Archive

Monthly Archives: June 2011

Allir nota peninga. Svo ég vitni í Þorvald Gylfason: “Hagkerfið þarfnast peninga líkt og vél þarf smurningu. Peningalaust hagkerfi er eins og olíulaus vél: byrjar að hökta og bræðir síðan úr sér.” Ekkert dramatískt hjá karlinum, en allt í lagi með það.

55 dollara seðill frá 1779

Fyrstu myntkerfin sem vitað er um voru sett á legg í Lýdíu við Miðjarðarhaf um 700 f.k. Mynt þótti fullkomin til þess að tákna virði einhvers. Fólk þurfti ekki að stunda vöruskipti lengur heldur táknaði myntin eitthvað virði í raunheimum. Sá sem átti mikið af henni gat keypt sér mikil veraldleg gæði. Síðan þá hafa smápeningar verið notaðir sem gjaldmiðill í gegn um hagsöguna. Til dæmis fékk Júdas 30 silfurpeninga fyrir að færa Rómverjunum Jesú.

Fyrstu heimildir um pappírspeninga eru sagðar frá um árið 700 e.k. í Kína undir Tang og Song keisaraveldunum. Þá voru viðskipti orðin það algeng að kaupmönnum þótti þægilegra að fá uppáskrifað blað í stað stórra kerrufarma af kopar, þar sem auðveldara er að flytja pappírinn. Þó eðli þessara blaða hafi verið líkara ávísunum heldur en þúsundköllum sem við sjáum í dag þá var tilgangur þeirra sá sami, að búa til máta til að geyma fjármuni, án þess að þurfa að flytja þá í hestförmum.

Kreditkortin fóru að gera vart við sig um 1920, þó þau hafi ekki almennilega náð fótfestu fyrr en Diner’s Club gaf út sitt fyrsta kort árið 1950. Maður fór á veitingastað en þegar kom að því að borga þá uppgötvaði hann að hann hafði gleymt veskinu sínu. Uppfrá því fór hann að hugsa að það ætti að vera til eitthvað sem maður gæti notað í staðinn fyrir peninga, skildi maður lenda í því að vera veskislaus. Með tölvuvæðingunni sem kom seinna á öldinni fóru kortin að vera sífellt vinsælli og nú í dag greiða flestallir með debet- eða kreditkorti, enda eru reiðufé og smápeningar bara til trafala að mínu mati.

Í dag er komið að næsta stökki í því hvernig neytendur greiða fyrir vöru. Núna er hægt að nota símann sinn. Fólk gleymir veskinu sínu enn þann dag í dag en það er sjaldgjæft að það gleymi símanum sínum. Með snjallsímavæðingu heimsins er fólki síðan gert kleift að taka við greiðslum og borga fyrir vörur og þjónustur. Eins og staðan er í dag virðast tvær lausnir ætla að stinga af. Annars vegar eru kreditkortagreiðslur sem afgreiddar eru í gegn um farsímann og hitt er NFC eða “near field communication”.

Jack Dorsey er ögn svalari en Zuckerberg

Flottasta fyrirtækið í dag í kreditkortagreiðslum fyrir farsíma er sennilega Square. Maðurinn á bakvið Square er Jack Dorsey sem hefur verið minnst á áður. Ef þú skráir þig sem viðskiptavin hjá Square þá færðu kortalesara og forrit með þar sem þú getur rukkað í gegn um iPhone, iPad eða Android. Inneignin fer svo bara beint inn á bankareikning sem þú tilgreinir. Spáðu í því hvað þetta væri geðveikt fyrir fólk sem rukkar fyrir þjónustur, t.d. iðnaðarmenn, braskarar á Barnalandi, eða bara vinur þinn sem skuldar þér pening og er tregur að borga. Hann straujar bara kortið. Square hefur verið mjög vinsælt í Bandaríkjunum og sem dæmi gerði Apple einkasölusamning við það. Nú er hægt að kaupa kortalesara aðeins í Apple búðum. Að sjálfsögðu er aðeins hægt að nýta þjónustuna í Bandaríkjunum sem stendur og þeir gefa ekkert út um að þeir vilji færa sig út fyrir landsteinana að svo stöddu.

