Archive

Monthly Archives: July 2011

Old Spice á heiðurinn af einni mest umtöluðu netherferð ársins 2010. Þeir gerðu auglýsinguna “The man your man could smell like” árið 2010 með Isaiah Mustafa í aðalhlutverki. Mustafa er lítt þekktur leikari sem fram að þessu hlutverki hafði spilað ruðning og leikið í litlum hlutverkum í sjónvarpsþáttum. Eftir þessa auglýsingaherferð fyrir Old Spice er hann þekktur út um allan heim, enda hefur þessi auglýsing verið spiluð um 35 milljón sinnum á YouTube – og það bara á Old Spice kanalnum! Hún fór fyrst í loftið á meðan Superbowl 2010 var í gangi en í hálfleik keppa fyrirtæki um að sýna flottustu auglýsingar ársins í Bandaríkjunum. Herferðin er margrómuð og vann m.a. Emmy verðlaun og einnig verðlaun á Alþjóðlegu auglýsingaverðlaununum í Cannes.

Auglýsingin sjálf fékk gríðargóðar viðtökur. Milljónir sáu hana í sjónvarpinu og enn fleiri á mismunandi netsíðum í kjölfarið. Það sem hélt herferðinni gangandi og er í raun það sem var svo sniðugt er að eftir að auglýsingin kom inn á YouTube þá fékk hún að lifa þar í svolítinn tíma. Í kjölfarið sendi Old Spice-maðurinn út nokkur tvít og bað aðdáendur sína um að spyrja sig spurninga. Í kjölfarið svaraði hann spurningunum á handklæðinu einum fata. Er ekki besta leiðin til að láta tala um sig á netinu að fá ofvirka Twitter notendur og bloggara til að spyrja þig spurninga? Þeir svöruðu notendanafninu t.d. ef að ég hefði spurt þá hefði hann sagt “Dear @hjaltir…:” og svarað spurningu minni. Þeir tóku við spurningum í gegn um Twitter, Facebook, YouTube og Reddit.

Hér er svar frá Old Spice-manninum við spurningu frá Perez Hilton. 

Árangurinn stóð heldur ekki á sér en skv Adweek jókst salan á Old Spice sturtu geli um 107%! Þarna sér maður hvernig hægt er að breyta góðum sýnileika og umtali á samfélagsmiðlum í raunverulegar tekjur. Einnig eru þeir að ná að virkja aðdáendur sína og taka þátt í að móta auglýsingarnar, sem er frábært.

En Old Spice voru ekki hættir þarna. Fyrir helgina fóru að birtast auglýsingar frá Old Spice með nýjum leikara. Gamla brýnið Fabio var mættur sem New Old Spice Guy. Hver notar Fabio, útbrunnið ítalskt módel/leikara til að höfða til karlmanna árið 2011? Það hlaut að búa eitthvað meira á bakvið. Loksins kom skýringin: Fabio skoraði Mustafa á hólm í einvígi hvort ætti skilið að vera Old Spice-maðurinn. Mustafa svaraði í gær, á handklæðinu að sjálfsögðu, og tók áskoruninni. Aðdáendur voru hvattir til þess að mæta á YouTube kanal Old Spice og horfa á þennan sögufræga bardaga.

Ég veit ekki hvað aðdáendurnir voru að vonast eftir en viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Bardaginn sögufrægi fór fram á YouTube þar sem aðdáendurnir áttu að kjósa á milli Fabio og Mustafa, hvor ætti að vera Old Spice-maðurinn. Einnig var hægt að senda á þá spurningar sem þeir skiptust á að svara.

Twitter, Facebook og YouTube hafa logað af spurningum og umræðum um þetta þannig ég segi kudos til Old Spice manna fyrir vel heppnað markaðstrikk á netinu. Vonandi sjáum við fleiri svona í framtíðinni. Hægt er að skoða öll herlegheitin frá í dag á YouTube síðu Old Spice.

Inside Job er alveg frábær heimildarmynd. Ég er búinn að horfa á hana 2 eða 3 sinnum núna og hef alltaf jafn gaman af. Hún er mjög hátt metin í kvikmyndaheiminum og fékk m.a. Óskarsverðlaunin fyrir bestu heimildarmyndina á síðasta ári. Einnig er hún með 8.2 af 10 í einkunn inni á IMDB, sem er mjög hátt.

