Archive

Peningar

Á föstudaginn var merkur dagur í sögu Nasdaq kauphallarinnar. Stærsta hlutafjárútboð sögunnar fór fram þegar Facebook var skráð á markað. Ég og margir aðrir höfðu beðið eftir þessum degi í langan tíma og ég var farinn að hafa augun á ticker-num löngu áður en bjallan glumdi. Það var svo Mark Zuckerberg sjálfur sem fékk að hringja bjöllunni og hann gerði það stoltur í hettupeysu. Útboðsgengið var $38 á hlut, mun hærra en flestir bjuggust við, en almennt var talið að verðið yrði í kring um $25-30 á hlut.

Dagurinn byrjaði með krafti en fyrstu viðskiptin voru á genginu $42. En hvað gerðist svo? Nákvæmlega ekkert. Gengið lækkaði jafnt og þétt eftir því sem leið á daginn en fór samt aldrei niður fyrir $38 útboðsgengið. Þegar viðskiptum var hætt fyrir helgina hafði Facebook hækkað um 0,97% eða 37 cent.

Þessi frétt birtist á MBL.is þegar markaðir lokuðu. Ég held að flestir hafi búist við að hlutabréfin myndu rjúka upp miðað við væntingarnar sem gerðar voru til fyrirtækisins. Það sem meira er að fólk vonaði að bréfin hækkuðu. Þess vegna voru það vonbrigði að þau skyldu ekki fara á flug.

Verðið á bréfunum var algert bull frá byrjun, sama hvort við erum að tala um $25, $38 eða $42. Ein mest notaða kennitalan í fjármálum er V/H-hlutfallið (PE ratio). Þá deilirðu verði á hlut með hagnaði á hlut. Hagnaðurinn á árinu 2011 var u.þ.b. 1 milljarður dollara, eða um $0,31 á hlut. 38/0,31 = 122.58! Sem dæmi er Google með hlutfallið 18.21, Apple 13.58 og Oracle 13.89. Auðvitað er ekki sanngjarnt að bera þessi tvö fyrirtæki saman, enda Facebook ennþá ungt og á inni (vonandi) einhvern vöxt. Google fór á markað miklum bolamarkaði með V/H-hlutfall í kring um 75 en Facebook er að fara á markað núna þegar birnir ráða ríkjum.

Í gær og í dag hóf markaðurinn svo massífa leiðréttingu á hlutabréfaverðinu og þegar þetta er skrifað stendur verðið í $31 á hlut og hefur fallið um ca.  22% frá útboðinu.

Vonbrigði hvað?

Frá höfuðstöðvum Facebook

Í Menlo Park í Kaliforníu voru menn hins vegar gefandi fimmur, brosandi og skálandi í kampavíni. Þeir náðu að safna ca. $16 MILLJÖRÐUM með útboðinu og seldu þannig tæplega 500.000.000 hluti á miklu yfirverði. Akkurat núna eru þeir syndandi í peningum, allir krakkarnir sem byrjuðu í fyrirtækinu eru milljarðamæringar og leiðin liggur ekkert nema upp. Það skiptir Facebook ekki máli í augnablikinu að hlutabréfaverð sé að lækka, enda eru þeir nýbúnir í útboði og þurfa þess vegna ekki á frekar fjármögnun í augnablikinu. Aðrir hluthafar eru líka himinlifandi, t.d. er Peter Thiel búinn að fá sína $500.000 margfalt til baka og getur brosað út að eyrum.

Hvað með markaðinn?

Markaðurinn tók líka áhugaverðar sveiflur á föstudaginn. Svo virðist að fjárfestar séu smátt og smátt að hverfa frá þessum sjóðandi heitu internetfyrirtækjum. Zynga lækkaði um 4%, LinkedIn lækkaði um 4,5%, Groupon um 6,7% og kínverska útgáfan af Facebook, RenRen, lækkaði um heil 21%! Bólan byggist á því að ofurtrú er sett á að notendur búi til peninga, og að vissu leiti er það satt. Hversu háar tekjur virðist hins vegar enginn geta svarað.

Ég hef sagt það áður að við séum í bólu, en svo virðist sem loftið sé farið að leka úr. Hvort við munum sjá algera sprengingu eins og í kring um síðustu aldamót veit ég ekki, en það eru blikur á lofti. Það jákvæða við þess bólu er að þeir sem eiga eftir að tapa á henni eru frekar smár hópur manna en ekki lífeyrissjóðir og almennir borgarar eins og síðast.

Ég verð allavega með Google Finance opið og fylgist spenntur með!

Í haust skrifaði ég um allar tilboðssíðurnar. Í dag eru fjórar virkar að einhverju leiti: Dilar.is, Hopkaup.is, Aha.is og WinWin.is. Hinar fimm eru svosem í gangi en tilboðin eru stopul og óspennandi. Þær eru Kaupnet.is, Kaupmattur.is, Nemendafelagid.is, Magntilbod.is og Gæsin.is.

Íslenski markaðurinn er lítill þetta vita allir. Ég held að áður en þetta ár er úti þá verði ekki nema 3-4 síður eftir og þeim mun fækka ennfrekar, niður í 2-3. Ástæðan, það eru bara X mörg fyrirtæki á Íslandi sem eru tilbúin að veita svona afslátt. Veistu hversu pirrandi það er að fá símtal frá NÍU mismunandi aðilum að betla eins tilboð? Og þá eru ekki meðtalin allir þessir klúbbar eins og Einkaklúbburinn, 2 fyrir 1, World for 2, fyrirtækjasamningar, samningar við nemendafélög og allir hinir.

En vissuð þið að það eru FIMM smálánafyrirtæki á Íslandi. FIMM! Kredia kom fyrst á markaðinn fyrir um 2 árum, Hraðpeningar þar á eftir og á þessu ári hef ég orðið var við auglýsingar frá Smálán, Múla.is og 1909. Er ekki í lagi?

Og talandi um auglýsingarnar frá þessum fyrirtækjum. Mig langar til að gefa ykkur smá ráð. Auglýsingin frá Múla.is hljómar einhvernveginn svona: “Ekki taka lán fyrir pizzu, ekki taka lán fyrir buxum og ekki taka lán með SMS. Farðu á Múla.is og taktu lán þar!”. Ok í alvörunni, ef þú ætlar að selja eitthvað, ekki byrja á því að segja fólki af hverju það ætti ekki að kaupa vöruna þína! Eftir að hafa hlustað á þá auglýsingu langar mig ennþá minna að taka svona lán. Og 1909: veljið ykkur eitthvað betra stef heldur en það sem þið endið auglýsingarnar ykkar á. Þetta er bara leiðinlegt og tacky.

