Archive

Monthly Archives: October 2011

Þessa dagana er ég að vinna verkefni um áhættu og áhættustýringu í námi mínu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Efnið finnst mér mjög spennandi sérstaklega í ljós þeirra hræringa sem hafa átt sér stað síðustu ár, hvernig Íslendingar tókum þátt í einni stærstu bólu síðustu áratuga sem svo sprakk og við enduðum á Austurvelli að segja helvítis fokking fokk. Vissulega sprakk bólan á Íslandi og víðar og allt fór til andskotans, en er ekki hægt að gera þetta rétt? Það hlýtur að vera hægt að fjárfesta og eiga hlutabréf án þess að setja heila þjóð á hausinn.

Ég las bókina Random Walk Down Wall Street eftir Burton Malkiel í sumar. Burton Malkiel er fjárfestir og prófessor í hagfræði við Princeton og þar að auki er hann fæddur árið 1932. Hann hefur því lifað tímana tvenna. Fyrsta útgáfa af Random Walk, eða “Slembigangur niður Wall Street” eins og vinur minn vill þýða titilinn, kom út árið 1973. Hún fjallar um fjárfestingar, hvernig á að haga sér í þeim og hvernig best er að forðast alvarleg skakkaföll. Árið 2011 kom út 10 útgáfa bókarinnar og það er virkilega merkilegt hversu vel hún hefur staðist tímans tönn, þar sem innihald bókarinnar hefur lítið sem ekkert breyst, heldur hefur dæmunum bara fjölgað.

Bókin byrjar á fjármálasögunni, hvernig bólur hafa myndast í gegn um tíðina allt frá Túlipana-æðinu í Hollandi á 17. öld fram til netbólunnar í kringum 2000. Grunnurinn í kenningum Malkiels er svokölluð “efficient market theory”, en hún gengur út á að sama hversu mörg stökk uppávið markaðurinn tekur þá mun hann alltaf leiðrétta sig á endanum. Við förum í gegn um bólur og lægðir en á endanum leiðréttir markaðurinn sig alltaf. Það merkilega er að þetta er hárrétt, ef við skoðum fullyrðinguna í sögulegu samhengi.

Samkvæmt Malkiel eru tvær aðferðir við lýði á markaðnum. Fjárfestar vinna annað hvort eftir, “Skýjaborgarkenningin” (e. Castles in the Air theory) eða “Traustur grunnur kenningin” (firm foundation theory”. Þeir sem vilja búa til skýjaborgir hugsa að það skiptir ekki máli hvað þú borgar fyrir hlutabréf, svo lengi sem þú getur selt einhverjum öðrum það á hærra verði. Þessi hugsunarháttur býr til bólur þar sem fjárfestar reyna alltaf að keyra virði sinna bréfa upp til að geta selt þau á hærra verði, án þess að það sé kannski innistæða fyrir öllu virðinu. Þeir sem fjárfesta á traustum grunni, velja sér hlutabréf í fyrirtækjum sem munu vaxa og/eða greiða út arð í framtíðinni.

Burton Malkiel

Ef þú ert alltaf að reyna að giska á hvaða fyrirtæki munu hækka hverju sinni ertu að öllum líkindum að búa til fullt af peningum fyrir miðlarann þinn en þú munt að öllum líkindum ekki hagnast neitt mikið meira en markaðurinn gerir að meðaltali. Í sögulegu samhengi í Bandaríkjunum eru ekki margir sem eru klárari en markaðurinn, til lengri tíma allavega þó svo einstaka stjörnum skjóti upp annað slagið.

Titill þessarar færslu er “Sjálfbærni í fjárfestingum”. Hvernig tengist það efni færslunnar? Markaðurinn tekur sveiflur, hann muna alltaf gera það. Að mínu mati er það sjálfbær fjárfestingarstefna að fjárfesta í fyrirtækjum sem byggja á traustum grunni. Það getur vel verið að vöxturinn sé hægari, en til lengri tíma litið er betra að hafa peningana sína í einhverju sem skilar traustri og stöðugri ávöxtun í stað skammfengins gróða hér og þar. Þennan hugsunarhátt skorti hér á landi og víðar á uppgönguárunum eftir síðustu aldamót. Skellurinn sem við tókum á okkur fyrir vikið var harður og sár. Kannski var þetta lexían sem þurfti?

