Archive

Monthly Archives: July 2013

Malcolm Gladwell

Malcolm Gladwell

Ég er að lesa bók sem heitir Blink eftir höfundinn Malcolm Gladwell, sá sama og skrifaði þá frábæru bók The Tipping PointBlink fjallar um það sem gerist í undirmeðvitundinni þegar við erum að taka ákvarðanir og vega og meta lífið hverju sinni. Ég er kominn nokkuð áleiðis í henni og það hefur einn kafli gripið mig sérstaklega.

Þegar við heyrum ákveðin orð, þá er ofurtölvan sem heilinn á okkur er mjög fljótur að geta unnið úr þeim upplýsingum og segir okkur hvað það orð þýðir. Að sama skapi er hann mjög fljótur að ákveða hvaða tengingar það orð hefur.

Þetta á sér allt stað í undirmeðvitundinni þannig við erum í raun ekki meðvituð um að þegar við heyrum nafnið “Pétur” þá er heilinn fljótur að finna þá tengingu að hér sé um karlmann að ræða. Sama þegar þú heyrir nafnið “Anna” þá veistu strax að um er að ræða konu. Hér vinnur heilinn upp úr gagnasafni sem búið er að safna í mörg ár.

blink

En hvað gerist þegar þú ferð að spyrja út í aðeins flóknari hluti? Til dæmis hvort að orð sem tengjast starfsframa eða heimilisstörfum? Hvoru megin liggja þau, XX eða XY?

Það er hægt að kanna viðhorf þitt til þessara hluta. Á síðunni https://implicit.harvard.edu er hægt að taka svokölluð IAT-próf sem mæla til dæmis viðhorf til húðlitar eða viðhorf þitt hvað varðar kynin og störfin. Þetta er mælt með því að þú átt að setja ákveðin orð í ákveðna flokka. Þú byrjar til dæmis á því að raða karlmanns og kvenmannsnöfnum í karlkyns og kvenkyns flokka. En svo vandast dæmið þar sem flokkar eru sameinaðir og þú átt að raða orðum eins og “corporation” í flokkana “Family/Male” eða “Career/Female” og svissað. Þér er svo gefin einkunn eftir því hversu fljótt þú getur svarað. Ég mæli bara með að þú prófir til að sannreyna sjálf/ur.

Ég var alinn upp við að maður á að vera fordómalaus hvað varðar kynþætti, kyn, húðlit, trúarbrögð og allan nnan hátt. Þess vegna var ég ekki að stressa mig fyrir þetta próf. Ég hlyti að koma vel út úr því. En niðurstaðan var sjokkerandi fyrir mig.

implicit association test

iat graph

Ég tengi semsagt orð sem tengjast fjölskyldu við konur og orð sem tengjast starfsframa við karla!

Ég tók prófið tvisvar og fékk sömu niðurstöðu. Eftir því sem stendur í bókinni fá lang flestir sömu niðurstöðuna sama hversu oft er reynt.

Ég veit að svona á ekki að hugsa. Ég vil heldur ekki vera gaurinn sem er hlutdrægur heldur vil ég vera hlutlaus. En er þá öll nótt úti? Er þetta bara það sem mér finnst?

Í Blink er sagt frá manni sem tók kynþáttaprófið á hverjum degi, vegna þess að hann var ósáttur með niðurstöðuna sem var alltaf sú sama. Þangað til einn daginn þá batnaði hún, það var eins og viðhorfið hafði breyst. Aðspurður sagðist maðurinn ekki hafa verið að gera neitt öðruvísi þann daginn en þegar farið var að kafa dýpra ofan í málið kom í ljós að maðurinn hafði verið að horfa á Ólympíuleikana um morguninn og þar séð svart fólk vera að skara fram úr í íþróttum. Þannig áður en hann tók prófið var hann óafvitandi búinn að gera sig jákvæðari gagnvart fólki af afrískum uppruna, bara með því að horfa á það skara fram úr.

Þess vegna eru fyrirmyndir svo mikilvægar í baráttunni á gegn mismunun og fordómum. Við þurfum nefnilega að breyta því hvernig undirmeðvitundin hugsar. Við erum nefnilega ekki eins rökvísar verur og við höldum.

Advertisements

Verandi mikill Daft Punk aðdáandi þá beið ég gríðarlega spenntur eftir Random Access Memories, sem kom út fyrir rúmum mánuði. Ég var meira að segja svo spenntur að ég skrifaði pistil um hversu spenntur ég væri. Svo kom hún á endanum, fyrst á MP3 og svo kom vínyllinn loksins til landsins. Ó hvílík gleði.

Þessi plata hefur fengið blandaða dóma en mér finnst hún frábær. Útsetningarnar á lögunum góðar og hún líður alveg gríðarlega vel í gegn. Það þarf eiginlega að hlusta á hana alla og horfa á sem eina heild því það er erfitt að taka út einstaka hluti. Hver einasta skipting milli laga er útpæld. Sem dæmi þá fengu þeir píanóleikarann Chilly Gonzales til að smíða lag til að færa hljóminn úr A-moll yfir í B og úr varð lagið “Within”. Fyrstu 3 lögin voru semsagt í moll en það þurfti á einhvern hátt að færa þau yfir í dúr og þegar þú ert Daft Punk verður skiptingin að vera hnökralaus.

En það er óþarfi fyrir mig að koma með plötudóm núna mörgum vikum seinna. Það hefur allt verið skrifað og sagt um Random Access Memories sem þarf að koma fram. Það eina sem ég segi er að mér finnst hún frábær.

En það er eitt lag sem mér finnst standa upp úr og hefur ekki farið úr hausnum úr mér frá fyrstu hlustun. Og ekki einu sinni eitt lag, heldur ein setning úr einu lagi. Það er lag númer 3, sem er samið sem virðingarvottur við Giorgio nokkurn Moroder, einn af frumkvöðlum danstónlistar í heiminum. Hann samdi til dæmis marga af heitustu smellum Donnu Summer á sínum tíma.

Það sem Giorgio segir sem stendur upp úr hljómar svona:

“Once you free your mind about a concept of harmony and music being correct, you can do whatever you want. So, nobody told me what to do, and there was no preconception of what to do.”

Það er svo rétt! Og það er hægt að fullyrða það sama um listir, bókmenntir, arkitektúr, hönnun og kvikmyndir. Þegar út í það er farið á þetta jafn vel um viðskiptamódel og verkferla. Þó hlutirnir hafi alltaf verið gerðið ákveðinn hátt þá þarf ekki að gera þá þannig að eilífu.

Stundum þarf bara 73 ára gamlan Ítala til að segja manni það.