Archive

Monthly Archives: May 2014

Bækur

trustmeimlyingTrust Me I’m lying: Confessions of a Media Manipulator

Þessa er ég að hlusta á. Ryan Holiday er jafn gamall mér en hann hefur verið markaðsstjóri American Apparell fatarmerkisins frá því hann var 21 árs. Síðast liiðin ár hefur hann “sérhæft sig” ef svo má segja í að hafa áhrif á fjölmiðla, með misfallegum aðferðum. Hann hefur m.a. unnið með rithöfundum, hljómsveitum og bíómyndum. Bókin er mjög fræðandi kennslubók í því hvernig hægt er að nýta netið, nýmiðla og fjölmiðla til að koma efni á framfæri en á sama tíma er hún líka ádeila á bandarískan fjölmiðlamarkað og beinist ádeilan einna helst að því hvernig bloggheimurinn er uppbyggður. Mjög áhugavert og sérstaklega þægilegt að hlusta á þegar maður hjólar í vinnuna þessa dagana.

shiningThe Shining

Þessa er ég að lesa og til að gera langa sögu stutta þá er The Shining ástæðan fyrir að ég ligg hérna kl. 1 að nóttu og skrifa. Ég get ekki farið að sofa . Ég hef aldrei lesið neitt eftir Stephen King og ákvað af einhverri ástæðu að kíkja á Bókasafn Kópavogs eftir vinnu á mánudaginn og fá hana lánaða. Fyrsta flokks hrollvekja.

P.s. Ég hef ekki séð myndina heldur…

Tónlist

Lykke Li – I Never Learn

I Never Learn er þriðja plata sænsku söngkonunnar Lykke Li. Platan er ágæt. Hún er rólegri heldur en síðasta plata, aðeins dimmari og melankólískari – eins og maður segir á slæmri íslensku. Guði (eða kannski bara Daniel Ek) sé lof fyrir Spotify!

Horfa á:

Mad Men

Ég er mikill Mad Men maður og hef alltaf haft þvílíkt gaman af því að fylgjast með því sem vinur minn Don Draper tekur sér fyrir hendur. Ég fór loksins í það að horfa á 6. seríu af Mad Men, enda var hún loksins að detta inn á Netflix. Ég verð að segja að ég er að verða þreyttur á þessu. Það er engin karakterþróun í gangi og í raun er verið að endurnýta hugmyndir úr fyrri seríum. Ef þú hefur ekki séð 6. seríu ennþá ertu ekki að missa af miklu. Sama hvað þá er þetta alltaf besta atriðið:

Silicon Valley

Hér erum við að tala um eitthvað nýtt og skemmtilegt! Þátturinn er framleiddur af HBO, sem þýðir yfirleitt að um gæðaefni sé að ræða, og þeim sem samdi Office Space. Hann fylgist með 5 strákum sem stofna fyrirtæki í Kýsildalnum og hvernig þeim gengur í samkeppninni við risann Hooli, sem er auðvitað Google. Þetta er ekta efni fyrir nörda!

dontmakemething

Ég var að klára bókina “Don’t Make Me Think” eftir Steve Krug. Hún er eins konar “common sense” kennslubók fyrir vefstjóra. Af hverju var ég að lesa hana? Ég er ekki tölvunarfræðingur eða vefhönnuður heldur viðskiptafræðingur (næstum því). Stór hluti af minni vinnu fer hins vegar fram á netinu. Ég er að rýna í og segja mína skoðun á lendingarsíðum, vörusíðum, forsíðunni, sölulínum á vefnum og margt fleira. Og flestir þeir sem starfa í markaðsgeiraum í dag eru að gera það nákvæmlega sama.

Steve Krug er sérfræðingur í “web usability”, eða vef nytsemi á íslensku. Fyrsta útgáfan af bókinni kom út árið 2000. Á þeim tíma var partý í gangi sem heitir “Dotcom”-bólan og allir og amma þeirra kepptust við að smíða vefsíður og veffyrirtæki og allt sem hét staðlar og samræmt úti var að verða til. Önnur útgáfa af bókinni kom út árið 2006 og þriðja útgáfa í desember á síðasta ári. Ég las aðra útgáfu, enda var sú nýjasta ekki til á Bókasafni Kópavogs. Ég bjóst fyrirfram við að ég myndi rekast á fullt af úreldum stöðlum og hugmyndum um hvernig ætti að nota vefinn en raunin var allt önnur. Vissulega eru dæmin oft frekar gömul en undirstöðuatriðin eru í grunninn þau sömu.