NFC er tækni sem er að ryðja sér til rúms. Nú þegar eru nokkur handtæki farin að vera með þennan möguleika t.d. Samsung Galaxy S II og Nexus S. Einnig benda allir orðrómar til þess að tæknin verði til staðar í nýja iSímanum. NFC er ekki bara notað til að borga en það getur líka verið notað til að deila upplýsingum milli NFC tækja svipað og infrared eða bluetooth hefur gert. 

Samsung Galaxy SII

Til þess að nýta sér tæknina þarf að bera síma með NFC tækni upp að öðru NFC tæki og þá munu upplýsingarnar deilast á milli. Til þess að nota það í stað debet eða kreditkorts þarf að vera búið að tengja reikninginn við þartilgert forrit sem þú sækir í símann þinn. Google hefur riðið á vaðið og býður fólki upp á Google Wallet. Þú getur auðveldlega tengt kreditkortið þitt eða PayPal aðganginn við Google Wallet og svo bara byrja að versla með símanum þínum. 

Því miður þarf þróun að eiga sér stað til þess að hægt sé að byrja byltinguna. Til að byrja með þurfa fleiri handtæki að styðja tæknina, svo þurfa fleiri notendur að kaupa handtækin og að lokum þurfa kaupmenn að tileinka sér þróunina og bjóða upp á þessa tækni við greiðslu. Þetta er nú þegar farið að birtast á markaðnum þannig ég hef engar áhyggjur af því að þetta muni ekki verða vinsælt eftir nokkur ár. Starbucks hefur til dæmis verið að prófa þessa tækni núna í 2 ár, enda eru þeir yfirleitt fljótir að tileinka sér nýjungar.

Endum þetta á Google Wallet auglýsingunni.

Grjótið alveg með þetta

Allir þekkja auglýsingar. Auglýsingar geta verið augljósar eins og þær sem við sjáum í auglýsingahléum í sjónvarpinu og svo eru líka til faldar auglýsingar eins og t.d. vörulauma (e. product placement). Fyrirtæki reyna að auglýsa sig á sem flestan hátt, til dæmis með því að setja upp merkingar, styrkja íþróttamót, gefa markaðsvörur eins og sólgleraugu og listinn telur áfram.

Ein ágætis leið til þess að koma vöru sinni á kortið er í gegn um vörulaumur. Ef þið sáuð t.d. myndina Fast Five þá var The Rock aldrei klæddur í neitt annað en Under Armour og ef þið horfið á Modern Family þá á heimilisfaðirinn Phil Dunphy iPad sem hann elskar og allir hinir nota Apple tölvur. Ég hef rosalega gaman af svona vörulaumum og skima sérstaklega eftir þeim þegar ég horfi á bíómyndir.

Auglýsendur vilja að sjálfsögðu að sem flestir sjái efnið sem þeir eru að framleiða. Flestir sem framleiða sjónvarpsauglýsingar setja þær einnig á YouTube en ef einhverjum finnst auglýsingin fyndin og/eða skemmtileg þá deilir viðkomandi henni jafnvel til vina sinna. Það eru til mýmörg dæmi um auglýsingar sem fá mikla umfjöllun á netinu og verða “viral” eins og sagt er. Auglýsingin hérna fyrir neðan hefur fengið rétt undir 40 milljón áhorf á netinu, eitthvað sem Volkswagen menn eru mjög stoltir af.

Netið býður upp á marga nýja möguleika í skemmtilegri markaðssetningu. Á síðastu árum hafa dúkkað upp tvö fyrirtæki sem taka að sér að gera “branded content” eins og þeir kalla það. Rauði þráðurinn er sá að fyrirtækin framleiða skemmtilega stiklu um einhverja vöru og svo fer hún í birtingu á netinu. Þetta er semsagt skemmtilegur skets sem framleiddur er í markaðslegum tilgangi. Það má kalla þetta sketsa með mjög augljósri vörulaumu.

