Archive

Ég er að…

Bækur

trustmeimlyingTrust Me I’m lying: Confessions of a Media Manipulator

Þessa er ég að hlusta á. Ryan Holiday er jafn gamall mér en hann hefur verið markaðsstjóri American Apparell fatarmerkisins frá því hann var 21 árs. Síðast liiðin ár hefur hann “sérhæft sig” ef svo má segja í að hafa áhrif á fjölmiðla, með misfallegum aðferðum. Hann hefur m.a. unnið með rithöfundum, hljómsveitum og bíómyndum. Bókin er mjög fræðandi kennslubók í því hvernig hægt er að nýta netið, nýmiðla og fjölmiðla til að koma efni á framfæri en á sama tíma er hún líka ádeila á bandarískan fjölmiðlamarkað og beinist ádeilan einna helst að því hvernig bloggheimurinn er uppbyggður. Mjög áhugavert og sérstaklega þægilegt að hlusta á þegar maður hjólar í vinnuna þessa dagana.

shiningThe Shining

Þessa er ég að lesa og til að gera langa sögu stutta þá er The Shining ástæðan fyrir að ég ligg hérna kl. 1 að nóttu og skrifa. Ég get ekki farið að sofa . Ég hef aldrei lesið neitt eftir Stephen King og ákvað af einhverri ástæðu að kíkja á Bókasafn Kópavogs eftir vinnu á mánudaginn og fá hana lánaða. Fyrsta flokks hrollvekja.

P.s. Ég hef ekki séð myndina heldur…

Tónlist

Lykke Li – I Never Learn

I Never Learn er þriðja plata sænsku söngkonunnar Lykke Li. Platan er ágæt. Hún er rólegri heldur en síðasta plata, aðeins dimmari og melankólískari – eins og maður segir á slæmri íslensku. Guði (eða kannski bara Daniel Ek) sé lof fyrir Spotify!

Horfa á:

Mad Men

Ég er mikill Mad Men maður og hef alltaf haft þvílíkt gaman af því að fylgjast með því sem vinur minn Don Draper tekur sér fyrir hendur. Ég fór loksins í það að horfa á 6. seríu af Mad Men, enda var hún loksins að detta inn á Netflix. Ég verð að segja að ég er að verða þreyttur á þessu. Það er engin karakterþróun í gangi og í raun er verið að endurnýta hugmyndir úr fyrri seríum. Ef þú hefur ekki séð 6. seríu ennþá ertu ekki að missa af miklu. Sama hvað þá er þetta alltaf besta atriðið:

Silicon Valley

Hér erum við að tala um eitthvað nýtt og skemmtilegt! Þátturinn er framleiddur af HBO, sem þýðir yfirleitt að um gæðaefni sé að ræða, og þeim sem samdi Office Space. Hann fylgist með 5 strákum sem stofna fyrirtæki í Kýsildalnum og hvernig þeim gengur í samkeppninni við risann Hooli, sem er auðvitað Google. Þetta er ekta efni fyrir nörda!

Advertisements

Lesa:

secret footballer

I Am The Secret Footballer

“The Secret footballer” er karakter sem hefur skrifað í blaðið Guardian á Englandi. Hann er fyrrverandi/núverandi leikmaður í ensku úrvalsdeildinni og skrifar undir dulnefni. Ég rakst á þessa bók á flugvelli í London og hún vakti strax áhuga minn. Í bókinni er fjallað um fótbolta frá sjónarhóli leikmanns. Dulnefnið hjálpar honum að deila skoðunum sínum á málefnum leikmanna, knattspyrnustjóra, umboðsmanna o.s.frv. Þetta er greinilega maður með mikla leikreynslu og hefur spilað fyrir nokkur félög.

I Am The Secret Footballer ætti að hitta í mark hjá öllum áhugamönnum um enska boltann og ég auglýsi hérmeð eftir næsta eiganda þessarar bókar. 

Horfa á:

walking dead

The Walking Dead

Sería 3 af Walking Dead var að detta inn á Netflix og ég er er alveg hooked. Uppvakningar eru bara eitthvað svo áhugaverðir. Alltaf eitthvað í gangi þegar þú ert umkringdur uppvakningum. Fyrir þá sem hafa ekki horft á Walking Dead, þá mæli ég með þeim þáttum fyrir heilalaust splatter.

Kvinden i buret

Okei, ég er kannski ekki að horfa á Kvinden í buret. En það er síðasta kvikmynd sem ég horfði á. Danskur spennutryllir byggður á samnefndri bók eftir Jussi Adler-Olsen. Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari mynd. Hún var gríðarlega vel leikin og spennandi frá fyrstu mínútu. Allar Adler-Olsen bækurnar eru komnar á náttborðið í kjölfarið. Áfram Danmörk!

Hlusta á:

London Grammar – If You Wait

Þriggja manna band sem var stofnað í háskólanum í Nottingham. Þau gáfu út sína fyrstu plötu If You Wait í febrúar á þessu ári. Söngurinn hjá Hannah Reid er nauðalíkur Florence Welch úr Florence and the Machine en lögin eru ögn rólegri. Breska pressan beið eftir plötunni með mikilli eftirvæntingu og hefur hún fengið ljómandi fína dóma. Lagið “Strong”, númer 6 á plötunni, er svo bara eitt það besta sem hefur komið út á þessu ári.