En það besta við bókina er að það var ekkert nýtt í þessu. Í raun var verið að segja manni frá hlutum sem flestir geta sagt sér sjálfur. Þetta er nefnilega oft “common sense”. En stundum þarf bara að benda manni á það.

Nokkur atriði sem ég greip úr bókinni:

Ekki láta mig hugsa

Samkvæmt Steve eigum við að reyna eftir fremsta megni að koma í vef fyrir að gestir á síðunni okkar þurfi að hugsa. Þeir eiga að komast að upplýsingunum sem þeir eru að leita að með sem einföldustum hætti og leiðin á áfangastað á að vera skýr. Í hvert skipti sem einhver þarf að stoppa og hugsa er hann líklegri til að gefast upp og fara eitthvað annað. Höfum hlutina einfalda og skýra.

dmmt example

Less is more

Við dettum rosalega oft í þá gildru að reyna að segja allt á einni síðu. Troðum öllum upplýsingum um vörurnar okkar þar inn og reynum að koma öðrum vörum þangað inn því auðvitað viljum við selja meira. Það sem þetta gerir samt er oftar en ekki að flækja málin fyrir þeim sem heimsækir síðuna. Hann er kannski að leita sér að upplýsingum um eitthvað eitt og ef það er erfitt fyrir hann að finna þær þá er hann líklegri til að loka síðunni og fara annað.

Staðlar eru af hinu góða

Ég hef tilhneigingu til að vilja gera allt upp á nýtt. Finna nýjar leiðir. Vera svo ótrúlega skapandi. En við skulum ekki gleyma því að ef við fáum lánaða staðla sem virka frá öðrum síðum þá erum við að gera notendum auðveldara fyrir að nota okkar síðu vegna þess að þeir þekkja leiðakerfið og veftréð, jafnvel þó þeir hafi ekki heimsótt þig áður.

video_testingTesting, testing, testing

Láttu prófa síðuna þína. Þó þú skiljir hana mjög vel þá þarf ekki endilega að vera að pabbi þinn geri það. Hann eyðir ekki öllum vinnudeginum að lesa hana og yfirfara eins og þú. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að láta prófa allt vegna þess að þú færð ómetanlega innsýn í það hvernig aðrir upplifa síðuna þína.

Það er líka mikill misskilningur að prófin þurfi að vera flókin og dýr. Í raun er nóg að vera með 2 stóla, tölvu og myndavél. Tilgangurinn er einfaldlega sjá það sem notendur sjá þegar þeir nota síðuna þína.

“There’s no such thing as an offline business”
– Aaron Shapiro

Vefurinn er nefnilega eitt mikilvægasta markaðstólið sem við höfum. Hugsaðu þér hvernig þú sjálf/ur leitar þér að upplýsingum um vörur. Ef þú sérð auglýsingu athygli þína, til dæmis frá Intersport, er ekki það fyrsta sem þú gerir að fara á Intersport.is eða Google og skrifa Intersport til að leita þér að frekari upplýsingum.

Ég mæli með “Don’t Make Me Think” fyrir alla þá sem koma á einhvern hátt að heimasíðum. Sama hvort það sé lítið frumkvöðlafyrirtæki sem þarf bara að sýna símanúmerið sitt, flóknar vefverslanir eða bara einyrki með prjónablogg. Ég kann ekki að forrita, hef aldrei opnað InDesign og er nýbúinn að læra fyrir hvað skammstöfunin CSS stendur. Ég lærði samt heilmikið á bókinni sem ég get nýtt við í leik og starfi.

Við þurfum öll að hugsa eins og vefstjórar og þess vegna ættu sem flestir að tileinka sér fróðleik frá mönnum eins og Krug.