Archive

Heimildarmyndir

Ég horfði á heimildarmyndina Heima eftir Sigur Rós í fyrsta skipti á laugardaginn. Fyrir þá sem ekki vita þá fjallar Heima um tónleikaröð sem Sigur Rós hélt á Íslandi árið 2006. Þeir ferðuðust um landið og héldu ókeypis tónleika á allskonar stöðum eins og t.d. Ísafirði, Ólafsvík, Djúpavík og Ásbyrgi auk þess að halda risastóra tónleika á Klambratúni í Reykjavík.

Í myndinni er sýnt frá hverjum tónleikum fyrir sig stað fyrir sig. Einnig eru sýndar upptökur af stökum lögum, tekin upp á meðal annars Dverghömrum, Kárahnjúkum og í Selárdal í Arnarfirði, þar sem Kjarri, Jónsi, Goggi og Orri spiluðu oft á tíðum fyrir engan nema sjálfan sig og myndavélarnar. Á milli eru svo viðtöl við strákana en einnig við stelpurnar í Amiinu, sem fóru með þeim í þessa ferð.

Þegar ég byrjaði að horfa á myndina smellti ég inn mjög saklausri Twitter færslu, en í henni stóð: “I’m watching Heima, the @sigurros documentary for the first time. Why haven’t I seen this before?? #greatness #music“. Ég reiknaði ekkert með því að það fengi einhver viðbrögð en þau komu sko!

Meðlimir Sigur Rósar

Þegar ég opnaði Twitter í gærmorgun var ég búinn að fá fullt af svörum frá fólki allsstaðar að úr heiminum sem var sammála mér um hversu frábær myndin væri, hvað því langaði mikið til Íslands, hvað Sigur Rós væri frábær hljómsveit o.s.frv. Þegar þetta er skrifað hef ég fengið 37 svör, 36 favorites, 29 retweet og 15 nýja followers. Ekki slæmt fyrir saklaust tvít sem átti bara að vera varpað í umheiminn. Þetta er það frábæra við netið og sérstaklega við Twitter, þar sem fólk sem sameinast og á samskipti um þau málefni sem það hefur áhuga á, óháð því hvar það er í heiminum!

Sjáið viðbrögðin tekin saman hér.

Eins og áður segir er myndin æðisleg! Tónlistin er svo falleg og landslagið og myndefnið er yndislegt. Þetta smellpassar allt eitthvað – svo ótrúlega íslenskt. Ég var með gæsahúð næstum alla myndina og ég sé rosalega eftir því núna 6 árum seinna að hafa ekki gert mér ferð á eina af þessum tónleikum. Lokaatriði myndarinnar er rosalegt þar sem Sigur Rós spilar “Popplagið”, lag nr. 8 af ( ) plötunni fyrir framan fleiri þúsund manns á Klambratúni.

Sigur Rós hefur tilkynnt nýja plötu, en hún ber nafnið Valtari og kemur út 28. maí. Ég er orðinn illa spenntur fyrir henni eins og gerist alltaf þegar þeir senda frá sér nýja plötu. Nú þegar er eitt lag komið í spilun, lagið “Ekki múkk”. Það verður spennandi að sjá hvað Sigur Rós gerir í kjölfarið, enda eru þeir þekktir fyrir að fara ótroðnar slóðir. Við vonumst allavega eftir að minnsta kosti einum tónleikum hér á landinu!

Andri Snær Magnason

Einn dag í síðustu viku var ég að keyra heim úr vinnunni. Á leiðinni upp í Kópavog lét ég hugann reika, svona eins og maður gerir eftir langan vinnudag. Allt í einu fékk ég þá hugdettu að horfa á aftur á Draumalandið, heimildarmyndina sem er gerð eftir samnefndri bók eftir Andra Snæ Magnússon. Ég las bókina fyrir ca 5 árum og fór á myndina þegar hún var sýnd í bíó. Þannig ég fór heim, Tinna mín var að vinna, bjó til piparsveinakvöldmat (samlokur) og leigði mér Draumalandið á VODinu.

