Archive

Innblástur

Bækur

trustmeimlyingTrust Me I’m lying: Confessions of a Media Manipulator

Þessa er ég að hlusta á. Ryan Holiday er jafn gamall mér en hann hefur verið markaðsstjóri American Apparell fatarmerkisins frá því hann var 21 árs. Síðast liiðin ár hefur hann “sérhæft sig” ef svo má segja í að hafa áhrif á fjölmiðla, með misfallegum aðferðum. Hann hefur m.a. unnið með rithöfundum, hljómsveitum og bíómyndum. Bókin er mjög fræðandi kennslubók í því hvernig hægt er að nýta netið, nýmiðla og fjölmiðla til að koma efni á framfæri en á sama tíma er hún líka ádeila á bandarískan fjölmiðlamarkað og beinist ádeilan einna helst að því hvernig bloggheimurinn er uppbyggður. Mjög áhugavert og sérstaklega þægilegt að hlusta á þegar maður hjólar í vinnuna þessa dagana.

shiningThe Shining

Þessa er ég að lesa og til að gera langa sögu stutta þá er The Shining ástæðan fyrir að ég ligg hérna kl. 1 að nóttu og skrifa. Ég get ekki farið að sofa . Ég hef aldrei lesið neitt eftir Stephen King og ákvað af einhverri ástæðu að kíkja á Bókasafn Kópavogs eftir vinnu á mánudaginn og fá hana lánaða. Fyrsta flokks hrollvekja.

P.s. Ég hef ekki séð myndina heldur…

Tónlist

Lykke Li – I Never Learn

I Never Learn er þriðja plata sænsku söngkonunnar Lykke Li. Platan er ágæt. Hún er rólegri heldur en síðasta plata, aðeins dimmari og melankólískari – eins og maður segir á slæmri íslensku. Guði (eða kannski bara Daniel Ek) sé lof fyrir Spotify!

Horfa á:

Mad Men

Ég er mikill Mad Men maður og hef alltaf haft þvílíkt gaman af því að fylgjast með því sem vinur minn Don Draper tekur sér fyrir hendur. Ég fór loksins í það að horfa á 6. seríu af Mad Men, enda var hún loksins að detta inn á Netflix. Ég verð að segja að ég er að verða þreyttur á þessu. Það er engin karakterþróun í gangi og í raun er verið að endurnýta hugmyndir úr fyrri seríum. Ef þú hefur ekki séð 6. seríu ennþá ertu ekki að missa af miklu. Sama hvað þá er þetta alltaf besta atriðið:

Silicon Valley

Hér erum við að tala um eitthvað nýtt og skemmtilegt! Þátturinn er framleiddur af HBO, sem þýðir yfirleitt að um gæðaefni sé að ræða, og þeim sem samdi Office Space. Hann fylgist með 5 strákum sem stofna fyrirtæki í Kýsildalnum og hvernig þeim gengur í samkeppninni við risann Hooli, sem er auðvitað Google. Þetta er ekta efni fyrir nörda!

Ég rakst á þessa frábæru ábreiðu með hljómsveitinni CHVRCHES af laginu “Do I Wanna Know” sem var samið af Arctic Monkeys. Það fékk  mig til að hugsa um mismunandi útgáfur af sama hlutnum. Tökum sem dæmi upprunalegu útgáfuna af laginu. Hvor er betri?

Upprunalega útgáfan með Arctic Monkeys er dimm og drungaleg. Textinn og flutningurinn finnst mér lýsa ástsjúkum manni sem fær ekki það sem hann vill. Útgáfa CHVRCHES er hins vegar mun léttari og flutningur textans lýsir frekar trega frá stelpu sem þráir einhvern heitt. Það er stigsmunur þar á. En í báðum útgáfum er verið að vinna með sömu orðin og í raun sömu laglínu. Þá langar mig til að spyrja aftur, hvor er betri?

Af hverju skiptir það svona miklu máli að annað sé betra en hitt?

Hversu marga þekkirðu sem segja “Já myndin var ágæt, en bókin var nú betri”? Stundum er bókin betri, stundum er myndin betri. En stundum þarf ekki að vera í samanburði. Það er nefnilega hægt að njóta mismunandi meðferðar á efni á mismunandi hátt.

Eitt besta dæmið af þessu er Englar alheimsins. Flestir Íslendingar hafa séð bíómyndina, margir hafa lesið bókina eftir Einar Má og nú eru leiksýningarnar komnar yfir 80 talsins. Í öllum tilvikum er verið að vinna með sömu söguna, sama textann, sömu persónur. Hvaða útgáfa er best?

Skiptir það einhverju máli?

Verandi mikill Daft Punk aðdáandi þá beið ég gríðarlega spenntur eftir Random Access Memories, sem kom út fyrir rúmum mánuði. Ég var meira að segja svo spenntur að ég skrifaði pistil um hversu spenntur ég væri. Svo kom hún á endanum, fyrst á MP3 og svo kom vínyllinn loksins til landsins. Ó hvílík gleði.

Þessi plata hefur fengið blandaða dóma en mér finnst hún frábær. Útsetningarnar á lögunum góðar og hún líður alveg gríðarlega vel í gegn. Það þarf eiginlega að hlusta á hana alla og horfa á sem eina heild því það er erfitt að taka út einstaka hluti. Hver einasta skipting milli laga er útpæld. Sem dæmi þá fengu þeir píanóleikarann Chilly Gonzales til að smíða lag til að færa hljóminn úr A-moll yfir í B og úr varð lagið “Within”. Fyrstu 3 lögin voru semsagt í moll en það þurfti á einhvern hátt að færa þau yfir í dúr og þegar þú ert Daft Punk verður skiptingin að vera hnökralaus.

En það er óþarfi fyrir mig að koma með plötudóm núna mörgum vikum seinna. Það hefur allt verið skrifað og sagt um Random Access Memories sem þarf að koma fram. Það eina sem ég segi er að mér finnst hún frábær.

En það er eitt lag sem mér finnst standa upp úr og hefur ekki farið úr hausnum úr mér frá fyrstu hlustun. Og ekki einu sinni eitt lag, heldur ein setning úr einu lagi. Það er lag númer 3, sem er samið sem virðingarvottur við Giorgio nokkurn Moroder, einn af frumkvöðlum danstónlistar í heiminum. Hann samdi til dæmis marga af heitustu smellum Donnu Summer á sínum tíma.

Það sem Giorgio segir sem stendur upp úr hljómar svona:

“Once you free your mind about a concept of harmony and music being correct, you can do whatever you want. So, nobody told me what to do, and there was no preconception of what to do.”

Það er svo rétt! Og það er hægt að fullyrða það sama um listir, bókmenntir, arkitektúr, hönnun og kvikmyndir. Þegar út í það er farið á þetta jafn vel um viðskiptamódel og verkferla. Þó hlutirnir hafi alltaf verið gerðið ákveðinn hátt þá þarf ekki að gera þá þannig að eilífu.

Stundum þarf bara 73 ára gamlan Ítala til að segja manni það.