Ein besta dæmisaga bókarinnar hljómar einhvernvegin svona:

Tveir hagfræðingar eru að ganga niður Wall Street þegar þeir sjá $100 seðil á götunni. Annar þeirra beygir sig niður til að taka hann þegar hinn segir “Ekki eyða tíma þínum, ef það væri í alvörunni $100 seðill á götunni væri einhver annar búinn að taka hann.”

Skilaboðin í þessari sögu eru að þú átt ekki að vera að eyða tíma þínum í að leita að $100 seðlum á götunni. Það verður enginn ríkur yfir nótt og það tekur tíma og vinnu að byggja upp traust safn af fjárfestingum.

Ég ætla að byrja þennan pistil á því að viðurkenna eitt. Ég horfði á Justin Bieber myndina – Never Say Never.

Ég hef ekki hlustað mikið á strákinn utan við eitt og eitt lag í útvarpinu og hef ekki skoðun á hvort hann sé góður eða ekki, enda er ég ekki 13 ára stelpa. Það hlýtur samt að vera að hreyfa við einhverjum að þessi 17 ára gutti er vinsælasti maðurinn á internetinu. Hann á hátt í 37 milljón aðdáendur áFacebook og 13,5 milljón elta hann á Twitter. Justin Bieber var mest gúglaða manneskjan á internetinu árið 2010, enginn annar átti séns.

Ég semsagt horfði á Never Say Never. Það var mælt með henni við mig í vinnunni fyrir allt markaðsfólk sem frábært “case study” fyrir samfélagsmiðla. Og það var rétt! Sagan er nokkuð mögnuð verð ég að segja. Justin Bieber er fæddur í Kanada 1. mars árið 1994. Hann hefur gefið út eina plötu og verið frægur í ca. korter. Samt er hann vinsælasti maðurinn á internetinu. Hver er ástæðan fyrir þessu?

Frá því Justin var lítið barn hefur hann haft gaman að því að syngja og spila og er mjög hæfileikaríkur. Eins og flestir á hans reki var hann byrjaður að nota netið ungur og fór því snemma að hlaða myndböndum af sér að syngja inn á YouTube. Allt í einu fór hann að fá fullt af áhorfi og á endanum fékk hann upphringingu frá manni að nafni Scooter Braun. Sá tók hann undir sinn verndarvæng, flutti hann frá Kanada til Atlanta og byrjaði að koma honum á framfæri. Í fyrstu gekk ekkert. Ekkert plötufyrirtæki vildi fá þennan krakka á samning og útvarpsstöðvarnar vildu ekki spila tónlistina hans. Honum var tjáð að hann þyrfti einhvern risa í barnaafþreyingu til að dæmið myndi ganga upp.

Hvað gerðu þeir? Snéru sér að netinu. Markhópurinn þeirra eru ungir krakkar, hvar nær maður til þessara krakka? Í sjónvarpinu? Í dagblöðum? Nei, þau neyta sinnar afþreyingar á internetinu, síðum eins og Facebook og YouTube. Svo fóru þeir í heimsóknir á hinar og þessar útvarpstöðvar, fengu viðtöl og spiluðu í beinni útsendingu. Eftir því sem á leið fóru krakkarnir að mæta þar sem hann var. Fyrst mættu 10, svo 20 svo 50 og áfram hélt það. Á sama tíma byrjaði hann á Twitter að segja fólki hvað hann var að gera og hvar hann myndi vera hverju sinni. Þetta varð til massífrar vinsældaaukningar og restina þekkja allir. Drengurinn var orðin súperstjarna aðeins 16 ára gamall.

Myndin sjálf er frekar samhengislaus verð ég að segja. Henni hefur greinilega verið ætlað að koma út til að hámarka söluna á plötunni og þannig hámarka tekjurnar. Ekkert að því svosem, þetta er jú auðvitað bissness. En dæmið af Justin Bieber er ágætis “case study” fyrir fólk með áhuga á samfélagsmiðlum. Þetta er líka enn ein áminningin um mikilvægi samfélagsmiðla í markaðssetningu, sérstaklega þegar verið er að reyna að höfða til ungs fólks.

