Auglýsingar geta breytt heiminum

José Miguel Sokoloff

Föstudaginn 24. febrúar eyddi ég heilum degi á ráðstefnu á vegum ÍMARK. Þessi ráðstefna er árlegur viðburður og er kallaður Íslenski markaðsdagurinn. Það voru 5 erlendir fyrirlesarar sem komu og héldu erindi, flestir mjög góðir en það var einn sem stóð upp úr og skildi mest eftir sig.

José Miguel Sokoloff er stjórnarformaður Lowe SSP3, næst stærstu auglýsingastofu Kólumbíu. Hans fólk hefur verið að vinna fyrir varnarmálaráðuneyti landsins við það að reyna að fá skæruliða í frumskóginum til að afvopnast. Skilaboðin í auglýsingunum eru “Leggið niður vopnin og komiði heim. Fjölskyldan bíður eftir ykkur.”

Kólumbía hefur lengi verið í stríði við sjálfa sig. Landið var fyrst spænsk nýlenda en fékk sjálfstæði eftir mikla baráttu 1810 og varð þar með fyrsta landið í Suður Ameríku sem setti sér stjórnarskrá. En lífið var ekki dans á rósum eftir að stjórnarskráin kom og hefur saga landsins verið blóði drifin í yfir 100 ár. Fyrst geysaði borgarastyrjöld, svo stjórnuðu glæpahringir landinu og síðustu 2 áratugir hafa einkennst af baráttu við skæruliðahópa (e. guerrillas) sem telja sig vera að berjast fyrir réttindum fátækra.

Skæruliðunum hefur fækkað töluvert síðustu ár og nokkur árangur hefur náðst í baráttunni. Sem dæmi var fyrrverandi skæruliðinn Gustavo Petro kosinn borgarstjóri í höfuðborinni Bogotá á síðasta ári. Samt búa ennþá nokkur þúsund manns í frumskóginum og berjast fyrir sínum málstað. Það er búið að reyna að semja beint, fá milligöngumann til að semja og það er búið að þrýsta á skæruliðana með hernaðaraðgerðum. Ráðþrota snéri varnarmálaráðuneytið sér til José og félaga hvort hægt væri að finna nýja leið til að tala við skæruliðana og fá þá til að leggja niður vopnin. Þetta var afraksturinn.

Operacíon Navidad (e. Operation Christmas)

Hugmyndin er semsagt að auglýsingastofan og herinn tóku höndum saman og fluttu jólin út í frumskóginn. Risastórt tré var þakið jólaljósum og í kringum það voru hreyfiskynjarar sem ollu því að tréð lýstist upp þegar skæruliðarnir gengu framhjá og sýndu skilaboðin “Ef við getum komið með jólin inn í frumskóginn getið þið komið heim. Afvopnist.” Þetta var endurtekið á 9 öðrum stöðum um landið. Árangurinn: 30% aukning í uppgjöfum af hendi skæruliðanna.

En þá var ekki tími til að hætta. Ríkisstjórnin nýtti sér þennan meðbyr til að gera fleiri auglýsingar, flestar í útvarpi og fengu fyrrverandi skæruliða með sér í lið. Það voru tekin upp viðtöl sem voru spiluð í útvarpi á tíðnum sem náðu til skæruliðanna. Sögur af fólki sem hafði náð að flýja, því lífið er víst enginn dans á rósum fyrir óbreyttan uppreisnarhermann í frumskóginum. Flestir þurfa að flýja og eiga á hættu að vera refsað eða drepnir ef þeir nást af félögum sínum. Þetta hernaðarbrölt er fjármagnað með mannránum og lausnargjöldum.

Þessar sögur voru svo nýttar til að hjálpa till sem og sögur frá fórnarlömbum sem höfðu verið í haldi mannræningja. Hér er stjórnmálamaðurinn Sigifredo López að koma aftur heim eftir að hafa verið haldið föngnum. Þessu var semsagt hent í sjónvarpsauglýsingu með yfirskriftinni “Þú getur látið þessi augnablik gerast”.

Nú var fólk farið að taka eftir þessu. Þúsundir manna lögðust á eitt og héldu mótmælagöngur til að mótmæla áframhaldandi stríði. Fólk er komið með nóg, það þráir frið. Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu lét hafa eftir sér í fjölmiðlum: “Það er ekki bara ríkisstjórnin sem kallar eftir friði, heldur öll Kólumbía.”

Operacíon Ríos de Luz (e. Operation Rivers of Light)

Fyrir síðustu jól tók þjóðin svo þátt. Farið var um alla Kólumbíu og safnað saman kveðjum, litlum munum, ljóðum, gjöfum, óskum og heimboðum. Þessu var öllu skellt í litlar kúlur sem var svo farið með inn í frumskóginn. Forsetinn sjálfur fór inn í frumskóginn til að skila sinni kveðju. Skæruliðarnir nota stór fljót til að komast á milli og því var tilvalið að fleyta þeim þar. Þegar dimma tók lýstu svo allar kúlurnar þannig árnar lýstu upp allan frumskóginn og vísaði skæruliðinum leiðina heim.

Þetta finnst mér rosalega fallegt. Það er gaman að sjá hvernig hægt er að nota auglýsingar til að gera gott og til að breyta jafnvel heiminum. Það var áhrifaríkt að hlusta á José Sokoloff segja frá þessu. Honum var mikið niðri fyrir og það lá við að hann væri klökkur í lokin. Það féllu nokkur tár í salnum á meðan kynningunni stóð og hann fékk dynjandi lófaklapp í lokin. Operation Christmas herferðin hefur unnið fjölda verðlauna og fengið verðskuldaða athygli út um allan heim. Sem dæmi horfðu 60 þúsund manns á myndbandið fyrstu 2 dagana.

Þessi saga snerti mig það mikið að ég ákvað að segja hana til hinna sem ekki voru á staðnum. Vonandi að þið hafið haft jafn gaman af þessu og ég.

1 comment

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s