Archive

Monthly Archives: December 2015

bestu plötur 2015

Þetta ár hefur verið frábært í tónlist. Ég held ég hafi bara aldrei hlustað svona mikið á tónlist enda var ég sífellt að uppgötva nýjar hljómsveitir, fá ábendingar um frábærar plötur eða hlusta á það sama gamla aftur og aftur.

Það getur verið erfitt að sigta út hvaða plötur eiga heima á topp 10 listanum hjá manni. Í fyrsta lagi eri það ekki endilega mest spiluðu plöturnar sem eru bestar. Sem dæmi þá hlustaði ég á nýju Weeknd plötuna í döðlur á ákveðnum tímapunkti í sumar en í dag get ég ekki hlustað á hana. Þar var ég til dæmis of peppaður og keypti hæpið í kringum plötuna. Því þegar allt kemur til alls finnst mér hún ekkert sérstök.

Svo þarf maður að passa að það séu ekki plöturnar sem þu hefur hlustað á. Akkurat núna er ég til dæmis heltekinn af nýju plötunni með Pusha T. Mér finnst hún frábær, en svo veit ég ekki hvernig hún mun eldast. Hún kemur þá til greina á topplista næsta árs. Að lokum þarf maður að passa að aðrir topplistar séu ekki að hafa áhrif á þitt eigið val. Þannig tók ég Courtney Bartnett plötuna af mínum lista þrátt fyrir að það sé frábært verk. Hún var bara ekki topp 10. Aðrar plötur sem þar má nefna eru Sprinter með Torres og b’lieve I’m going down… með Kurt Vile. Báðar frábærar plötur sem skora hátt út um allan heim en eiga ekki endilega heima á mínum lista. Allar þessar 3 væru samt á topp 20 listanum hjá mér.

En er eitthvað annað að gera en að vinda sér í 10 bestu plötur ársins að mínu mati? Ég get aldrei ákveðið í hvaða röð ég á að setja plöturnar, þannig ég set þær á listann eftir því hversu mikið þær voru spilaðar á árinu.

10. Jamie XX – In Colour

jamie xxJamie XX er annar helmingurinn af tvíeykinu The xx sem margir kannast við. Hann gaf snemma á þessu ári út plötuna In Colour. Ó mæ god hvað hún er góð! Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa hljómnum öðruvísi en lágstemmdu elektró með þungum trommutakti inn á milli. Ef ég þarf að einbeita mér þá kveiki ég alltaf á þessari plötu og stilli í botn. Og dilla mér kannski rétt aðeins í stólnum, bara af því það er gaman.

Á plötunni fær hann nokkra gesti eins og til dæmis rapparann Young Thug í laginu “I Know There’s Gonna Be Good Times”. En besta lagið er að mínu mati upphafslagið “Gosh”.

9. Tame Impala – Currents

currents - tame impalaFyrsta plata áströlsku strákanna í Tame Impala var létt og skemmtilegt psychadelic rokk plata. Á plötu nr. 2 ákváðu þeir að taka syntha miklu meira inn í sinn hljóm og úr varð ein besta popp-plata ársins. Aðalmaðurinn á bakvið Tame Impala heitir Kevin Parker sem er bara allt í öllu í sveitinni. Hann sá um að skrifa lögin, tók þau upp, masteraði og söng – og gerði það allt í stúdíóinu heima hjá sér.

Í heildina litið er Currents mjög heilsteipt og góð plata. Helstu lögin eru “The Less I Know the Better”, “Cause I’m a Man” og “Eventually” en besta lagið á plötunni er klárlega fyrsta lagið – dansvæna, 8 mínútna langa ballaðan “Let It Happen”.

8. Shamir – Ratchet

shamir ratchetShamir er ungur maður frá sem hefur verið að vekja athygli í tónlistarheimum. Ratchet er hans fyrsta plata og fjallar að miklu leiti um hans heimabæ, borg syndanna – Las Vegas.