Unglingar í Bieber göngu. Tekið af Visir.is

Justin Bieber er orðinn að alþjóðlegu vörumerki sem veltir milljónum dollara. Hann hefur áhrif á marga og spilar út um allan heim. Fólk elskar hann, hatar eða jafnvel elskar að hata. Hann hefur áhrif á tísku, sem dæmi eru hundruðir 16 ára stráka hér á landi klæddir í hettupeysu og buxur eins og Bieberinn gengur í. Þeir kannski gera sér ekki grein fyrir því, en endilega bendið þeim á það, viðbrögðin eru mjög fyndin. Að lokum var farin svokölluð Bieber-ganga niður Laugaveginn núna í haust og 5-600 unglingar tóku þátt.

Hver er lexían? Ekki vanmeta mátt samfélagsmiðlanna. Eigum við ekki að enda þetta á einu Bieber lagi?

 

Jæja þá er tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves árið 2011 lokið. Þetta var nú mikið gaman. Ég held að ég hafi séð á þriðja tug tónleika, sumt gott, sumt slæmt og sumt geðveikt. Til að telja upp nokkra þá sá ég Gang Related, Agent Fresco, HAM, Mammút, Sizar, Other Lives, Lights on the highway og fleiri og fleiri. Vinsælasti tónleikastaðurinn var sennilega Listasafn Reykjavíkur enda er það svona stærsta venue-ið og stærstu hljómsveitirnar eru yfirleitt þar. Ég ætla að taka saman smá samantekt dag fyrir dag.

Miðvikudagur

Agent Fresco @ NASA

Ég eyddi meirihluta miðvikudagsins inni á Nasa, enda var mjög flott uppröðun af íslenskum hljómsveitum þar. Ég byrjaði þó kvöldið á að sjá vini mína í Gang Related á Dillon. Þeir eru að fara að gefa út plötu á Gogoyoko næstu daga þannig ég mæli með að fjárfest sé í henni. En eftir það, skokkaði ég niður á Nasa og mætti eldhress til að sjá Mammút. Þau ollu mér smá vonbrigðum verð ég að segja, tóku mikið af nýju efni sem er ekki jafn kröftugt og það sem þau hafa verið að gera. Auk þess sem söngkonan virðist vera að færa sig út í það að reyna að syngja og bera sig ALVEG eins og Björk. En áfram hélt kvöldið og á stokk stigu teknódúddarnir í Sykur. Þau voru svona mjeh… Ágætis tónlist en sviðsframkoman var bara frekar vandræðaleg verð ég að segja. Söngkonan byrjaði á því að drepa þetta með því að hlaupa inn á svið og öskra “Whooooo! Ég er single!”. Alveg off verð ég að segja.

Næstir á svið voru stuðboltarnir í Agent Fresco. Þeir rústuðu sviðinu alveg hreint! Þvílíkur kraftur og þvílík orka. Tónleikarnir þeirra voru klárlega þeir bestu á miðvikudagskvöldinu og í topp 5 á hátíðinni allri! Of monsters and men fengu síðan það erfiða verkefni að vera næst á svið. Þau stóðu sig alveg prýðilega, eiginlega miklu betur en ég hafði haldið. Nýja platan þeirra er ágæt, en ekkert voðalega kröftug. Þau bættu það upp með því að vera 9 saman á sviðinu sem jók kraftinn heilmikið og þéttleikann að sama skapi. Aldeilis fín frammistaða hjá þessari ungu hljómsveit.

Fimmtudagur

Fimmtudagurinn var allur í Listasafni Reykjavíkur. Ég mætti frekar snemma þangað og sá Hjaltalín sem er hljómsveit sem ég hef aldrei haldið upp á, þó við berum sama nafn. Klukkan 22 mættu svo krakkarnir í Retro Stefson á sviðið og ÞAÐ eru sko skemmtikraftar! Allir í húsinu dönsuðu og þau náðu svo sannarlega að kveikja stemningu. Beach House voru næst á dagskrá en þau spila lágstemmt indie rokk. Ég verð að segja að mér finnst mjög athyglisvert að nýta Retro Stefson á undan Beach House þar sem þetta eru 2 gjörólíkar tónlistarstefnur, Retro Stefson að gíra alla upp en svo eru allir kýldir niður aftur með Beach House. Ég er kannski full dramatískur núna, því tónleikarnir sjálfir voru bara sérdeilis prýðilegir og ég var mjög ánægður með þá.

