Archive

Monthly Archives: April 2012

Ég á svo rosalega mikið að vera að læra að það er ekki fyndið. Eins og alþjóð veit er ég að læra viðskiptafræði. Á föstudaginn næsta á ég að þreyta próf í Rekstrarbókhaldi. Fyrir þá sem ekki vita þá er Rekstrarbókhald alveg jafn leiðinlegt og það hljómar. Debit, kredit, færa inn í réttan dálk, passa að allt stemmi, verkbókhald og svo framvegis.

En prófin þurfa ekki að vera svo slæm. Til að komast í gegn um þetta hef ég ákveðið að líta aðeins á björtu hliðarnar og horfa aðeins á það jákvæða sem fylgir því að læra undir próf.

1. Þú hittir vini þína

Góðir vinir

Það er sjaldan sem maður hangir jafn mikið með vinum sínum og þegar maður lærir undir próf. Ef þú ferð upp í háskóla á þessum tíma vors hittirðu alla bekkjarfélaga þína og fullt af öðru flottu fólki. Þið eruð öll að ganga í gegn um það sama þannig það er bara gott að geta deilt óhamingjunni saman.

2. Óhófleg kaffidrykkja

Það er frábært að standa aðeins upp og grípa sér kaffi. Ég er koffeinsjúklingur og mér finnst fátt skemmtilegra heldur en að standa upp og ná mér í einn bolla. Oftar en ekki verða til skemmtilegar umræður yfir einum slíkum sem dregur hugann tímabundið frá lærdómnum. Félagslegi hlutinn spilar hér inn í líka, því þú ferð með vinum þínum og færð þér kaffi.

3. Sumar og jól

Þegar prófin klárast þá er gaman. Á haustin klárast prófin rétt fyrir jólin og þá tekur við snjór, matur, svefn og piparkökur. Þegar prófin klárast á vorin þá er komið sumar með tilheyrandi sól, grilli ferðalögum og almennri skemmtun. Hafðu það í huga.

4. Tónlist

Ég hlusta aldrei á jafn breytt úrval af tónlist og þegar ég er að læra undir próf. Í dag hlustaði ég á (í tímaröð) Elliot Smith, Death Cab for Cutie, The Maccabees, Bon Iver, Radiohead, System of a Down, The Vaccines og The Velvet Underground. Þegar ég er að læra þá reyni ég yfirleitt að hlusta á eitthvað sem ég þekki vel, þá tekur það sem minnsta athygli frá lærdómnum. Það er fátt skemmtilegra en að hlusta á uppáhaldsplötuna þína.

Prófin sökka! Maður hættir að raka sig, lyktar illa, er klæddur eins og útigangsmaður, hausinn steikist á lestri og maður hangir inni allan daginn. Til þess að komast í gegn um þessa þrekraun er nauðsynlegt að horfa á björtu hliðarnar.

Yfir og út

Prófa-Hjalti

profahjalti

Ég horfði á heimildarmyndina Heima eftir Sigur Rós í fyrsta skipti á laugardaginn. Fyrir þá sem ekki vita þá fjallar Heima um tónleikaröð sem Sigur Rós hélt á Íslandi árið 2006. Þeir ferðuðust um landið og héldu ókeypis tónleika á allskonar stöðum eins og t.d. Ísafirði, Ólafsvík, Djúpavík og Ásbyrgi auk þess að halda risastóra tónleika á Klambratúni í Reykjavík.

Í myndinni er sýnt frá hverjum tónleikum fyrir sig stað fyrir sig. Einnig eru sýndar upptökur af stökum lögum, tekin upp á meðal annars Dverghömrum, Kárahnjúkum og í Selárdal í Arnarfirði, þar sem Kjarri, Jónsi, Goggi og Orri spiluðu oft á tíðum fyrir engan nema sjálfan sig og myndavélarnar. Á milli eru svo viðtöl við strákana en einnig við stelpurnar í Amiinu, sem fóru með þeim í þessa ferð.

Þegar ég byrjaði að horfa á myndina smellti ég inn mjög saklausri Twitter færslu, en í henni stóð: “I’m watching Heima, the @sigurros documentary for the first time. Why haven’t I seen this before?? #greatness #music“. Ég reiknaði ekkert með því að það fengi einhver viðbrögð en þau komu sko!

Meðlimir Sigur Rósar

Þegar ég opnaði Twitter í gærmorgun var ég búinn að fá fullt af svörum frá fólki allsstaðar að úr heiminum sem var sammála mér um hversu frábær myndin væri, hvað því langaði mikið til Íslands, hvað Sigur Rós væri frábær hljómsveit o.s.frv. Þegar þetta er skrifað hef ég fengið 37 svör, 36 favorites, 29 retweet og 15 nýja followers. Ekki slæmt fyrir saklaust tvít sem átti bara að vera varpað í umheiminn. Þetta er það frábæra við netið og sérstaklega við Twitter, þar sem fólk sem sameinast og á samskipti um þau málefni sem það hefur áhuga á, óháð því hvar það er í heiminum!

