Archive

Íþróttir

Í hverjum sólarhring er ekki nema 24 klst. Þar af eyðirðu ca 8 klst sofandi og 8 klst í vinnunni. Þessar 8 klukkustundir sem eru eftir fara svo í að kaupa í matinn, fara í ræktina, elda, þrífa húsið, hitta vini og kunningja og verja tíma með fjölskyldunni.

Ég er búinn að leysa þrautina. The ultimate life-hack sem gerir allt auðveldara.

Farðu í ræktina á morgnanna

Ég er búinn að gera þetta af og á síðustu 3-4 árin að æfa fyrir vinnu.

  • Á Íslandi mætti ég 3x í viku klukkan 7:30 í Boot Camp og tók á því í klukkutíma áður en ég mætti í vinnu klukkan 9. Þá vaknaði ég klukkan 6:30, skellti í mig einu vatnsglasi og banana og var farinn út um 7 leitið. Ég elska Boot Camp og mæli með Robba og félögum!
  • Hérna í London reyni ég að fara 5 sinnum í viku og taka stutta æfingu áður en ég mæti í skólann klukkan 8:30. Ég vakna klukkan 6:15 og er mættur 6:30, tek hálftíma lyftingaæfingu á háu tempói og er kominn heim aftur klukkan 7:15. Svo er það sturta og morgunmatur og lest klukkan 8:00.
Sorrý.. Ég varð að setja hetjumynd

Sorrý.. Ég varð að setja hetjumynd

Á morgnanna hefurðu ekkert að gera nema sofa. Í eftirmiðdaginn er endalaust af verkefnum að klára, sama hvort það eru almenn erindi eða bara afmælisveisla í fjölskyldunni. Ef þú vaknar hálftíma eða klukkutíma fyrr og klárar ræktina, þá ertu búinn að því þann daginn og getur nýtt eftirmiðdaginn í það sem þú vilt.

Maður losnar við samviskubitið sem kemur af því maður er ekki að hreyfa sig, maður er  miklu ólíklegri til þess að sleppa ræktinni af því maður væri bara sofandi hvort eð er og maður byrjar daginn svo ferskur!

Ég geri mér grein fyrir að þetta er eitthvað sem hentar ekki öllum. Barnafólk er til dæmis ekki með mjög lausan tíma á morgnanna.

En ég mæli allavega með þessu fyrir þá sem geta. Ég held rútínunni minni miklu frekar á morgnanna og hef í raun miklu meiri frítíma.

Nokkrar hugmyndir:

  • Hálftíma lyftingaæfing á háu tempó
  • 4-5 km hlaup – tekur ca hálftíma
  • Hjóla í vinnuna
  • Boot Camp eða allir aðrir tímar
  • Synda 1km – tekur ca. 25-30 mín fyrir óvana

Hefurðu einhverntíman horft á auglýsingu og fengið gæsahúð? Ég reikna með að svarið sé já, enda margar almannaheillaauglýsingar sem heimta fulla athygli og fá hárin til að rísa.

Fyrir mér virðist það vera orðin regla að allt sem tengist Nike og fótbolta gerir karlinn helvíti meyran. Nike á það líka til að tjalda öllu til þegar stórmót er í vændum. Gott ef ég hef ekki skrifað um þetta áður.

En síðustu tvær risa auglýsingar frá Nike eru bara úr annarri veröld. Við erum ekkert að tala um auglýsingar lengur heldur miklu frekar stuttmyndir fyrir fótboltaáhugamenn.

Ég er að sjálfsögðu að tala um auglýsinguna fyrir síðasta heimsmeistaramót og nýjustu auglýsinguna með Cristiano Ronaldu

#RISKEVERYTHING

#SPARKBRILLIANCE

En hvað er það sem gerir þessar auglýsingar svona góðar?

Þær fagna öllu því sem er svo geðveikt við fótbolta. Þær berjast gegn staðalvæðingu, þær fagna hinu óvænta, þær hvetja fólk til að taka áhættu, leggja hart að sér og umfram allt hafa gaman að því sem það gerir.

Ég er allavega búinn að horfa að minnsta kosti 5 sinnum á hvora og er alveg í gírnum fyrir Evrópumótið.

