Archive

Monthly Archives: March 2012

Andri Snær Magnason

Einn dag í síðustu viku var ég að keyra heim úr vinnunni. Á leiðinni upp í Kópavog lét ég hugann reika, svona eins og maður gerir eftir langan vinnudag. Allt í einu fékk ég þá hugdettu að horfa á aftur á Draumalandið, heimildarmyndina sem er gerð eftir samnefndri bók eftir Andra Snæ Magnússon. Ég las bókina fyrir ca 5 árum og fór á myndina þegar hún var sýnd í bíó. Þannig ég fór heim, Tinna mín var að vinna, bjó til piparsveinakvöldmat (samlokur) og leigði mér Draumalandið á VODinu.

Fyrir þá sem hafa ekki séð Draumalandið þá er hún hápólitísk ádeila á stóriðjuna. Þar eru stjórnmálamenn, bæjarstjórar og fleiri virkjanahaukar látnir líta út eins og hálvitar og afdalabændur eru upphafnir. Myndin er rosalega sorgleg en þar er stórbrotin náttúra sýnd fara undir virkjun og álver, og til að toppa allt saman þá er gæsamamma sýnd reyna að hlífa eggjunum sínum frá vatninu sem ætlar að drekkja hreiðrinu. Allt þetta er rosalega sorglegt og átakanlegt að horfa á, en þegar myndinni er lokið skilur hún samt ekkert eftir sig. Hún reynir að höfða til tilfinninga í fólki og vekja það til umhugsunar um náttúruna, en það bara tekst ekki. Sagan er ekki nógu góð.

Eftir að hafa horft á myndina, þá mundi ég hversu áhrifarík og skemmtileg mér fannst bókin á sínum tíma. Þannig ég reif upp Draumalandið og lá yfir henni í nokkra daga þangað til ég var búinn að drekka í mig allt sem í henni var að finna. Og viti menn, bókin var jafngóð og mig minnti!

Andri Snær setur fram virkilega flottar og skemmtilegar pælingar í bókinni. Draumalandið er skoðun eins manns, en sú skoðun er rökstudd vel með vísunum í söguna, tölfræðilegar staðreyndir og tilvitnanir í fólk. Hann það eru þrennt sem virkilega situr eftir í mér eftir að hafa lesið Draumalandið í annað skiptið.

1. Virkjun og stóriðja = framfarir,  Allt annað = Hnignun og dauði

Ætli besta skilgreiningin á stóriðju sé ekki “orkufrekur framleiðsluiðnaður”. Dæmi um stóriðjufyrirtæki eru t.d. álverin okkar, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga og Sementsverksmiðjan á Akranesi. Til þess að slík fyrirtæki geti starfað þurfa þau orku og til þess að fá orku þarf að virkja.

Kárahnjúkavirkjun

Nú er ég ekki andvígur virkjunum, en ég hef hins vegar áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á efnahag okkar og framtíð ef við dembum öllum eggunum okkar í sömu körfuna og stöndum uppi með 5 álver, sem eru undirstaða atvinnulífs okkar. Spurðu fólk sem átti allt sitt sparifé í hlutabréfum bankanna hversu góð áhættudreifing það er að treysta á einn iðnað. Í stað þess að byggja risastóra virkjun, sem starfar til þess að þjóna einu risaálveri, er ekki sniðugra að ganga til samninga við þrjá minni aðila sem þurfa minni orku, menga minna og hjálpa okkur að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf?

Og þarf ríkisstjórnin að vera að vasast í því að fá þessa aðila til Íslands? Getum við ekki hjálpað okkur sjálf?