Beach House @ Hafnarhúsið

Föstudagur

Mugison @ Harpa

Ég fór frekar seint út á föstudeginum. Fyrstu tónleikarnir sem ég sá voru kl 21:40 en þá kom meistari Mugison fram. Hann var virkilega góður á sviði – eins og alltaf. Í fyrsta lagi er hann fær tónlistarmaður, í öðru lagi umkringir hann sig fleiri snillingum og í þriðja lagi skín það svo greinilega í gegn hversu gaman honum þykir að því sem hann gerir. Klárlega einn af topp 5 tónleikunum í ár!

Eftir Mugison ætlaði ég að hoppa yfir á  Who Knew, en staðurinn var bara svo stappaður að það varð ekkert af því. Frekar svekktur þar sem ég hef aldrei séð Who Knew áður. En það þýddi ekkert að gráta það og stefnan var tekin á Dungen í Hafnarhúsinu. Dungen var sennilega leiðinlegasta hljómsveitin sem ég sá í ár. Soundið var bara ekki með þeim og mér fannst þetta bara vera léleg útgáfa af Dikta.

En eftir Dungen var komið að Sigurjóni Kjartanssyni og félögum í HAM. Hver einasti krakki á mínum aldri ólst upp við að horfa á Sódóma Reykjavík og þarmeð hafa hlustað á Partýbæ. HAM er yfir 20 ára gömul hljómsveit en var samt að gefa út sína aðra plötu í síðasta mánuði. Það var mikið upplifun að sjá þessa gömlu jálka syngja um “Ingimar” og “Dauðar hórur”. Salurinn var líka alveg að fíla þetta sem hjálpaði HAM að tryggja sig inn á topp 5 listann.

Laugardagur

Dale Earnhardt jr. jr @ Tjarnarbíó

Strax klukkan 20 var ég mættur í Listasafnið að horfa á Samúel J. Samúelsson Big Band. Það er alltaf gaman að hlusta á smá funk með Samma í Jagúar. Ég kláraði reyndar ekki tónleikana heldur hljóp yfir í Tjarnarbíó til að mæta á Dale Earnhardt jr. jr. Ég var mættur aðeins fyrr þannig ég sá nokkur lög með hljómsveitinni Sizar, sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði ekki heyrt mikið með Dale félögunum en þarna voru á ferðinni 2 strákar ásamt trommara, sem skiptust á að spila á syntha, gítara, bassa og syngja. Þvílík snilld! Ég get sagt að þetta voru klárlega skemmtilegustu tónleikarnir í ár og ég er strax farinn að leita að disknum þeirra, “It’s a corporate world”. Besta atriðið var klárlega þegar þeir fóru í sjálflýsandi jakka, kveiktu á fjólubláu ljósi og sungu “I wanna dance with somebody”. Alltaf gaman að uppgötva eitthvað svona nýtt og ferskt.

Ég labbaði skælbrosandi út úr Tjarnarbíó og henti mér yfir í Listasafnið aftur og hlustaði þar á hljómsveitirnar Other Lives og Austra sem voru báðar mjög góðar en ég bara gat ekki einbeitt mér að þeim þar sem ég var orðinn svo spenntur fyrir aðalnúmeri hátíðarinnar – James Murphy. Fyrir þá sem ekki vita er James Murphy maðurinn á bakvið LCD Soundsystem, sem er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum. Auðvitað þurfti maður að berja átrúnaðargoðið augum. Hann var þó ekki sem LCD Soundsystem heldur bara með DJ set á eigin vegum. Hann olli engum vonbriðgum og stóðst fyllilega væntingar og nældi sér klárlega inn á topp 5 2011. Restin af kvöldinu fór í annars vegar Lights on the Highway og Legend á Glaumbar og Gauk á Stöng en svo var það bara Pizza Pronto og heim.