Eins mikið og ég elska Cristiano Ronaldo þá vona ég bara að hann þurfi 1 leik til að koma sér í gang.

Áfram Ísland!

Í gegnum tíðina hef ég átt í ágætis sambandi við mann að nafni Gerard Adriaan Heineken. Ef þú kannast ekki við nafnið þá var hann stofnandi Heineken bruggsmiðjunnar, en Heineken er einn mest seldi bjór í heimi.

Heineken hefur verið einn helsti styrktaraðili Meistaradeildar Evrópu og stór hluti af markaðsefni fyrirtækisins ár hvert er tileinkað keppninni. Þá hafa Hollendingarnir verið duglegir að búa til upplifun fyrir fótboltaaðdáendur og nýta sér svo samfélagsmiðla í ríkum mæli til að ná til fólks. Eitt dæmið er þegar þeir komu hótelgestum að óvörum á leikdag.

Ég er mjög hrifinn af því sem hefur verið gert í vetur. Þá eru fengnar gamlar kempur til að horfa á leiki og koma með komment á hann. Meðal þessara kempa eru menn eins og Ruud van Nistelrooy, Hernan Crespo og Juliano Belletti. Þeir eru þá staddir í Meistaradeildarpartý í boði Heineken og á meðal leik stendur er hægt að spyrja barþjóninn spurninga, sjá skemmtilega sketsa og síðast en ekki síst hægt að tala við kempurnar sjálfar.

sharethesofa

Miðlarnir sem eru notaðir eru annars vegar Twitter síða Heineken og hins vegar videomiðillinn Vine. Allt undir merkinu #sharethesofa.

Twitter er orðinn stór hluti af öllum beinum útsendingum og á í raun stóran þátt í að bæta við upplifun hvers viðburðar. Fótboltaáhugamenn hafa verið mjög fyrirferðamiklir þar og má í raun segja að þeir hafi til dæmis leitt Twitter innleiðinguna hér á Íslandi (nú er ég sennilega að móðga einhverja af nörda-vinum mínum á netinu). Með þessum hætti er Heineken að taka þátlt í umræðunni og vera hluti af leiknum en þú færð í raun að “deila sófanum” með gamalli hetju.

Skál fyrir því!

Það kemst enginn með tærnar þar sem Nike hefur hælana þegar kemur að íþróttaauglýsingum. Auglýsingarnar frá þeim skarta yfirleitt stærstu stjörnum hvers tímabils og fyrirtækið gefur yfirleitt út risastóra herferð í kring um öll stórmót.

Nýjasta herferðin ber nafnið My time is now og í henni leika menn eins og Franc Ribery, Wesley Sneijder, Neymar, Pep Guardiola, Cristiano Ronaldo og fleiri. Auglýsingin er að sjálfsögðu gríðarlega hógvær og látlaus, eða hitt þó heldur, og spannar ekki nema 3 mínútur! Það væri gaman að sjá birtingarplanið hjá Nike. Þeir ætti að fá a.m.k. konfekt kassa frá miðlunum!

Það skemmtilega við þessa auglýsingu er ekki að sjá hana í sjónvarpinu, þú hefur séð hana milljón sinnum áður, heldur áttu að fara á YouTube og leika þér með hana. Með því að hafa músina tilbúna þá sérðu sögur um alla leikmennina, getur fylgst með þeim á Facebook eða Twitter og ef þú fylgist nógu vel með finnurðu “leynistaðina” í myndbandinu. Ég eyddi sjálfur einhverjum 30 mínútum bara að fikta og uppgötva nýja hluti.

Auglýsingin sjálf er hér að neðan en til að upplifa alla dýrðina skalltu fara á https://www.youtube.com/nikefootball.

En eins og áður sagði er Nike vant að tjalda öllu til þegar kemur að stórmótum. Fyrir heimsmeistarakeppnina 2010 í Suður-Afríku var gerð herferðin Write the future þar sem meðal annars Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo voru í aðalhlutverkum. Skilaboðin voru að duga eða drepast, annað hvort ertu hetja eða skúrkur, þetta er undir þér komið (eitthvað sem Rooney þekkir af eigin raun). Auglýsingin var það vel tekið að hún vann gull á auglýsingaverðlaunahátíðinni í Cannes á síðasta ári. Enda mjög skiljanlegt, er einhver sem fær ekki gæsahúð þegar Rooney tæklar Ribery eftir sprettinn til baka?

