iPhone

Stórfréttir heyrðust í tækniheimum Bandaríkjanna í þessari viku þegar Steve Jobs ákvað að segja starfi sínu lausu sem forstjóri Apple. Þar með líkur 14 ára valdatíð Jobs og einu lengsta blómaskeiði nokkurs fyrirtækis, en Steve Jobs kom aftur til Apple árið 1997 eftir að hafa verið hrakinn í burtu frá fyrirtækinu sem hann tók þátt í að stofna árið 1984. Til að gefa gróft dæmi um hvaða stakkaskiptum Apple hefur tekið undir stjórn Jobs þá var verð á hlutí ársbyrjun árið 1997 um $4 en núna er verðið um 8300% hærra og stóð í $383.58 við lokun markaða á föstudag (Google Finance). Auðvitað skiptir verð á hlut ekki öllu máli en það hefur ákveðna hugmynd um stækkunina sem hefur átt sér stað.

Söguna af Steve Jobs þekkja mjög margir. Manískt tölvunörd sem stendur á bakvið margar af helstu uppfinningum síðasta áratuginn – iPod, iPhone, Macbook, iPad o.s.frv. Hann kemur fram við lófatak í svörtum rúllukragabol og kynnir nýjungar fyrir æstum eyrum lýðsins. Hann er semsagt hættur sem forstjóri næst verðmesta fyrirtækis í heimi en situr þó ennþá sem stjórnarformaður. Steve vinur okkar hættir þó ekki af vilja heldur af nauðsyn. Síðustu mánuði og ár hefur hann glímt við erfitt krabbamein og hefur staðgengill hans, Tim Cook stýrt fyrirtækinu meira og minna frá 2009. Ég vona að Steve nái sér að fullu og haldi áfram að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins enda er alltaf gaman að sjá karlinn á sviði.

En hver er þessi Tim Cook?

Tim Cook er fæddur 1960 í Alabama. Hann er með gráðu í iðnaðarverkfræði frá Auburn University í Alabama en sá skóli er einmitt vel þekktur meðal Íslendinga þar sem þeir hafa verið duglegir að sækja sér knattspyrnumenn í lið sitt hingað til lands. Svo er hann með MBA gráðu frá Duke University. Hann hefur verið hjá Apple síðan 1998 en áður vann Tim hjá Compaq og þar áður IBM í 12 ár. Þar að auki situr hann í stjórn Nike.

Tim Cook hefur þurft að leysa Steve Jobs af sem forstjóri nokkrum sinnum síðustu 7 árin á meðan hann hefur farið í veikindaleyfi. Fyrst árið 2004 þegar Jobs glímdi við krabbamein í brisi, svo árið 2009 þegar hann fékk nýja lifur og svo núna frá því í vetur. Cook var því rökrétt ráðning þar sem hann hefur verið lengi hjá fyrirtækinu og í raun hægri hönd Steve Jobs í gegn um árin. Hann hefur verið rekstrarstjóri (chief operation officer, COO) fyrirtækisins frá árinu 2005.

Tim Cook er sagður vera íþróttafrík og vinnualki. Hann á það víst til að kalla saman fundi á sunnudögum til að plana vikuna framundan og fyrstu póstarnir frá honum eru farnir að detta inn upp úr hálf 5 á morgnana. Sem rekstrarstjóri hefur hann tekið í gegn alla verkferla hjá fyrirtækinu og er hann sagður vera aðalmaðurinn á bakvið það að Apple hætti allri framleiðslu. Núna eru Apple vörur settar saman úr pörtum sem framleiddir eru hjá hinum ýmsu fyrirtækjum, sem dæmi eru örgjörvarnir í allar Macbooks framleiddir af Intel og myndavélarnar í iPhone hjá Sony.

Þegar kemur að vinnu er hann kaldur, harður og æsir sig aldrei. Hann hefur víst rifið fólk í sig á milli þess sem hann hámar í sig orkustykki, spyr spurninga sem fólk á ekki að vita svarið við og heldur alltaf áfram. Þrátt fyrir það er honum lýst sem “skemmtilegt að vinna með“. Utan vinnu virðist hann eiga fáa vini og kemur ekki mikið fram opinberlega. Hvort hann er feiminn, félagsfælinn eða bara illa við fólk veit enginn en þegar hann er ekki á skrifstofunni er hann í ræktinni, að hjóla eða úti að ganga á fjöll.