2. Hvaða fyrirtæki viljum við fá til Íslands?

Þorp á kafi í rauðri leðju

Stakk það engan þegar forseti Íslands sagði í viðtali við Bloomberg fréttastofuna að hér á Íslandi væru fullt af tækifærum fyrir erlend fyrirtæki til að fjárfesta og rökstuddi það með því að segja frá því að Alcoa og Rio Tinto vildu byggja hér álver? Áliðnaður er gríðarlega mengandi og allt ferlið veldur gríðarlegu umhverfisraski. Man einhver eftir umhverfisslysinu sem varð í Ungverjalandi fyrir einu og hálfu ári? Þar rofnaði stífla sem átti að halda eitraðri leðju í lóni. Það endaði ekki betur en að leðja rann í gegn um nokkur þorp, kostaði nokkur mannslíf og olli ómældum skaða. Núna eru álver á Reyðarfirði, í Hafnarfirði og í Hvalfirði, er þetta ekki komið gott?

Rio Tinto hefur í mörg ár verið fordæmt fyrir að menga og spilla náttúru, rányrkju og brjóta á rétti verkamanna ásamt fleiru. Alcoa er einn stærsti hergagnaframleiðandi í heiminum. Þetta eru fyrirtækin sem forseti vor vill að hjálpi Íslandi. Ég veit það eru ekki til neinir englar í hinum harða heimi viðskipta en halló!

3. Getur framboð búið til eftirspurn?

Ef að á Íslandi útskrifuðust 200 stjarneðlisfræðingar á ári, hvað myndi þá gerast? Myndu þeir allir enda atvinnulausir? Já segir einhver, enda er ekki til neitt að gera fyrir stjarneðlisfræðinga á Íslandi. Eða hvað? Ef þekkingin væri til staðar væri þá ekki kominn grundvöllur fyrir spennandi fyrirtæki sem sérhæfði sig í rannsóknum á himinhvolfinu? Eða bara eitthvað allt annað?

Sigur Rós

Ef fleiri myndu skrá sig í FÍH og læra að verða tónlistarmenn, myndi það minnka möguleika þeirra á því að fá vinnu af því það eru of margir tónlistarmenn? Myndi tónlistargeirinn ekki bara stækka og dafna og við myndum eignast aðra Björk, Sigur Rós, Mugison eða Garðar Thor Cortes?

Ef að 500 viðskiptafræðingar útskrifast á ári, en aðeins 200 fá vinnu, erum við ekki með 300 manns á lausu sem geta látið að sér kveðja á öðrum stigum þjóðfélagsins? Þau geta farið í frekara nám, þau geta stofnað innflutningsfyrirtæki, þau geta farið á Alþingi eða veitt ráðgjöf. Það þarf ekki allt að vera inni í kassanum og matreitt fyrir “atvinnulífið”. Hugsum hlutina í aðeins víðara samhengi. Það sama á við um allar greinar.

————————————————————————————-

Draumalandið

Ég get með sanni sagt að þessi pistill er allt annar en sá sem ég ætlaði að skrifa. Fyndið hvernig hugmyndir breytast og þróast þegar maður vinnur með þær. Ég mæli með Draumalandinu, hún vekur mann til umhugsunar sama þó maður sé sammála hverju orði, öðru hverju nú eða ekki stakasta staf í bókinni.

Ef einhvern vantar eintak af Draumalandinu má viðkomandi fá mína, gegn því skilyrði að þegar hann er búinn að lesa bókina láti hann einhvern annan fá hana.

Jæja þá er ég búinn að yfirgefa gamla góða Blogspot. Samleið mín og Blogspot hefur svosem ekki verið löng, en fyrsti pistillinn sem ég skrifaði á Hugrenningarnar bar nafnið Af leti afgreiðslufólks og birtist þann 21. febrúar á síðasta ári. Nei það er ekki alveg rétt, við áttum stutt samband þegar ég var í 2. bekk í MA, en þá fór ég að blogga á síðunni http://tjalfi.blogspot.com, þannig tæknilega séð hefur samband mitt við blogger spannað um 7 ár, með góðu hléi.

            vs     

Þegar ég valdi Blogger í fyrra var það vegna þess að það var greinilega auðvelt viðmót. Þú skráðir þig einfaldlega inn með Google ID og svo gastu byrjað. Þemun sem voru í boði voru einföld og þægileg og þetta virkaði bara strax frá byrjun. Ég hafði aldrei rekið heimasíðu áður og mig langaði bara til að byrja að skrifa.