Inside Job fjallar um alheims efnahagshrunið sem varð haustið 2008. Byrjun myndarinnar er tekin upp á Íslandi. Þar er lauslega snert á okkar þætti í fjármálakreppunni og tekin eru m.a. viðtöl við Andra Snæ Magnason rithöfund og Gylfa Zoega hagfræðiprófessor. Ég mæli hiklaust að allir horfi á þessa mynd þar sem þetta hjálpar fólki að skilja hvað gerðist. Flóknir hlutir eru einfaldaðir og sagðir á mannamáli. Eina leiðin til að koma í veg fyrir aðra eins vitleysu og hörmung sem hér hefur gengið yfir er að læra af mistökum sem gerð hafa verið.

Alan Greenspan

Myndin tekur á sögunni og segir frá því hvernig breytingar á regluverkinu höfðu áhrif á það sem síðar varð og nefnir alla helstu leikmenn eins og forsetana fimm – Reagan, Bush, Clinton, Bush og Obama, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna Alan Greenspan, Larry Summers forseti Harvard og fleiri góðar hetjur. Í henni er sett fram réttmæt gagnrýni á bandarísku ríkistjórnina, Wall Street, lánshæfisfyrirtækin (Moody’s, S&P og Fitch) og bransann allan.

Matt Damon talar inn á myndina og viðmælendurnir eru margir hverjir virtir hagfræðingar og fjármálagúrúar eins og Christine Lagarde, Nouriel Roubini, George Soros og Paul Volcker ásamt Dominique Strauss-Kahn, sem eins og staðan er í dag er ekki eins virtur og áður. Einnig eru viðtöl við minna virta hagfræðinga eins og Robert Mishkin sem skrifaði fræga skýrslu ásamt Tryggva Þór Herbertsyni, núverandi alþingismanni. Mishkin er tekinn all svakalega fyrir í myndinni enda er hann orðinn svo hvítur í framan undir lok viðtalsins að það er eins og hann hafi séð draug.

Myndin útskýrir á mannamáli hvað afleiðuviðskipti snúast um – hugtak sem er svo flókið í sjálfu sér að til þarf doktorsgráðu að skilja það. Hún fjallar um húsnæðislánin í Bandaríkjunum, sem komu af stað snjóbolta sem felldi Bear Stearns og Lehman Brothers bankana og olli að lokum alheimskreppu. Bónusana sem ýttu undir bóluna. Hún fer yfir atburðarásina undir lok góðærisins og atburðina sem fylgdu og að lokum hverjir öxluðu og ættu að axla ábyrgð í málinu.

Eins og ég sagði áðan þá mæli ég með að ALLIR sjái þessa mynd, sama hvort þeir hafi áhuga á fjármálum eða ekki. Þetta ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem vilja skilja betur hvað gerðist fyrir þremur árum.

Allar ábendingar um góðar heimildarmyndir eru vel þegnar.

Nú er ég búinn að vera tengdur inn á Google+ í rúma viku. Twitterinn logar af umræðum og það hefur myndast hið fínasta nördasamfélag þarna inni. Sökum anna hef ég ekki gefið mér gríðarlegan tíma í það að kynna mér hvað Plúsinn hefur upp á að bjóða en maður er svona að átta sig á þessu hægt og rólega.

Stutt yfirlit

Það fyrsta sem ég gerði var að sjálfsögðu að sækja mér forritið í símann. Þið þurfið að sækja það hér til hliðar þar sem það er aðeins í boði fyrir BNA inni á Android Market. Forritið er mjög stílhreint og fallegt, rosalega Google-legt á hvítum bakgrunni og ekkert verið að flækja hlutina. Það er búið að samræma spjallið (Google Talk) og mjög auðvelt að deila hlutum með vinum sínum. Einnig er núna tekið sjálfvirkt afrit af öllum myndum og myndböndum sem þú tekur á símann þinn. Það er þá komið beint í skýið og þú getur deilt með vinum þínum eins og þér hentar. Ég mæli eindregið með að þið breytið stillingum hjá ykkur kæru lesendur í að þessi afritun gangi einungis yfir WiFi því að annars munið þið sprengja gagnamagnið hjá ykkur og rafhlöðuna á núll einni (tala af reynslu).

Google+ fyrir Android

Vefviðmótið er einnig mjög fallegt og stílhreint, ennþá allavega. Fólksmassinn er ekki orðinn það mikill að spam-ið sé að gera vart við sig. Circles eða hringir er frábær nýjung. Þar velurðu með hverjum þú vilt deila hlutum. Þetta er mun betur útfært en t.d. Facebook Groups af því að t.d. Google+ er glænýtt, sem þýðir að þú getur flokkað vini þína frá byrjun. Með því að búa til huddle eða “hnapp” eins og ég ætla að kalla það, getur maður auðveldlega búið til hópspjall í hringjum hjá sér.