Funny or Die er í eigu Will Ferrell og Adam McKay. Þeir byrjuðu seint árið 2006 með stutta sjónvarpsþætti og sketsa á netinu. eins og til dæmis Between two ferns með Zach Galifianakis. Í þessari stiklu unnu þeir með Keystone bjór og gerðu fyndinn skets með Keith Stone, frontmanni Keystone. Þetta var bara framleitt og sýnt á netinu sem skemmtiefni og því ekki um hefðbundna auglýsingu að ræða.

DumbDumb var stofnað í fyrra af Jason Bateman og Will Arnett. Þeir nýta frítíma sinn milli þess að þeir leika í bíómyndum til að taka upp svipaða sketsa og minnst var á hér fyrir ofan. Stiklan hér fyrir neðan er framleidd fyrir Orbit tyggjóið.

Man einhver eftir Merzedes Club? Sumarið 2008 var framleitt tónlistarmyndband í samstarfi við Símann, þar sem Egill “Gillz” Einarsson og félagar í hljómsveitinni sýndu hvað það var sniðugt að vera á MSN í símanum og svo á einum tímapunkti öskrar Jóhann Ólafur, eða Partý-Hans, “1-2-3 VINIR!”. Mér fannst þetta skemmtilegt framtak á sínum tíma og það væri gaman að fá að sjá fleiri svona myndbönd gerð hjá íslenskum fyrirtækjum.

Ef einhver veit um fleiri dæmi má sá hinn sami endilega láta mig vita.

Það lítur ekki út fyrir að vera komið sumar. Þó það skíni sól nær hitinn ekki uppfyrir 10 stig, sundlaugar eru tómar og veitingahúsin á Austurvelli líka. En þótt kalt sé í veðri og fótboltinn í fríi þá látum við það ekki á okkur fá. Til þess að fá smá yl í hjörtu landsmanna hef ég ákveðið að benda á þær plötur sem ég sé fyrir að verði Sumarplötur 2011! Það er fullt að gerast í tónlist þessa dagana. Fyrir nokkrum vikum kom út ný Strokes plata. Sú ber nafnið Angles og er, tjah ágæt. Ekkert sem virkilega grípur mann svosem. Einnig kom nýlega út níunda breiðskífa Beastie Boys, Hot Sauce Committee Pt. 2. Að lokum kom út ný plata með snillingunum í The Lonely Island. Það eru mennirnir á bakvið Jizz in my pants og I’m on a boat. Mæli með henni fyrir góðan fílíng.

Eins og staðan er í dag eru samt nokkrar plötur sem rúlla bara á repeat hjá mér þessa dagana. Þær fylla hjartað af sumaryl og koma mér alltaf í gott skap.

Awolnation – Megalithic Symphony

Það sem þessi plata kom mér á óvart! Ég hafði aldrei heyrt um Awolnation fyrr en ég fékk þessa plötu í hendurnar. Það er ómögulegt að henda reiður á tónlistarstefnuna hjá þessum manni, eitt skiptið er hann í þungu synthapoppi í anda Nine Inch Nails, t.d. í laginu Sail, en dettur þess á detta inn léttir slagarar eins og People. Mitt uppáhaldslag í augnablikinu er Not your fault, en það má finna hér að neðan. Ég er nokkuð viss um að öll lögin á disknum sé að finna á YouTube þannig að go nuts!

The Naked and the Famous – Passive Me, Aggressive You

Þessi plata er náttúrulega tryllt. Hún kom út í september 2010 en fór greinilega ekki í almennilega spilun fyrr en eftir áramót. Slagarinn Young blood hefur verið í mikilli spilun á X-inu síðustu mánuði og Ómar hefur t.d. fullyrt það að þetta verði sumarhljómsveitin í ár. Önnur smáskífa þeirra, Punching in a dream er nú í spilun. Það sem ég fíla sérstaklega er að það er bara eitthvað svo mikill kraftur í þeim! Þau eru upprunalega frá Nýja Sjálandi en eru á rúnti um Evrópu eins og er og eru til dæmis bókaðir á Glastonbury og Oxegen hátíðina. Mitt uppáhaldslag er Girls like you.

