Archive

Monthly Archives: May 2012

Það kemst enginn með tærnar þar sem Nike hefur hælana þegar kemur að íþróttaauglýsingum. Auglýsingarnar frá þeim skarta yfirleitt stærstu stjörnum hvers tímabils og fyrirtækið gefur yfirleitt út risastóra herferð í kring um öll stórmót.

Nýjasta herferðin ber nafnið My time is now og í henni leika menn eins og Franc Ribery, Wesley Sneijder, Neymar, Pep Guardiola, Cristiano Ronaldo og fleiri. Auglýsingin er að sjálfsögðu gríðarlega hógvær og látlaus, eða hitt þó heldur, og spannar ekki nema 3 mínútur! Það væri gaman að sjá birtingarplanið hjá Nike. Þeir ætti að fá a.m.k. konfekt kassa frá miðlunum!

Það skemmtilega við þessa auglýsingu er ekki að sjá hana í sjónvarpinu, þú hefur séð hana milljón sinnum áður, heldur áttu að fara á YouTube og leika þér með hana. Með því að hafa músina tilbúna þá sérðu sögur um alla leikmennina, getur fylgst með þeim á Facebook eða Twitter og ef þú fylgist nógu vel með finnurðu “leynistaðina” í myndbandinu. Ég eyddi sjálfur einhverjum 30 mínútum bara að fikta og uppgötva nýja hluti.

Auglýsingin sjálf er hér að neðan en til að upplifa alla dýrðina skalltu fara á https://www.youtube.com/nikefootball.

En eins og áður sagði er Nike vant að tjalda öllu til þegar kemur að stórmótum. Fyrir heimsmeistarakeppnina 2010 í Suður-Afríku var gerð herferðin Write the future þar sem meðal annars Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo voru í aðalhlutverkum. Skilaboðin voru að duga eða drepast, annað hvort ertu hetja eða skúrkur, þetta er undir þér komið (eitthvað sem Rooney þekkir af eigin raun). Auglýsingin var það vel tekið að hún vann gull á auglýsingaverðlaunahátíðinni í Cannes á síðasta ári. Enda mjög skiljanlegt, er einhver sem fær ekki gæsahúð þegar Rooney tæklar Ribery eftir sprettinn til baka?

Ein af mínum uppáhalds stórmótsauglýsingum frá Nike kom í kring um heimsmeistarakeppnina í Japan og Suður Kóreu árið 2002. Þar efndi kóngurinn Eric Cantona til leynikeppni á milli færustu knattspyrnuhetja á þeim tíma. 16 lið spiluðu um borð í skipi, það var spilað 3 á 3 í stálbúri, fyrra liðið til að skora vann viðureignina. Þarna voru hetjur eins og Ronaldo, Roberto Carlos, Francesco Totti, Javier Saviola og Freddie Ljungberg sem flestir eru heillum horfnir í dag. Cantona á stórleik í auglýsingunni og ég man eftir því að hafa legið yfir þessari auglýsingu trekk í trekk fyrir 10 árum. Alger snilld!

En mín uppáhalds fótboltaauglýsing allra tíma er Good vs. Evil frá árinu 1996. Hún er akkurat frá þeim tíma sem ég er að byrja að fylgjast með fótbolta og í henni voru leikmenn sem ég leit upp til og vildi vera þegar ég var að spila með krökkunum. Það er allt frábært í henni, frá því að Maldini bjargar deginum og svo er gæsahúðaraugnablik þegar Cantona tekur hann niður, vippar upp kraganum og segir “Au revoir” áður en hann dúndrar boltanum í netið. Ég held að þessi auglýsing verði seint toppuð.

Á föstudaginn var merkur dagur í sögu Nasdaq kauphallarinnar. Stærsta hlutafjárútboð sögunnar fór fram þegar Facebook var skráð á markað. Ég og margir aðrir höfðu beðið eftir þessum degi í langan tíma og ég var farinn að hafa augun á ticker-num löngu áður en bjallan glumdi. Það var svo Mark Zuckerberg sjálfur sem fékk að hringja bjöllunni og hann gerði það stoltur í hettupeysu. Útboðsgengið var $38 á hlut, mun hærra en flestir bjuggust við, en almennt var talið að verðið yrði í kring um $25-30 á hlut.

Dagurinn byrjaði með krafti en fyrstu viðskiptin voru á genginu $42. En hvað gerðist svo? Nákvæmlega ekkert. Gengið lækkaði jafnt og þétt eftir því sem leið á daginn en fór samt aldrei niður fyrir $38 útboðsgengið. Þegar viðskiptum var hætt fyrir helgina hafði Facebook hækkað um 0,97% eða 37 cent.