Ratchet er 10 laga gripur, full af metnaðarfullu indí elektró, orku og skemmtilegheitum. Það er erfitt að hreyfa sig ekki þegar Shamir mætir á svæðið.

7. Little Simz – A Curious Tale of Trials + Persons

little simzÉg er náttúrulega alveg ógeðslega skotinn í þessari dömu eins og ég sagði frá í fyrsta listanum. A Curious Tale of Trials + Persons er fyrsta plata Simbi og var gefin út af hennar eigin útgáfufyrirtæki – AGE:101 Music. Textarnir á plötunni eru út um allt, frá því að biðja Mary nágranna sinn afsökunar á öllum hávaðanum sem kemur frá því að búa við hliðina á tónlistarmanni yfir í að ráðast á staðalímyndir í tónlistarbransanum í laginu “Persons”. Þessa plötu á að hlusta á í heild sinni, ekki velja stök lög.

Little Simz er með svakalega mjúkt flæði, beitta texta og grípandi bít. Og ég er að fara að sjá hana í London í febrúar!

6. Agent Fresco – Destrier

Agent fresco destrierÁ Destrier fara Agent Fresco í aðeins nýja átt en þeir fóru á síðustu plötu. Hún er aðeins mýkri og heilsteiptari og það er greinilegt að það hefur farið gríðarleg vinna í að þróa hljóminn. Arnór Dan hefur sömuleiðis þroskast svakalega mikið sem söngvari og hefur t.d. dregið úr háu falsettunum sem pirruðu suma. Þó má alveg ennþá finna sömu Agent Fresco geðveikina í lögum eins og “Dark Water”, enda er það eitt helsta sérkenni sveitarinnar.

Það er eitt lag sem stendur alveg upp úr á annars mjög góðri plötu. “See Hell” fjallar um líkamsárás sem Arnór varð fyrir að tilefnislausu og þær tilfinningar sem hann þurfti að vinna úr eftir þá lífreynslu. Í sumar var ég að vinna úr ákveðnum málum sjálfur og í fyrsta sinn sem ég heyrði lagið held ég að ég hafi spilað lagið 10 sinnum í röð. “See Hell” er klárlega besta lag ársins.

5. Drake & Future – What a Time To Be Alive

drake what a time to be aliveÉg veit ekki hvað það er við Drake, en það virðist allt sem hann snertir verða að gulli. Að sama skapi veit ég ekki af hverju ég fíla What a Time To Be Alive svona ógeðslega mikið. Textarnir eru heimskulegir, fjalla helst um strippara, peninga, crew-ið, kókaín og djammið. Á sama tíma eru bítin og laglínan alveg fáránlega grípandi. Sem dæmi var “Jumpman” orðinn að hittara á skemmtistöðum nær samstundis.

Það er kannski aðallega hversu uppfull af hégómafullri sjálfhverfu sem maður tengir við þetta. Allavega ef þig vantar að peppa sjálfið þá er þetta platan fyrir þig. Ég hlustaði til dæmis á hana aftur og aftur í ræktinni til að kitla hégómann í sjálfum mér.

4. The Vaccines – English Graffiti

vaccines english graffitiVaccines eru ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Í gegnum tíðina hafa þeir ekki alltaf fengið lof frá spekúlöntum og þar sem lögin þykja oft á tíðum einföld og textarnir heimskulegir. En hey, er þetta ekki popptónlist? Ég elska þetta! Á þessari þriðju plötu gætir aðeins nýrra áhrifa sem erfitt er að lýsa. Það er búið að bæta við effekt á einn rafmagnsgítarinn sem er eiginlega ekki hægt að lýsa öðru vísi en “japönskum”.

English Graffiti fjallar eins og hinar plötur Bóluefnanna um samskipti kynjanna. Og það er gert af gleði og stemningu að það er erfitt að hrífast ekki með.

3. Twin Shadow – Eclipse

twin shadowTwin Shadow er áhugaverður listamaður. Pressan á erfitt með að staðsetja hann tónlistarlega og fjalla mikið um það. Hann spilar mjúkar indí ballöður sem fjalla um ástina og brotin hjörtu. Á sama tíma er hann töff týpa, í leðurjakka og rífur kjaft í viðtölum.