Ég hef enga trú á því að það rúmist pláss fyrir fimm smálánafyrirtæki á markaðnum. Ætli Kredia.is og Hraðpeningar eigi ekki eftir að standa eftir í lok dags, þar sem þau eru orðin þekktust og greinilega með þokkalegt auglýsingabakland.

Þessi fyrirtæki hafa mætt harðri gagnrýni þar sem auglýsingar þeirra beinast að ungu fólki með litla reynslu af fjármálum. Nú síðast í vikunni birtist viðtal við unga stúlku sem hafði lent í vítahring smálánanna. Fjölsmargir hafa kallað eftir sérstakri lagasetningu um þessi fyrirtæki. Orðum eins og okurvextir er hent í umræðuna og athugasemdakerfið á DV.is logar. Flestir vilja banna þetta og vísa til nágrannalandanna þar sem ungt fólk er skuldsett upp fyrir haus eftir að hafa lent í svipuðum “vítahring”.

Hjalti frændi

Krakkar, hér kemur eitt gott ráð frá Hjalta frænda. Ekki taka lán fyrir neyslu. Ef þú átt ekki fyrir einhverju, ekki kaupa það. Þetta heitir að vera skynsamur. Ungt fólk að steypa sér í fjárhagsvandræði er ekkert nýtt á Íslandi. Hér er fólk að missa það yfir skuld upp á nokkra tugi þúsunda, en það þykir ekkert tiltökumál að ungt fólk um tvítugt sé að kaupa sér of stórar íbúðir og dýra bíla sem það getur varla borgað af. Þegar ég var 18 voru krakkar að taka yfirdrátt til að borga VISA reikninginn. Þarf ekki sérstaka lagasetningu á það líka?

Þarf ekki bara að kenna þjóðinni að fara með peninga? Hvernig getur fullorðið fólk sem steypti heilu landi næstum því í gjaldþrot verið að öskra úlfur úlfur núna? Ekki lifa um efni fram, það á við um fullorðið fólk sem og unglinga. Hættið að væla og takið ykkur aðeins saman í skynseminni.

kveðja
Hjalti frændi

Hefurðu einhverntíman velt fyrir þér hvaðan þessi upphrópun kemur?

Flestar hagfræðikenningar gera ráð fyrir að neytandinn sé skynsamur, þ.e. að hann taki ákvarðanir hverju sinni eftir að hafa vegið og metið alla mögulega kosti. Endanlegt val hans fer svo eftir smekk hans. Auðvitað eru til allskonar hagfræðikenningar en þessar voru kenndar í því grunnnámi sem ég lærði.

En er þetta raunin? Þekkirðu einhvern sem er skynsamur alltaf? Er fólk kannski fífl?

Við gerum hluti sem við sjáum eftir, segjum hluti sem við meinum ekki og trúum oft hlutum þó við vitum að þeir séu ósannir. Af hverju borgum við 20% hærra verð fyrir Coca Cola en Pepsi? Af hverju kjósum við Sjálfstæðisflokkinn 20 kosningar í röð? Og af hverju hefur orðið “tilboð” þessi rosalegu áhrif á kauphegðun okkar?

Þegar þú ert að velta því fyrir þér hvort neytendur séu yfir höfuð skynsamir (e. rational) vil ég að þú hugsir sérstaklega til uppgangsáranna frá 2000 til 2008 þegar peningarflæddu inn í íslenskt efnahagslíf og uppsveiflan virtist aldrei ætla að hætta. Þangað til í október 2008, þegar við vorum rifin harkalega niður á jörðina. Eftir á að hyggja, er skynsamt að veðsetja skuldlaust hús til að kaupa hlutabréf í banka? Er eðlilegt að halda að Íslendingar, sem höfðu mjög litla reynslu af alþjóðafjármálum, væri betra peningafólk en aðrar þjóðir af því við erum svo dugleg? Dæmin eru mýmörg þar sem fólk virðist hreinlega ekki hafa verið með réttu ráði – þ.e. hegðaði sér óskynsamlega.

Ég er engin undantekning frá þessu enda hef ég gert nokkur heimskupörin í gegn um ævina eins og við öll. En ég hef reynt að spá aðeins meira í þeim ákvörðunum sem ég tek eftir að ég hlustaði á bókina Predictably Irrational eftir Dan Ariely.

Dan Ariely er einn helsti sérfræðingur í atferlishagfræði í heiminum. Hann er fæddur í Ísrael og kennir við Duke háskólann í Bandaríkjunum. Þegar hann var unglingur lenti hann í skelfilegu slysi þar sem 70% af líkamanum brenndist mjög illa. Sjálfur segir hann frá því að áhugi hans á að fylgjast með fólki og hegðun þess hafi komið frá því að hann lá á sjúkrabeðinu, enda hafði hann nægan tíma til að hugleiða hugmyndir sínar.

Predictably Irrational kom út árið 2008. Hún hefur verið þýdd yfir á tæplega 30 tungumál og er ein af mínum uppáhaldsbókum um viðskipti og hagfræði. Í bókinni notast Ariely við tilraunir til að prófa áfram hinar ýmsu tilgátur. Hann fer yfir afslætti og tilboð og hvaða áhrif þessi orð hafa á neytandann. Við réttlætum oft allt of dýr kaup vegna þess að varan er á afslætti. Kannast einhver við það?

Hér eru tvær dæmisögur úr bókinni:

Veistu af hverju það eru alltaf a.m.k. 3 stærðir af öllu? Lítil, miðstærð og stór? Vegna þess að þetta snýst allt um hlutfallslegan mismun. Ef þú ert bara með litla og stóra gos í boði, á meirihluti fólks eftir að kaupa lítið gos, enda er svo mikill munur á litlu og stóru. En ef þú ert með miðstærðina þar á milli, eru allar líkur á að þú seljir mest af henni, enda langar fólki í aðeins meira gos, en er ekki alveg tilbúið í stærsta glasið. Þannig stýrirðu fólki í að kaupa aðeins dýrari vöru.

