Archive

Netið

Ég er oft spurður hvar best er að geyma myndbönd. Í raun er ekki neitt eitt rétt svar við því, það fer allt eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Ætlarðu að selja auglýsingar, safna áskrifendum, reyna að láta það fara “viral”, tengja við annað efni t.d. á vefsíðu og svo lengi má telja.

Akkurat núna er mikið stríð á milli miðla að vinna “content-keppnina” en það vilja allir að þú geymir efnið þitt hjá sér. Ég ætla að fjalla aðeins um hvernig þú getur nýtt þér þetta stríð til að ná fram þínum markmiðum.

YouTube-logo-full_color (1)YouTube hefur hingað til verið aðal staðurinn til að geyma myndbönd. Þessi samfélagsmiðill tók svakalegt stökk strax og hann fór í loftið og var á endanum keyptur af Google fyrir 1,650.000 dollara árið 2006. Allir í heiminum nota og þekkja YouTube. Það sem ekki allir vita er að YouTube er næst stærsta leitarvél í heiminum með 3 milljónir fyrirspurna í mánuði! Fjölmargir út um allan heim hafa orðið ríkir á YouTube enda er svo ofboðslega auðvelt að annars vegar byggja upp áhorfendahóp (e. audience) og svo auðvitað að selja auglýsingar í gegnum auglýsingakerfi Google.

facebookFacebook hefur heldur betur sótt í sig veðrið hvað myndbönd varðar. Ég get staðfest af eigin raun að ef þú setur myndband inn á Facebook þá fer það á fleygiferð og flestir vinir þínir sjá það. Facebook er hér klárlega að reyna að krækja sér í hlutdeild af YouTube kökunni. Facebook vill gera sem mest til þess að þú þurfir aldrei að fara út af Facebook. Þeir verðlauna þig þannig með áhorfi fyrir að hlaða myndbandinu þínu á Facebook, en refsa þér ef þú linkar á YouTube myndband eða aðra miðla sem taka þig af Facebook. Við skulum samt ekki gefa Facebook of mikið hrós því þó að myndbandið þitt sjáist í öllum fréttaveitum sem þú veist um þá er þar líka pottur brotinn. Myndböndin spilast nefnilega sjálfkrafa á Facebook þegar þú sérð það og það telur sem 1 “áhorf”. Þannig alltaf taka þeim tölum með fyrirvara hjá Facebook.

vimeo logo blueSvo er það Vimeo. Vimeo er videoplatform fyrir myndbandsrúnkara. Allt á Vimeo er miklu fallegra en á YouTube. Þú hefur sömuleiðis betri stjórn á hlutum eins og stillimynd, læsingum og slíku og er þannig alveg frábær miðill til að nota til dæmis ef þú ætlar að setja myndböndin þín á vefsíður (e. embedded videos), til dæmis á vörusíður á heimasíðu fyrirtækis þíns. Að sama skapi geturðu stjórnað því betur hvað birtist þegar myndbandið þitt er búið.

Þetta eru svona þessir þrír helstu.  Það eru fullt af öðrum miðlum í boði eins og til dæmis myndbönd á Twitter og svo örmyndbönd á t.d. Vine og Instagram. Þá er hér ekki einu sinni minnst á myndbandsspilara fyrir fjölmiðla, sem vilja geta stýrt læsingunni ennþá betur og jafnvel handvalið auglýsingar á undan eða eftir hverju myndbandi. Það er líka allt önnur pæling.

En hvað af þessu er best?

Eins og ég sagði áðan þá fer það rosalega eftir því hvað þú ætlar að gera við myndbandið. Það er hægt að kafa gríðarlega djúpt ofan í algórythma, pælingar um að byggja upp áskrifendahóp og hvar þú ætlar að græða peninga en þumalputtareglan hjá mér er:

Facebook – Til að sjást sem víðast (e. most impressions)

YouTube – Til þess að finnast

Vimeo – Til að “embedda” á aðrar síður.

Þetta er svona þokkalega algilt fyrir flesta auglýsendur og vörumerki. Til þess að nýta kosti hvers miðils má líka hlaða myndbandi inn á alla þessa miðla.

Vonandi hjálpar þetta einhverjum.

Fyrir mörgum árum (3 árum) skrifaði ég færslu um hlaðvörp (e. podcasts). Ég var akkurat að uppgötva snilldina sem hlaðvörp eru. Þú gerist áskrifandi að þætti, sækir hann þegar þér hentar og hlustar á hann í því tæki sem þú vilt – flestir í snjallsímanum sínum.

Síðan þá hafa hlaðvörp heldur betur sótt í sig veðrið. Kjarninn er til dæmis með virka rás þar sem m.a. er talað um efnahagsmál, Tvíhöfði hringir inn í sinn eigin útvarps þátt og enn annar þáttur fjallar bara um hluti sem þáttastjórnandanum finnst kúl. Alvarpið á Nútímanum er með virkilega metnaðarfulla dagskrá sömuleiðis þar sem fjallað er um allt frá kvikmyndum og tónlist yfir í hefðbundna viðtalsþætti.