Ein af mínum uppáhalds stórmótsauglýsingum frá Nike kom í kring um heimsmeistarakeppnina í Japan og Suður Kóreu árið 2002. Þar efndi kóngurinn Eric Cantona til leynikeppni á milli færustu knattspyrnuhetja á þeim tíma. 16 lið spiluðu um borð í skipi, það var spilað 3 á 3 í stálbúri, fyrra liðið til að skora vann viðureignina. Þarna voru hetjur eins og Ronaldo, Roberto Carlos, Francesco Totti, Javier Saviola og Freddie Ljungberg sem flestir eru heillum horfnir í dag. Cantona á stórleik í auglýsingunni og ég man eftir því að hafa legið yfir þessari auglýsingu trekk í trekk fyrir 10 árum. Alger snilld!

En mín uppáhalds fótboltaauglýsing allra tíma er Good vs. Evil frá árinu 1996. Hún er akkurat frá þeim tíma sem ég er að byrja að fylgjast með fótbolta og í henni voru leikmenn sem ég leit upp til og vildi vera þegar ég var að spila með krökkunum. Það er allt frábært í henni, frá því að Maldini bjargar deginum og svo er gæsahúðaraugnablik þegar Cantona tekur hann niður, vippar upp kraganum og segir “Au revoir” áður en hann dúndrar boltanum í netið. Ég held að þessi auglýsing verði seint toppuð.

Það verður mikið um dýrðir í Indianapolis 5. febrúar þegar Superbowl XLVI (46 fyrir þá sem ekki tala rómversku) fer fram. Þar mætast mín lið, New York Giants og New England Patriots, en í tvö ár átti ég heima í klukkutímafjarlægð frá Giants Stadium í New York og svo í klukkutímafjarlægð frá Gillette Stadium í eitt ár. Ég hef samt alltaf haft meiri taugar norður til New England, þannig ég eiginlega vona að Tom Brady stýri sínum mönnum til sigurs.

En ég ætla ekki að tala um ruðning við ykkur, enda er amerískur fótbolti ein sú leiðinlegasta íþrótt sem til er að horfa á í sjónvarpi. Superbowl er nefnilega gósentíð hjá auglýsendum í Bandaríkjunum. Auglýsingapláss í hálfleik er nefnilega dýrasta pláss ársins, enda nærðu þannig inn á flestöll heimili í Bandaríkjunum. Þannig hefur skapast rík hefð að fyrirtæki leggi aðalpúður ársins í auglýsingar á þessum árstíma, sem eru svo frumsýndar í hálfleik á meðan Superbowl stendur. Sagt er að hvert 30 sekúndna pláss í hálfleik hafi kostað um 3 milljónir dollara, eða um 370 milljónir króna!

Manían í kringum auglýsingarnar er meira að segja það mikil að nú eru farin að birtast “teaser” auglýsingar til að hita upp fyrir daginn sjálfan. Hér bregður Matthew Broderick bregður sér aftur í gervi Ferris Bueller í 10 sekúndna klippu sem enginn vissi hver borgar fyrir. Í dag kom svo í ljós að það var Honda sem stendur á bakvið þetta stunt, með margar tilvísanir í myndina sjálfa. Smelltu hér til að sjá alla auglýsinguna.

Partýið byrjar svo daginn eftir hjá okkur sem sitjum annarsstaðar í heiminum og fylgjumst með erlendum bloggsíðum taka saman allar þessar frábæru auglýsingar sem birtust kvöldið áður. Hér eru nokkrar af auglýsingum síðasta árs.

Volkswagen – The Force

The Force var valin auglýsing ársins 2011 af Adweek.

Chrysler – Imported from Detroit

Chrysler ákvað að fara í samstarf með Eminem í þessari auglýsingu. Mjög flott concept sem dregur fram vörumerkið Detroit jafn mikið og Chrysler vörumerkið.

Best Buy – Buy back program

Best Buy fékk gamla brýnið hann Ozzy Osbourne til að skilja ekki tækni (sem hann gerir örugglega ekki) og Justin Bieber til að vera mótvægi við hann í þessari skemmtilegu stiklu.

Coca Cola – Open happiness

Coca Cola hélt áfram með ævintýraþemað sitt.

