Archive

Monthly Archives: September 2011

Google Music er nýjasta undrið frá vinum mínum hjá Google. Þetta er semsagt tónlistarspilari frá þeim þar sem þú getur hlaðið inn öllu tónlistarsafninu þínu og hlustað hvar sem er – svo lengi sem þú ert með Google reikning (Gmail). Þú færð 20.000 lög til þess að byrja með og þarft bara að hlaða niður mjög einföldum “uploader” til þess að byrja að hlaða inn tónlist. Svo velurðu bara hvaða möppu þú vilt henda inn í skýið og voilá – þú getur hlustað á tónlistina þína hvar sem er. Google Music er enn ein viðbótin í Google samfélagið sem ég hef minnst á áður, og styrkir ennfrekar nýju Chromebook tölvuna þeirra (sjá hér).

Þessi nýi fítus hjá þeim er náttúrulega snilld fyrir 21. öldina. Fólk er að vinna á svo mörgum endatækjum. Tökum sem dæmi sjálfan mig. Ég er með tölvuna mína heima með allri tónlistinni minni, svo er ég með tölvu í vinnunni með öðru tónlistarsafni og að lokum er ég með símann minn sem ég nota líka sem tónlistarspilara. Það getur verið þreytandi að færa alltaf á milli ef þú vilt geta hlustað á plötur sem þú hefur kannski keypt heiðarlega, nú eða hlaðið niður óheiðarlega. Einnig er ein mjög lítil en stórskemmtileg virkni í þessum spilara. Ef þú ert með plötu sem vantar umslagið framan á (þetta skiptir suma máli), þá leitar hann sjálfur á netinu og sækir myndina fyrir þig. Þannig allt lítur fallega út.

Svona lítur safnið út

Ég hef núna svo gott sem sagt skilið við iTunes því frá því ég byrjaði að nota Google Music hefur spilarinn ekki hikstað einu sinni og viðmótið er bara svo fjandi skemmtilegt. Það eina sem ég sakna virkilega úr iTunes er að sjá ekki hversu oft einstakt lag hefur verið spilað. Ég er rosalega hrifinn af allskonar listum og finnst gaman að skoða hvaða lög ég hef mest hlustað á í gegn um tíðina. Ég vona að því verði bætt við.

Svona lítur farsímaviðmótið út

Google Music fyrir Android

Að sjálfsögðu er til forrit fyrir Android. iPhone er eitthvað aðeins á eftir, ég fann allavega ekki iOS útgáfu á App store. En þá spyrja sumir: “Er ekki dýrt að streyma tónlist í gegn um síma hvort eð er? Ég ætla ekkert að borga neina formúgu!” Svarið við þessu er jú, vissulega er dýrt að streyma miklu magni af tónlist yfir farsímanet, en það er alltaf hægt að streyma yfir WiFi eða láta símann vista valin lög á minninu, og það þráðlaust! Ég elska tæknina allt of mikið!

Að sjálfsögðu er galli á gjöf Njarðar. Google Music er bara í boði í Bandaríkjunum og er ennþá í Beta útgáfu. Sem þýðir að hver notandi fær aðeins örfáa boðslykla og hann þarf að fara krókaleiðir til þess að skrá sig. Einnig er ekki hægt að ná í Android forritið nema bakdyramegin. Ég reikna með að þetta sé allt leyfisskilt hvað varðar höfundarrétt og annað þannig Google Music verður pott þétt ekki í boði fyrir sótsvartan almúgan í heiminum strax. En eins og áður segir er alltaf hægt að fara krókaleiðir. Ef þú þekkir einhvern sem er með Google Music, biddu hann um að bjóða þér. Ég á ófáa eftir þannig fyrstur kemur, fyrstur fær. Eftir að þú ert kominn með boðslykil, fylgdu þá eftirfarandi leiðbeiningum:

  1. Þú þarft að plata tölvuna þína þannig hún haldi að hún sé í Bandaríkjunum. Það er auðveldlega gert. Þú ferð inn á þessa síðu og finnur þér proxy server í Bandaríkjunum.
  2. Opnar Firefox og breytir proxy settings. Það er undir Tools – Options – Advanced Network. Þar seturðu inn IP tölu proxy þjónsins og port.
  3. Þú smellir á boðslykilinn sem var sendur á þig.
  4. Sækir Music Manager (getur gert það með því að smella hér
  5. Velur möppuna með tónlistinni þinni og byrjar að hlaða upp
  6. Hlustar eins og vindurinn

Eins og með allar nýjar þjónustur hefur Google sett eldhressa auglýsingu á netið. Endum þetta með henni.