Archive

Monthly Archives: May 2011

Núna á fimmtudaginn fór fram stærsta hlutafjárútboð hjá netfyrirtæki síðan Google fór á markað 2004. LinkedIn, sem ég hef talað um áður, var skráð á markað og það með hvelli! Upprunalegt verð á hlut var í kring um $45 en þegar líða tók á daginn voru hlutir að seljast á rétt yfir $120 en lækkaði síðan niður í $94 þegar markaðurinn lokaði. $94 x 94,50 m útgefnir hlutir gera fyrirtækið rétt undir $9 milljarða virði! Ef við reiknum þetta í krónum þýðir það að markaðsvirði LinkedIn er 1.035.000.000.000 krónur á gengi dagsins í dag! Til gamans má geta að það gerir LinkedIn verðmætara en t.d. Herbalife ($6,20ma), Abercrombie & Fitch ($6,5ma) og JC Penney ($7,8ma).

Menn segja að andrúmsloftið í kauphöllunum hafi minnt á tíunda áratuginn þegar allir voru að dæla peningum í þessi framtíðarfyrirtæki sem voru aðeins rekin á netinu. Það ævintýri endaði í “DotCom” bólunni sem sprakk upp úr árinu 2000 þegar kom í ljós að þessi ofur fyrirtæki voru ekki að hala inn neitt af tekjunum sem þau áttu að vera að gera og voru þannig ekki að skila fjárfestum neinu. Allir vildu selja sína hluti og búmm bólan sprungin.

Geðþekka nördið Mark Zuckerberg

Núna eru blikur á lofti að svipað sé í gangi. Fyrirtæki eins og FacebookTwitterLinkedIn og Groupon eru að tröllríða öllu og fjárfestar eru víst bankandi á dyrnar að bjóða peningana sína á hverjum degi. Allt virðist stefna í að stór hluti þeirra ætli sér í opið hlutafjárútboð (IPO) og sigra heiminn. Nú fyrir stuttu bar t.d. Google víurnar í Groupon, en það síðarnefnda hafnaði tilboði upp á 6 milljarða dollara og ætla frekar að sækja sér fé á opnum markaði. Við erum ekki að tala um neina smá peninga! Þegar Facebook fór í síðasta útboð var virði þess um $50 milljarðar og hefur bara hækkað síðan þá. Fregnir herma að vinir okkar hjá Facebook ætli sér í opið hlutafjárútboð á næsta ári. Það er eins og allir vegir liggi á opinn markað þessa dagana.

En er þá ekki hætta á að það sama gerist og fyrir réttum 10 árum, að allt fari á hausinn og hlutabréfin standi aldrei undir væntingum? Auðvitað er það möguleiki. Sérfræðingar The Economist segja til dæmis að við séum í miðri tæknibólu.

En það er hins vegar munur á fyrirtækjunum í dag og var á síðustu öld. Áætlað var að Facebook hafi verið með rétt undir $2 ma í tekjur á síðasta ári BARA frá seldum auglýsingum. LinkedIn skilaði hagnaði upp á $15 milljónir árið 2010, þar sem mest telur þóknanir frá stærri fyrirtækjum að leita sér að starfskrafti. Þar liggur munurinn, þessi fyrirtæki eru í einhverri sölu og eru að skila inn tekjum og hagnaði, ólíkt því sem var áður. Eina fyrirtækið sem ég hef einhverjar áhyggjur af eru vinir mínir Biz Stone og Jack Dorsey hjá Twitter, enda á Twitter ennþá eftir að sýna fram á stöðugt tekjustreymi.

Einnig virðast stofnendur þessara fyrirtækja vera þolinmóðari í dag og safna að sér fé í hægum skrefum, þar sem fjárfestarnir eru handvaldir. Til dæmis varð Facebook 7 ára í febrúar, LinkedIn varð 8 ára í mars og Twitter 5 ára í apríl. Til samanburðar þá var NetScape stofnað árið 1994 og sett á markað einu og hálfu ári seinna eftir að hafa orðið vinsælasti netvafri heims á stuttum tíma. Þess má til gamans geta að Netscape gerði Marc Andreessen að miljónamæringi og í dag á hann hluta í Facebook, Twitter, Foursquare og Zynga. Allt vaxandi fyrirtæki í netheimum.