Ég býð allavega spenntur að sjá hvað auglýsendur heimsins færa manni á árinu 2012.

Flestir Íslendingar hafa verið límdir við sjónvarpsskjáinn síðustu vikuna að fylgjast með Strákunum okkar úti í Serbíu. Í fyrsta lagi langar mig til þess að vekja athygli á því hversu frábær árangur mér þykir það að ná á stórmót trekk í trekk með landslið frá 300 þúsund manna skeri norður í rassgati. Strákar þið eruð hetjur og eruð landi og þjóð til sóma.

Í öðru lagi langar mig til að kvarta yfir hversu illa er haldið utan um útsendingar frá EM í Serbíu. RÚV hefur væntanlega unnið ötullega að því að fá sýningarréttinn yfir til sín aftur, eftir að 365 vann síðasta útboð um HM  í Svíþjóð á síðasta ári. Allt gott og blessað að þjóðin fái að fylgjast með því sem strákarnir eru að gera. Landsliðið er jú auðlind í þjóðareigu og allt það. Við borgum fyrir RÚV í gegn um skattana okkar og ættum því að sjálfsögðu að fá að njóta þess að horfa á landsliðin okkar keppa. Eða hvað? Þarf þetta að vera annað hvort eða?

Sýnt var frá heimsmeistaramótinu í Svíþjóð á síðasta ári á Stöð 2 Sport. Fyrir leik var Þorsteinn Joð með upphitunarþátt þar sem talað var við ýmsa spekinga eins og Geir Sveinsson, Loga Geirs og Hafrúnu Kristjánsdóttur. Þátturinn var yfirleitt um klukkutími, þar sem talað var um andstæðingana, þeirra leikur greindur og spáð fyrir um okkar leik. Eftir leik var umfjöllunin í svipuðum dúr, klukkutíma þáttur leikurinn greindur, farið yfir næstu leiki og hvað var framundan. Umfjöllunin var vönduð og góð og vel að henni staðið.

Núna árið 2012 eru leikirnir sýndir á RÚV. Útsending hefst stuttu fyrir leik, það er rétt farið yfir málin og svo er skipt út til Serbíu. Að leik loknum er smá umfjöllun, 1-2 leikatriði greind og spiluð viðtöl við strákana eftir leik – ef tími gefst til! Á föstudaginn töpuðum við því miður 34-32 gegn Slóveníu og eftir leikinn beið ég í ofvæni eftir að heyra hvað strákarnir höfðu að segja um tapið. Það rétt vannst tími til þess að tala við Guðmund landsliðsþjálfara og svo þurfti að skipta í hálftíma fréttatíma, fylgt eftir með hálftíma Kastljósi, svo fengum við að sjá seinni hálfleikinn af leiknum á milli Króatíu og Noregs (sem var mjög mikilvægur fyrir okkur) og svo var farið beint í Útsvarið, því ekki má landinn missa af uppáhaldsspurningaþættinum. Á meðan þessu stendur er heil handboltastöð í gangi sem sýnir ekkert! Þetta er alveg til skammar finnst mér! Stöð 2 gerði þetta svo 100 sinnum betur í fyrra að það er ekki fyndið!

Mín skilaboð til RÚV eru þessi: Gerið þetta almennilega eða sleppið þessu! Ef ekki er í boði að hliðra dagskránni nýtið ykkur þá plúsrásirnar, eða þessa blessuðu EM rás sem var sett upp sér fyrir þetta mót.

Það virðist vera einhver mýta í gangi með að það að sýna frá handboltalandsliðinu á Ríkissjónvarpinu þjóni hagsmunum almennings. Það er einfaldlega della ef það er ekki vel gert. Í fyrra sýndi Stöð 2 meirihlutann af leikjum íslenska landsliðsins í opinni dagskrá. Það er hægt að bæta um betur og sýna þá alla í opinni dagskrá, en læsa umfjölluninni og öðrum leikjum. Þá myndu handboltasjúklingar kaupa sér áskrift en hinir rólegri gætu horft á leikinn sjálfan. Þetta er auðveldlega hægt að gera með því að selja kostun til íslenskra fyrirtækja. “Arion banki færir þér landsliðið”, “Össur færir þér Strákana okkar”, “Grímur kokkur færir þér öll mörkin í Serbíu”. Svo þar sem öll augu landsins væru límd við skjáinn er hægt að rukka meira fyrir hverja sekúndu í auglýsingaplássinu. Einfalt, allir sjá landsliðið, Stöð 2 fær áskrifendur og RÚV greiðið ekki morðfjár af skattpeningum fyrir útsendingu sem væri annars sinnt með hangandi hendi. Allir græða.