En hvað með framtið Apple?

Tim Cook er hæfur forstjóri, á því leikur enginn vafi. Undirmenn treysta honum og hann hefur mikla reynslu í stjórnun. Honum tókst að lækka gjöld hjá Apple og spara milljarða í leiðinni. En sama hvað hann gerir og hefur gert þá er hann ekki Steve Jobs. Steve Jobs er sífellt hugsandi um einfaldar lausnir fyrir notandann og vill hugsa út fyrir kassann í leit að nýjum vörum. Mun Apple halda þessu áfram þó foringinn sé farinn og nýr kominn í staðinn?

Auðvitað eigum við eftir að sjá nýja iSíma, iPöddur og Macbækur á næstu misserum. Það sem Cook þarf að gera er að finna og halda í það fólk sem bætir upp það sem hann hefur ekki. Karlinn er náttúrulega brjálæðislega gáfaður og eldri en tvævetur í þessum bransa þannig ég hef ekki áhyggjur í bili. Steve Jobs er líka þarna handan við hornið að fylgjast með úr stjórnarhásætinu.

Fyrir þá sem vilja vita meira um Steve Jobs geta horft á þáttinn um hann í Game Changers þáttaröðinni frá Bloomberg. Hann má sjá hér.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Tim_Cook
http://money.cnn.com/2008/11/09/technology/cook_apple.fortune/index.htm
http://thenextweb.com/apple/2011/08/25/who-is-the-new-apple-ceo-tim-cook/?awesm=tnw.to_1AW5A&utm_campaign=&utm_medium=tnw.to-other&utm_source=t.co&utm_content=spreadus_master
http://www.apple.com/pr/bios/tim-cook.html
http://mashable.com/2011/08/24/tim-cook-apple-ceo/

Jæja, mér finnst ég hafa verið svo dramatískur, pólitískur og heilsusamlegur undanfarið að ég held að það sé klárlega kominn tími á einn nörda-síma-forrita-pistil. Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil undir heitinu “Íslensk “Öpp””. Sá pistill var mjög Android miðaður, enda er ég Android maður eins og flestir vita. Nú eru liðnir sirka 4 mánuðir og fleiri forrit hafa bæst í hópinn. Einnig fæ ég reglulega fyrirspurnir hvort það séu ekki fleiri íslensk forrit og svo vísar Google fólki oft inn á síðuna mína þegar fólk er að leita sér að upplýsingum um íslensk forrit. Er Google Analytics ekki dásamlegt?

Sem fyrr eru QR kóðarnir bara fyrir Android en ég set hlekki sem vísa beint inn á viðkomandi forrit í hverja færslu sem við á.

Lumman

Lumman er forrit fyrir fótboltafíkla. Það er framleitt af sömu mönnum og hönnuðu Leggja.is forritið, Stokkur Software. Það er til í Android og er væntanlegt í iPhone á næstu vikum segja þeir. Forritið virkar þannig að það tekur nýjustu fótboltafréttirnar af helstu fréttasíðum landsins – Fotbolti.net, MBL.is, Visir.is, Sport.is – ásamt því að vera með úrslitaþjónustu beint í símann, þar sem m.a. er hægt að fylgjast með úrslitum í íslenska boltanum. Forritið er ókeypis og ég mæli hiklaust með að því sé hlaðið niðurÍslandsbanki
Fyrir skömmu setti Íslandsbanki nýjan farsímavef í loftið. Sá er mjög fullkominn og er sérstaklega góður fyrir snjallsíma. Það er hægt að skoða hann með því að fara inn á m.isb.is. Ég fór að sjálfsögðu á fullt og spurði Íslandsbanka á Twitter hvort það væru ekki einhverjar app pælingar í gangi hjá þeim. Ég fékk þau svör að vinna væri í gangi og viti menn, stuttu síðar fæ ég direct message frá þeim sem benti mér á forritið. Ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka Íslandsbanka sérstaklega vel fyrir góða þjónustu. Forritið er frábært, lítið og létt og virkar alveg eins og heimabankinn þinn. Að sjálfsögðu verðurðu að vera í viðskiptum við bankann til að það nýtist þér en það er annað mál. Eina spurningamerkið sem ég set við það er hvernig þeir munu leysa öryggismálin þegar auðkennislyklarnir verða lagðir niður og rafrænu skilríkin tekin upp að fullu. Ætli forritið verði þá úrelt? En það er seinni tíma vandamál. iPhone forritið er einnig væntanlegt samkvæmt Twitternum þeirra.