Jack Dorsey er ögn svalari en Zuckerberg

Í þriðja lagi hafa þessi fyrirtæki verið að ná sér í pening, hingað til að minnsta kosti, hjá litlum hópi fjárfesta. Sú staðreynd hefur t.d. ekki áhrif á vísitölur Nasdaq eða NYSE. Og ef það skildi eitthvað koma upp á áður en allir fara í hlutafjárútboð þá hefur það aðeins áhrif á þennan litla hóp.

Framtíðin verður að leiða í ljós hvort tekjurnar sem fyrirtækin eru að skila í dag sé góð réttlæting á þessum svakalegu upphæðum sem við lesum um í fréttunum. En þangað til verðum við bara að fylgjast með og hafa gaman að þessu. En það eru spennandi tímar framundan í tækniheiminum, svo mikið er víst.

Það sem gerir snjallsíma og fólk með snjallsíma eins kúl og það er, að eigin sögn að minnsta kosti, er tískuorðið “social”. Nú “social” í þessari merkingu þýðir í raun að vera duglegur að deila hlutum, hvort sem það eru hlekkir á vefsíður, myndir, myndbönd eða skoðanir. Til þess að þessir hlutir sem maður deilir verði í raun “social” þurfa að springa út frá því umræður, fólk segir sínar skoðanir á því og deilir jafnvel áfram með vinum sínum.

Danilo Turk, forseti Slóveníu

Mér finnst rosalega skemmtilegt að geta deilt hlutum í rauntíma. Við virðumst öll hafa þessa þörf að láta fólk vita hvar við erum, hvað við erum að gera, hvaða skoðun við höfum á hinu og þessu og ekki er verra ef við getum látið myndir fylgja með. Þannig fékk ég kveðju frá Slóveníu á Twitter eftir að hafa hlaðið inn mynd af forseta Slóveníu, eftir að ég rakst á hann fyrir tilviljun í Háskóla Íslands.

Það er hægt að ræða það fram og aftur hvað það er að vera “social”, ég ætla svosem ekki að fara út í neinar rökræður varðandi það, mig langar einfaldlega til þess að hjálpa þér að geta deilt því sem þú ert að gera með vinum þínum og ættingjum.

Það þekkja langflestir, ef ekki allir, aðal leiðirnar, deila á Facebook, Twitter og YouTube. Flestir fullkomnari símar í dag hafa þennan möguleika, margir af þeim innbyggðan. Þess vegna ætla ég ekkert að fara nánar út í þá.

Justin.tv

Justin TV fyrir Android

Justin.Tv er síða þar sem fólk getur farið frítt inn og deilt myndböndum með öðru fólki. Hver er munurinn á því og YouTube? Streymi! Ég get streymt beint úr Android eða iPhone símanum mínum inn á Justin.TV síðuna mína og deilt linknum með vinum mínum sem eru ekki á staðnum. Segjum sem svo að þú sért á fótboltaleik hjá stráknum þínum en mamma hans komst ekki af því hún er veik heima. Þú rífur bara upp símann og streymir þessu beint yfir netið svo hún geti fengið að horfa á. Finnur Magnússon er maðurinn á bakvið Íslensk Samfélagsmiðlun hópinn á Facebook. Einu sinni í mánuði eru skipulagðir hittingar þar sem einhver snillingur á samfélagsmiðlum er fenginn til að segja frá árangri sínum. Hann hefur notað þessa tækni í iPhone 4 símanum sínum með góðri raun og þá hafa nördar heima í stofu fengið að vera með í gegn um netið. Hér fyrir neðan er eitt slíkt myndband.

Flickroid

Flickroid

Ég stofnaði Flickr síðu um daginn og prófaði nokkur forrit til að hlaða
inn myndum beint úr símanum þar sem ég á ekki myndavél. Eftir því sem ég komst næst þá var ekki til neitt opinbert forrit frá Flickr sem var bömmer fyrir mig. En sem betur fer eru nördar úti í heimi með sama vandamál, þannig eftir að hafa prófað nokkur forrit þá hef ég ákveðið að Flickroid sé þægilegast og einfaldast. Ég mæli með því.

