Archive

Monthly Archives: January 2013

Það er öllum hollt að setja sér markmið. Það gefur manni eitthvað að stefna að og heldur manni við efnið. Markmiðin þurfa að vera raunhæf og þau þurfa að vera mælanleg.

Á árinu 2012 setti ég mér 3 markmið sem öll sneru að heilsu og íþróttum.

  1. Ég ætlaði að hlaupa heilt maraþon, sem ég gerði.
  2. Ég ætlaði að keppa í VASA þríþrautinni í Bolungarvík í september í fyrra – sem ég gerði ekki.
  3. Ég ætlaði að fara á einn fjallstopp í mánuði – sem ég gerði ekki. Að vísu held ég hafi farið á a.m.k. 12 toppa allt árið, sem er að meðaltali 1 í mánuði en það telur samt ekki.

Það sem ég lærði af árinu 2012 er að ég setti markið of hátt. Ég var t.d. aldrei að fara að keppa í þessari þríþraut. Ég er arfaslakur hjólreiðamaður og ennþá slakari sundmaður þó ég sé ágætis hlaupari. Hvað fjallstoppana varðar þá er það ekkert annað en leti sem olli því að ég fór ekki a.m.k. einu sinni í mánuði. Afsakanir varðandi veður og annað þýða ekkert. Ég er samt ánægður að hafa klárað maraþonið. Ég skil í raun ekki hvernig ég komst í gegn um það, enda var þetta þvílíkt vanmat af minni hálfu. Einhverntíman keppi ég aftur og kem í mark á ásættanlegum tíma.

Einn alveg að deyja í Fossvoginum. Gott að hafa pabba sér við hlið að draga mann áfram!

Einn alveg að deyja í Fossvoginum. Gott að hafa pabba sér við hlið að draga mann áfram!

Fyrir árið 2013 ætla ég að setja mér aðeins raunhæfari markmið og dreifa þeim yfir nokkra flokka, ekki bara hreyfing og heilsu.

  1. Ég ætla að hlaupa 10 km á undir 50 mínútum – markmið sem ég á auðveldlega að ná með góðri æfingu. Einnig er það góð bæting á mínum besta 10 km tíma sem er núna 51:30 mínútur.
  2. Ég ætla að ljúka B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Ég átti að útskrifast í fyrra vor en fékk góða vinnu þannig síðustu 18 mánuði hef ég verið í skólanum með vinnu. Nú er það komið niður á blað að ég ætla að klára gráðuna á þessu ári og þannig er það!
  3. Ég ætla í ferðalag um Vestfirði og heimsækja ömmu og afa. Ég hef ekki dvalið almennilega á Vestfjörðum mjög lengi, þó ég hafi komið þar við í einn sólarhring í fyrra. Ég ólst upp á Vestfjörðum og mér þætti mjög gaman að fara í ferðalag um þá með Tinnu, kærustunni minni að sína henni æskuslóðirnar á Suðureyri og í Bolungarvík. Hún hefur nefnilega aldrei komið.
  4. Ég ætla að ganga Fimmvörðuháls. Ætti að vera frekar auðvelt markmið að ná, en ef ég skrifa það niður er ég ekki að fara að beila á því.

Margir segja að það hjálpi fólki að ná markmiðum sínum ef þeir skrifa þau niður og birta þau. Þannig verða þau raunhæfari möguleiki og maður er ólíklegri til að hætta við.

Þetta eru mín markmið fyrir árið.