En eftir því sem leið á fór ég að lesa mér meira til og langaði til að fikta aðeins meira. Þó að Blogger viðmótið sé einfalt og þægilegt þá er það virkilega lokað og býður ekki upp á að það sé fiktað mikið í því. Til dæmis var vesen bara að fá inn Facebook Like takka.

Þannig ég gerði eins og heimurinn og hoppaði yfir á WordPress. Ég er búinn að ætla að gera það í einhvern tíma, en ég vildi gera síðuna flotta og þægilega fyrst ég var nú á annað borð að skipta. Ég valdi mér frítt þema sem heitir Blogum. Það er mjög stílhreint og fallegt að mér finnst. Ég er nokkurn veginn með það eins og það kemur af kúnni en það býður upp á meiri möguleika til að breyta því ef ég vil, seinna meir.

Það fáránlega er hversu auðvelt það var að fá allar færslurnar yfir ásamt athugasemdunum. Fyrir þá sem eru að hugsa um að færa sig yfir þá þarf bara að fara inn í WordPress Dashboard -> Tools -> Import. Þá geturðu fært allar hreyfingar á Blogspot síðunni þinni yfir í einum grænum.

Einn stór kostur sem WordPress hefur framyfir Blogger er kommentakerfið. Hér er miklu þægilegra kommentakerfi þar sem HVER SEM ER getur skilið eftir sitt innlegg án þess að logga sig inn. Ef viðkomandi vill skilja eftir opinbert fótspor á síðunni minni þá getur viðkomandi skráð sig inn með Facebook eða Twitter aðgangi, nú eða bara skrifað nafnið sitt undir.

Að þó þetta hafi allt verið ótrúlega auðvelt og þægilegt er samt að sjálfsögðu smá galli á gjöf Njarðar. Þegar þú færir færslurnar svona sjálfvirkt á milli þá á textinn það til að ruglast aðeins, sérstaklega þegar kemur að myndum, myndböndum og einstaka greinaskilum. Ég er þó að vinna í þessu og innan skamms munu allar færslurnar verða eins og nýjar.

Ég vona að okkar samskipti munu bara batna og verða ennþá meiri og tíðari en hefur verið með þessari litlu breytingu.

Í haust skrifaði ég um allar tilboðssíðurnar. Í dag eru fjórar virkar að einhverju leiti: Dilar.is, Hopkaup.is, Aha.is og WinWin.is. Hinar fimm eru svosem í gangi en tilboðin eru stopul og óspennandi. Þær eru Kaupnet.is, Kaupmattur.is, Nemendafelagid.is, Magntilbod.is og Gæsin.is.

Íslenski markaðurinn er lítill þetta vita allir. Ég held að áður en þetta ár er úti þá verði ekki nema 3-4 síður eftir og þeim mun fækka ennfrekar, niður í 2-3. Ástæðan, það eru bara X mörg fyrirtæki á Íslandi sem eru tilbúin að veita svona afslátt. Veistu hversu pirrandi það er að fá símtal frá NÍU mismunandi aðilum að betla eins tilboð? Og þá eru ekki meðtalin allir þessir klúbbar eins og Einkaklúbburinn, 2 fyrir 1, World for 2, fyrirtækjasamningar, samningar við nemendafélög og allir hinir.

En vissuð þið að það eru FIMM smálánafyrirtæki á Íslandi. FIMM! Kredia kom fyrst á markaðinn fyrir um 2 árum, Hraðpeningar þar á eftir og á þessu ári hef ég orðið var við auglýsingar frá Smálán, Múla.is og 1909. Er ekki í lagi?