Fyrir þá sem hafa ekki séð Draumalandið þá er hún hápólitísk ádeila á stóriðjuna. Þar eru stjórnmálamenn, bæjarstjórar og fleiri virkjanahaukar látnir líta út eins og hálvitar og afdalabændur eru upphafnir. Myndin er rosalega sorgleg en þar er stórbrotin náttúra sýnd fara undir virkjun og álver, og til að toppa allt saman þá er gæsamamma sýnd reyna að hlífa eggjunum sínum frá vatninu sem ætlar að drekkja hreiðrinu. Allt þetta er rosalega sorglegt og átakanlegt að horfa á, en þegar myndinni er lokið skilur hún samt ekkert eftir sig. Hún reynir að höfða til tilfinninga í fólki og vekja það til umhugsunar um náttúruna, en það bara tekst ekki. Sagan er ekki nógu góð.

Eftir að hafa horft á myndina, þá mundi ég hversu áhrifarík og skemmtileg mér fannst bókin á sínum tíma. Þannig ég reif upp Draumalandið og lá yfir henni í nokkra daga þangað til ég var búinn að drekka í mig allt sem í henni var að finna. Og viti menn, bókin var jafngóð og mig minnti!

Andri Snær setur fram virkilega flottar og skemmtilegar pælingar í bókinni. Draumalandið er skoðun eins manns, en sú skoðun er rökstudd vel með vísunum í söguna, tölfræðilegar staðreyndir og tilvitnanir í fólk. Hann það eru þrennt sem virkilega situr eftir í mér eftir að hafa lesið Draumalandið í annað skiptið.

1. Virkjun og stóriðja = framfarir,  Allt annað = Hnignun og dauði

Ætli besta skilgreiningin á stóriðju sé ekki “orkufrekur framleiðsluiðnaður”. Dæmi um stóriðjufyrirtæki eru t.d. álverin okkar, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga og Sementsverksmiðjan á Akranesi. Til þess að slík fyrirtæki geti starfað þurfa þau orku og til þess að fá orku þarf að virkja.

Kárahnjúkavirkjun

Nú er ég ekki andvígur virkjunum, en ég hef hins vegar áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á efnahag okkar og framtíð ef við dembum öllum eggunum okkar í sömu körfuna og stöndum uppi með 5 álver, sem eru undirstaða atvinnulífs okkar. Spurðu fólk sem átti allt sitt sparifé í hlutabréfum bankanna hversu góð áhættudreifing það er að treysta á einn iðnað. Í stað þess að byggja risastóra virkjun, sem starfar til þess að þjóna einu risaálveri, er ekki sniðugra að ganga til samninga við þrjá minni aðila sem þurfa minni orku, menga minna og hjálpa okkur að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf?

Og þarf ríkisstjórnin að vera að vasast í því að fá þessa aðila til Íslands? Getum við ekki hjálpað okkur sjálf?

2. Hvaða fyrirtæki viljum við fá til Íslands?

Þorp á kafi í rauðri leðju

Stakk það engan þegar forseti Íslands sagði í viðtali við Bloomberg fréttastofuna að hér á Íslandi væru fullt af tækifærum fyrir erlend fyrirtæki til að fjárfesta og rökstuddi það með því að segja frá því að Alcoa og Rio Tinto vildu byggja hér álver? Áliðnaður er gríðarlega mengandi og allt ferlið veldur gríðarlegu umhverfisraski. Man einhver eftir umhverfisslysinu sem varð í Ungverjalandi fyrir einu og hálfu ári? Þar rofnaði stífla sem átti að halda eitraðri leðju í lóni. Það endaði ekki betur en að leðja rann í gegn um nokkur þorp, kostaði nokkur mannslíf og olli ómældum skaða. Núna eru álver á Reyðarfirði, í Hafnarfirði og í Hvalfirði, er þetta ekki komið gott?