Tekur þú penna í vinnunni hjá þér með heim? Finnst þér það ekki allt í lagi? Fyrirtækið á fullt af pennum og enginn tekur eftir því. En myndirðu taka 50 kall úr búðarkassanum? Hver er munurinn? Svo virðist sem fólk sé gjarnara til að stela ef það er búið að taka hlutinn 1 skrefi frá peningum. Þannig er allt í lagi að stela penna sem kostar 50 kall, en ekki 50 kalli úr kassanum. Ef við heimfærum þetta yfir á stærri tölur, þá finnst fólki allt í lagi að setja milljarð af sparifé fólks í áhættufjárfestingu sem er ólíkleg til að borga sig. Þessi sami maður myndi aldrei ræna bankahólfið sem peningurinn er geymdur í. Hver er munurinn á þessu tvennu?

Ef þú hefur áhuga á að kynna þér af hverju við hegðum okkur eins og við gerum þá mæli ég með þessari bók. Hún er uppfull af dæmisögum og tilraunum sem styðja við kenningar höfundarins og hún er skrifuð í léttum tón og uppfull af kímni. Flestar tilraunirnar eru gerðar á háskólanemum, oftast nemendum í MIT eða Harvard, sem við teljum nú vera með þeim klárustu.

Þeir sem vilja kynna sér hana betur geta lesið úr henni hér. Dan Ariely er líka með heimasíðu sem hann uppfærir mjög reglulega með skemmtilegum bloggum. Þá er hann á Twitter og með prófíl á TED. Predictably Irrational er hægt að kaupa annað hvort á Amazon eða sem hljóðbók á Audible.com. Ég mæli með hljóðbókinni. Ég er strax farinn að hlusta á næstu bók, The Upside of Irrationality, enda er maðurinn í miklum metum hjá mér eins og áður sagði.

Hér er Dan Ariely á TED 2008 að svara spurningunni “Stjórnum við okkar eigin aðgerðum”.

 

Um leið og þú lest titil þessarar færslu þá veit ég að þú ert að leita eftir einhverjum djúsí endurminningum frá mér. Ég ætla að byrja á því að valda þér vonbrigðum: þetta er bókaumfjöllun. Í gegn um tíðina hef ég aldrei verið mikið fyrir endurminningar og ævisögur. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að maður geti lært af því hvernig aðrir hafa hagað hlutunum hjá sér, tala nú ekki um ef viðkomandi er milljarðamæringur!

Sir Richard Branson er svalasti milljarðamæringur í heimi. Hann er fæddur í Bretlandi árið 1950 og þrátt fyrir að vera lesblindur og hafa aldrei farið í háskóla er hann í dag í 254. sæti yfir ríkustu mönnum heims. Richard Branson er mikið átrúnaðargoð hjá mér, ekki af því hann er ríkur – heldur hvernig hann hefur orðið ríkur. Ekki nóg með að maðurinn eigi eyju í Karabíska hafinu, hafi flogið í loftbelg yfir Atlantshafið og hafi bjargað gíslum úr Íraksstríðinu, heldur er hann núna að fara að selja ferðir út í geim og niður í dýpstu höf. Hann á Virgin veldið en allir ættu að þekkja Virgin Atlantic flugfélagið, Virgin Music útgáfuna, Virgin Mobile farsímafélagið og svo lengi mætti telja. Ég held að Richard Branson sé efni í nokkrar færslur þannig ég mæli með að þið lesið ykkur til um hann og hvað hann er að gera á Wikipedia. Ég ætla að einblína á ævisöguna hans sem ég var að klára.

Ég keypti ævisögu Bransons á Audible og hlustaði á hana í einum rikk í vikunni. Bókin kemur út árið 1998 og er því orðin nokkuð gömul. Richard Branson skrifar hana sjálfur og les sjálfur inn á hljóðbókina sem er mjög skemmtilegt. Ég reikna með að hún sé tekin upp heima hjá honum á Necker Island en stundum má heyra fuglasöng inn á milli. Mjög heimilislegt allt saman.

Eins og áður sagði var Richard Bransson fæddur í Bretlandi árið 1950. Hann sér illa og er lesblindur en samt var hann farinn að gefa út tímaritið Student í kring um 18 ára aldurinn. Í gegn um Student datt hann inn í að selja plötur í gegn um póstlista. Þegar póstburðarmenn í Bretlandi fóru í verkfall stefndi póstlistaþjónustan í gjaldþrot. Til að bjarga litla fyrirtækinu sínu fann hann, ásamt félögum sínum, autt rými í London og setti upp búð á fimm dögum og var þar með kominn í verslunarrekstur. Veldið byggðist hægt og bítandi upp eftir því sem þeir opnuðu fleiri búðir og færðu sig svo yfir í útgáfubransann. Mike Oldfield var fyrsti alvöru tónlistarmaðurinn sem skrifaði undir hjá Virgin en eftir því sem leið á bættust við í hópinn listamenn eins og Sex Pistols, Human League, Boy George og Janet Jackson til að nefna nokkra.

Richard Branson hefur alltaf haft gaman af því að ögra sjálfum sér og öðrum. Ef þú kemur með nógu klikkaða hugmynd til hans, er hann örugglega til í að taka þátt í henni. Þannig datt hann inn í flugfélagsbransann, þrátt fyrir að hafa ekki neina reynslu af slíkum rekstri og Virgin Atlantic varð til. Í dag er Virgin Atlantic eitt þekktasta nafnið í fluggeiranum og flýgur út um allan heim.

Auk þess að segja frá viðskiptasigrum sínum hleypir Branson lesendum (og hlustendum) inn í líf sitt utan peninganna. Hann segir frá hjónabandi sínu, barneignum, hvernig honum líður eða leið og hvað hann var að hugsa á hverjum tíma. Það er mjög gaman að heyra hann segja frá Joan, konunni sinni, sem hann elskar greinilega heitt, og börnunum sínum Holly og Sam. Einnig segir hann frá því hversu nærri sér hann tekur að sjá fólk í neyð, en í fyrra Íraksstríðinu lét hann fljúga Boeing 747 vél til Bagdad til að frelsa gísla stuttu áður en borgin var lögð í rúst af flugherjum vesturveldanna. Hann segir einnig á lifandi hátt frá því þegar hann flýgur í loftbelg yfir Atlantshafið og eins þegar hann reynir að setja heimsmet í því að sigla yfir sama haf. Eins fer hann yfir hápunkta og lágpunkta á sínum ferli og það er virkilega gaman að hlusta á hann tala.

En hvernig var bókin?