Sjáið viðbrögðin tekin saman hér.

Eins og áður segir er myndin æðisleg! Tónlistin er svo falleg og landslagið og myndefnið er yndislegt. Þetta smellpassar allt eitthvað – svo ótrúlega íslenskt. Ég var með gæsahúð næstum alla myndina og ég sé rosalega eftir því núna 6 árum seinna að hafa ekki gert mér ferð á eina af þessum tónleikum. Lokaatriði myndarinnar er rosalegt þar sem Sigur Rós spilar “Popplagið”, lag nr. 8 af ( ) plötunni fyrir framan fleiri þúsund manns á Klambratúni.

Sigur Rós hefur tilkynnt nýja plötu, en hún ber nafnið Valtari og kemur út 28. maí. Ég er orðinn illa spenntur fyrir henni eins og gerist alltaf þegar þeir senda frá sér nýja plötu. Nú þegar er eitt lag komið í spilun, lagið “Ekki múkk”. Það verður spennandi að sjá hvað Sigur Rós gerir í kjölfarið, enda eru þeir þekktir fyrir að fara ótroðnar slóðir. Við vonumst allavega eftir að minnsta kosti einum tónleikum hér á landinu!

Tippex, gamla góða fyrirtækið sem hefur gert okkur kleift að stroka yfir pennastrik, er mjög fært í netmarkaðssetningu. Árið 2010 komu þeir með YouTube auglýsinguna “Hunter shoots a bear”, sem fjallar um baráttuna milli veiðimanns og bjarnar úti í skóginum.

Í fyrsta myndbandinu færðu val um hvort þú vilt skjóta björninn eða ekki. Þú velur hvort hann skýtur eða ekki og svo fer af stað skemmtileg atburðarás þar sem þú ræður hvernig sagan endar. Veiðimaðurinn strokar yfir “shoots” með risastóru Tippex og þú setur inn það sem þú vilt að veiðimaðurinn geri.

Prófaðu til dæmis að slá inn “hugs”, “tickles” eða “kicks” í staðinn og skrifaðu söguna eins og þú vilt hafa hana.

Slagorð herferðarinnar var “Rewrite the story” og varð hún algjört sökksess eins og í Litlu Hryllingsbúðinni. 50 million áhorf á YouTube og fjölmörg verðlaun tala sínu máli.

Núna hefur Tippex gert framhald. Núna eru björninn og veiðimaðurinn að halda afmælisveislu árið 2012 sem er trufluð af loftsteini sem er í þann mund að skella á jörðina. Í örvæntingu sinni strokar veiðimaðurinn (með Tippex) yfir ártalið og biður áhorfandann um að flytja sig yfir á annað ár til þess að veislan geti haldið áfram.

Verkefnið er gríðarlega metnaðarfullt og alls voru teknar upp 46 mismunandi útgáfur af veislum, allt aftur til ársins 0. Nú á áhorfandinn ekki að “Rewrite the story” heldur er ætlunin að “Rewrite history”!

Prófaðu að slá inn ártöl. Mín uppáhalds eru t.d. 2000, 1980, 1989 og 1910. Sumar klippur ná yfir heilu aldirnar, enda hefði vinnan við að taka upp yfir 2000 myndbönd varla borgað sig!

Þetta er enn eitt dæmið um hvernig er hægt að nota YouTube á skemmtilegan hátt. Fleiri dæmi eru t.d. hvað var gert í kring um Expendables og baráttan á milli Fabio og the Old Spice Guy þar sem fólk gat sent inn sínar uppástungur og var svarað með myndbandi.

Jæja nú er ég alveg að verða brjálaður. AAALVEG eins og Indriði félagi minn myndi segja.

Ég er nefnilega svo rosalega þreyttur á einhverju sem heitir “regional restrictions” eða svæðisbundnar takmarkanir. Ég geri rosalega mikið á internetinu. Ég er nettengdur heima hjá mér, í vinnunni og í símanum þegar ég er á ferðinni. Með hjálp internetsins neyti ég afþreyingar eins og tónlistar, bóka, kvikmynda, sjónvarpsþátta o.fl., eins og þú gerir eflaust sjálfur, lesandi góður.

Ég reyni að vera góður íbúi á Hótel Jörð og borga fyrir flesta þá hluti sem ég neyti. En aftur og aftur er ég neyddur til þess að stela. Af hverju? Vegna þess að efnið sem ég ætla að kaupa er ekki í boði fyrir mann með íslenska IP tölu!

Á Airwaves í haust sá ég frábæra hljómsveit frá Bandaríkjunum. Þegar ég kom heim langaði mig til að kaupa plötuna þeirra. Ég fór á heimasíðu sveitarinnar, Tónlist.is, Gogoyoko og skoðaði allar þær leiðir sem ég kunni til að nálgast plötuna en fann hana ekki. Hún var líka í boði á iTunes, en við getum víst ekki notað iTunes af því við búum á Íslandi. Þannig ég ákvað að hafa samband við sveitina og spyrja hvenær ég gæti keypt plötuna. Snemma 2012 í Evrópu, var svarið. Þannig ég þurfti að bíða í 3 mánuði eftir að geta keypt þriggja mánaða gamla plötu! Hver haldiði að lausnin hafi verið? PirateBay.