Smáralind

Smáralind reið á vaðið með tilboðsforrit fyrir snjallsímanotendur. Þeir sem sækja forritið eiga kost á því að sækja sér afsláttartilboð sem þeir svo sýna þegar þeir versla viðkomandi vörur. Það verður að segjast að forritið er frekar hægt og ég reikna með að það taki frekar mikið gagnamagn þar sem það sækir myndir og annað á netið. En hugmyndin er mjög sniðug og ég vona innilega að þeir haldi áfram að uppfæra það og betrumbæta eftir því sem líður á. Það hefur strax stórbatnað miðað við hvernig það byrjaði. Það var hannað af auglýsinastofunni Ennemm og er til fyrir bæði iPhone og Android. iPhone forritið má sækja hér.

Bland.is
Fyrr á árinu fengu vefirnir Barnaland.is, ER.is, Dyraland.is og Bloggland.is yfirhalninu og voru allir sameinaðir í Bland.is. Þar að auki var búinn til farsímavefurinn m.bland.is og einnig smáforrit fyrir bæði iPhone og Android notendur. Fyrir þá sem ekki vita er Barnaland eða Bland eins og það heitir núna, vefur þar sem fólk skiptist á myndum, sögum og ráðum fyrir börnin sín. Einnig hefur myndast eitt öflugasta markaðstorg Íslands þar inni sem og sennilega virkasta spjallborð landsins. Fyrir þá sem vilja fylgjast með sínum þráðum, sérstaklega ef það er að selja eitthvað er náttúrulega tilvalið að fá sér forritið í símann! Sækja má Bland.is fyrir iPhone hér.

Locals recommend
Þetta forrit er mjög skemmtilegt þó það sé kannski ekki endilega hannað fyrir íslenskan markað. Í forritinu má finna samansafn af myndböndum þar sem heimamenn (locals) segja utanaðkomandi hvað þeir eiga að gera í Reykjavík. Hugmyndin er einföld og góð og byrjaði með Reykjavík en af heimasíðunni að dæma ætla þeir félagar svo sannarlega að færa út kvíarnar og mér sýnist Stokkhólmur, Peking og Bangkok vera næst á dagskrá. Ég mæli endilega með að þetta sé skoðað því það er aldrei að vita nema þú finnir einhvern falinn fjársjóð sem þú vissir ekki af. iPhone forritið má nálgast hér.

Enn og aftur er ég viss um að þetta sé ekki tæmandi listi því það er fullt af hlutum að gerast í íslenskri hugbúnaðarþróun. Endilega ef ég gleymdi einhverju eða það vantar einhverjar upplýsingar þá skulið þið skilja eftir athugasemd hér fyrir neðan nú eða senda mér skilaboð á Twitter.

Að lokum vil ég benda á fleiri góða sem eru að fjalla um snjallsíma og smáforrit. Í sumar hafa sprottið upp a.m.k. tvær heimasíður sem fjalla um þessi mál. Þær eru Radarinn og Símon.is. Einnig er hægt að elta þær Twitter með @Radarinn og @Simon_is. Það er ánægjulegt að sjá að einhver nennir að spá í þessu annar en ég!

Update: 18/08/11
iPhone appið fyrir Íslandsbanka er komið út. Það má nálgast það með því að skanna kóðann fyrir neðan.

