Archive

Monthly Archives: August 2012

Í hverri einustu borg í heiminum sitja gamlir menn sveittir við að verja viðskiptamódel sem hefur gert þá gríðarlega auðuga. Plötuútgefendur eiga á brattann að sækja þessa dagana þegar allir fara á netið og sækja sína tónlist. Sumir fara á Torrent og sækja efni þar til að hlusta á. Aðrir kaupa í gegn um iTunes eða Tónlist.is eða einhverjar slíkar efnisveitur. Svo eru sumir gamaldags og fara bara í Skífuna og kaupa geisladiskinn.

Niðurhal er komið til að vera. Spurningin er hvernig tónlistarmenn og útgefendur ætla að bregðast við. Það er aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir ólöglegt niðurhal, en það er hægt að minnka tekjuáhrifin af því, til dæmis með snjallri markaðssetningu og/eða með því að gera eitthvað öðruvísi.

En ég ætla ekki að rausa um gamla menn og ónýt viðskiptamódel. Ég gerði það í vor í pistli sem heitir “Forkastanleg heimska“. Svo sáu forsvarsmenn SMÁÍS fyllilega um að koma þeirri umræðu af stað með Yuri og Brad auglýsingunum góðu í sumar. Í dag ætla ég bara að vera glaður.

Því á meðan gamlar viðskiptablokkir eru að hruni komnar þá blómstrar tónlistin sem aldrei fyrr. Það er mjög einfalt að koma sér á framfæri og maður heyrir sífellt af nýjum hljómsveitum og tónlistarmönnum sem hafa á frumlegan hátt komið sér áfram.

Sú fyrsta sem ég ætla að tala um er Lily Allen. Lily Allen er tónlist og sviðsframkoma í blóð borin. Pabbi hennar er leikari og tónlistarmaður og mamma hennar framleiðir kvikmyndir. Það gekk brösulega hjá henni samt að komast áfram í tónlistinni og reyndi nokkrum fyrir sér hjá plötufyrirtækjum en allt kom fyrir ekki. Það var ekki fyrr en hún tók sig til og hlóð nokkrum af lögunum sínum inn á MySpace að hlutirnir fóru að gerast. Síðan hennar varð gríðarlega vinsæl og allt í einu var Allen rísandi stjarna í bresku poppi og platan hennar Alright, Still var framleidd og gefin út á mettíma árið 2006. Aðdáendur voru þá búnir að heyra flestöll lögin áður á MySpace. Í janúar 2010 var hún búin að seljast í yfir 1.500.000 eintaka í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Haustið 2007 kom út platan In Rainbows með Radiohead. Platan var fyrst um sinn bara gefin út á netinu og var bara aðgengileg í gegn um heimasíðu sveitarinnar, Radiohead.com. Nýbreytnin var sú að þú máttir ráða hvað þú greiddir fyrir plötuna. Ef þú varst nískur þá gastu sótt hana frítt, en ef þú vildir umbuna Radiohead fyrir vinnuna sína þá skráðirðu inn kreditkortið þitt og borgaðir það sem þú vildir. Ég held að ég hafi borgað $10 dollara á sínum tíma, eða um 600 kr á 2007 gengi. In Rainbows var svo líka gefin út á iTunes og á geisladisk og vínyl ásamt sérstakri box útgáfu með DVD og allskonar aukaefni. Einhversstaðar heyrði ég að Radiohead hefði nettað að meðaltali $8 á hvert selt eintak á netinu. Ekki slæmt það!

En þú þarft ekki að vera Radiohead til að koma þér á framfæri. Í fyrra komu út þrjár plötur eftir kanadískan strák að nafni Abel Tesfaye, betur þekktur sem The Weeknd. Abel varð fyrst frægur á YouTube þar sem hann var duglegur að setja inn tónlist eftir sig. Hann ákvað svo að taka upp listamannsnafnið The Weeknd og tók internetið með trompi. Fyrsta platan, House of balloons var ein besta plata síðasta árs að mati gagnrýnenda. Thursday og Echoes of Silence fylgdu svo í kjölfarið. En það merkilega er að hann hefur ekki grætt dollar á plötusölu. Allar þessar plötur voru gefnar á The-Weeknd.com. Já ég sagði gefnar. Hann setti þær inn og svo tók internetið við og dreifði þeim út um allt.

Abel er einn klár patti. Hann er frekar feiminn og gefur fá viðtöl. Þá hefur hann líka örsjaldan komið fram á tónleikum og er ekki á mála hjá neinni útgáfu. Ég hef ekki ennþá fundið ástæðuna fyrir því að hann ákvað að fara þessa leið. Sagan segir að hann hafi viljað búa sér til nafn áður en hann færi að selja tónlistina sína. Ef það var planið hefur það svo sannarlega tekist og ef hann rukkar fyrir næstu plötu held ég að það muni skila honum nægum fjármunum til að hafa það gott í mörg ár.

Hvert ferð þú þegar þú ert að leita að ákveðnu lagi eða ákveðinni hljómasveit? Ég fer á YouTube. Þar er hægt að finna næstum því allt, hvort sem það er íslenskt eða erlent. Núna er ég að kynna mér þær hljómsveitir sem koma á Airwaves í haust. Á meðal erlendra hljómsveita er Django Django frá Edinborg í Skotlandi. Mig langaði til að kynna mér hljómsveitina áður en ég sæi þá, nú eða keypti plötuna frá þeim. Það kom mér skemmtilega á óvart að finna playlista frá Django Django á YouTube sem heitir Django Django (album stream). Haldiði að þeir hafi ekki hlaðið inn öllum lögunum sínum á netið fyrir þig að hlusta frítt á. Auðvitað gerirðu það, fólk vill prófa og kynna sér áður en það kaupir. Svo geta þér líka tekið inn tekjur af auglýsingum á YouTube, en mér sýnist þeir ekki gera það.

Auðvitað vill maður að tónlistarmenn fái borgað fyrir vinnuna sína. Þeir gera það þegar við kaupum plötur, lögin þeirra eru spiluð í útvarpinu og þegar við mætum á tónleika. Þeir sem nýta sér nýjar leiðir í að kynna sig fá ennþá meiri útbreiðslu. Internetið hefur gert heiminn að einu markaðssvæði og við eigum að nýta okkur það í því sem við gerum. Svo er líka alltaf gaman að sjá fólk prófa eitthvað nýtt.