Ég át þessa plötu með húð og hári í vor og sumar, svo mikið að hann er næst mest spilaði listamaðurinn á Last.fm hjá mér (á eftir Drake).

Á plötunni má finna lagið “Old Love / New Love” sem kom út 2013 eða 2014 og er, svo ég leyfi mér að fullyrða, besta lag í heimi.

2. J. Cole – 2014 Forest Hills Drive

Jcole2014 Forest Hills Drive kom út mjög seint á árinu 2014 og fór þannig frekar mikið undir radarinn ef svo má segja. Ég datt bara inn á hana fyrir tilviljun á einhverjum lista í sumar og ákvað að gefa henni séns. Jermaine er nefnilega maður sem mér fannst hreinlega óþolandi. Það var alltaf eins og hann væri að reyna að vera harður til að passa inn í staðalímyndina af rappara.

Á þessari plötu er eins og hann hafi aðeins slakað á og byrjað að rappa um venjulegri hluti. Lagið “Wet Dreamz” fjallar um þegar hann missti sveindóminn og “Hello” fjallar um þegar gömul ást hefur samband aftur eftir langt hlé. Auðvitað finnurðu svo líka hégómarapp eins og í laginu “St. Tropez”. En við fyrirgefum það.

1. Úlfur Úlfur – Tvær plánetur

tvær pláneturFjórða rappplatan á þessum lista og mest spilaða plata ársins hjá mér. Ég hef alltaf verið hrifinn af Úlfi Úlf en ég sá engan veginn fyrir að þeir gætu hent út svona öflugum grip. Það er ekkert lag lélegt á plötunni. Ég fíla líka textana, þeir eru hversdagslegir, fjalla um djammið, að meikaða, eða að eignast pening. En svo eru líka frábærir textar inn á milli sem auðvelt er að tengja við. Það má til dæmis heyra mikla ástarsorg í laginu “Tvær plánetur” og vísanir í sambandsslit í laginu “Akkeri”.

Svo áttu þeir sennilega bestu tónleika ársins – útgáfutónleikarnir í Gamla bíó. Þeir voru rosalegir!

—————————————————————————–

Jæja þá er síðasti listinn klár. Ég þakka þeim sem hafa nennt að hlusta á röflið í mér. Væri gaman að heyra hvaða plötur fólki finnst eiga heima þarna sem ég sleppti og hvað má fjúka af listanum.

Annars óska ég öllum gleðilegs árs. Ég reikna með að topplistinn 2016 verði mjög breskur 🙂

bestu lög 2015

Þá er það listi 2 af 3. Í gær henti ég í hvaða listamenn mér fannst standa upp úr á árinu 2015 og nú eru það 42 bestu lög ársins.

Það var erfiðast að búa til þennan lista. Ég var búinn að segja að hver listi væri settur saman eftir hávísindalegri aðferð og þetta er sennilega sá eini í ár sem er byggður á einhverjum gögnum.

Fyrst datt mér í hug að búa til lista yfir 10 bestu lögin að mínu mati, svo var ég að hugsa um að taka 10 mest spiluðu lög ársins hjá mér samkvæmt Last.fm.

Að lokum ákvað ég að nota bara lagalistann “Songs 2015” sem ég er búinn að vera að safna í síðan í sumar. Sá listi geymir öll þau lög sem hafa verið í mestu uppáhaldi hjá mér á þessu ári. Er það ekki bara sanngjarnast?