Ég gaf bókinni 5 stjörnur af 5 mögulegum. Kannski er ég ekki hlutlaus enda var maðurinn í miklu uppáhaldi hjá mér áður en ég keypti hana. Engu að síður er hún skemmtilega skrifuð, full af kímni og einlægni. Richard Branson hefur gífurlegan húmor fyrir sjálfum sér og greinilega elskað hverja mínútu af því sem hann hefur gert, og það skín vel í gegn.

Ef það er eitthvað sem hægt er að setja út á er það að hann eyðir stórum hluta bókarinnar í að fara í rimmuna sem hann háði við British Airways í byrjun 10. áratugarins, sem á endanum var útkljáð í réttarsal. Hann fer yfir þann slag af kostgæfni og endursegir samtöl orð fyrir orð. Ég held samt að ástæðan fyrir því að hann geri það er bara til að sýna fram á hvað þolinmæði, kjarkur og baráttuvilji skilar miklu í lok dags

Ég mæli með því fyrir alla sem hafa áhuga á viðskiptum að annað hvort lesa eða hlusta á Losing my Virginity. Einnig ætti hún að veita þeim innblástur sem hafa annað hvort áhuga á að stofna fyrirtæki eða eru með hugmynd sem virðist klikkun en langar að láta hana verða að veruleika. Hana má fá á Audible eða Amazon. Einnig er rétt að minna á nýja bók eftir Branson sem heitir Screw Business As Usual en hún kom út í haust. Að lokum er vert að minnast á bloggið hans Richardssem ég les mjög oft. Meistarinn er líka á Twitter og það er hægt að elta hann: @richardbranson.

Hér er viðtal við hann á TED 2007.

Í Bandaríkjunum í dag þykir töff að klára ekki háskóla heldur elta drauminn og stofna eigið sprotafyrirtæki. Sögur af fyrirtækjum eins og Twitter, Facebook og Groupon heilla mörg ungmennin og allt í einu þykir ekki flott að vera með gráðu frá Harvard heldur er meira töff að hafa einmitt HÆTT í Harvard. Flest þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að þau eru byggð á einhverskonar vefsamfélagi og flest þeirra eiga það sameiginlegt að eigendurnir vilja ekki ganga með bindi. Skoðum þetta aðeins nánar.

Það fylgir því venjulega að þegar fyrirtækið þitt er skráð í kauphöll þá ertu orðinn frekar mikilvægur maður. Ég vinn í frekar afslöppuðu umhverfi þegar kemur að fatnaði en það er munur á að vera snyrtilegur eða líta út eins og þú sért nýkominn frá því að lana með vinum þínum.

Hvað er pælingin á bakvið þetta? Er þetta einhver uppreisn gegn heiminum sem þeir starfa í, eða er þetta viljandi gert til að ýta undir einfalt og þægilegt umhverfi á vinnustaðnum? Þetta virðist allavega vera trend í tækniheimum og mín kenning er sú að þetta sé þeirra leið til að verða ekki of “corporate”. Þeir semsagt vilja halda í háskólaandann og ekki sýnast vera eins gráðugir og fjárfestarnir sem þeir hafa þurft að leita á náðir til.

Tökum nokkur dæmi:

Nafn: Mark Zuckerberg
Aldur: 27 ára
Fyrirtæki: Facebook
Virði: $80,000,000,000 (sept 2011)

Zuckerberg hefur verið tíður gestur í hugrenningum mínum enda sennilega sá sem setti staðalinn fyrir þessa nýju Kísildals-nörda. Mark kemur alltaf fram í stuttermabol og sandölum, en þegar hann vill poppa sig upp hendir hann jafnvel hettupeysu yfir sig.

Nafn: Seth Priebatsch
Aldur: 22 ára
Fyrirtæki: SCVNGR
Virði: $100,000,000 (maí 2011)

Seth Priebatsch er enn eitt undrabarnið. Hann er aðeins 22 ára og á og stýrir leikjafyrirtækinu SCVNGR sem byggir á sömu hugmynd og Foursquare. Hann titlar sig “Chief Ninja” og labbar um með appelsínugul sólgleraugu á hausnum. Hann einmitt hætti í Princeton til að láta drauminn rætast.

Nafn: Mark Pincus
Aldur: 45 ára

Fyrirtæki: Zynga
Virði: $15,000,000,000 (júní 2011)


Marc Pincus er forstjóri leikjafyrirtækisins Zynga sem bjó til leikina Farmville og Cityville á Facebook. Zynga stefnir á að skrá sig á hlutabréfamarkað núna á næstu vikum. Ætli það komi Pincus úr stuttermabolnum í jakkafötin?

Nafn: Dennis Crowley
Aldur: 35 ára

Fyrirtæki: Foursquare
Virði: $600,000,000 (júní 2011)


Foursquare er ennþá eitt af heitustu sprotunum ytra. Dennis Crowley er annar stofnandi fyrirtækisins og hann stýrir öllum 70 starfsmönnunum í hettupeysu.

En tískan er ekki aðeins bundin við Bandaríkin. Hún teygir sig að sjálfsögðu líka hingað heim. Tökum sem dæmi flottasta tæknifyrirtækið á Íslandi í dag, CCP. Hefur Hilmar Veigar Pétursson einhverntíman komið fram í fjölmiðlum öðruvísi klæddur en í stuttermabol?

En þá spyr maður sig, er þetta ekki bara bransinn? Þeir sem eru í tölvubransanum aðgreina sig greinilega frá þeim sem eru í fjármálabransanum. Fatnaður er ein leið til þess. Eiga fötin að skipta einhverju máli? Eiga verkin ekki frekar að tala frekar en klæðnaður og aldur? Eða eru þeir allir að herma eftir manni sem kom aldrei fram nema í rúllukragabol, gallabuxum og hvítum strigaskóm? Setti hann staðalinn fyrir klæðaburð í tölvugeiranum.

Þetta var svona léttur pistill um tískuna í tölvuheimum, svona eftir alvarleika síðustu færslu.

Þessa dagana er ég að vinna verkefni um áhættu og áhættustýringu í námi mínu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Efnið finnst mér mjög spennandi sérstaklega í ljós þeirra hræringa sem hafa átt sér stað síðustu ár, hvernig Íslendingar tókum þátt í einni stærstu bólu síðustu áratuga sem svo sprakk og við enduðum á Austurvelli að segja helvítis fokking fokk. Vissulega sprakk bólan á Íslandi og víðar og allt fór til andskotans, en er ekki hægt að gera þetta rétt? Það hlýtur að vera hægt að fjárfesta og eiga hlutabréf án þess að setja heila þjóð á hausinn.