The Vaccines – What did you expect from The Vaccines


Við þurftum klárlega að fá hressa rokkstráka inn á listann. The Vaccines er hljómsveit frá London með ásamt íslenskum bassaleikara. Fyrsta smáskífan þeirra var Post breakup sex sem komst í 32. sæti í Bretlandi. If you wanna fylgdi þar á eftir og komst í 52. sæti. Vaccines eru með hressan gítarhljóm í anda The Ramones. Við fyrstu hlustun eru þeir mjög líkir hljómsveitinni Glasvegas, sem ég hélt mikið upp á fyrir nokkrum árum. Ég hlakka mikið til á sjá þá í haust á Iceland Airwaves. Uppáhaldslagið mitt frá fyrstu hlustun á plötunni er All in white, ég fæ ekki nóg.

The Wombats – This Modern Glitch


Þessi plata er æðisleg. Ég var búinn að bíða eftir henni með mikilli eftirvæntingu og hún stóðst þær. Ég var löngu búinn að merkja 26. apríl inn í dagbókina mína því þá vissi ég að platan kæmi út. Mér fannst fyrri platan þeirra, Guide to love, loss and desparation mjög skemmtileg. Hress gítarlög með textum sem fjalla um stelpur og hvað það er ömurlegt að vera unglingur. Á nýju plötunni tóku þessir strákar frá Liverpool skref framá-við og bættu synthum inn, sem heppnaðist svona líka vel. Já ég elska The Wombats, það er ekkert hægt að lesa neitt annað úr þessu. Það voru 3 lög komin í spilun áður en nýja platan kom út, Vampires and wolves, Jump into the fog og Anti-D, öll frábær. Uppáhaldslagið mitt engu að síður er lag númer 7, 1996.

Endurkoma sumarsins 2011

Að lokum verð ég að minnast á endurkomu sumarsins 2011. Þið megið vera ósammála mér en ég býð mjög spenntur eftir nýrri plötu frá Passion Pit. Sögur segja að þeir séu að vinna að henni en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Fyrsta platan þeirra, Manners, var í spilun á hverjum einasta degi í Sumarverslun Símans á Laugarvegi sumarið 2009. Í fyrra hlustaði ég á hana líka og satt best að segja hefur hún verið í spilun statt og stöðugt núna í 2 ár. Ég ætla að klára þennan pistil á laginu Moth’s wings með Passion Pit.

WWDC – Worldwide Developers Conference – er árleg ráðstefna sem Apple heldur til þess að sýna nýjustu vörur og hugbúnað sem eru á leiðinni frá fyrirtækinu. Það var einmitt á WWDC 2007 sem fyrsti iPhone-inn leit dagsins ljós, og síðan þá hefur nýjasta útgáfan af iPhone alltaf verið kynnt við þetta tilefni, þangað til núna! Margir bíða spenntir eftir iPhone 5 en þeir þurfa víst að halda í sér fram á haust. Ástæðan fyrir seinkunninni í ár hefur ekki verið gefin upp en líklegt er að meira púður hafi verið sett bæði í iPad 2, iOS 5 stýrikerfið og iCloud, nýju hýsingarþjónustuna. iPadinn var kynntur til sögunnar í mars en iOS 5 og iCloud voru frumsýnd í dag, auk nýja Lion stýrikerfisins fyrir Apple fartölvur.

iOS 5

iOS er stýrikerfið sem keyrir iPhone, iPad og iPod touch. Nýjungar í þessu stýrikerfi eru t.d. breytingar á tilkynningunum, í stað þess að þær poppi upp á skjáinn eins og núna lætur stýrikerfið þig vita efst á skjánum. Þú þarft svo bara að renna fingrinum niður til að sjá tilkynningarnar þínar, hvort sem það er tölvupóstur, SMS eða hvað eina. iMessage er önnur nýjung, sem er eins og Blackberry Messenger fyrir þá sem það þekkja. Þannig verður hægt að senda SMS, myndir, myndbönd o.s.frv. frítt á milli Apple tækja (iPod touch, iPhone og iPad). Þar að auki voru flottar umbætur á myndavélinni, póstforritinu og innsláttaraðferðinni. Og nú er LOKSINS er hægt að kveikja á nýja símanum sínum og byrja að nota hann án þess að þurfa að stinga honum í samband við tölvu. Einnig er hægt að uppfæra símann yfir WiFi tengingu.