Listinn er ekki í uppáhaldsröð og ekki í þeirri röð sem er mest spiluð heldur í þeirri röð sem lögunum er bætt á listann. And here we go:

 1. Everything Everything – Spring / Sun / Winter / Dread
 2. Miguel – Hollywood Dreams
 3. J. Cole – Hello
 4. Gísli Pálmi – Draumalandið
 5. Jack Garratt – Worry
 6. Courtney Bartnett – Pedestrian at Best
 7. Úlfur Úlfur – Brennum allt
 8. The Vaccines – 20/20
 9. The Weeknd – Can’t Feel My Face
 10. Justin Bieber – Where Are You Now ft. Jack U & Skrillex
 11. Bitch Better Have My Money – Rihanna
 12. Broods – Bridges
 13. Little Simz – Time Capsule ft. Jakwob, Caitlyn Scarlett
 14. Úlfur Úlfur – #Nett ft. Emmsjé Gauti
 15. Hot Chip – Need You Now
 16. The Weeknd – The Hills
 17. Drake – Know Yourself
 18. Agent Fresco – See Hell
 19. The Chemical Brothers – Go
 20. Tame Impala – Let It Happen
 21. Shamir – Demon
 22. Twin Shadow – Turn Me Up
 23. Will Butler – Anna
 24. Disclosure – Hourglass ft. Lion Babe
 25. Drake – Back to Back
 26. Little Simz – Full or Empty
 27. Rat Boy – Sign On
 28. Real Lies – One Club Town
 29. Noel Gallagher’s High Flying Birds – Ballad of the Mighty I
 30. Jack Garratt – Weathered
 31. Justin Bieber – What Do You Mean?
 32. Big Grams – Goldmine Junkie
 33. Adele – Hello
 34. Seinabo Sey – Younger
 35. Jamie xx – Gosh
 36. Grimes – Flesh Without Blood
 37. Drake & Future – Diamond Dancing
 38. Torres – Sprinter
 39. A$AP Rocky – L$D
 40. Kurt Vile – Dust Bunnies
 41. Alfie Connor – Stranger
 42. LCD Soundsystem – Christmas Will Break Your Heart

Er einhver tími ársins betri en desember þegar maður fær öll ársuppgjörin. Ég er alveg búinn að liggja yfir öllum listum sem ég finn. Paste Magazine, Spin, NPR All Songs Considered, Straumur, Dr. Gunni, Line of Best Fit….listinn yfir topplistana er meira að segja snilld.

Í ár ætla ég að vera með 3 lista og eins og venjulega þá er ég með minn eigin hátt á þessu. Ég mun í dag segja frá þeim listamönnum sem stóðu upp úr á árinu, svo fer ég yfir uppáhaldslögin mín og að lokum topp 10 plötur ársins.

Hver listi er settur saman eftir hávísindalegri aðferð: Það sem mér finnst. Þannig breytast reglurnar ár eftir ár. En það kemur engum við, þetta eru jú mínir listar.

Listamenn ársins 2015

Það eru nokkrir listamenn sem hafa gjörsamlega átt árið hvað mig varðar. Sumir gáfu út fullt af nýju efni á árinu, sumir gefa út eftir áramót en aðrir eiga bara fullt af efni sem ég hafði ekki hlustað á áður. Listinn er ekki í neinni sérstakri röð.

Drake

Þangað til í sumar hef ég engan veginn verið hrifinn af Drake. Ég er búinn að reyna mikið og ég hef svosem alltaf fílað nokkur lög með honum. “Hold On We’re Going Home” var t.d. strax í uppáhaldi, eins og svosem hjá öllum sem heyrðu það. En í ár var Drake bara Á ELDI! Hann gaf út 2 plötur, nokkrar smáskífur auk þess að túra, koma fyrir í lögum hjá öðrum og eiga í heitu “bíf-i” við Meek Mill sem spann af sér smellinn “Back to Back”. Drake er sennilega heitasta poppstjarna ársins og er sá listamaður sem ég spilaði mest á þessu ári.