Ég las bókina Random Walk Down Wall Street eftir Burton Malkiel í sumar. Burton Malkiel er fjárfestir og prófessor í hagfræði við Princeton og þar að auki er hann fæddur árið 1932. Hann hefur því lifað tímana tvenna. Fyrsta útgáfa af Random Walk, eða “Slembigangur niður Wall Street” eins og vinur minn vill þýða titilinn, kom út árið 1973. Hún fjallar um fjárfestingar, hvernig á að haga sér í þeim og hvernig best er að forðast alvarleg skakkaföll. Árið 2011 kom út 10 útgáfa bókarinnar og það er virkilega merkilegt hversu vel hún hefur staðist tímans tönn, þar sem innihald bókarinnar hefur lítið sem ekkert breyst, heldur hefur dæmunum bara fjölgað.

Bókin byrjar á fjármálasögunni, hvernig bólur hafa myndast í gegn um tíðina allt frá Túlipana-æðinu í Hollandi á 17. öld fram til netbólunnar í kringum 2000. Grunnurinn í kenningum Malkiels er svokölluð “efficient market theory”, en hún gengur út á að sama hversu mörg stökk uppávið markaðurinn tekur þá mun hann alltaf leiðrétta sig á endanum. Við förum í gegn um bólur og lægðir en á endanum leiðréttir markaðurinn sig alltaf. Það merkilega er að þetta er hárrétt, ef við skoðum fullyrðinguna í sögulegu samhengi.

Samkvæmt Malkiel eru tvær aðferðir við lýði á markaðnum. Fjárfestar vinna annað hvort eftir, “Skýjaborgarkenningin” (e. Castles in the Air theory) eða “Traustur grunnur kenningin” (firm foundation theory”. Þeir sem vilja búa til skýjaborgir hugsa að það skiptir ekki máli hvað þú borgar fyrir hlutabréf, svo lengi sem þú getur selt einhverjum öðrum það á hærra verði. Þessi hugsunarháttur býr til bólur þar sem fjárfestar reyna alltaf að keyra virði sinna bréfa upp til að geta selt þau á hærra verði, án þess að það sé kannski innistæða fyrir öllu virðinu. Þeir sem fjárfesta á traustum grunni, velja sér hlutabréf í fyrirtækjum sem munu vaxa og/eða greiða út arð í framtíðinni.

Burton Malkiel

Ef þú ert alltaf að reyna að giska á hvaða fyrirtæki munu hækka hverju sinni ertu að öllum líkindum að búa til fullt af peningum fyrir miðlarann þinn en þú munt að öllum líkindum ekki hagnast neitt mikið meira en markaðurinn gerir að meðaltali. Í sögulegu samhengi í Bandaríkjunum eru ekki margir sem eru klárari en markaðurinn, til lengri tíma allavega þó svo einstaka stjörnum skjóti upp annað slagið.

Titill þessarar færslu er “Sjálfbærni í fjárfestingum”. Hvernig tengist það efni færslunnar? Markaðurinn tekur sveiflur, hann muna alltaf gera það. Að mínu mati er það sjálfbær fjárfestingarstefna að fjárfesta í fyrirtækjum sem byggja á traustum grunni. Það getur vel verið að vöxturinn sé hægari, en til lengri tíma litið er betra að hafa peningana sína í einhverju sem skilar traustri og stöðugri ávöxtun í stað skammfengins gróða hér og þar. Þennan hugsunarhátt skorti hér á landi og víðar á uppgönguárunum eftir síðustu aldamót. Skellurinn sem við tókum á okkur fyrir vikið var harður og sár. Kannski var þetta lexían sem þurfti?

Ein besta dæmisaga bókarinnar hljómar einhvernvegin svona:

Tveir hagfræðingar eru að ganga niður Wall Street þegar þeir sjá $100 seðil á götunni. Annar þeirra beygir sig niður til að taka hann þegar hinn segir “Ekki eyða tíma þínum, ef það væri í alvörunni $100 seðill á götunni væri einhver annar búinn að taka hann.”

Skilaboðin í þessari sögu eru að þú átt ekki að vera að eyða tíma þínum í að leita að $100 seðlum á götunni. Það verður enginn ríkur yfir nótt og það tekur tíma og vinnu að byggja upp traust safn af fjárfestingum.

Stórfréttir heyrðust í tækniheimum Bandaríkjanna í þessari viku þegar Steve Jobs ákvað að segja starfi sínu lausu sem forstjóri Apple. Þar með líkur 14 ára valdatíð Jobs og einu lengsta blómaskeiði nokkurs fyrirtækis, en Steve Jobs kom aftur til Apple árið 1997 eftir að hafa verið hrakinn í burtu frá fyrirtækinu sem hann tók þátt í að stofna árið 1984. Til að gefa gróft dæmi um hvaða stakkaskiptum Apple hefur tekið undir stjórn Jobs þá var verð á hlutí ársbyrjun árið 1997 um $4 en núna er verðið um 8300% hærra og stóð í $383.58 við lokun markaða á föstudag (Google Finance). Auðvitað skiptir verð á hlut ekki öllu máli en það hefur ákveðna hugmynd um stækkunina sem hefur átt sér stað.

Söguna af Steve Jobs þekkja mjög margir. Manískt tölvunörd sem stendur á bakvið margar af helstu uppfinningum síðasta áratuginn – iPod, iPhone, Macbook, iPad o.s.frv. Hann kemur fram við lófatak í svörtum rúllukragabol og kynnir nýjungar fyrir æstum eyrum lýðsins. Hann er semsagt hættur sem forstjóri næst verðmesta fyrirtækis í heimi en situr þó ennþá sem stjórnarformaður. Steve vinur okkar hættir þó ekki af vilja heldur af nauðsyn. Síðustu mánuði og ár hefur hann glímt við erfitt krabbamein og hefur staðgengill hans, Tim Cook stýrt fyrirtækinu meira og minna frá 2009. Ég vona að Steve nái sér að fullu og haldi áfram að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins enda er alltaf gaman að sjá karlinn á sviði.

En hver er þessi Tim Cook?

Tim Cook er fæddur 1960 í Alabama. Hann er með gráðu í iðnaðarverkfræði frá Auburn University í Alabama en sá skóli er einmitt vel þekktur meðal Íslendinga þar sem þeir hafa verið duglegir að sækja sér knattspyrnumenn í lið sitt hingað til lands. Svo er hann með MBA gráðu frá Duke University. Hann hefur verið hjá Apple síðan 1998 en áður vann Tim hjá Compaq og þar áður IBM í 12 ár. Þar að auki situr hann í stjórn Nike.