Liveproject

Liveproject

Liveproject er nýtt íslenskt forrit sem gerir þér kleift að deila myndum af ákveðnum viðburðum. Það hefur meðal annars verið notað á AK Extreme hátíðinni fyrir norðan og á Reykjavík Fashion Festival. Ég gæti trúað því að það verði meira og meira notað eftir því sem líður á því þetta er rosalega sniðugt tól til þess að halda utan um allar myndir og myndbönd, sérstaklega fyrir þá sem halda viðburði.

iPhone!

Það eru örugglega margir sem halda að ég þoli ekki iPhone og Apple miðað við hversu mikið ég tala um Google og Android. Sú er alls ekki raunin. iPhone 4 er eitt af flottustu tækjunum á markaðinum og það er engin tilviljun að fólk bíður í röðum eftir nýjum vörum eins og iPad 2. Ég væri alveg til í að skipta yfir í iSímann til að prófa það líka. Mér finnst samt líklegt að geimveran yrði ofan á, en það er ómögulegt að segja til um 🙂

Social Cam fyrir Android

Allavega, þá eru líka til nokkur forrit sem hafa verið vinsæl í Apple nörda heiminum. Til að mynda hefur Instagram notið gífurlegra vinsælda. Það er mjög skemmtilegt forrit til þess að deila myndum með vinum þínum og einnig til þess að bæta auka “effectum” á myndina. Fyrir þá sem finnst gaman að deila myndböndum hefur Social Cam notið mikilla vinsælda. Social Cam er framleitt af snillingunum á bakvið Justin.TV sem við höfum nú þegar farið í. Social Cam er líka í boði fyrir Android.

Jæja hver eru skilaboðin í pistli dagsins? Vertu með almennilegan síma, taktu myndir og myndbönd og vertu “social”.

Ef einhver er með almennilega þýðingu á orðinu “social” má sá hinn sami endilega láta mig vita hér að neðan.

Þá er Google komið í tölvubransann. Það hefur lengi legið í loftinu að þeir séu að vinna í stýrikerfi fyrir tölvur og nú er komið að því að rúlla þeim út á markaðinn. Gripurinn ber nafnið Chromebook og frá og með 15. júní geta neytendur í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu nálgast einn slíkan. Það er hægt að fá tvær útgáfur, eina framleidda af Samsung og hina af Acer. Tölvurnar líta þokkalega út, þeir hafa ákveðið að halda sig við svarta litinn eins og í næstum öllum símum sem þeir keyra.

Nýjungin sem fylgir Chromebook er að það er í raun ekkert innbyggt minni til að vista gögn eða forrit. Chrome viðmótið er alveg eins og Chrome netvafrinn (sem er að mínu mati BESTI netvafrinn, hægt að nálgast hann hér) og það er í raun enginn eiginlegur harður diskur. Öll forrit eru á netinu og öll gögn eru vistuð í skýi. Þeir lofa því að tölvan sé ægilega hröð, það á víst að taka hana 8 sekúndur að ræsa sig!

Netforrit segirðu? Hvað með forrit sem allir þurfa eins og Office pakkann, iTunes og MSN?

Óþarft! Google Docs verður fullkomnara með hverri vikunni og getur gert meirihlutann af því sem Office getur í Powerpoint, Word og Excel, Google kynnti Google Music Beta, þjónusta þar sem þú getur hlaðið inn allt að 20 þúsund lögum og nálgast þau hvar sem er í gegn um netið. Ég þarf ekki einu sinni að minnast á MSN, það notar það enginn lengur… Einnig verður hægt að nota Gmail, Google Calendar og Google Docs, þó að tölvan sé ekki nettengd.

Til þess að nota tölvuna þarf að sjálfsögðu að vera með Gmail netfang. Þú notar netfangið þitt til að skrá þig inn og út úr tölvunni. Svo ef vinur þinn vill fá að nota hana þá notar hann bara sitt netfang og þá þarf hann ekkert að sjá það sem þú hefur verið að skoða. Það er hægt að fá annað hvort bara með WiFi (þráðlausu neti) eða með 3G tengingu fyrir nokkra auka dollara.  Tölvan er á fínum prís, $499 fyrir 3G útgáfuna frá Samsung.