En í gegnum öll þessi nýju lög sem hann er að gefa út þá kynntist ég gamla efninu hans. Platan Take Care frá árinu 2011 finnst mér vera sú besta sem hann hefur gert. Og besta lagið á henni er að mínu mati “We’ll Be Fine” þó titillagið “Take Care” og “Marvins Room” séu ekki langt undan.

spotify:track:7udsBKuqnJ5csWTAkR0vEI

Little Simz

Little Simz er ungur rappari frá London. Ég sá hana á The Great Escape hátíðinni í Brighton í fyrra. Þvílík sviðsframkoma! Þegar ég kom heim frá Englandi byrjaði ég að fletta henni upp á YouTube og Spotify. Síðustu ár hefur hún verið að gefa út mixteip eins og vindurinn og leikið sér með allskonar stef. Hún fékk m.a. lánað “Gimme Shelter” frá Rolling Stones og “Yesterday” frá Bítlunum á “Blank Canvas”.

Samhliða því hefur hún verið að spila um allan heim og gaf svo í haust út sýna fyrstu alvöru plötu – A Curious Tale of Trials + Persons – sem hún gaf út hjá sínu eigin útgáfufélagi. Á plötunni fór hún um víðan völl en byrjunin á fyrsta lagi hennar situr svakalega í mér þar sem hún segir “Women can be kings”. Þarna er ung kona (Simbi er fædd 1994) að ráðast á plötu heiminn og velta fyrir sér stöðu kvenna í honum. Hún kemur út úr horninu með hnefana á lofti, óhrædd og segir sína sögu. Ég fílaða! Sögurnar á plötunni eru sömuleiðis um það hvernig er að verða fullorðin og reyna að meikaða.

Til gamans má geta að ég á aukamiða á tónleika með henni í London í febrúar ef einhver er game 🙂

Emmsjé Gauti

Ég ætla bara að segja það strax að Emmsjé Gauti er maður sem ég hef aldrei fílað. Ég var bara ekki að ná þessu. Veit ekki hvað það er. En svo breyttist allt þegar ég sá Gauta á sviði á útgáfutónleikum Úlfs Úlfs í Gamla Bíó. Svo sá ég hann aftur Menningarnæturtónleikunum í portinu á bakvið 11una. Síðan þá held ég að ég hafi séð svona 5 gigg með honum, það stærsta á Airwaves þar sem 800 manns hoppuðu, sungu og dönsuðu.

Gauti er maður sem er fæddur til að vera á sviði. Born performer.

Jack Garratt

Ef þú ert ekki búinn að hlusta á Jack Garratt þá skaltu gera það núna.

Þetta er sá listamaður sem ég er hvað spenntastur fyrir í heiminum í dag. Við Vilhelm sáum hann á Great Escape í Brighton og urðum báðir ástfangnir af manninum. Hann er á sviðinu með trommuheila, rafmagnsgítar, synth, hljómborð og syngur. Allt á sama tíma. Einn. Hann er rosalegur.

Bretarnir eru að missa sig yfir honum og spá því að hann sé næsta stjarna þar í landi. Hann virðist líka vera að ná hingað til Íslands, en ég heyrði lagið “Weathered” á X-inu um daginn. Hlustaðu á lögin í þessari röð: 1. Worry, 2. Chemical, 3. Weathered, 4. The Love You’ve Given, 5. Remnants

Fyrsta plata Jack Garratt kemur út í febrúar. Ég mun kaupa eintak á vinyl og standa fyrir utan heima hjá manninum að vona að hann áriti eintak.

Vök

Ok er einhver sem er ekki að fíla það sem þessir krakkar eru að gera? Ég er búinn að sjá þau nokkrum sinnum í ár og hlusta mikið á efnið sem þau hafa gefið frá sér. Svo var ég svo heppinn að taka viðtal við þau fyrir Kjarnann.

Ég held að ég sé ekki að ljúga neinu þegar ég segi að þetta er næsta stóra bandið frá Íslandi. Þeir sem sáu þau spila á Airwaves hátíðinni í haust vita alveg af hverju. Og við skulum ekki gleyma því að lagið Before er komið upp í rúmlega 1,8 milljón spilanir á Spotify. Það er eitthvað stórt í gangi.

Ég bíð allavega spenntur.

Gott í bili. Gleðileg jól