Tim Cook hefur þurft að leysa Steve Jobs af sem forstjóri nokkrum sinnum síðustu 7 árin á meðan hann hefur farið í veikindaleyfi. Fyrst árið 2004 þegar Jobs glímdi við krabbamein í brisi, svo árið 2009 þegar hann fékk nýja lifur og svo núna frá því í vetur. Cook var því rökrétt ráðning þar sem hann hefur verið lengi hjá fyrirtækinu og í raun hægri hönd Steve Jobs í gegn um árin. Hann hefur verið rekstrarstjóri (chief operation officer, COO) fyrirtækisins frá árinu 2005.

Tim Cook er sagður vera íþróttafrík og vinnualki. Hann á það víst til að kalla saman fundi á sunnudögum til að plana vikuna framundan og fyrstu póstarnir frá honum eru farnir að detta inn upp úr hálf 5 á morgnana. Sem rekstrarstjóri hefur hann tekið í gegn alla verkferla hjá fyrirtækinu og er hann sagður vera aðalmaðurinn á bakvið það að Apple hætti allri framleiðslu. Núna eru Apple vörur settar saman úr pörtum sem framleiddir eru hjá hinum ýmsu fyrirtækjum, sem dæmi eru örgjörvarnir í allar Macbooks framleiddir af Intel og myndavélarnar í iPhone hjá Sony.

Þegar kemur að vinnu er hann kaldur, harður og æsir sig aldrei. Hann hefur víst rifið fólk í sig á milli þess sem hann hámar í sig orkustykki, spyr spurninga sem fólk á ekki að vita svarið við og heldur alltaf áfram. Þrátt fyrir það er honum lýst sem “skemmtilegt að vinna með“. Utan vinnu virðist hann eiga fáa vini og kemur ekki mikið fram opinberlega. Hvort hann er feiminn, félagsfælinn eða bara illa við fólk veit enginn en þegar hann er ekki á skrifstofunni er hann í ræktinni, að hjóla eða úti að ganga á fjöll.

En hvað með framtið Apple?

Tim Cook er hæfur forstjóri, á því leikur enginn vafi. Undirmenn treysta honum og hann hefur mikla reynslu í stjórnun. Honum tókst að lækka gjöld hjá Apple og spara milljarða í leiðinni. En sama hvað hann gerir og hefur gert þá er hann ekki Steve Jobs. Steve Jobs er sífellt hugsandi um einfaldar lausnir fyrir notandann og vill hugsa út fyrir kassann í leit að nýjum vörum. Mun Apple halda þessu áfram þó foringinn sé farinn og nýr kominn í staðinn?

Auðvitað eigum við eftir að sjá nýja iSíma, iPöddur og Macbækur á næstu misserum. Það sem Cook þarf að gera er að finna og halda í það fólk sem bætir upp það sem hann hefur ekki. Karlinn er náttúrulega brjálæðislega gáfaður og eldri en tvævetur í þessum bransa þannig ég hef ekki áhyggjur í bili. Steve Jobs er líka þarna handan við hornið að fylgjast með úr stjórnarhásætinu.

Fyrir þá sem vilja vita meira um Steve Jobs geta horft á þáttinn um hann í Game Changers þáttaröðinni frá Bloomberg. Hann má sjá hér.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Tim_Cook
http://money.cnn.com/2008/11/09/technology/cook_apple.fortune/index.htm
http://thenextweb.com/apple/2011/08/25/who-is-the-new-apple-ceo-tim-cook/?awesm=tnw.to_1AW5A&utm_campaign=&utm_medium=tnw.to-other&utm_source=t.co&utm_content=spreadus_master
http://www.apple.com/pr/bios/tim-cook.html
http://mashable.com/2011/08/24/tim-cook-apple-ceo/

Við erum í miðri tilboðsmaníu. Hún hófst snemma í vor með tilkomu Hópkaup.is, með stuðningi frá Dilar.is og fékk svo byr undir báða vængi með fæðingu Aha.is. Í kjölfarið spruttu upp bæði Kaupmáttur.is og Kaupnet.is og  svo nú fyrir stuttu kom fram á sjónarsviðið WinWin.is. Það gera samtals SEX síður sem bjóða upp á það sama hérna á litla Íslandi.

Þessar síður græða sína peninga með því að hafa samband við fyrirtæki og bjóða þeim að selja hjá sér vöru eða þjónustu á mun lægra verði en gengur og gerist. Það eru allskonar fyrirtæki sem nýta sér þjónustuna, t.d. er Veggsport að selja árskort á Hópkaup.is og Sumarferðir eru að selja ferð til Tenerife á WinWin.is. Tilboðssíðurnar kaupa þessi gjafabréf t.d. á 50% afslætti og smyrja síðan ofan á einhverri álagningu. Fyrirtækin fá fjöldakaup, nýja viðskiptavini og auglýsingu en vefsíðan tekur mismuninn. Viðskiptavinir fá svo vöru á mun lægra verði en ella. Þetta getur verið mjög sniðug leið til að kynna sig og fá nýja viðskiptavini. Einnig er þetta sniðugt til að selja vöru með hárri framlegð í miklu magni, nú eða losa sig við úreldar birgðir.

Nú þegar virðast sigurvegararnir vera farnir að skera sig frá og skilja hina eftir, en Dilar.is hefur ekki verið með nýtt tilboð svo vikum skipti og það virðist vera lítil hreyfing bæði á Kaupmætti og Kaupneti. Hópkaup hafa náð miklum vinsældum út á það að hafa verið fyrstir á markaðinn en Aha var fyrsta síðan til að vera með tilboð fyrir fólk úti á landi. WinWin.is virðist síðan vera með ágætis bakland en áður en hún fór í loftið voru meðal annars auglýsingar á strætóskiltum og í blöðum til að vekja athygli á henni. Hún er síðan að skera sig úr sem svona “fínni” tilboðasíða fyrir konur, þ.e. verið að selja snyrtimeðferðir, spaferðir og nudd svo eitthvað sé nefnt.

En hvaðan kemur þessi snilldar hugmynd sem allir fengu á sama tíma?