Það sem mér finnst einna skemmtilegast er að það er búið að bæta við Twitter-samkeyringu. Twitter forritið kemur uppsett í símanum. Núna er hægt að deila með einum smelli linkum úr Safari, myndavélinni, myndböndum af YouTube o.fl.

Í flestum þessum uppfærslum er ekkert verið að finna upp hjólið. iMessage er eins og áður sagði það sama og BBM. Þetta er samt góð læsing til að ná heilum vinahópum og vinnustöðum yfir í iPhone. Tilkynningarnar eru núna orðnar alveg eins og í Android og meiri hlutinn af „The Twitter integration“ var hægt að gera nú þegar í gegn um Twitter forritið. En það er verið að taka gamlar hugmyndir, þær settar í nýjar umbúðir og þeim pakkað skemmtilega inn og notaðar til að búa til enn fullkomnara tæki. Hægt verður að fá uppfærsluna í iPhone 3GS og iPhone 4 auk þess sem hún mun keyra iPhone 5 í haust.

iCloud

Steve Jobs kynnti iCloud

Hérna erum við með frekar flotta þjónustu sem fylgir frítt með hverju iOS 5. Núna er virknin orðin meira Google-leg. Tengiliðir, tölvupóstur, myndir, forrit og dagbók er geymd í skýinu og tala sjálfkrafa saman á milli tækja sem þú velur að deila með. Þannig ef þú átt iPhone 3GS og keyptir þér Sleep Cycle forritið, þá geturðu syncað það saman við nýja iPhone 5 sem þú kaupir þér í haust án nokkurs auka kostnaðar.Það er almennileg uppfærsla! Þetta þýðir enginn skiptikostnaður, engar snúrur og sjálfvirk samtenging.

Þessi þróun er ekkert nema eðlileg, sérstaklega miðað við það sem Google hefur verið að gera. Það stefnir allt upp í skýin eins og ég talaði um hér. Ef einhver vill horfa á WWDC fyrirlesturinn er hægt að horfa á hann hér.

iCloud er samt ekki alveg gagnrýnislaust. Nokkrir af pennunum hjá Engadget hafa litla trú á því að kerfið hjá AT&T muni þola alla þessa auknu gagnanotkun. Einnig hefur þetta verið talað niður þar sem þetta hefur nú þegar verið gert, t.d. hjá Google. Ég vil samt ekki gera lítið úr Apple í þessum málefnum af því þarna hafa þeir tekið, eins og ég sagði áðan, hluti sem eru til og sett þær í notendavænar umbúðir sem fáir samkeppnisaðilar geta mætt.

iPhone 5

Þessi mynd lak á netið.
Er þetta iPhone 5?

Við verðum að snerta aðeins á iPhone 5 þó svo að ekki hafi verið minnst á hann í aðalstefnuræðu Steve Jobs. Mikið af slúðri hefur verið í gangi í kring um nýja iSímann enda er hans beðið með mikilli eftirvæntingu. Mashable tók saman skemmtilegt infograf þar sem þeir taka saman helstu sögusagnirnar sem eru í gangi. Nokkrir hlutir sem hægt er að lofa eru til dæmis 8mp myndavél sem forstjóri Sony missti út úr sér í viðtali. Einnig verður að teljast líklegt að hann verði með tvöföldum örgjörva eins og iPad 2. Ég mæli með því að þið skoðið grafið frá Mashable til gagns og gamans.

Það hefur aldrei verið jafn svalt og núna að vera nörd. Ég hef haldið þessu fram í nokkurn tíma og fengið mismunandi svör og rök gegn mér. En ég vil samt meina að ég hafi nokkuð til míns máls.

Atvinnulífið

Í fyrsta lagi skulum við horfa á atvinnulífið. Spurðu einhvern hvað er flottasta fyrirtækið á Íslandi í dag? Miklar líkur eru á að viðkomandi svari CCP. Hagnaður CCP árið 2009 var um 800 milljónir króna . Önnur dæmi um flott fyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika erlendis eru Datamarket og Clara.