 

Dale Earnhardt Jr. Jr. – The Speed of Things

Þessi hljómsveit heillaði mig upp úr skónum á Airwaves 2011 og átti að mínu mati eina af bestu plötu þess árs. Nú tveimur árum seinna er The Speed of Things nýkomin út. Létt syntha-popp og dansvænar melódíur. Það vill svo til að annar af meðlimum bandsins á íslenska konu. Ætli það verði íslenskir útgáfutónleikar?

Bækur er hægt að nýta sér til skemmtunar og fróðleiks. Þær er hægt að lesa eða hlusta á einhvern lesa þær. Ég geri mikið af báðu. Hljóðbækurnar henta vel núna þegar hlýnar í veðri og sólin hækkar. Þá fer maður að vera meira úti, til dæmis að hjóla í vinnuna. Venjulegar bækur er gott að lesa uppi í sófa, í bústaðnum eða úti á palli (þegar hann verður tilbúinn.

Akkurat núna er ég með 3 bækur í gangi:

Hljóðbókin – Marketing 3.0 eftir Philip Kotler, Hermawan Kartajaya og Iwan Setiawan

marketing 3.0

Í tilefni þess að Philip Kotler er að koma til Íslands í næstu viku ákvað ég að kíkja á hugmyndafræðina sem hann er að fara að prédika . Marketing 3.0 er hugmyndafræði sem segir að þau fyrirtæki sem ætla að lifa af þurfa að tileinka sér ákveðin gildi sem þau vilja standa fyrir og uppfylla þau. Neytendur með svipuð gildi munu þá vilja eiga viðskipti við fyrirtækið og báðir græða. Í Marketing 1.0 snérist allt um vöruna og í Marketing 2.0 snérist allt um viðskiptavininn.

Ég er rétt að verða hálfnaður með bókina. Það sem hún segir er kannski ekkert nýtt og brautryðjandi, en mér finnst hugmyndafræðin er þó gríðarlega áhugaverð og því gaman að kafa dýpra í hana. 

Rafbókin – The Truth About E-mail Marketing eftir Simms Jenkins

truth about e-mail

Þetta er biblía þeirra sem vilja ná árangri með tölvupóst markaðssetningu. Í henni fer höfundur í alla anga hennar, allt frá því hvernig þú átt að stækka póstlistann þinn, yfir í hvernig pósturinn á að líta út og hvað þú átt að segja. Í mínu starfi sé ég meðal annars um að halda utan um netklúbb og þess vegna keypti ég bókina á sínum tíma.

Ég er búinn með svona 3/4 af bókinni en er strax búinn að skrifa 3 blaðsíður af glósum upp úr henni með hugmyndum um eitthvað sem hægt er að nota, breyta og bæta. Ég myndi mæla með henni fyrir alla sem eru að spá í þessum málum, sama hvort þú sért vanur tölvupóstmarkaðssetningu eða ert að prófa þig áfram.

Bókin – Gvendur Jóns – Prakkarasögur úr Vesturbænum eftir Hendrik Ottósson

henrikottoson_gvendurjonsogvidhinir

Þetta er kannski frekar óvænt bók á þessum lista. Ég las allar þessar sögur þegar ég var lítill. Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um sögurnar af honum Gvendi Jóns og Vesturbæjargenginu, sérstaklega eftir að mamma sagði mér að hann Bjarni langafi minn hafði þekkt Gvend sjálfan. Það var svo ekki ónýtt að fá að heyra sögurnar frá fyrstu hendi frá honum afa mínum!

Sögurnar af Gvendi Jóns eru stuttar og skemmtilegar. Þær fjalla um prakkarastrik, ævintýri og áflög við strákana hinum enda bæjarins. Þær mála líka skemmtilega mynd af Reykjavík fyrir rúmlega 100 árum þegar borgin var bara lítið þorp. Gvendur og sögurnar af honum eru tilvaldar þegar þarf aðeins að slökkva á hausnum fyrir svefninn.

BÓNUS! Vefsíðan – www.sabotagetimes.com

Ég ákvað að skella síðu sem ég er að elska þessa stundina. Sabotage Times er bresk vefsíða sem á að höfða til karlmanna. Þar er tekin fyrir tíska, tónlist, íþróttir, kvikmyndir og margt annað. Umfjallanir eru flestar vel skrifaðar, pennarnir ískra af breskri kaldhæðni og tónninn á síðunni er svona smá “in your face” sem getur verið alveg gríðarlega skemmtilegur.

Tökum sem dæmi þessa grein um nýju Justin Timberlake plötuna: Justin Timberlake 20/20: The Greatest Pop Album This Century.
Eða The Me Generation: A Celebration of Not Giving A F*ck.
Og svo þessa umfjöllun um David De Gea, markvörð Man Utd: David De Gea: Why United’s Vampire Is Better Than City’s Joe Hart.

Sabotage Times er algjört möst í netrúntinn.

Góðar stundir.