Fyrirmynd allra þessara síða kemur frá vefsíðu sem sett var í loftið í nóvember 2008 og heitir Groupon. Groupon var fyrsta síðan til að slá í gegn með þessu viðskiptamódeli en hún hefur riðið tröllum um öll Bandaríkin síðustu misseri og hefur síðan hasslað sér völl út um allan heim í gegn um kaup á svipuðum síðum. Til dæmis keypti Groupon síðurnar Darberry.ru í Rússlandi og Qpod.jp í Japan og rekur þær nú undir eigin nafni. Samkvæmt Wall Street Journal eru um 83 milljónir notendur sem fá tilboð sent daglega í gegn um tölvupóst og starfsmenn eru rétt yfir 7000 talsins og helmingurinn af þeim eru sölumenn.

Groupon er eitt af stjörnufyrirtækjunum sem er að ýta undir alla þá maníu sem ríkir í Kísildalnum þessa dagana og í byrjun júní sóttu þeir um skráningu á hlutabréfamarkað. Þeir eru all svakalega góðir með sig og höfnuðu til að mynda 6 milljarða dollara tilboði frá Google síðasta haust. Heildarverð fyrirtækisins er allt að 30$ milljarðar samkvæmt sumum fréttum. Og nota bene, á þeim 3 árum sem það hefur verið til hefur það ekki skilað hagnaði á einum einasta ársfjórðungi. Sagan segir að þegar bjallan glymur muni Groupon byrja í $25 milljarða virðinu.

Andrew Mason forstjóri Groupon

En það eru ekki allir sannfærðir um ágæti þessa fyrirtækis. Í fyrsta lagi hafa þeir eins og áður segir ekki ennþá skilað hagnaði og það lítur ekkert út fyrir að það gerist strax. Þeir hafa jú vaxið ógurlega mikið á fyrstu árunum og eitt gífurlegum fjárhæðum í þann vöxt en það vill svo til að þeir eru á markaði sem frekar auðvelt er að koma inn á.

Eftir að yfirtökutilboðinu var hafnað, ákvað Google að rúlla út Google Offers. Fyrst í Portland, Oregon og svo fylgdu New York City og San Fransisco í kjölfarið. Amazon, risinn í verslun á netinu ætlar ekki að láta þetta framhjá sér fara, og er farinn að keyra á “Daily deals”. Einnig eru síður eins og Living Social einnig að hassla sér völl án þess að vera að sporta keppnistapi eins og Groupon. Þeir þurfa einfaldlega að fara á markað til að geta haldið áfram að lifa því nú þegar þrengir að þá lokast allar lánalínur og það hægist á vextinum. Við skulum vona að það standi eitthvað eftir þegar markaðurinn jafnar sig aftur.

Ég hef talað um netbóluna hér og Kísildals-mafíuna hér. Ég myndi aldrei setja pening í þetta fyrirtæki eins og staðan er í dag.  Ég reikna með að þeir sem séu að fjárfesta í Groupon í dag séu að leita sér að skammtímaávinningi – þ.e. að kaupa bréfin og reyna að selja þau á sem hæstu verði – og sá sem kaupir sé með sama ávinning í huga. Þetta gerir ekkert nema að skapa bólu.

Rob Wheeler tók þetta allt saman í bloggfærslu á Harvard Business Review sem ber nafnið “Groupon doomed by too much of a good thing“. Ég leyfi honum að eiga síðasta orðið.

Update 8/9/11 – Ég var að taka eftir því að það fer að opna ný síða – www.kraftkaup.is! Hvar endar þetta?

Inside Job er alveg frábær heimildarmynd. Ég er búinn að horfa á hana 2 eða 3 sinnum núna og hef alltaf jafn gaman af. Hún er mjög hátt metin í kvikmyndaheiminum og fékk m.a. Óskarsverðlaunin fyrir bestu heimildarmyndina á síðasta ári. Einnig er hún með 8.2 af 10 í einkunn inni á IMDB, sem er mjög hátt.

Inside Job fjallar um alheims efnahagshrunið sem varð haustið 2008. Byrjun myndarinnar er tekin upp á Íslandi. Þar er lauslega snert á okkar þætti í fjármálakreppunni og tekin eru m.a. viðtöl við Andra Snæ Magnason rithöfund og Gylfa Zoega hagfræðiprófessor. Ég mæli hiklaust að allir horfi á þessa mynd þar sem þetta hjálpar fólki að skilja hvað gerðist. Flóknir hlutir eru einfaldaðir og sagðir á mannamáli. Eina leiðin til að koma í veg fyrir aðra eins vitleysu og hörmung sem hér hefur gengið yfir er að læra af mistökum sem gerð hafa verið.

Alan Greenspan

Myndin tekur á sögunni og segir frá því hvernig breytingar á regluverkinu höfðu áhrif á það sem síðar varð og nefnir alla helstu leikmenn eins og forsetana fimm – Reagan, Bush, Clinton, Bush og Obama, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna Alan Greenspan, Larry Summers forseti Harvard og fleiri góðar hetjur. Í henni er sett fram réttmæt gagnrýni á bandarísku ríkistjórnina, Wall Street, lánshæfisfyrirtækin (Moody’s, S&P og Fitch) og bransann allan.

Matt Damon talar inn á myndina og viðmælendurnir eru margir hverjir virtir hagfræðingar og fjármálagúrúar eins og Christine Lagarde, Nouriel Roubini, George Soros og Paul Volcker ásamt Dominique Strauss-Kahn, sem eins og staðan er í dag er ekki eins virtur og áður. Einnig eru viðtöl við minna virta hagfræðinga eins og Robert Mishkin sem skrifaði fræga skýrslu ásamt Tryggva Þór Herbertsyni, núverandi alþingismanni. Mishkin er tekinn all svakalega fyrir í myndinni enda er hann orðinn svo hvítur í framan undir lok viðtalsins að það er eins og hann hafi séð draug.

Myndin útskýrir á mannamáli hvað afleiðuviðskipti snúast um – hugtak sem er svo flókið í sjálfu sér að til þarf doktorsgráðu að skilja það. Hún fjallar um húsnæðislánin í Bandaríkjunum, sem komu af stað snjóbolta sem felldi Bear Stearns og Lehman Brothers bankana og olli að lokum alheimskreppu. Bónusana sem ýttu undir bóluna. Hún fer yfir atburðarásina undir lok góðærisins og atburðina sem fylgdu og að lokum hverjir öxluðu og ættu að axla ábyrgð í málinu.