Þetta lítur allt mjög spennandi út. En hvernig er upplifunin? Snillingarnir hjá Engadget fengu prótótýpu í hendurnar fyrir jól og sögðu að Chrome stýrikerfið ætti ennþá langt í land með að ná hefðbundnum tölvum í virkni og þægindum. Það er einnig erfitt að tengja nokkurs konar utanáliggjandi búnað við tölvuna, en skv. FAQ flipanum á Chromebook síðunni, er einungis hægt að tengja headset, hátalara, USB drif, lyklaborð o.s.frv. Ekkert minnst á Android eða eitthvað slíkt. En hvernig ætli það sé að vera með tölvu sem er sítengd við netið? Þegar maður er farinn að streyma öllu, t.d. bíómyndum og tónlist þarf að passa gagnamagnið sem verið er að sækja, sérstaklega sé maður tengdur á 3G. Reyndar er gaman að segja frá því að Google var að setja í loftið YouTube Movies. Það er skemmst frá því að segja að úrvalið af fríu myndunum sem við getum horft á er vægast sagt hræðilegt!

Ætli niðurstaðan sé ekki sú að tölvan sé langt því frá að leysa tölvurnar sem við notum í dag af hólmi. En það má ekki gleyma að þetta er fyrsta tölvan sinnar tegundar. Þróunin á henni verður að öllum líkindum gríðarlega hröð. Ég held að í framtíðinni munu allar tölvur vera sítengdar við netið og öll gögn verði í skýi.

Auglýsingin frá Google fyrir Chromebooks:

Ég hef löngum verið kallaður Þjálfi. Gælunafnið kemur úr skálaferð í öðrum bekk í MA. Ég var í UFA íþróttajakkanum mínum á meðan strákarnir fóru bakvið hól að fá sér að reykja og þeim fannst ég það “þjálfa-legur” að ég uppskar gælunafnið og hefur það sprottið upp reglulega síðan. Ég hef mjög gaman af líkamsrækt og, eins og þeir sem mig þekkja vita, þá hef ég ennþá meira gaman af því að segja öðrum til, enda er ég Þjálfi. Það eru margir sem halda því fram að til að ná árangri þá þurfirðu ræktarprógram, alls konar fæðubótarefni og einkaþjálfara. Ég hef tekið saman þrjú rosalega einföld skref sem hafa skilað mér þeim árangri sem ég hef náð í dag. Ef þú fylgir þessu nærðu árangri (staðfest).

1. Agi, aðhald…og prótein!

Hefur enginn séð Venna Páer? Þetta er gullin regla! Smá agi og aðhald til að halda þér við efnið…og prótein… Frekar borgliggjandi.

“Er þetta viðurkennd aðferð?” “Jah, ég er að nota hana núna, þú hlýtur að viðurkenna það.”

2. Hlustaðu á Kanye West

Já þetta mun eflaust koma mörgum á óvart. Margir hefðu viljað setja Rammstein hér, sem er að sjálfsögðu gott og gilt. En kommon, það sem lætur þig ná bestum árangri er væntanlega að hlusta á sjálfhverfasta mann sögunnar: Kanye West. Lög eins og Stronger og Power innihalda frasa eins og “what don’t kill me, can only make me stronger” og “no one man should have all that power”. Ef þú hlustar á þetta er það bókuð leið til að ná árangri.

3. Horfðu á Rocky

Ef þú ert einhverntíman í vafa um eitthvað, spurðu þá sjálfan þig: “Hvað myndi Rocky gera?” Það er enginn karakter á síðustu öldum sem hefur yfirstigið jafn margar hindranir og Rocky. Kom inn í mynd 1 sem alger lúser en náði jafntefli við heimsmeistarann. Mynd 2, hann mætir heimsmeistaranum upp á nýtt og vinnur. Mynd 3 hann tapar titlinum en kemst svo í brjálað form á ströndinni og vinnur titilinn til baka. Mynd 4, hann hleypur upp á fjall í Rússlandi og vinnur síðan Dolph Lundgren, mynd 5, rústar einhverjum vitleysing í street fight, og mynd 6 mætir hann sextugur og til í slaginn. Það er ekkert sem keyrir mann jafn vel í gang og Rocky.