Frábær hljómsveit á Airwaves 2011

Í dag ætlaði ég að kaupa mér hljóðbók. Bókin er frá 2007 og ég fann hana á Amazon.com og á Audible.com. Ég er með áskrift á Audible.co.uk og kaupi þar 1-2 bækur í mánuði, þannig ég gerði nú bara ráð fyrir að bókin væri þar. Nei auðvitað ekki, hún er bara í boði á Bandaríkjunum, ekki í Evrópu. Hver haldiði að lausnin hafi verið? Jú auðvitað Piratebay aftur!

Að horfa á sjónvarpsþætti og kvikmyndir er frábær leið til að drepa tímann. Ég er af þeirri kynslóð sem vill geta stjórnað því hvenær hún neytir síns sjónvarpsefnis. Þannig draumastaðan fyrir mig er sú að kaupa aðgang að t.d. Netflix eða Hulu þar sem flestir bandarískir sjónvarpsþættir eru í boði í góðum gæðum. Þá gæti ég fyrir sanngjarnt verð horft á þættina mína, myndi hætta að stela þeim, framleiðendurnir fengju eitthvað fyrir sinn snúð. Allir vinna.

“Content is universal” – Efnið sem er framleitt er vara sem hægt er að neyta hvar sem er í heiminum. Ég get keypt bókina mína í kilju á Amazon og látið senda heim til mín, en ég get ekki sótt hljóðbókina. Að sama skapi hefði ég getað keypt geisladiskinn á CD Universe, látið senda hann heim til mín, brennt yfir á tölvuna og sett á iPodinn minn, en ég get ekki keypt MP3 útgáfuna.

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal, sama hversu margar SOPA, PIPA eða ACTA löggjafir verða til. Þess vegna er það fáránlegt að setja þeim sem vilja borga stólinn fyrir dyrnar. Ég vil að sá sem bjó til efnið sem ég er að njóta fái eitthvað fyrir sinn snúð og ég get ímyndað mér að hann vilji að ég borgi honum. Af hverju má ég ekki borga honum? Vilja þessir aðilar ekki peningana mína?

Þetta er ekki séríslenskt vandamál. Fólk út um allan heim er að lenda í þessu sama.

Fred Wilson er fjárfestir í New York, en hann hefur ítrekað talað um þetta á blogginu sínu:
Monetize the audience, not the content
Scarcity is a shitty business model 

MG Ziegler er reglulegur pistlahöfundur á Techcrunch.com og segir hér frá raunarsögu sinni varðandi Game of Thrones:
Help! I’m being forced to pirate Game Of Thrones against my will!

Daniel Barassi er vefstjóri Depeche Mode og sér um að stjórna YouTube viðveru hljómsveitarinnar auk þess að vera þekktur plötusnúður. Hann tók reiðiskast á Facebook síðunni sinni einn daginn.

…sem leiddi til að vefsíðan TechDirt fjallaði um málið:
Why Do The Labels Continue To Insist That ‘Your Money Is No Good Here?’

Það eina sem ég bið um er að fá að kaupa mína afþreyingu á sanngjörnu verði þannig ég fái að njóta þeirrar gleði sem fylgir því að lesa bók, hlusta á nýja plötu, horfa á spennandi sjónvarpsþátt o.s.frv. Af hverju þarf það að vera svona mikið vesen?

Í dag er 2. apríl, sem er merkilegur fyrir margar sakir. Titanic var fyrst sjósett 2. apríl árið 1912, CN Tower í Toronto var fullbyggður árið 1975 og árið 2005 dó Jóhannes Páll páfi. En það merkilegasta sem hefur gerst á þessum degi í mínu lífi er að ég fæddist, í mannskaðaveðri á Ísafirði. Eftir að hafa keyrt í lögreglubílnum á eftir snjómokstursbílnum alla Óshlíðina frá Bolungarvík til Ísafjarðar og eftir að hafa verið vísað frá Fjórðungshúsinu á Ísafirði vegna plássleysis þá komst ég loksins í heiminn aðfaranótt 2. apríl, 1987.

Semsagt, í dag á ég afmæli. Að því ákvað ég að taka saman fimm uppáhalds afmælislögin mín.

1. Stevie Wonder – Happy birthday

Ekkert nema stuð, gleði og fílingur.

2. The Beatles – Birthday

Þetta lag toppar flesta svona lista.

3. The Mars Volta – Birthday

Þetta lag er reyndar eftir Sykurmolana, en ég fíla þessa útgáfu bara betur.

4. The Smiths – Unhappy birthday

Sennilega mest niðurdrepandi lagið á listanum

5. 50 Cent – In da club

Auðvitað flokkast þetta sem afmælislag!