Og talandi um auglýsingarnar frá þessum fyrirtækjum. Mig langar til að gefa ykkur smá ráð. Auglýsingin frá Múla.is hljómar einhvernveginn svona: “Ekki taka lán fyrir pizzu, ekki taka lán fyrir buxum og ekki taka lán með SMS. Farðu á Múla.is og taktu lán þar!”. Ok í alvörunni, ef þú ætlar að selja eitthvað, ekki byrja á því að segja fólki af hverju það ætti ekki að kaupa vöruna þína! Eftir að hafa hlustað á þá auglýsingu langar mig ennþá minna að taka svona lán. Og 1909: veljið ykkur eitthvað betra stef heldur en það sem þið endið auglýsingarnar ykkar á. Þetta er bara leiðinlegt og tacky.

Ég hef enga trú á því að það rúmist pláss fyrir fimm smálánafyrirtæki á markaðnum. Ætli Kredia.is og Hraðpeningar eigi ekki eftir að standa eftir í lok dags, þar sem þau eru orðin þekktust og greinilega með þokkalegt auglýsingabakland.

Þessi fyrirtæki hafa mætt harðri gagnrýni þar sem auglýsingar þeirra beinast að ungu fólki með litla reynslu af fjármálum. Nú síðast í vikunni birtist viðtal við unga stúlku sem hafði lent í vítahring smálánanna. Fjölsmargir hafa kallað eftir sérstakri lagasetningu um þessi fyrirtæki. Orðum eins og okurvextir er hent í umræðuna og athugasemdakerfið á DV.is logar. Flestir vilja banna þetta og vísa til nágrannalandanna þar sem ungt fólk er skuldsett upp fyrir haus eftir að hafa lent í svipuðum “vítahring”.

Hjalti frændi

Krakkar, hér kemur eitt gott ráð frá Hjalta frænda. Ekki taka lán fyrir neyslu. Ef þú átt ekki fyrir einhverju, ekki kaupa það. Þetta heitir að vera skynsamur. Ungt fólk að steypa sér í fjárhagsvandræði er ekkert nýtt á Íslandi. Hér er fólk að missa það yfir skuld upp á nokkra tugi þúsunda, en það þykir ekkert tiltökumál að ungt fólk um tvítugt sé að kaupa sér of stórar íbúðir og dýra bíla sem það getur varla borgað af. Þegar ég var 18 voru krakkar að taka yfirdrátt til að borga VISA reikninginn. Þarf ekki sérstaka lagasetningu á það líka?

Þarf ekki bara að kenna þjóðinni að fara með peninga? Hvernig getur fullorðið fólk sem steypti heilu landi næstum því í gjaldþrot verið að öskra úlfur úlfur núna? Ekki lifa um efni fram, það á við um fullorðið fólk sem og unglinga. Hættið að væla og takið ykkur aðeins saman í skynseminni.

kveðja
Hjalti frændi

Þeir sem hafa áhuga á flottum vefsíðum og vel framsettu efni ættu að tékka á vorlínunni hjá Wrangler. Þar eru fötin sem verða til sölu hjá Wrangler kynnt á mjög skemmtilegan hátt. Það er ekki oft sem maður fer inn á síðu og klárar þau verkefni sem hönnuðurinn vill að þú leysir. Í þessu tilviki er verið að vinna með “drag-and-release”  þar sem karakterinn frís inn á milli og þú þarft að koma honum af stað aftur. Þetta er mjög skemmtileg útfærsla og hringurinn er hæfilega langur, þannig að maður heldur áfram og klárar hann án þess að manni sér farið að leiðast.

Farðu á síðuna og sjáðu sjálf(ur): www.wrangler-europe.com.

Það er verið að kynna bæði karl- og kvenlínuna.