James Murphy @ Faktorý

Samantekt

Bestu tónleikarnir

Dale Earnhardt jr jr
Agent Fresco
HAM
Mugison
James Murphy DJ set

Bestu bissness mennirnir

Eigendur KEX hostel – staðurinn var STAPPAÐUR alla helgina

Besti ferðafélaginn

Airwaves Appið – það er snilld að geta verið með dagskrána svona í símanum sínum

Besti matur hátíðarinnar

Súpa á Svarta Kaffi

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í 2. tbl af vefritinu Kavalér. Blaðið má skoða hér.

Samfélagsmiðlar – hvað er nú það?

Fæst okkar muna hvernigheimurinn var áður en netið kom. Hvernig hópaði fólk sig eiginlega saman áður en Facebook kom? Keypti fólk sér í alvörunni vínylplötur? Og af hverju að skrifa bréf þegar þú getur sent tölvupóst? Með tilkomu netsins minnkaði heimurinn. Áður fyrr misstirðu samband við fólk þegar það flutti til útlanda –nú eða bara út á land! Núna þarft þú ekki að fara út í búð heldur pantar beint heim af Amazon. Áður fyrr voru blaðamennirnir sérfræðingarnir en með tilkomu blogga hafa allir penna og allir hafa vettvang til að tjá sig.

Orðið samfélagsmiðlar er íslensk þýðing á hugtakinu „social media“. Þetta eru netmiðlar þar sem fólk deilir skoðunum, myndum, hlekkjum og hverju sem er. Á samfélagsmiðlum hafa allir rödd. Á sumum þeirra er hægt að deila með lokuðum hópi notenda en á öðrumer allt opið og hver sem er getur tjáð sig. Þessir miðlar hafa breytt heiminumá örstuttum tíma. Samfélagsmiðlar get verið upplýsingaveita fyrir fyrirtæki,staðurinn þar sem þú sýnir myndirnar þínar, eða samkomustaður fyrir byltingarsinna.

Mig langar að opna fyrir ykkur heim samfélagsmiðla með því að kynna fyrir ykkur áhugaverðar síður sem eru að eiga stærstan þátt í að móta hinn síbreytilega heim internetsins.

Facebook

Það þekkja allir Facebook. Þeir sem ekki eru á Facebook býsnast yfir Facebook. Mark Zuckerberg er þekktur víðast hvar enda var gerð óskarsverðlaunamynd um hann og fyrirtækið hans: Facebook. Um síðustu áramót voru rúm 80% Íslendinga skráðir inn á vefinn, eða um 265 þúsund. Á heimsvísu eru notendur Facebook rétt undir 750 milljónir og munar þar um Kína þar sem vefurinn er bannaður. Fyrirtækið var stofnað árið 2004 og stefnir á skráningu á hlutabréfamarkað haustið 2012.

Fyrir þá sem ekki eru á Facebook þá er það aðal samfélagsmiðill heimsins í dag. Hann hefur á örfáum árum farið úr því að vera vefsamfélag fyrir háskólanema í Bandaríkjunum í að vera einn aðalsamskiptamáti fólks í heiminum. Mjög einfalt er að spjalla, deila myndum, myndböndum, fréttum og hverju sem er með vinum þínum. Þú ræður hverjir verða vinir þínir og getur skipt þeim upp í mismunandi flokka. Þaðbesta við Facebook er hversu útbreyddur vefurinn er. Flest allir á bilinu 20-40 í hinum vestræna heimi eru skráðir á Facebook og því er auðvelt að halda sambandi við vini sína í útlöndum. Með tilkomu snjallsíma er ennþá auðveldara að vera í sambandi og deila myndum og öðru efni í rauntíma. En nóg um risann, það eru fleiri spennandi samfélög þarna úti.

Twitter

Langar þig að tala beint við stjörnurnar? Eða viltu taka þátt í umræðunni í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu? Ertu kannski að reyna að kollvarpa ríkisstjórn? Þá er Twitter málið fyrir þig. Á Twitter hefurðu 140 stafi til að skrifa skilaboð til heimsins. Allt sem þú skrifar er á opnum vettvangi, en þú getur líka sent einkaskilaboð til einstakra notenda.