Eins og ég sagði áðan þá mæli ég með að ALLIR sjái þessa mynd, sama hvort þeir hafi áhuga á fjármálum eða ekki. Þetta ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem vilja skilja betur hvað gerðist fyrir þremur árum.

Allar ábendingar um góðar heimildarmyndir eru vel þegnar.

Eins og áður hefur komið fram hefur undirritaður mikinn áhuga á tækni og peningum. Enginn getur neitað því að til þess að góð hugmynd geti orðið að veruleika og skapað eitthvað virði þá þarf til fjármagn. Akkurat núna eru fjárfestar út um allan heim að eyða rosalegum peningum í sprotafyrirtæki, og þá sérstaklega í Kýsildalnum í Bandaríkjunum. Þessir fjárfestar eru svokallaðir “venture capitalists”, en besta þýðingin á því orði sem ég hef fundið er áhættufjárfestir. Við notum það orð hérmeð. Ég viðurkenni fúslega að mín þekking er svotil eingöngu bundin við Bandaríkin, enda eru áhættufjárfestar í Evrópu og annars staðar efni í aðra færslu.

Don Valentine

Ef við byrjum á gömlu rótgrónu sjóðunum þá kemur Sequoia Capital fyrst upp í hugann. Sequoia eru það stórir að þegar þetta nafn skítur upp kollinum í fréttum þá sperrir maður ósjálfrátt eyrun. Sjóðurinn var stofnaður árið 1972 af Don Valentine (mafíósalegasta nafn sögunnar?) og hefur tekið þátt í uppbyggingu tækniheimsins eins og við þekkjum hann í dag. Sequoia fjárfesti í Oracle, Cisco, Apple og Atari þegar þessi fyrirtæki voru að byggjast upp. Síðustu 15 árin hefur sjóðurinn einnig fjárfest í Dropbox, LinkedIn, YouTube, PayPal, Square og svo miklu fleiri. Mörg þessara nafna eru heimsþekkt þannig Don Valentine hefur augljóslega marga fjöruna sopið í þessum bransa.

Greylock Partners eru ennþá eldri í hettunni. Sá sjóður var stofnaður árið 1965. Fjárfestingar þeirra Greylock félaga liggja meðal annars í Red Hat, Pandora, Groupon og LinkedIn. Þess má geta að Reid Hoffmann, stofnandi LinkedIn sér um stóran sjóð hjá þeim núna. Ef horft er yfir listann þá hafa þeir verið mest verið í tæknifyrirtækjum sem hafa síðan verið yfirtekin eða sameinast öðrum fyrirtækjum í svipuðum geira. Æj já svo eiga þeir líka ca. 1,5% í Facebook. Sá hlutur er um $1.25 milljarða virði ef miðað er við að áætlað markaðsvirði Facebook sé $75 milljarðar. EKKI slæmt!

Talandi um Facebook þá eru Accel Partners einn stærsti hluthafinn þar. Fyrirtækið var stofnað árið 1983 og hefur síðan verið eitt af leiðandi tæknifjárfestum í Kýsildalnum. Önnur helsta fjárfesting Accel er líklega í kínversku leitarvélinni Baidu, en sú leitarvél er með 75% markaðshlutdeild í Kína. Aðalmaðurinn á bakvið Accel Partners er Jim Breyer. Hann á í eigin nafni um 1% hlut í Facebook.

Peter Thiel

Og ennþá höldum við okkur við Facebook. Peter Thiel er merkilegur maður. Hann fæddist í Frankfurt, Þýskalandi en ólst upp í Bandaríkjunum. Hann er með heimspekigráðu frá Stanford og var einn af stofnendum PayPal, sem gjörbylti öllum viðskiptum á netinu eins og allir vita. Hann var sá sem átti fyrstu alvöru fjárfestinguna í Facebook, fyrir utan stofnendurna að sjálfsögðu. $500.000 árið 2004 tryggðu honum 10% hlut í fyrirtækinu, sem er um 3% í dag. Ef við miðum aftur við $75 milljarða markaðsvirði  þá er fjárfesting hans 4500 sinnum verðmætari í dag! Að auki hefur hann fjárfest í LinkedIn, Yelp og Friendster, ásamt fleiri góðum. Ein skemmtileg staðreynd er að hann tók þátt í að framleiða myndina Thank You for Smoking, sem er í miklu uppáhaldi hjá mé

Marc Andreessen

Að lokum verð ég að minnast á Andreessen-Horowitz. Marc Andreessen hef ég fjallað um áður, en hann var stofnandi Netscape. Ben Horowitz stofnaði, rak og seldi síðan Opsware til Hewlett Packard. Í sínu hvoru laginu voru þeir að fikta við áhættufjárfestingar en árið 2009 stofnuðu þeir Andreessen-Horowitz sjóðinn, til þess að geta aukið fjárfestingagetu sína. Saman eiga þeir núna í Foursquare, Zynga, Instagram, Groupon, Twitter og fleiri. Þeir hafa farið mjög geyst í sínar fjárfestingar að mínu mati en tíminn mun náttúrulega bara leiða í ljós hvernig þeim gekk.

Það er áhugavert að sjá trendið. Allir þessir menn eru einhvernveginn að fjárfesta í sömu fyrirtækjunum. Á einum stað las ég að ef við erum í miðri tæknibólu og ef að hún springur þá mun hún ekki hafa eins djúp áhrif á heiminn eins og sú fyrri heldur mun hún bara ákveðinn hóp. Sú kenning er kjaftæði ef þau halda áfram að sækja á opinn markað eins og Zynga, Groupon, LinkedIn og Facebook eru að gera, eða ætla að gera. En eins og ég sagði áður þá mun tíminn leiða þetta allt í ljós.

Svo ég viti þá er einn svona sjóður á Íslandi sem sérhæfir sig í áhættufjárfestingum. Thule Investments undir forystu Gísla Hjálmtýssonar. Með því að líta yfir eignasafn Thule þá má sjá að sérhæfingin er aðallega í upplýsingatæknifyrirtækjum, en í safninu er líka líka skip sem gerir út frá Las Palmas. Mest þekkta fyrirtækið er sennilega Caoz, en þau eru einna fremst á landinu í gerð í tölvuteiknaðra teiknimynda og framleiddu meðal annars Svala og Klóa auglýsingarnar. Það verður gaman að sjá hvernig Thule mun ganga ef að einhverntíman losnar um gjaldeyrishöftin og líf fer að glæðast á fjármálamörkuðum á ný.