Þessi frétt birtist á MBL.is þegar markaðir lokuðu. Ég held að flestir hafi búist við að hlutabréfin myndu rjúka upp miðað við væntingarnar sem gerðar voru til fyrirtækisins. Það sem meira er að fólk vonaði að bréfin hækkuðu. Þess vegna voru það vonbrigði að þau skyldu ekki fara á flug.

Verðið á bréfunum var algert bull frá byrjun, sama hvort við erum að tala um $25, $38 eða $42. Ein mest notaða kennitalan í fjármálum er V/H-hlutfallið (PE ratio). Þá deilirðu verði á hlut með hagnaði á hlut. Hagnaðurinn á árinu 2011 var u.þ.b. 1 milljarður dollara, eða um $0,31 á hlut. 38/0,31 = 122.58! Sem dæmi er Google með hlutfallið 18.21, Apple 13.58 og Oracle 13.89. Auðvitað er ekki sanngjarnt að bera þessi tvö fyrirtæki saman, enda Facebook ennþá ungt og á inni (vonandi) einhvern vöxt. Google fór á markað miklum bolamarkaði með V/H-hlutfall í kring um 75 en Facebook er að fara á markað núna þegar birnir ráða ríkjum.

Í gær og í dag hóf markaðurinn svo massífa leiðréttingu á hlutabréfaverðinu og þegar þetta er skrifað stendur verðið í $31 á hlut og hefur fallið um ca.  22% frá útboðinu.

Vonbrigði hvað?

Frá höfuðstöðvum Facebook

Í Menlo Park í Kaliforníu voru menn hins vegar gefandi fimmur, brosandi og skálandi í kampavíni. Þeir náðu að safna ca. $16 MILLJÖRÐUM með útboðinu og seldu þannig tæplega 500.000.000 hluti á miklu yfirverði. Akkurat núna eru þeir syndandi í peningum, allir krakkarnir sem byrjuðu í fyrirtækinu eru milljarðamæringar og leiðin liggur ekkert nema upp. Það skiptir Facebook ekki máli í augnablikinu að hlutabréfaverð sé að lækka, enda eru þeir nýbúnir í útboði og þurfa þess vegna ekki á frekar fjármögnun í augnablikinu. Aðrir hluthafar eru líka himinlifandi, t.d. er Peter Thiel búinn að fá sína $500.000 margfalt til baka og getur brosað út að eyrum.

Hvað með markaðinn?

Markaðurinn tók líka áhugaverðar sveiflur á föstudaginn. Svo virðist að fjárfestar séu smátt og smátt að hverfa frá þessum sjóðandi heitu internetfyrirtækjum. Zynga lækkaði um 4%, LinkedIn lækkaði um 4,5%, Groupon um 6,7% og kínverska útgáfan af Facebook, RenRen, lækkaði um heil 21%! Bólan byggist á því að ofurtrú er sett á að notendur búi til peninga, og að vissu leiti er það satt. Hversu háar tekjur virðist hins vegar enginn geta svarað.

Ég hef sagt það áður að við séum í bólu, en svo virðist sem loftið sé farið að leka úr. Hvort við munum sjá algera sprengingu eins og í kring um síðustu aldamót veit ég ekki, en það eru blikur á lofti. Það jákvæða við þess bólu er að þeir sem eiga eftir að tapa á henni eru frekar smár hópur manna en ekki lífeyrissjóðir og almennir borgarar eins og síðast.

Ég verð allavega með Google Finance opið og fylgist spenntur með!

Árið er 2030 og þriðja heimstyrjöldin er í hápunkti. Rússar, Kínverjar og Bandaríkjamenn eru að heyja lokaorrustu úti í geimnum og endalok mannkynsins blasa við. Evrópa er lögð í rúst, hún átti sér einskis von gegn stórveldunum þremur. En lítil eyja norður í Atlantshafi heldur enn í sjálfstæði sitt! Þökk sé þrotlausum æfingum í Elliðaárdalnum hefur litla Ísland komið sér upp þróttmesta her í heiminum sem risaveldin hafa ekki roð við. Íslenski herinn er bara í allt of góðu formi!

Nei bíddu ha? Fáum við í alvörunni ekki að æfa varnir Íslands af því Sóley Tómasdóttir er á móti því að Boot Camp fái aðstöðu í Elliðaárdalnum? Þriðja heimstyrjöldin er á leiðinni! Hvað er að henni??