Margir heimsfrægir aðilar eiga Twitter aðgang sem þeir nota til að tala beint við aðdáendur sína. Þannig er Lady Gaga vinsælasta manneskjan á Twitter með yfir 13 milljónir aðdáenda. Þá vissu Íslendingar af því að Ben Stiller og Tony Hawk voru á landinu þegar þeir hlóðu inn mynd af sér á Twitter þar sem þeir voru að ferðast um landið. Íþróttamenn eru mjög vinsælir á samskiptavefnum og þannig hefur enska úrvalsdeildin sérstaklega hvatt menn til að gæta orða því sem þeir segja þar inni. Dæmi eru um að leikmenn hafi hellt úr skálum reiði sinnar yfir dómara og mótherja í brjálæðiskasti eftir leik.

Besta leiðin til að nota Twitter er að finna fólk sem hefur svipuð áhugamál og þú. Svo fylgist þú með hvað það hefur að segja og getur átt samskipti við það. Til að taka þátt í umræðum eða byrja að tala um eitthvað þá stimplarðu inn það sem þú vilt segja ásamt því að merkja það efninu sem það tengist. Til dæmis ef þú vilt leggja orð í belg í fótboltaumræðu þá myndirðu nota #fotbolti. Þá sjá allir sem leita að fotbolti þitt innlegg. Þannig töluðu byltingarsinnar í Egyptalandi sín á milli með því að nota símana sína og merktu með #TahirSquare. Þá vissu allir hvað var að gerast hverju sinni.

Google+

Google Plús fékk stóra og flotta umfjöllun í síðasta blaði. Google hafði reynt áður að taka þátt í samfélagsmiðlabyltingunni, fyrst með Google Buzz sem var ömurlegt flopp, og svo með Google Wave sem var of flókið til að ná útbreiðslu.Google Plus sameinar kosti Facebook og Twitter í stílhreinu og fallegu viðmóti. Fyrirtækjum hefur ekki ennþá verið hleypt þar inn þannig allt spamm-ið sem er á Facebook hefur ekki ennþá ratað þangað.

Gallinn við Google+ er klárlega notendafjöldinn. Það eru ekki margir Íslendingar sem hafa tengt sig. Þeim fer samt fjölgandi hægt og bítandi, enda er það opið öllum sem eru með Gmail netfang. Stærsti kosturinn fyrir Plús-notendur sem sá að þetta tengir saman allar Google þjónusturnar – Google Docs fyrir skjöl og ritvinnslu, Picasa fyrir myndir, dagbók, tölvupóst og áfram má halda. Flestir netnotendur nota einhverja þjónustu frá Google þannig þetta er ágætis hattur til að ná yfir allt. Google+ er nýjasti meðlimurinn í samfélagsmiðlafjölskyldunni og spennandi verður að vita hvernig honum mun ganga í framtíðinni.

LinkedIn

Ef Facebook er besta leiðin til að halda utan um vini þína þá er LinkedIn besta leiðin til að halda utan um tengslanetið þitt. Forstjórar, sölumenn, tæknimenn, rithöfundar, íþróttaþjálfarar – það eru allir inni á þessu! LinkedIn er frábær leið til að viðhalda tengslanetinu þínu, uppfæra það og síðast en ekki síst auglýsa sjálfan sig. Þú setur inn ferilskrá og getur beðið um meðmæli frá fólki og þannig haldið sambandi við fólk sem þú hefur kynnst í gegn um vinnu, skóla eða hvaðan sem er, án þess þó að hleypa þeim inn á þinn persónulega vegg eins og t.d. með Facebook.

Tumblr

Tumblr er mjög skemmtilegur miðill. Í grunninn er þetta bloggsíða þar sem hægt er að skrifa pistla eins og við öll þekkjum. En það sem flestir notendur nýta miðilinn í er að deila myndum, myndböndum, hlekkjum eða tilvísunum. Að sama skapi er takki á hverju bloggi sem heitir „follow“ þannig þú færð uppfærslur frá fólki sem þér finnst áhugavert eða skemmtilegt inn í þína tímalínu. Munurinn á þessu og t.d.Twitter er að myndin sést um leið og þú hefur ótakmarkað pláss fyrir texta. Fræga fólkið hefur ekki hafið innreið sína inn á Tumblr en ég mæli engu að síður með að það sé prófað.