Allir nota peninga. Svo ég vitni í Þorvald Gylfason: “Hagkerfið þarfnast peninga líkt og vél þarf smurningu. Peningalaust hagkerfi er eins og olíulaus vél: byrjar að hökta og bræðir síðan úr sér.” Ekkert dramatískt hjá karlinum, en allt í lagi með það.

55 dollara seðill frá 1779

Fyrstu myntkerfin sem vitað er um voru sett á legg í Lýdíu við Miðjarðarhaf um 700 f.k. Mynt þótti fullkomin til þess að tákna virði einhvers. Fólk þurfti ekki að stunda vöruskipti lengur heldur táknaði myntin eitthvað virði í raunheimum. Sá sem átti mikið af henni gat keypt sér mikil veraldleg gæði. Síðan þá hafa smápeningar verið notaðir sem gjaldmiðill í gegn um hagsöguna. Til dæmis fékk Júdas 30 silfurpeninga fyrir að færa Rómverjunum Jesú.

Fyrstu heimildir um pappírspeninga eru sagðar frá um árið 700 e.k. í Kína undir Tang og Song keisaraveldunum. Þá voru viðskipti orðin það algeng að kaupmönnum þótti þægilegra að fá uppáskrifað blað í stað stórra kerrufarma af kopar, þar sem auðveldara er að flytja pappírinn. Þó eðli þessara blaða hafi verið líkara ávísunum heldur en þúsundköllum sem við sjáum í dag þá var tilgangur þeirra sá sami, að búa til máta til að geyma fjármuni, án þess að þurfa að flytja þá í hestförmum.

Kreditkortin fóru að gera vart við sig um 1920, þó þau hafi ekki almennilega náð fótfestu fyrr en Diner’s Club gaf út sitt fyrsta kort árið 1950. Maður fór á veitingastað en þegar kom að því að borga þá uppgötvaði hann að hann hafði gleymt veskinu sínu. Uppfrá því fór hann að hugsa að það ætti að vera til eitthvað sem maður gæti notað í staðinn fyrir peninga, skildi maður lenda í því að vera veskislaus. Með tölvuvæðingunni sem kom seinna á öldinni fóru kortin að vera sífellt vinsælli og nú í dag greiða flestallir með debet- eða kreditkorti, enda eru reiðufé og smápeningar bara til trafala að mínu mati.

Í dag er komið að næsta stökki í því hvernig neytendur greiða fyrir vöru. Núna er hægt að nota símann sinn. Fólk gleymir veskinu sínu enn þann dag í dag en það er sjaldgjæft að það gleymi símanum sínum. Með snjallsímavæðingu heimsins er fólki síðan gert kleift að taka við greiðslum og borga fyrir vörur og þjónustur. Eins og staðan er í dag virðast tvær lausnir ætla að stinga af. Annars vegar eru kreditkortagreiðslur sem afgreiddar eru í gegn um farsímann og hitt er NFC eða “near field communication”.

Jack Dorsey er ögn svalari en Zuckerberg

Flottasta fyrirtækið í dag í kreditkortagreiðslum fyrir farsíma er sennilega Square. Maðurinn á bakvið Square er Jack Dorsey sem hefur verið minnst á áður. Ef þú skráir þig sem viðskiptavin hjá Square þá færðu kortalesara og forrit með þar sem þú getur rukkað í gegn um iPhone, iPad eða Android. Inneignin fer svo bara beint inn á bankareikning sem þú tilgreinir. Spáðu í því hvað þetta væri geðveikt fyrir fólk sem rukkar fyrir þjónustur, t.d. iðnaðarmenn, braskarar á Barnalandi, eða bara vinur þinn sem skuldar þér pening og er tregur að borga. Hann straujar bara kortið. Square hefur verið mjög vinsælt í Bandaríkjunum og sem dæmi gerði Apple einkasölusamning við það. Nú er hægt að kaupa kortalesara aðeins í Apple búðum. Að sjálfsögðu er aðeins hægt að nýta þjónustuna í Bandaríkjunum sem stendur og þeir gefa ekkert út um að þeir vilji færa sig út fyrir landsteinana að svo stöddu.