En þar sem maður á alltaf að vera jákvæður í garð landsliðsins, þú útsendingarnar séu ekki eins og maður vill, þá ætla ég að enda þetta á jákvæðu nótunum. Áfram strákar, þið takið þessa Frakka og Spánverja! Og ef ekki, þá er það allt í lagi líka!

Helsveittur en glaður

Nú nálgast maraþonið óðfluga. Það er hægt að velja úr þremur vegalengdum – 42 km, 21 km og 10 km – auk 3 km Latabæjarhlaupsins. Það kostar ákveðið gjald að keppa en innifalið í því er bolur, mótsgjald, drykkir frá Powerade og miði í sund. Ég er skráður í 10km hlaupið í ár. Í fyrra fór ég hálft maraþon og satt best að segja þá var það bara of langt, ég nenni hreinlega ekki aftur.

En hvað ber að hafa í huga þegar maður undirbýr sig fyrir víðavangshlaup? Ég vil taka það fram að ég er ekki lærður þjálfari en ég hef mikla reynslu úr frjálsum íþróttum, Crossfit, fótbolta, skíðum og svo lengi mætti telja.

Æfðu þig!

Já ekki falla í þá gryfju að ætla að taka þetta bara á hörkunni. Það SÖKKAR að fara óæfður í hlaup. Í fyrsta lagi getur maður fengið blöðrur, meiðsl eða aðra verki og í öðru lagi nærðu engan veginn tímanum sem þú vilt, sem er næstum því jafn slæmt og að meiðast. Ef þú ert að fara að hlaupa 10km, hlauptu þá 5-10km þrisvar í viku. Ef þú ert að fara 21 þá skaltu hlaupa 10-15 km þrisvar í viku. Ef þú færð blöðrur eða verki í fæturnar þá mæli ég með öðrum þolæfingum eins og t.d. hjólreiðum eða sundi til að halda þér við.

Góðir skór

Fólk getur fengið beinhimnubólgu og blöðrur og markt fleira óskemmtilegt. Sjálfur hleyp ég í Asics Nimbus skóm sem hægt er að kaupa á sanngjörnu verði alls staðar annars staðar en á Íslandi. Ég kaupi mína hlaupaskó í gegn um síðu sem heitir Eastbay sem er ein fremsta íþróttavörusíðan vestanhafs. Þess má geta að hún sendir heim til Íslands.

Horfðu á Rocky

Það gildir það sama með undirbúning fyrir hlaup og að ná árangri í ræktinni. Ekkert pumpar mann upp jafn mikið og að horfa á Rocky. Það ég fór yfir það áður í annarri færslu og það er ekki hægt að ítreka það of oft.

Hlauptu til góðs

Það eru margir þarna úti sem eru ekki jafn heppnir og ég og þú. Þegar þú skráir þig í maraþonið gefst þér kostur á að velja þér góðgerðarfélag til að hlaupa fyrir. Eins og í fyrra þá hleyp ég fyrir CP félagið. CP stendur fyrir “cerebral paralysis” en það er ákveðin heilalömun sem veldur hreyfihömlun. Félagið er með marka skjólstæðinga en er alfarið rekið á sjálfboðastarfi og frjálsum framlögum. Ég hvet ALLA sem ætla að hlaupa til þess að hlaupa fyrir Félag CP á Íslandi. Til þess að skrá sig þarf að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið og svo skrá sig inn á www.hlaupastyrkur.is og þá er hægt að heita á þig.

Að sjálfsögðu ætla ég að nýta mér aðstöðu mína og biðja alla sem þetta lesa að heita á mig en allar mínar upplýsingar má finna hér. Hver einasta króna skiptir máli.

Hafðu gaman

Höfum ungmennafélagsandann í heiðri og höfum gaman að þessu öllu saman. Annars er þetta allt til einskis!