Erum við að tala um nýtt Facebook?

Ég var ekki hrifinn af þessu fyrst. Fannst tímasóun að vera að reyna að stela fólki frá Facebook þar sem allir eru. Facebook hefur náð á örfáum árum svo brjálaðri læsingu á fólk að það er ekki einu sinni fyndið. Allir elska Facebook en fólk elskar líka að hata Facebook. Ef þú ert ekki á Facebook er þér ekki boðið í partý – sönn saga

Geðþekka nördið Mark Zuckerberg

En þá sló það mig allt i einu. Google er ekki að reyna að gera nýtt Facebook. Þeir eru ekki að reyna að stela notendum frá risanum per se, heldur eru þeir að búa til nýttsamfélag. Ef þú spáir í þessari grein hér þá mun Blogger bráðum fá nýtt nafn – Google blogs – og Picasa á að fá nafnið Google photos og fyrir ekki svo löngu síðan var Google Videos hent út af netinu og leitarrisinn ætlar í staðinn að einbeita sér alfarið að YouTube.

Þegar þú spáir í öllum þessum vörum þá er greinilegt að læsingin sem Google hefur er líka svakaleg. Sem dæmi þá nota ég Gmail, Google Docs, YouTube, Android og Blogger – allt Google vörur. Ég sé Google+ sem frábæra tilraun hjá Google að veita notandanum yfirsýn yfir þær allar á einum stað og þannig búa til Google samfélag, allt undir einum hatti. Þeir munu aldrei slá Facebook út af vefnum, massinn er of stór, enda held ég að það sé engan vegin ætlunin.

Ef þú ert ekki ennþá viss með Google+ og finnst tilgangslaust að prófa þá skil ég það vel. En hugsaðu þér hvað þetta gerir gott fyrir þig sem Facebook notanda. Stærsti samkeppnisaðilinn var að rúlla út svakalegu trompi. Hvað gerir Facebook? Nú auðvitað rífur þetta risann upp á tærnar. Félagi Zuckerberg mun svo sannarlega ekki vilja láta Google skilja sig eftir í tækniþróun þannig hann mun setja af stað alls kyns vinnu á viðmótum og vörum sem gera Facebook að þægilegri miðli fyrir notandann. Samkeppni er af hinu góða af því að neytandinn – ég og þú – hagnast á því.

Og ef þú ert ekki ennþá sannfærð/-ur þá skaltu bara gefa þessu smá tíma. Þjónustan er ennþá bara með boðssniði, þ.e. núverandi notandi þarf að bjóða þér svo þú megir taka þátt. Þróunarvinnan er bara rétt að byrja og ég hef engar áhyggjur af því að þeir séu að fara að klúðra þessu. Allt er þegar þrennt er – Buzz – Wave – Plus!

Ef þú vilt prófa láttu mig þá vita og ég skal senda á þig boð.

Endum þetta á Google+ auglýsingunni. Alltaf gaman að auglýsingunum frá þeim.

Eins og áður hefur komið fram hefur undirritaður mikinn áhuga á tækni og peningum. Enginn getur neitað því að til þess að góð hugmynd geti orðið að veruleika og skapað eitthvað virði þá þarf til fjármagn. Akkurat núna eru fjárfestar út um allan heim að eyða rosalegum peningum í sprotafyrirtæki, og þá sérstaklega í Kýsildalnum í Bandaríkjunum. Þessir fjárfestar eru svokallaðir “venture capitalists”, en besta þýðingin á því orði sem ég hef fundið er áhættufjárfestir. Við notum það orð hérmeð. Ég viðurkenni fúslega að mín þekking er svotil eingöngu bundin við Bandaríkin, enda eru áhættufjárfestar í Evrópu og annars staðar efni í aðra færslu.

Don Valentine

Ef við byrjum á gömlu rótgrónu sjóðunum þá kemur Sequoia Capital fyrst upp í hugann. Sequoia eru það stórir að þegar þetta nafn skítur upp kollinum í fréttum þá sperrir maður ósjálfrátt eyrun. Sjóðurinn var stofnaður árið 1972 af Don Valentine (mafíósalegasta nafn sögunnar?) og hefur tekið þátt í uppbyggingu tækniheimsins eins og við þekkjum hann í dag. Sequoia fjárfesti í Oracle, Cisco, Apple og Atari þegar þessi fyrirtæki voru að byggjast upp. Síðustu 15 árin hefur sjóðurinn einnig fjárfest í Dropbox, LinkedIn, YouTube, PayPal, Square og svo miklu fleiri. Mörg þessara nafna eru heimsþekkt þannig Don Valentine hefur augljóslega marga fjöruna sopið í þessum bransa.

