Topp 5 uppgötvanir ársins 2016

Hó hó hó! Það er sá tími ársins að allir og amma þeirra taka saman árið. Ég hef haft þann sið að taka saman það sem mér finnst standa upp úr í tónlistarárinu hverju sinni. Hvernig listarnir eru settir saman breytast ár eftir ár og hvaða þema er tekið fyrir sömuleiðis. Fyrir þá sem vilja kynna sér lista fyrri ára mega þeir endilega skoða taggið “Topplistar“.

En til að byrja topplistaösina í ár ætla ég að skella í einn Topp fimm. Í kvöld ætla ég að fara yfir þá 5 hluti sem ég uppgötvaði á árinu og eru í mestu uppáhaldi hjá mér.

Atriðin birtast í engri sérstakri röð. Hefst þá lesturinn:

American Wrestlers

Ég rakst á þessa hljómsveit á einhverjum lista. Gott ef það var ekki á Twitter eða eitthvað svoleiðis. Þegar ég reyndi að leita frekari upplýsinga um hljómsveitina American Wrestlers (lesist: Gúgla “American Wrestlers”) mætti þetta mér:

american-wrestletrsÉg er ekki að segja að ég hafi EKKI verið fyrir vonbriðgum þegar ég komast að því að þetta væri ekki metal hljómsveit með Steve Austin á bassa, John Cena á trommum, Hulk Hogan á saxófón og Rocky Maivia á rafmagnsgítar og söng. En þetta er hins vegar frábær hljómsveit, létt gítar rokk sem kemur manni í gott skap. Þetta þarf ekki að vera flókið.

Platan Goodbye Terrible Youth er önnur plata sveitarinnar og hún mun örugglega vera í baráttunni um bestu plötur ársins.

 

Julia Jacklin

Ég uppgötvaði Julia Jacklin eiginlega fyrir slysni. Ég var á Great Escape hátíðinni í Brighton að horfa á hljómsveit sem ég hafði verið spenntur fyrir. 2 lög inn komst ég að því að sú hljómsveit var bara hundleiðinleg. Þannig ég labbaði bara út, opnaði appið og fann næstu tónleika án þess að spá nokkuð sérstaklega í því hver var að spila. Á þeim stað var Julia Jacklin nýkomin frá Ástralíu akkurat að stíga á svið. Og hún var svo góð það kvöld að ég fór að sjá hana daginn eftir líka og 3 dögum síðar á tónleikum í London.

Í október gaf hún út sína fyrstu plötu Don’t Let The Kids Win sem er eiginlega alveg ógeðslega góð!

Gagnrýnendur hafa verið í erfiðleikum með að skilgreina hana Júlíu vinkonu mína. Gítar popp, Americana, Country, Indie rokk – ég veit það ekki. Það eina sem ég veit er að þetta er engan veginn tónlistarstefna sem ég er venjulega hrifinn af. En hún kveikir einhvern neista hjá mér.

 

Finnskt rapp

Ég er búinn að vera að vinna fyrir Nordic Playlist allt árið. Verandi í vinnu við það að kynna tónlist frá Norðurlöndunum verður sjálfkrafa til þess að maður fer að hlusta á Norræna tónlist. Indípopp frá Danmörku og diskótónlist frá Noregi hefur líka verið á listanum. En það sem stendur upp úr er klárlega hip hop frá Finlandi.

Ég mæli sérstaklega með Biniyam, View og Noah Kin. Þeir eru allir ungir og upprennandi strákar að gera þrælskemmtilega hluti. Og það vill svo til að ég náði að sjá þá alla spila live í ár.

Lucy Dacus

Ef það hefur ekki skinið í gegn ennþá þá elska ég stelpur sem spila á rafmagnsgítar. Mér finnst það geðveikt kúl og mikið af því sem ég hef hlustað á síðustu 2 ár hefur einmitt verið með hljómsveitum þar sem stelpur spila á rafmagnsgítar. Torres, Hanna Lou Clarke, Julia Jacklin, Courtney Bartnett, Frankie Cosmos hafa allar verið í mikilli spilun – og svo hún Lucy Dacus auðvitað.

Lucy gaf út plötuna No Burden fyrr á árinu sem er eiginlega alveg frábær. Textarnir eru einhverskonar játningar frá tvítugri stelpu þar sem hún glímir við eigið óöryggi og segir frá því hvernig er að standa fyrir utan og passa ekki í hópinn.

Áfram stelpur á rafmagnsgítar!

 

Public Enemy – Harder than you think

Ég veit að það er mjög sérstakt að sjá 9 ára gamalt lag eftir 30 ára gamla hljómsveit á lista yfir uppgötvanir ársins 2016. En það vill bara svo til að ég hef aldrei hlustað neitt mkið á Public Enemy og hafði aldrei heyrt þetta lag fyrr en það var spilað í útvarpinu einhverntíman í sumar. Ég myndi segja að þetta væri besta lag sem ég hef heyrt á þessu ári. Bítið, textinn, sagan, attitude-ið – ég er bara svo mikið að fíla þetta að það er ekki einu sinni fyndið. En þar sem það kom út árið 2007 er eiginlega ekki hægt að setja það á listann yfir bestu lög ársins – svo ég tróð því með á uppgötvanir ársins.

1 comment

Hvað segir þú?