Mér finnst þetta hitta beint í mark og vera skemmtileg framsetning á efni. Eftir að hafa skoðað þessa síðu myndi ég klárlega kíkja inn í Wrangler búð og athuga hvað þeir hafa upp á að bjóða.

Þetta virðist vera orðið trend í tískugeiranum að reyna að búa til “online tískusýningu” til að sýna fram á hversu flott þitt vörumerki er. Jack and Jones tóku svipað stunt á síðasta ári til að kynna vetrarlínuna hjá sér. Herferðin bar nafnið How to stay safe og sýndi unga karlmenn lenda í vandræðum út af því hversu vel þeir voru klæddir.

Íslendingar eru farnir að feta sig inn á þessar slóðir og 66°norður reið á vaðið með veftímariti til að sína 2012 vetrarlínuna sína. Sú herferð skilaði þeim í fjölda tilnefninga, m.a. tilnefningar til SVEF verðlaunanna og Lúðursins. Hugmyndin fannst mér mjög flott og vel út færð en það hefði samt verið gaman að sjá hana tekna skrefinu lengra og láta vera einhverja virkni til að hvetja fólk til að skoða meira. Það sem 66 gerði hins vegar vel er að það var auðvelt að finna fötin sem þú varst að leita að og síðan leiddi þig beint inn í kaupferlið.

Ef þið lumið á fleiri góðum dæmum væri gaman að heyra af þeim.

Ég ætla að byrja þessa færslu á því að efna til samkeppni um bestu þýðinguna á enska orðinu “newsjacking”. Ef þú hefur ekki heyrt þetta orð áður þá er ekki seinna vænna en að þú lesir færsluna!

Ég kýs að nota orðið “fréttastuldur”, þangað til einhver kemur með eitthvað betra. Fréttastuldur hefur verið til lengi og tíðkast í öllum brönsum í heiminum. Orðið kemur samt frá David Meerman Scott, manni sem ég hef skrifað um áður. Hann hefur notað það í mikið af sínum skrifum, bæði í bókum og á blogginu sínu. Nú síðast í nóvember gaf hann út stutta rafbók sem hægt er að kaupa fyrir Kindle.

Fréttastuldur er í raun mjög einfaldur í framkvæmd. Nýttu þér fréttir til að koma sjálfum þér og/eða vörum þínum á framfæri. Þetta gengur út á að finna sjónarhorn á fréttum þar sem þú getur troðið inn á snjallan hátt og þannig “stelur” þú augnablikinu. Þetta frábær leið til fyrir fólk og fyrirtæki sem hefur lítið auglýsingabudget og vantar einhverja umfjöllun.

En hvernig nærðu þessu? Það er hægt að gera þetta klassíska, hringja í fréttamenn eða senda þeim tölvupóst og vona að þeir fjalli um þig í kjölfarið. En auðveldasta leiðin er auðvitað að nota hina svokölluðu samfélagsmiðla. Ef þú eða fyrirtæki þitt ert með blogg, Facebook síðu, Twitter aðgang eða eitthvað slíkt, þá er mjög auðvelt fyrir þig að smella þér inn í umræðuna, án mikillar áreynslu. Best er að nýta þessa miðla alla saman.

Eigum við að taka nokkur dæmi?

Joe Payne er á Twitter

Fyrirtækið Eloqua sérhæfir sig í hugbúnaði  fyrir markaðsfyrirtæki sem samhæfir vefmælingar, tölvupóstsendingar og aðrar aðgerðir á vefnum. Forstjórinn, Joe Payne (svalt nafn), varð þess áskynja að Oracle var að ganga frá kaupum á aðal samkeppnisaðilanum, Market2Lead. Það hefði verið auðvelt fyrir Joe Payne að kalla inn allt starfsfólkið á krísufund og haft áhyggjur af nýjum risa á markaðnum. Í staðinn settist hann niður, skrifaði bloggfærslu þar sem hann bauð Oracle velkomið og sagði það ánægjulegt fyrir þennan bransa að risarnir á hugbúnaðarmarkaðnum væru farnir að horfa í þennan markað.