Greylock Partners eru ennþá eldri í hettunni. Sá sjóður var stofnaður árið 1965. Fjárfestingar þeirra Greylock félaga liggja meðal annars í Red Hat, Pandora, Groupon og LinkedIn. Þess má geta að Reid Hoffmann, stofnandi LinkedIn sér um stóran sjóð hjá þeim núna. Ef horft er yfir listann þá hafa þeir verið mest verið í tæknifyrirtækjum sem hafa síðan verið yfirtekin eða sameinast öðrum fyrirtækjum í svipuðum geira. Æj já svo eiga þeir líka ca. 1,5% í Facebook. Sá hlutur er um $1.25 milljarða virði ef miðað er við að áætlað markaðsvirði Facebook sé $75 milljarðar. EKKI slæmt!

Talandi um Facebook þá eru Accel Partners einn stærsti hluthafinn þar. Fyrirtækið var stofnað árið 1983 og hefur síðan verið eitt af leiðandi tæknifjárfestum í Kýsildalnum. Önnur helsta fjárfesting Accel er líklega í kínversku leitarvélinni Baidu, en sú leitarvél er með 75% markaðshlutdeild í Kína. Aðalmaðurinn á bakvið Accel Partners er Jim Breyer. Hann á í eigin nafni um 1% hlut í Facebook.

Peter Thiel

Og ennþá höldum við okkur við Facebook. Peter Thiel er merkilegur maður. Hann fæddist í Frankfurt, Þýskalandi en ólst upp í Bandaríkjunum. Hann er með heimspekigráðu frá Stanford og var einn af stofnendum PayPal, sem gjörbylti öllum viðskiptum á netinu eins og allir vita. Hann var sá sem átti fyrstu alvöru fjárfestinguna í Facebook, fyrir utan stofnendurna að sjálfsögðu. $500.000 árið 2004 tryggðu honum 10% hlut í fyrirtækinu, sem er um 3% í dag. Ef við miðum aftur við $75 milljarða markaðsvirði  þá er fjárfesting hans 4500 sinnum verðmætari í dag! Að auki hefur hann fjárfest í LinkedIn, Yelp og Friendster, ásamt fleiri góðum. Ein skemmtileg staðreynd er að hann tók þátt í að framleiða myndina Thank You for Smoking, sem er í miklu uppáhaldi hjá mé

Marc Andreessen

Að lokum verð ég að minnast á Andreessen-Horowitz. Marc Andreessen hef ég fjallað um áður, en hann var stofnandi Netscape. Ben Horowitz stofnaði, rak og seldi síðan Opsware til Hewlett Packard. Í sínu hvoru laginu voru þeir að fikta við áhættufjárfestingar en árið 2009 stofnuðu þeir Andreessen-Horowitz sjóðinn, til þess að geta aukið fjárfestingagetu sína. Saman eiga þeir núna í Foursquare, Zynga, Instagram, Groupon, Twitter og fleiri. Þeir hafa farið mjög geyst í sínar fjárfestingar að mínu mati en tíminn mun náttúrulega bara leiða í ljós hvernig þeim gekk.

Það er áhugavert að sjá trendið. Allir þessir menn eru einhvernveginn að fjárfesta í sömu fyrirtækjunum. Á einum stað las ég að ef við erum í miðri tæknibólu og ef að hún springur þá mun hún ekki hafa eins djúp áhrif á heiminn eins og sú fyrri heldur mun hún bara ákveðinn hóp. Sú kenning er kjaftæði ef þau halda áfram að sækja á opinn markað eins og Zynga, Groupon, LinkedIn og Facebook eru að gera, eða ætla að gera. En eins og ég sagði áður þá mun tíminn leiða þetta allt í ljós.

Svo ég viti þá er einn svona sjóður á Íslandi sem sérhæfir sig í áhættufjárfestingum. Thule Investments undir forystu Gísla Hjálmtýssonar. Með því að líta yfir eignasafn Thule þá má sjá að sérhæfingin er aðallega í upplýsingatæknifyrirtækjum, en í safninu er líka líka skip sem gerir út frá Las Palmas. Mest þekkta fyrirtækið er sennilega Caoz, en þau eru einna fremst á landinu í gerð í tölvuteiknaðra teiknimynda og framleiddu meðal annars Svala og Klóa auglýsingarnar. Það verður gaman að sjá hvernig Thule mun ganga ef að einhverntíman losnar um gjaldeyrishöftin og líf fer að glæðast á fjármálamörkuðum á ný.