Blogg

Það þekkja allir blogg. Fólk hefur orðið frægt af bloggum einum saman. Man einhver eftir Kallarnir.is og manni sem heitir Egill Einarsson? Hann er bloggstjarna. Það frábæra við bloggin er að hver sem er getur tjáð skoðun sína svo lengi sem hann kann að pikka inn á lyklaborð. Flest bloggviðmót leyfa athugasemdir og svör þannig ef þú ert sammála eða ósammála pennanum geturðu tjáð honum það á opnum vettvangi. Flest blogg eru opin og öllum aðgengileg, sérstaklega ef þau eru á miðlum eins og Eyjunni, Pressunni, DV.is eða Moggablogg.

Bloggsamfélögin eru einsog áður segir fjölmörg. Dæmi um íslensk samfélög eru Bloggar.is, Blogcentral.isog Nino.is, til viðbótar við þau sem ég nefndi áðan. Auðvitað eru svo til stærri samfélög úti í heimi sem eru einnig notuð af Íslendingum eins og Blogger ogWordpress – en þessi samfélög eru með þeim stærri í heiminum.

Foursquare

Með snjallsímavæðingunni hafa svokallaðir staðsetningarmiðlar verið að skjóta upp kollinum. Þeir ganga flestir út á að það deila staðsetningu þinni með vinum þínum. Foursquare er klárlega vinsælasti miðillinn í heiminum í dag í þessum geira. Þú eignast vini, svipað og á Facebook, deilir staðsetningu þinni með þeim og getur sótt þér allskonar ráð eins og t.d. hver sé besti rétturinn á Vegamótum eða hvar er hægt að finna innstungur á Kastrup.

Foursquare hefur líka verið framarlega í því aðtengja saman kaupmenn og neytendur með því að bjóða kaupmönnum upp á að eigna sér sína staði og geta í staðinn boðið viðskiptavinum sínum upp á tilboð gegn því að þeir stimpli sig inn. Sem dæmi um fleiri svona miðla má nefna SCVNGR, Gowalla, Facebook Places og Yelp. Foursquare er sá eini sem hefur náð einhverri útbreiðslu hér á landi, enda sá mest notaði í heiminum, en Facebook Places hefur samt líka verið að láta á sér kræla.

Íslenskir samfélagsmiðlar?

Eru ekki til einhverjir íslenskir samfélagsmiðlar, fyrir utan bloggsíðurnar? Já auðvitað! Samkvæmt skilgreiningunni í byrjun greinarinnar eru samfélagsmiðlar „netmiðlar þar sem fólk deilir skoðunum, myndum, hlekkjum og hverju sem er“. Einn elsti samfélagmiðill landsins er sennilega Einkamál.is, þar sem fólk hefur verið að hittast og kynnast í skjóli nafnleyndar í fjöldamörg ár. Ein mest sótta síða landsins er líka samfélagsmiðill, en það er Bland.is, sem var áður ER.is og Barnaland.is. Öll spjallborð flokkast sem samfélagsmiðlar, t.d. Málefnin.com eða BMWkraftur.is.

Fleiri?

Auðvitað eru fleiri sem ekki er minnst á hér. Youtube og Vimeo fyrir myndbönd, Flickr og Picasa fyrir myndir, gamla góða MySpace, það tæki viku að lista allar síðurnar upp. En þetta er allavega til að gefa fólki smjörþefinn af samfélagsmiðlaheiminum, sem er jú svo stór partur af lífi flestra.

Ég fór fyrst á Airwaves árið 2004, þá 17 ára gamall með nokkrum vinum mínum. Hvernig okkur var hleypt inn á alla tónleikana veit ég ekki en það var allavega tryllt sjúkt gaman – ég leyfi mér að nota þessi lýsingarorð –  að sjá öll böndin sem þá voru að spila. Ég var í pyttinum á Mínus, sá Maus í Listasafninu, labbaði út af Keane og hlustaði á The Shins, sem ég svo uppgötvaði ekki fyrr en nokkrum áður síðar. Síðan þá hef ég farið 2005, 2008 og 2010 og alltaf skemmt mér jafnvel.