Þessi eina bloggfærsla skilaði sér í umfjöllun í Business Week, InfoWorld, PC World og fleiri og fleiri. Á næstu vikum sprungu allir sölukanalar upp út af allri athyglinni og í kjölfarið var skrifað undir $500.000 samning við Red Hat. Payne hefur sagt að þessi litla bloggfærsla hafi fært fyrirtækinu um MILLJÓN dollara í tekjur.

Man einhver eftir stóra saltmálinu hér um daginn?

Ég sá frábært dæmi um fréttastuld þegar stóra saltmálið komst í hámæli. Þannig var mál með vexti að Ölgerðin hafði verið að selja fólki iðnaðarsalt sem var svo notað í matargerð. Þetta var rosalega hávært og leiðinlegt mál, sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Þegar listi yfir þá viðskiptavini sem keypt höfðu saltið komst í fjölmiðla fór allt í háa loft, enda voru þar á meðal nokkrir af stærstu matvælaframleiðendum landsins.

Útiplönin hjá Eðalfisk

Daginn eftir að listinn var gerður opinber sendi fyrirtækið Eðalfiskur frá sér fréttatilkynningu, en Eðalfiskur var á listanum. Þar segir að fyrirtækið fordæmi vinnubrögð Heilbrigðiseftirlitsins þar sem gefið er í skyn að Eðalfiskur hafi notað iðnaðarsaltið til matvælaframleiðslu. Það sé rétt að Eðalfiskur keypti bretti af umræddu salti, en þegar fólk sá að það var merkt sem iðnaðarsalt var því dreift á útiplön fyrirtækisins, ekki notað í framleiðslu. Þetta fór eins og eldur í sinu um netheima, Eyjan, Visir.is, MBL.is og sjónvarpsfréttirnar tóku þetta fyrir og fyrir vikið fékk Eðalfiskur ókeypis umfjöllun sem sýndi að þar væri gæðaeftirlitið í lagi.

Þó að fréttastuldur sé mjög skemmtileg og árangursrík leið til að fá umfjöllun um fyrirtækið þitt þá er hann mjög vandmeðfarinn og getur auðveldlega sprungið í höndunum á þér.

Besta dæmið um illa heppnaðan fréttastuld er þegar tískufyrirtækið Kenneth Cole reyndi að nýta sér mótmælaöldu í Egyptalandi til að vekja athygli á útsölunni hjá sér með því að setja inn tvít merkt #Cairo.

Í stað þess að bera tilætlaðan árangur og vekja athygli á útsölunni fóru að streyma inn blogg, tvít og tölvupóstar þar sem fyrirtækið var skammað og látið heyra það. Á endanum var færslan fjarlægð og fyrirtækið baðst afsökunar.

Hvað getur þú gert?

Vertu vakandi fyrir öllum þeim fréttum sem snerta þig, þinn markað og þína samkeppnisaðila. Ef tækifærið gefst skaltu stökkva til og sjá hvernig þú getur nýtt þér það. Skrifaðu frétt á heimasíðu eða blogg fyrirtækisins og deildu henni svo á Twitter og Facebook síður fyrirtækisins og þína eigin. Ef efnið er nógu djúsí þá mun það verða gripið á lofti og tekið áfram.

Ég mæli líka með bókinni Newsjacking. Hún er stutt og þú kemst í gegn um hana á ca. klukkutíma. Eins kostar hún sáralítið og er vel peninganna virði. Ef þú lest hana og finnst hún áhugaverð mæli ég með fleira efni eftir sama höfund. David Meerman Scott er virtur markaðsgúru með mikla reynslu úr bransanum. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og mun sennilega mæta oftar hingað inn í hugrenningarnar.

Endilega skjótið á mig fleiri dæmum um fréttastuld í athugasemdum!