Rio Tinto hefur í mörg ár verið fordæmt fyrir að menga og spilla náttúru, rányrkju og brjóta á rétti verkamanna ásamt fleiru. Alcoa er einn stærsti hergagnaframleiðandi í heiminum. Þetta eru fyrirtækin sem forseti vor vill að hjálpi Íslandi. Ég veit það eru ekki til neinir englar í hinum harða heimi viðskipta en halló!

3. Getur framboð búið til eftirspurn?

Ef að á Íslandi útskrifuðust 200 stjarneðlisfræðingar á ári, hvað myndi þá gerast? Myndu þeir allir enda atvinnulausir? Já segir einhver, enda er ekki til neitt að gera fyrir stjarneðlisfræðinga á Íslandi. Eða hvað? Ef þekkingin væri til staðar væri þá ekki kominn grundvöllur fyrir spennandi fyrirtæki sem sérhæfði sig í rannsóknum á himinhvolfinu? Eða bara eitthvað allt annað?

Sigur Rós

Ef fleiri myndu skrá sig í FÍH og læra að verða tónlistarmenn, myndi það minnka möguleika þeirra á því að fá vinnu af því það eru of margir tónlistarmenn? Myndi tónlistargeirinn ekki bara stækka og dafna og við myndum eignast aðra Björk, Sigur Rós, Mugison eða Garðar Thor Cortes?

Ef að 500 viðskiptafræðingar útskrifast á ári, en aðeins 200 fá vinnu, erum við ekki með 300 manns á lausu sem geta látið að sér kveðja á öðrum stigum þjóðfélagsins? Þau geta farið í frekara nám, þau geta stofnað innflutningsfyrirtæki, þau geta farið á Alþingi eða veitt ráðgjöf. Það þarf ekki allt að vera inni í kassanum og matreitt fyrir “atvinnulífið”. Hugsum hlutina í aðeins víðara samhengi. Það sama á við um allar greinar.

————————————————————————————-

Draumalandið

Ég get með sanni sagt að þessi pistill er allt annar en sá sem ég ætlaði að skrifa. Fyndið hvernig hugmyndir breytast og þróast þegar maður vinnur með þær. Ég mæli með Draumalandinu, hún vekur mann til umhugsunar sama þó maður sé sammála hverju orði, öðru hverju nú eða ekki stakasta staf í bókinni.

Ef einhvern vantar eintak af Draumalandinu má viðkomandi fá mína, gegn því skilyrði að þegar hann er búinn að lesa bókina láti hann einhvern annan fá hana.

Ég er búinn að vera að horfa (aftur) á Secrets of the Superbrands, heimildarmynd í þremur þáttum sem framleidd var af BBC. Myndin var framleidd á síðasta ári og er þannig séð mjög nýleg. Hún fjallar um stærstu vörumerki í heimi, sögu þeirra og hvað þau hafa gert til að komast á þann stað sem þau eru í dag.

Eins og áður segir er hún í þremur hlutum og er skipt niður eftir efni – tækni, tíska og matur. Í tæknihlutanum er fjallað um tæknitröll eins og Facebook, Google, Apple og Microsoft. Í tískuhlutanum er byrjað á Louis Vuitton en svo er farið yfir í Levi’s, Diesel og loks Adidas og Nike. Í matarhlutanum er m.a. fjallað um Coca Cola, Heinz, Red Bull og McDonald’s.

Kynnirinn heitir Alex Riley og hann er fullkominn í þetta starf! Alex er hinn almenni lúði sem spáir ekkert (að hann heldur) í vörumerkjum, í hverju hann er, hvernig tölvu hann á o.s.frv. Hann gerir óspart grín að sjálfum sér og heldur þannig uppi húmor í gegn um allar myndirnar, sem annars fjalla um grafalvarleg málefni.

Það sem er svo merkilegt við myndirnar er að þau sýna hvernig sterkustu vörumerki heims láta fólk líða. Það er meðal annars farið með Apple fanboy í heilaskanna þar sem honum eru sýndar myndir af Apple vörum. Viti menn, niðurstöðurnar sýna að þegar hann sér eplið góða lýður honum eins og hann sé að sjá fjölskyldumeðlim eða gamlan vin, eða allavega sýnir heilinn á honum þau viðbrögð.