NFC er tækni sem er að ryðja sér til rúms. Nú þegar eru nokkur handtæki farin að vera með þennan möguleika t.d. Samsung Galaxy S II og Nexus S. Einnig benda allir orðrómar til þess að tæknin verði til staðar í nýja iSímanum. NFC er ekki bara notað til að borga en það getur líka verið notað til að deila upplýsingum milli NFC tækja svipað og infrared eða bluetooth hefur gert. 

Samsung Galaxy SII

Til þess að nýta sér tæknina þarf að bera síma með NFC tækni upp að öðru NFC tæki og þá munu upplýsingarnar deilast á milli. Til þess að nota það í stað debet eða kreditkorts þarf að vera búið að tengja reikninginn við þartilgert forrit sem þú sækir í símann þinn. Google hefur riðið á vaðið og býður fólki upp á Google Wallet. Þú getur auðveldlega tengt kreditkortið þitt eða PayPal aðganginn við Google Wallet og svo bara byrja að versla með símanum þínum. 

Því miður þarf þróun að eiga sér stað til þess að hægt sé að byrja byltinguna. Til að byrja með þurfa fleiri handtæki að styðja tæknina, svo þurfa fleiri notendur að kaupa handtækin og að lokum þurfa kaupmenn að tileinka sér þróunina og bjóða upp á þessa tækni við greiðslu. Þetta er nú þegar farið að birtast á markaðnum þannig ég hef engar áhyggjur af því að þetta muni ekki verða vinsælt eftir nokkur ár. Starbucks hefur til dæmis verið að prófa þessa tækni núna í 2 ár, enda eru þeir yfirleitt fljótir að tileinka sér nýjungar.

Endum þetta á Google Wallet auglýsingunni.

WWDC – Worldwide Developers Conference – er árleg ráðstefna sem Apple heldur til þess að sýna nýjustu vörur og hugbúnað sem eru á leiðinni frá fyrirtækinu. Það var einmitt á WWDC 2007 sem fyrsti iPhone-inn leit dagsins ljós, og síðan þá hefur nýjasta útgáfan af iPhone alltaf verið kynnt við þetta tilefni, þangað til núna! Margir bíða spenntir eftir iPhone 5 en þeir þurfa víst að halda í sér fram á haust. Ástæðan fyrir seinkunninni í ár hefur ekki verið gefin upp en líklegt er að meira púður hafi verið sett bæði í iPad 2, iOS 5 stýrikerfið og iCloud, nýju hýsingarþjónustuna. iPadinn var kynntur til sögunnar í mars en iOS 5 og iCloud voru frumsýnd í dag, auk nýja Lion stýrikerfisins fyrir Apple fartölvur.

iOS 5

iOS er stýrikerfið sem keyrir iPhone, iPad og iPod touch. Nýjungar í þessu stýrikerfi eru t.d. breytingar á tilkynningunum, í stað þess að þær poppi upp á skjáinn eins og núna lætur stýrikerfið þig vita efst á skjánum. Þú þarft svo bara að renna fingrinum niður til að sjá tilkynningarnar þínar, hvort sem það er tölvupóstur, SMS eða hvað eina. iMessage er önnur nýjung, sem er eins og Blackberry Messenger fyrir þá sem það þekkja. Þannig verður hægt að senda SMS, myndir, myndbönd o.s.frv. frítt á milli Apple tækja (iPod touch, iPhone og iPad). Þar að auki voru flottar umbætur á myndavélinni, póstforritinu og innsláttaraðferðinni. Og nú er LOKSINS er hægt að kveikja á nýja símanum sínum og byrja að nota hann án þess að þurfa að stinga honum í samband við tölvu. Einnig er hægt að uppfæra símann yfir WiFi tengingu.

Það sem mér finnst einna skemmtilegast er að það er búið að bæta við Twitter-samkeyringu. Twitter forritið kemur uppsett í símanum. Núna er hægt að deila með einum smelli linkum úr Safari, myndavélinni, myndböndum af YouTube o.fl.