Ekki láta einhverja vitleysinga segja þér hvað þú átt að gera. Þú fylgir þessum skrefum og þá ertu með’etta!

Um daginn horfði ég á mjög áhugaverða heimildarmynd í þremur þáttum. Serían ber nafnið “Commanding Heights: The battle for the world economy” og fjallar um þróun hagkerfa á síðustu öld til dagsins í dag. Myndirnar eru framleiddar af PBS stöðinni í Bandaríkjunum og komu út árið 2002. Þær eru unnar upp úr samnefndri bók eftir menn að nafni Daniel Yergin og Joseph Stanislaw. Myndirnar fara vel yfir sögu 20. aldarinnar og margir góðkunnir stjórnmálamenn og hagfræðingar dúkka þar upp höfðinu eins og Ronald Reagan, Margaret Thatcher, Lech Walesa, Milton Friedman, John M. Keynes og fleiri góðir.

Keynes skartaði grimmri mottu

Fyrsti hlutinn heitir “The Battle of Ideas”. Í honum er fjallað um hvernig mismunandi kenninar áttu við á mismunandi tímum aldarinnar. Þar er helst talað um nóbelsverðlaunahafana John Maynard Keynes og Friedrich Hayek. Keynes er oft nefndur faðir þjóðhagfræðinnar. Hann samdi meðal annars bækurnar Almenna kenningin um atvinnu, vexti og peninga (e. The general theory of Employment, Interests and money) og Áhrif friðar á efnahag(e. The Economic Consequences of Peace). Hann var mikill hugsuður og kenningar hans um að ríkið eigi að stjórna heildareftirspurn í hagkerfinu hafa haft gríðarleg áhrif á hagstjórn í heiminum og gera enn þann dag í dag. Þær hafa þó ávallt verið umdeildar, og þá sérstaklega af austuríska hagfræðingnum Friedrich Hayek.

Friedrich Hayek var nefnilega þeirrar skoðunar að mörkuðum ætti að vera leyft að stjórna sér sjálfum eða “laissez-faire” hugsjónin úr frönsku byltingunni. Hann samdi bókina Leiðin til ánauðar (e. Road to Serfdom). Eftir seinni heimsstyrjöldina byggðu flestar ríkisstjórnir heimsins hagstjórn sína á kenningum Keynes. Upp úr miðri síðustu öld fór þó að glæða til fyrir hann Hayek karlinn en þá fóru vestrænir leiðtogar að reyna að draga úr miðstýringu ríkisvaldsins en þar má helst nefna Margaret Thatcher í Bretlandi sem fór í stríð við verkalýðinn og skar niður ríkisfjármálum. Hann fékk svo uppreisn æru góurinn, með afhendingu Nóbels verðlaunanna árið 1974.

Hayek

Ég ætla nú að láta mér fróðari menn tala um hvor spekingurinn hafi haft rétt fyrir sér en það er óumdeilt að báðir voru mjög færir á sínu sviði. Ég hafði mjög gaman af myndunum þremur og mæli með að allir kynni sér þær, til dæmis á Wikipedia.

En ástæðan fyrir að ég fór nú út að rekja þessa hagfræðisögu er að ég rakst á mjög svo skemmtilegt myndband á YouTube núna í vikunni. Það var framleitt af fyrirtækinu EconStories sem samanstendur af hagfræðingnum Russ Roberts og leikstjóranum John Papola. Myndbandið ber nafnið “Fight of the century: Keynes vs. Hayek Round Two”. Þetta er leikið rapp myndband sem er alveg stórskemmtilegt. Þar eru þeir félagar með nýja hljónema og ný yfirvaraskegg en sömu kenningarnar að rökræða í gegn um rapp. Ég mæli eindregið með áhorfi. Þess má geta að frá því að það var sett á netið þann 28. apríl 2011 og þangað til í dag (2. maí 2011) hefur það fengið yfir 420.000 áhorf. Það myndi ég kalla gott fyrir hagfræðimyndband á 5 dögum!

Þess má geta að heimildirnar eru teknar frá vinum mínum hjá Wikipedia.