Archive

Monthly Archives: June 2012

Ég er rosalega hrifinn af hugtaki sem kallast “branded content”. “Vörumerkt efni” kallaði ég það í færslu einhverntíman í fyrra. Þá erum við að tala um efni sem fyrirtæki láta framleiða í auglýsingaskyni, án þess þó að það sé bein auglýsing, heldur meira í formi vörulaumu (e. product placement). Það fer þó ekkert á milli mála hver kostar til gerð myndbandsins. Yfirleitt er hægt að framleiða svona efni til að sýna fram á notagildi ákveðinnar vöru eða þjónustu en líka til að styrkja ímynd eða vekja umtal og/eða athygli. Dæmi um þetta var til dæmis Doug herferðin hjá Ford, Uncle Drew frá Pepsi Max og myndbandið sem var gert fyrir FM95BLÖ.

Uncle Drew sketsinn er reyndar einn sá besti svona sem ég hef séð.

Það skemmtilega við netið er að birtingarleiðirnar eru tiltölulega ódýrar. Ef efnið er nógu gott þá mun það fá dreifingu. Fréttamiðlar, blogg og notendur samfélagsmiða munu horfa og skoða og deila því á sínar síður. 11 milljón áhorf á Uncle Drew tala sínu máli og það sama má segja með 40.000 áhorf á FM95BLÖ. Þannig er hægt að eyða meira púðri í að framleiða efnið sjálft á kostnað auglýsingabirtinga. Þetta er mjög skemmtilegur möguleiki sem fleiri og fleiri virðast vera að nýta sér.

En titill færslunnar er Daybreak og ég ætla að fjalla aðeins um það. Daybreak er verkefni frá AT&T sem er unnið í samstarfi við auglýsingarisann BBDO. Þetta er 5 þátta sería þar sem leikararnir nota vörur og þjónustur AT&T. Þar eru t.d. allir með HTC One X síma, Galaxy Tab, 4G net og alls konar öpp og fítusar. AT&T virðist hafa farið all in í þetta verkefni en leikstjóri þáttanna er Jon Cassar, sá sem leikstýrði fyrstu 7 seríunum af 24 og framleiðandinn er Tim Kring, en hann færði okkur m.a. Heroes.

Nikola Tesla

Það merkilega er að þættirnir eru spennandi. Venjulega þegar svona er reynt kemur það asnalega og gervilega út, en sú er ekki raunin. Ég datt inn á þá fyrir tilviljun þegar ég var að skoða hvernig AT&T notar YouTube. Senurnar eru hraðar og mikið að gerast og þá tengi ég við söguþráðinn og langar að vita meira. Án þess að segja of mikið fjalla þættirnir um rannsóknir á uppfinningum Nikola Tesla, en hann var einn færasti uppfinningamaður síðustu aldar. Aðalsöguhetjan leiðist inn í æsispennandi eltingaleik og hasar með svikum, byssuskotum, bílaeltingaleikjum og fleiru. Nú þegar eru komnir út 3 þættir en sá fjórði verður frumsýndur annað kvöld (fimmtudag 21. júní).

Eins og ég sagði áðan þá fór AT&T all in í framleiðslu þáttanna. Það eru 2 vefsíður í gangi, annars vegar www.daybreak2012.com þar sem hægt er að horfa á þættina og annað aukaefni sem fylgir.  Ef þú smellir á kristallana á síðunni færðu að sjá aukaefnið.

Jack Boxer

Jack in the box er fígúra sem birtist hvað eftir annað í þáttunum en hún er mikilvægur hlekkur í sögunni. Til að auka á umtal og fá virkni á milli aðdáenda og áhorfenda þá var gert forrit fyrir Android og iPhone sem heitir einmitt Jack Boxer. Í forritinu er innbyggð tenging við Facebook en eins virðist þar vera einskonar ratleikur þar sem þú getur náð í vísbendingar fyrir þættina. Hin heimasíðan sem sett var upp er www.jackboxers.com. Þar er aukaefni en líka að finna vísbendingar og innsendingar frá fólki sem hefur náð í appið.

Það er áhugavert að sjá hversu miklu AT&T hefur kostað til. Vissulega hefur þetta kostað drjúgan skilding, en það kostar allt sem á að gera vel. Ég reikna með að tilgangurinn með þessu sé að kynna 4G netið, kosti snjallsímanna og svo auðvitað HTC One X. Það er greinilega ímyndarfaktor í þessu líka auk þess sem að ég reikna með að appið taki ágætis gagnamagn, sem skapar tekjur.

En eins og áður segir eru þættirnir að fá dreifingu þar sem þeir eru vel gerðir. Fyrst einhver nölli á Íslandi datt inn á þetta fyrir tilviljun þá hljóta einhverjir í Bandaríkjunum að vera að pikka þá upp. Þetta er mjög áhugaverð tilraun og skemmtilegt að sjá öllu tjaldað til. Ég hlakka til að njósna um útkomuna og hvernig allt tókst. Ef maður heyrir ekki neitt veit maður allavega að þetta floppaði!

Hér er fyrsti þátturinn. Ég býð í ofvæni eftir þætti nr. 4 sem kemur á fimmtudagskvöld. Horfðu á þættina, prófaðu appið og segðu mér hvað þér finnst. Fleiri dæmi eru vel þegin!