Heitasti bitinn í Bandaríkjunum í dag Facebook var stofnað af nördi með það mikla félagsfóbíu að hann gat varla verið í jakka með bindi þegar hann hitti sjálfan Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Svo virðist sem að öll vinsælustu og mest vaxandi fyrirtækin heimsins séu í upplýsinga eða tæknigeiranum, sbr. Apple og Google.

Til gamans má geta að nú er farið að verðlauna Nörd ársins í atvinnulífinu og sigurvegari ársins 2010 var Hjalli hjá Datamarket. Viðskiptaráð Íslands og stærstu fyrirtæki landsins birtu ennfremurauglýsingu þar sem auglýst var eftir fleira fólki til að mennta sig í tölvu- og tæknigeiranum.

Nörd ársins 2010 fyrir miðju. Myndin fengin að láni á Visir.is

Tæknin

iPhone 4 er ein vinsælasta græjan

Allir vilja eiga flottan síma, sjónvarp, tölvu, iPod – allir vilja eiga nýjustu græjuna. Fólk veigrar sér ekki við að kaupa 100 þúsund króna síma til að fylla hann af allskonar nothæfum forritum. Allir eyða ómældum tíma á internetinu, sama hvort það sé í samfélagsmiðla, skoða fréttir eða skoða myndbönd. Sem dæmi má nefna að meirihluti þeirra sem spila leiki eins og Farmville og Vikings of Thule á Facebook eru konur.

Hver og einn Íslendingur er að verða tölvufær og notar tækni í starfi námi og hinu daglega lífi. Fyrir nokkrum árum voru aðeins nördar með þessa hæfni, nú er hinn almenni borgari að verða nörd.

Menningin

X-Men var frumsýnd 14. júlí árið 2000 í Bandaríkjunum. Í dag er að koma út fimmta myndin í seríunni og til dagsins í dag hafa þær samtals halað inn einum og hálfum milljarði bandaríkjadollara. Þegar X-men var gefin út sem Marvel teiknimyndasaga naut hún vissulega vinsælda hjá nördinu sem komst ekki í íþróttaliðið, en í dag hafa allir séð myndirnar. Þeir sem hafa ekki séð myndirnar eru að missa af miklu!

Fyrsta Comic-Con hátíðin var haldin árið 1970. Fyrir þá sem ekki vita þá er Comic-Con eins konar ráðstefna fyrir myndasögu-(comics)nörda, haldin í San Diego.  Árið 1970 mættu 145 manns, 5000 manns 1980, 13.000 árið 1990, árið 2000 komu 48.500 gestir og árið 2000 mættu yfir 130 þúsund manns!

Í dag spila allir tölvuleiki. LA Noir hefur verið mikið auglýstur undanfarið og þú getur spurt hvaða strák á mínum aldri hvort hann hafi spilað Grand Theft Auto á sínum tíma og svarið er já. Fullorðnir menn OG KONUR eru að kaupa sér leikjatölvur undir því flaggi að þetta sé fyrir börnin þeirra. Persónulega veit ég um dæmi þar sem efnilegur fótboltastrákur hætti í íþróttum af því það tók of mikinn tíma frá Counter Strike. Hvort þetta er góð þróun eða ekki skal ég ekki segja, ég er bara að benda á hvað þetta er orðið útbreytt meðal hins almenna borgara.

Í dag spila allir tölvuleiki. LA Noir hefur verið mikið auglýstur undanfarið og þú getur spurt hvaða strák á mínum aldri hvort hann hafi spilað Grand Theft Auto á sínum tíma og svarið er já. Fullorðnir menn OG KONUR eru að kaupa sér leikjatölvur undir því flaggi að þetta sé fyrir börnin þeirra. Persónulega veit ég um dæmi þar sem efnilegur fótboltastrákur hætti í íþróttum af því það tók of mikinn tíma frá Counter Strike. Hvort þetta er góð þróun eða ekki skal ég ekki segja, ég er bara að benda á hvað þetta er orðið útbreytt meðal hins almenna borgara.

Við Íslendingar höfum ekki verið útundan í þessari þróun nördsins. Það er beðið í ofvæni eftir hverri ofurhetjubíómynd, og ég er viss um að ég sjái fleiri verðandi nörda í röðinni á X-Men: First Class á næstu vikum og mánuðum heldur en bara mig og mömmu.