Myndirnar eru alveg frábærar og gefa einstaka innsýn inn í heim þessara sterkustu vörumerkja í heimi. Hann kannar báðar hliðar málsins, fer og talar við forsvarsmenn vörumerkjanna sjálfra en einnig við fólk á hinum pólnum eins og aðstandendur tímaritsins Adbusters. Ég mæli með þeim fyrir alla, markaðsfólk, kennara, sálfræðinga og alla þá sem vilja kíkja inn í haus neytandans og bestu vina hans.

“So where does the secret power of the fashion superbrands come from? It comes from us!
-Alex Riley


Inside Job er alveg frábær heimildarmynd. Ég er búinn að horfa á hana 2 eða 3 sinnum núna og hef alltaf jafn gaman af. Hún er mjög hátt metin í kvikmyndaheiminum og fékk m.a. Óskarsverðlaunin fyrir bestu heimildarmyndina á síðasta ári. Einnig er hún með 8.2 af 10 í einkunn inni á IMDB, sem er mjög hátt.

Inside Job fjallar um alheims efnahagshrunið sem varð haustið 2008. Byrjun myndarinnar er tekin upp á Íslandi. Þar er lauslega snert á okkar þætti í fjármálakreppunni og tekin eru m.a. viðtöl við Andra Snæ Magnason rithöfund og Gylfa Zoega hagfræðiprófessor. Ég mæli hiklaust að allir horfi á þessa mynd þar sem þetta hjálpar fólki að skilja hvað gerðist. Flóknir hlutir eru einfaldaðir og sagðir á mannamáli. Eina leiðin til að koma í veg fyrir aðra eins vitleysu og hörmung sem hér hefur gengið yfir er að læra af mistökum sem gerð hafa verið.

Alan Greenspan

Myndin tekur á sögunni og segir frá því hvernig breytingar á regluverkinu höfðu áhrif á það sem síðar varð og nefnir alla helstu leikmenn eins og forsetana fimm – Reagan, Bush, Clinton, Bush og Obama, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna Alan Greenspan, Larry Summers forseti Harvard og fleiri góðar hetjur. Í henni er sett fram réttmæt gagnrýni á bandarísku ríkistjórnina, Wall Street, lánshæfisfyrirtækin (Moody’s, S&P og Fitch) og bransann allan.

Matt Damon talar inn á myndina og viðmælendurnir eru margir hverjir virtir hagfræðingar og fjármálagúrúar eins og Christine Lagarde, Nouriel Roubini, George Soros og Paul Volcker ásamt Dominique Strauss-Kahn, sem eins og staðan er í dag er ekki eins virtur og áður. Einnig eru viðtöl við minna virta hagfræðinga eins og Robert Mishkin sem skrifaði fræga skýrslu ásamt Tryggva Þór Herbertsyni, núverandi alþingismanni. Mishkin er tekinn all svakalega fyrir í myndinni enda er hann orðinn svo hvítur í framan undir lok viðtalsins að það er eins og hann hafi séð draug.

Myndin útskýrir á mannamáli hvað afleiðuviðskipti snúast um – hugtak sem er svo flókið í sjálfu sér að til þarf doktorsgráðu að skilja það. Hún fjallar um húsnæðislánin í Bandaríkjunum, sem komu af stað snjóbolta sem felldi Bear Stearns og Lehman Brothers bankana og olli að lokum alheimskreppu. Bónusana sem ýttu undir bóluna. Hún fer yfir atburðarásina undir lok góðærisins og atburðina sem fylgdu og að lokum hverjir öxluðu og ættu að axla ábyrgð í málinu.

Eins og ég sagði áðan þá mæli ég með að ALLIR sjái þessa mynd, sama hvort þeir hafi áhuga á fjármálum eða ekki. Þetta ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem vilja skilja betur hvað gerðist fyrir þremur árum.

Allar ábendingar um góðar heimildarmyndir eru vel þegnar.