Í flestum þessum uppfærslum er ekkert verið að finna upp hjólið. iMessage er eins og áður sagði það sama og BBM. Þetta er samt góð læsing til að ná heilum vinahópum og vinnustöðum yfir í iPhone. Tilkynningarnar eru núna orðnar alveg eins og í Android og meiri hlutinn af „The Twitter integration“ var hægt að gera nú þegar í gegn um Twitter forritið. En það er verið að taka gamlar hugmyndir, þær settar í nýjar umbúðir og þeim pakkað skemmtilega inn og notaðar til að búa til enn fullkomnara tæki. Hægt verður að fá uppfærsluna í iPhone 3GS og iPhone 4 auk þess sem hún mun keyra iPhone 5 í haust.

iCloud

Steve Jobs kynnti iCloud

Hérna erum við með frekar flotta þjónustu sem fylgir frítt með hverju iOS 5. Núna er virknin orðin meira Google-leg. Tengiliðir, tölvupóstur, myndir, forrit og dagbók er geymd í skýinu og tala sjálfkrafa saman á milli tækja sem þú velur að deila með. Þannig ef þú átt iPhone 3GS og keyptir þér Sleep Cycle forritið, þá geturðu syncað það saman við nýja iPhone 5 sem þú kaupir þér í haust án nokkurs auka kostnaðar.Það er almennileg uppfærsla! Þetta þýðir enginn skiptikostnaður, engar snúrur og sjálfvirk samtenging.

Þessi þróun er ekkert nema eðlileg, sérstaklega miðað við það sem Google hefur verið að gera. Það stefnir allt upp í skýin eins og ég talaði um hér. Ef einhver vill horfa á WWDC fyrirlesturinn er hægt að horfa á hann hér.

iCloud er samt ekki alveg gagnrýnislaust. Nokkrir af pennunum hjá Engadget hafa litla trú á því að kerfið hjá AT&T muni þola alla þessa auknu gagnanotkun. Einnig hefur þetta verið talað niður þar sem þetta hefur nú þegar verið gert, t.d. hjá Google. Ég vil samt ekki gera lítið úr Apple í þessum málefnum af því þarna hafa þeir tekið, eins og ég sagði áðan, hluti sem eru til og sett þær í notendavænar umbúðir sem fáir samkeppnisaðilar geta mætt.

iPhone 5

Þessi mynd lak á netið.
Er þetta iPhone 5?

Við verðum að snerta aðeins á iPhone 5 þó svo að ekki hafi verið minnst á hann í aðalstefnuræðu Steve Jobs. Mikið af slúðri hefur verið í gangi í kring um nýja iSímann enda er hans beðið með mikilli eftirvæntingu. Mashable tók saman skemmtilegt infograf þar sem þeir taka saman helstu sögusagnirnar sem eru í gangi. Nokkrir hlutir sem hægt er að lofa eru til dæmis 8mp myndavél sem forstjóri Sony missti út úr sér í viðtali. Einnig verður að teljast líklegt að hann verði með tvöföldum örgjörva eins og iPad 2. Ég mæli með því að þið skoðið grafið frá Mashable til gagns og gamans.

Það sem gerir snjallsíma og fólk með snjallsíma eins kúl og það er, að eigin sögn að minnsta kosti, er tískuorðið “social”. Nú “social” í þessari merkingu þýðir í raun að vera duglegur að deila hlutum, hvort sem það eru hlekkir á vefsíður, myndir, myndbönd eða skoðanir. Til þess að þessir hlutir sem maður deilir verði í raun “social” þurfa að springa út frá því umræður, fólk segir sínar skoðanir á því og deilir jafnvel áfram með vinum sínum.

Danilo Turk, forseti Slóveníu

Mér finnst rosalega skemmtilegt að geta deilt hlutum í rauntíma. Við virðumst öll hafa þessa þörf að láta fólk vita hvar við erum, hvað við erum að gera, hvaða skoðun við höfum á hinu og þessu og ekki er verra ef við getum látið myndir fylgja með. Þannig fékk ég kveðju frá Slóveníu á Twitter eftir að hafa hlaðið inn mynd af forseta Slóveníu, eftir að ég rakst á hann fyrir tilviljun í Háskóla Íslands.