Ný aðstaða BC í Elliðaárdal

Hjá skipulagsfulltrúa í Reykjavík liggur fyrir tillaga að Boot Camp fái að opna líkamsræktaarstöð í húsnæði einu í Elliðaárdalnum. Allt lítur út fyrir að tillagan verði samþykkt með miklum meirihluta, enda engin sýnileg ástæða til að stoppa hana.

Samt varð allt brjálað? Af hverju?

Af því Sóley Tómasdóttir sá sér leik á borði og ákvað að koma á framfæri einu af baráttumálum Vinstri grænna, að Ísland sé herlaust land og að Vinstri grænir séu á móti hernaðarbrölti í allri sinni mynd.

Og Facebook LOGAÐI!

Sóley Tómasdóttir, ég tek hatt minn ofan fyrir þér. Þú ert sannur “newsjacker”.

Sóley Tómasdóttir – © Vísir.is

Haldiði virkilega að hún hafi ekki vitað hvað að þetta myndi rata á fréttasíður? Vísir birti fyrirsögnina “Vinstri grænir leggjast gegn heræfingum í Elliðaárdal” og í framhaldinu var viðtal við eiganda Boot Camp þar sem hann bauð Sóleyju velkomna í prufutíma sem hún svo afþakkaði.

Fyrir vikið fékk Boot Camp mjög flotta auglýsingu á nýju stöðinni sem þeir ætla að opna, þannig þeir geta ekki kvartað. Vinstri grænir komu sínum málefnum á framfæri á mjög sniðugan hátt og ég þori að veðja að Sóley Tómasdóttir fékk klapp á bakið frá flokksystkynum sínum.

Boot Camp á Íslandi er enginn undirbúningur fyrir hernað á vígstöðvum, ég veit það, þú veist það, mamma mín veit það og Sóley Tómasdóttir veit það.

Það að “newsjack-a” er þegar þú nýtir þér fréttir til að koma sjálfum þér og/eða vörum þínum á framfæri. Hugtakið er búið til af David Meerman Scott og hefur verið fjallað um áður hér í Hugrenningum.

Wes Anderson

Wes Anderson er snillingur. Hann er leikstjóri og handritshöfundur sem hefur getið sér gott orð í Hollywood. Myndirnar hans eru ekki þær vinsælustu, með fyndustu brandarana né stærstu sprengingarnar, en innan ákveðins hóps er hann átrúnaðargoð.

Anderson er með frekar sérstakan stíl. Í myndunum hans eru söguhetjurnar venjulega í mikilli sálarkreppu sem samt reddast einhvernveginn fyrir lok myndarinnar. Þær eru svo hnausþykkar af svörtum húmor sem venjulega er blandað við frábæra tónlist. Til dæmis er yfirleitt a.m.k. eitt lag með Rolling Stones í hverri mynd eftir hann. Eins er hann þekktur fyrir að vinna með mikið af sama fólkinu. Þannig leikur Bill Murray í flestum Anderson myndum, en af fleiri kunnuglegum andlitum má nefna bræðurna Luke og Owen Wilson, Anjelica Huston og Jason Schwartzman.

Tvær af mínum uppáhaldsmyndum eru eftir hann, en þær eru The Royal Tenenbaums og Rushmore.

En Wes er ekki bara í því að framleiða költ bíómyndir um furðulegar fjölskylduaðstæður. Hann hefur einnig verið að dunda sér við að framleiða auglýsingar fyrir nokkur af stærstu fyrirtækjum í heimi. Sumar þessara minna svo sannarlega á kvikmyndirnar hans. Til dæmis þessi auglýsing með Brad Pitt fyrir japanska farsímafyrirtækið SoftBank.

Þessari auglýsingu fyrir Stella Artois var leikstýrt í sameiningu af Wes Anderson og Roman Coppola, syni Francis Coppola sem færði okkur Godfather myndirnar. Franska þemað er alveg beint úr smiðju Wes og er útkoman alveg þrælskemmtileg.

Hann vann líka mjög skemmtilega herferð fyrir IKEA sem gekk út á að sína að útstillingarnar í IKEA verslununum væru svo kósý að þér liði strax eins og þú værir heima hjá þér og værir þess vegna tilbúin að eiga fjölskyldurifrildin þar, eins og heima hjá þér.

Að lokum er hér auglýsing sem var unnin fyrir American Express. Wes Anderson leikur sjálfur í henni, en þegar horft er á hana sést svo greinilega að hún er skrifuð og henni leikstýrt af honum sjálfum. Klippingin, myndatakan, tónlistin og samtölin eru svo beint upp úr bæði Rushmore og Royal Tenenbaums. Horfið og njótið.