Það frábæra við Airwaves er á hversu litlu svæði hátíðin er haldin. Það tekur ekki lengur en 10 mínútur að labba á milli þeirra tónleikastaða sem lengst eru frá hvorum öðrum. Að vísu verður að taka hugsanlega biðröð með í reikninginn.

Hátíðin hefur lengi verið þekkt fyrir að vera stökkpallur fyrir íslenskar hljómsveitir sem vilja koma sér á framfæri en einnig fyrir að ná til sín minna þekktar erlendar hljómsveitir, sem síðan blómstra á heimsvísu. Þannig hafa The Rapture, Keane, The Bravery, Florence and the Machine, White Lies, The Shins, Clap Your Hands Say Yeah og CSS allar spilað á Airwaves – ásamt miklu fleirum!

Tónlistarhátíðin hefur svo sannarlega undið upp á sig frá því hún var haldin í flugskýli Flugfélags Íslands fyrst árið 1999. Núna eru yfir 5000 gesta, þar af stór hluti af útlendingum og þetta hefur færst úr því að vera lokuð hátíð fyrir fáa, yfir í að breyta borginni í iðandi suðupott menningar alla helgina. Fjöldinn allur af tónleikum á svokölluðum “off-venues” eru skipulagðir en þar geta þeir sem eru svo óheppnir að vera ekki með miða fengið smjörþefinn af hátíðinni sér að kostnaðarlausu.

James Murphy

Á Iceland Airwaves í ár verður einvalalið hljómsveita. Allar helstu íslensku hljómsveitanna verða á svæðinu, t.a.m. Gusgus, HAM, Hjaltalín, Vicky, Agent Fresco og Of Monsters and Men. Meðal erlendra gesta í ár má nefna Beach House, Sinead O´Connor, John Grant og James Murphy úr LCD Soundsystem. Einn okkar helsti tónlistamaður, Björk, mun einnig halda tvenna tónleika á hátíðinni í tengslum við nýju plötuna sína Biophilia í Hörpunni og er takmarkað magn miða í boði þar.

Ég á eftir að fínpússa þetta og hella mér almennilega yfir dagskrána en hérna eru drög að því sem ég ætla að sjá:

Wednesday:
20:30 – Gang Related
21:40 – Mammút
23:20 – Dikta
23:20 – Agent Fresco
00:10 – Of Monsters and Men

Thursday:
22:00 – Retro Stefson
23:00 – Beach House

Friday:
19:10 – Gang Related
20:50 – Svavar Knútur
21:00 – Sinéad O’Connor
21:40 – Mugison
22:00 – Agent Fresco
22:30 – Who Knew
00:00 – HAM
00:10 – Of Monsters and Men

Saturday:
21:40 – Berndsen
00:00 – James Murphy DJ Set
00:10 – John Grant

02:20 – Legend

Airwaves Android

Þessa dagskrá setti ég saman með nýju appi sem Síminn framleiddi sérstaklega fyrir Airwaves. Þar er að finna alla dagskrána, hægt að velja sína eigin dagskrá, skoða myndbönd og upplýsingar um einstaka flytjendur, tékka sig inn á Foursquare fylgjast með röðum og margt margt fleira. Appið er mjög skemmtilegt vegna alls efnisins sem þar er að vinna, til dæmis viðtölin við hljómsveitirnar. Einnig eru tekin viðtöl við íslenska tónlistarspekúlanta sem fara yfir erlendu gestina. Ég mæli sérstaklega með að það sé sótt og prófað. Í augnablikinu er það bara til fyrir Android en iPhone útgáfan ætti að detta inn næstu daga. Skannið kóðan til að prófa appið. Ég er yfir og út en skil eftir mig QR kóða með appinu ásamt YouTube myndbandi úr því.

Update 8/10/2011 – Nú geta iPhone notendur líka verið súperkúl og verið með Airwaves Appið

Airwaves fyrir iPhone