Það er hægt að ræða það fram og aftur hvað það er að vera “social”, ég ætla svosem ekki að fara út í neinar rökræður varðandi það, mig langar einfaldlega til þess að hjálpa þér að geta deilt því sem þú ert að gera með vinum þínum og ættingjum.

Það þekkja langflestir, ef ekki allir, aðal leiðirnar, deila á Facebook, Twitter og YouTube. Flestir fullkomnari símar í dag hafa þennan möguleika, margir af þeim innbyggðan. Þess vegna ætla ég ekkert að fara nánar út í þá.

Justin.tv

Justin TV fyrir Android

Justin.Tv er síða þar sem fólk getur farið frítt inn og deilt myndböndum með öðru fólki. Hver er munurinn á því og YouTube? Streymi! Ég get streymt beint úr Android eða iPhone símanum mínum inn á Justin.TV síðuna mína og deilt linknum með vinum mínum sem eru ekki á staðnum. Segjum sem svo að þú sért á fótboltaleik hjá stráknum þínum en mamma hans komst ekki af því hún er veik heima. Þú rífur bara upp símann og streymir þessu beint yfir netið svo hún geti fengið að horfa á. Finnur Magnússon er maðurinn á bakvið Íslensk Samfélagsmiðlun hópinn á Facebook. Einu sinni í mánuði eru skipulagðir hittingar þar sem einhver snillingur á samfélagsmiðlum er fenginn til að segja frá árangri sínum. Hann hefur notað þessa tækni í iPhone 4 símanum sínum með góðri raun og þá hafa nördar heima í stofu fengið að vera með í gegn um netið. Hér fyrir neðan er eitt slíkt myndband.

Flickroid

Flickroid

Ég stofnaði Flickr síðu um daginn og prófaði nokkur forrit til að hlaða
inn myndum beint úr símanum þar sem ég á ekki myndavél. Eftir því sem ég komst næst þá var ekki til neitt opinbert forrit frá Flickr sem var bömmer fyrir mig. En sem betur fer eru nördar úti í heimi með sama vandamál, þannig eftir að hafa prófað nokkur forrit þá hef ég ákveðið að Flickroid sé þægilegast og einfaldast. Ég mæli með því.

Liveproject

Liveproject

Liveproject er nýtt íslenskt forrit sem gerir þér kleift að deila myndum af ákveðnum viðburðum. Það hefur meðal annars verið notað á AK Extreme hátíðinni fyrir norðan og á Reykjavík Fashion Festival. Ég gæti trúað því að það verði meira og meira notað eftir því sem líður á því þetta er rosalega sniðugt tól til þess að halda utan um allar myndir og myndbönd, sérstaklega fyrir þá sem halda viðburði.

iPhone!

Það eru örugglega margir sem halda að ég þoli ekki iPhone og Apple miðað við hversu mikið ég tala um Google og Android. Sú er alls ekki raunin. iPhone 4 er eitt af flottustu tækjunum á markaðinum og það er engin tilviljun að fólk bíður í röðum eftir nýjum vörum eins og iPad 2. Ég væri alveg til í að skipta yfir í iSímann til að prófa það líka. Mér finnst samt líklegt að geimveran yrði ofan á, en það er ómögulegt að segja til um 🙂

Social Cam fyrir Android

Allavega, þá eru líka til nokkur forrit sem hafa verið vinsæl í Apple nörda heiminum. Til að mynda hefur Instagram notið gífurlegra vinsælda. Það er mjög skemmtilegt forrit til þess að deila myndum með vinum þínum og einnig til þess að bæta auka “effectum” á myndina. Fyrir þá sem finnst gaman að deila myndböndum hefur Social Cam notið mikilla vinsælda. Social Cam er framleitt af snillingunum á bakvið Justin.TV sem við höfum nú þegar farið í. Social Cam er líka í boði fyrir Android.

Jæja hver eru skilaboðin í pistli dagsins? Vertu með almennilegan síma, taktu myndir og myndbönd og vertu “social”.

Ef einhver er með almennilega þýðingu á orðinu “social” má sá hinn sami endilega láta mig vita hér að neðan.