Archive

Monthly Archives: August 2014

Mangochi í baksýn

Mangochi í baksýn

Ég er að fara að hlaupa hálft maraþon 23. ágúst. Æfingar ganga ágætlega, ég virðist hafa lært af mistökunum frá því ég hljóp þessa vegalengd síðast og er búinn að æfa ágætlega síðustu vikur. Samhliða æfingum er ég að safna áheitum fyrir Rauða kross Íslands, en allt sem safnast fyrir RKÍ Reykjavíkurmaraþoninu í ár fer til styrktar málefnis sem stendur mér mjög nærri.

Í desember í fyrra var ég svo heppinn að fá að fara til Mangochi-héraðs í Malaví. Malaví er fallegt og frjósamt land en er engu að síður eitt af fátækustu löndum í heimi. Það er rétt aðeins stærra en Ísland en þó búa þar 16 milljónir manns. Þar er ólæsi mjög hátt, hlutfall HIV-smitaðra sömuleiðis. Rauði kross Íslands vinnur með Rauða krossinum í Malaví að bæta almennt heilsufar. Einn stærsti liðurinn í því er aðgangur að hreinu vatni. Óhreint vatn ber með sér allskonar sjúkdómasmit og getur verið lífshættulegt, sérstaklega ungum börnum.

2013-12-11 11.23.16Í dag þurfa margir Malavar að ganga langar vegalengdir til að sækja vatn. Það eru helst konur og ungar stúlkur sem sjá helst um að sækja vatn fyrir heimilið. Með því að bæta aðgengi að hreinu vatni minnkum við tímann sem þessar stúlkur og konur þurfa að en þetta er tími sem hægt er í staðinn að nota í skóla og lærdóm. Það má því segja að með því að færa fólki hreint vatn er verið að auka menntunnarstig kvenna, bæta almennt heilsufar og gera líf fólks í landinu þannig yfir höfuð betra.

Ég hef komið til Magnochi og séð hversu frábært starf verið er að vinna. Ég hef líka séð hversu rosalega lágar upphæðir það þarf til þess að láta hluti gerast þarna á staðnum. Til dæmis var kostaði 250.000 kr. að leggja rafmagn í fæðingarheimil í þorpinu Chowe þar sem við gistum. Skitinn 250 þúsund kall svo að konur gætu fætt börn við rafmagnsljós en ekki kertaljós!

Ég vil leggja mitt af mörkum til að hjálpa vinum mínum í Mangochi. Hvert einasta litla framlag telur og því leita ég til þín.

Smelltu hér til að heita á mig.