En ég er latur í dag þannig ég ætla ekki að fara út í neitt gríðarlega greiningu á kostum hlaðvarps eða mismunandi dagskrárliða. Ég ætla einfaldlega að segja ykkur frá 4 uppáhalds hlaðvörpunum mínum þessa stundina.

This Old Marketing

this old marketingÉg er búinn að hlusta örugglega á svona 10 mismunandi þætti um markaðsmál enda er markaðsfólk svo ótrúlega kúl og tilbúið að nýta sér nýja miðla. Og frábært fólk þar að auki! This Old Marketing er stjórnað af Joe Pulizzi og Robert Rose. Þeir skilgreina sig sem “content marketers” þannig það er auðvelt að skilja hvernig það sem þeir fjalla um hittir beint í mark hjá mér. Þættirnir eru vikulegir og koma alltaf á mánudögum. Í síðasta þætti var t.d. verið að fjalla um auglýsingarnar í Super Bowl. Ég mæli með þessum þáttum fyrir markaðsfólk og aðra áhugamenn um markaðsmál.

Here’s The Thing

heres-the-thing-podcast-logoÉg straujaði allar 30 Rock seríurnar á svona 2 mánuðum (NB þá eru það rúmlega 150 þættir!) aðallega vegna þess að Jack Donaghy, leikinn af Alec Baldwin, er maðurinn. Alec Baldwin er fæddur til þess að tala. Því þarf ekki að koma á óvart að ég hlusta á hvern einasta þátt af Here’s the thing, en þættinum er stýrt af Alec nokkrum Baldwin. Hann er þarna að tala við leikara, handritshöfunda og fleiri opinberar persónur. Joe McEnroe var til dæmis gestur í einum þætti, Sarah Jessica Parker í öðrum og Jerry Seinfeld hefur komið í heimsókn a.m.k. tvisvar sinnum. Flestir þessir aðilar eiga það líka sameiginlegt að búa í New York City – bestu borg í heiminum.

Þáttur um kúl hluti (ÞUKL)

thukl í kjarnanumEini íslenski þátturinn á listanum. Þáttur um kúl hluti er frábært hlustunarefni. Það er líka bara brilliant hugynd að útvarpsþætti að fjalla bara um hluti sem manni sjálfum finnst kúl. Frá því ég byrjaði að hlusta hefur verið fjallað um björgunasveitir, loftslagsmál og tjáningarfrelsið. Þáttarstjórnandinn Birgir Þór Harðarson er ávallt vel undirbúinn og yfirleitt er hann með viðmælanda sem kemur með ferska innsýn í þau málefni sem verið er að fjalla um. Frá því ég byrjaði að hlusta hefur m.a. verið fjallað um björgunasveitir, loftslagsmál og tjáningarfrelsið. Mæli með þessu.

americanlife__140321173358This American Life

This American Life er vikulegur útvarpsþáttur á NPR sem hefur verið í loftinu núna í 20 ár. Í hverjum þætti af  er tekið fyrir ákveðið þema og fundnir óvæntir og skemmtilegir angar af því. Fyrsti þátturinn sem ég hlustaði á hét til dæmis “If you don’t have anything nice to say, SAY IT IN ALL CAPS” og fjallaði um nettröll (e. trolls). Í þessum þætti voru sagðar 3 sögur sem allar snérust um mismunandi form af árásum á netinu. Í þeim þætti sem ég er að hlusta á núna eyða þáttastjórnendur heilum mánuði á bílasölu sem þarf að ná ákveðnum markmiði til að fá allt að $85.000 bónus. Ef þau ná ekki því markmiði skilar bílasalan tapi. Eins og sjá má eru umfjöllunarefnin þannig eins ólík og þau eru mörg.

————————————————-

Ég hlusta undantekningalaust á hlaðvörp í símanum mínum. Ég nota appið Pocket Casts. Það kostar örfáa dollara en virkar mjög vel.

Þetta er það sem ég er að hlusta á, en það er alltaf hægt að bæta við. Á hvað ert þú að hlusta?

Björgólfur Thor er snjall bissnessmaður. Hann hefur átt í mörgum af umsvifamestu viðskiptum Íslandssögunnar og af honum fara góðar og slæmar sögur.

En ég ætla ekki að spá í það núna.

Björgólfur er nýbúinn að gefa út afar áhugaverða bók sem ber nafnið Billions to bust – and back. Titillinn hljómar reyndar aðeins eins og ferðasaga Bilbo Baggins en ég hlakka engu að síður mikið til að lesa hana.

Og þar sem ég var í sakleysi mínu að lesa Vidskiptabladid.is í síðustu viku rakst ég á þennan fína vefborða og verandi áhugasamur um að kaupa bókina smellti ég á hann til að fá að vita meira.

Hugrenningar: vb bjoggi thor

 

Vonbrigðin leyndu sér ekki því lendingarsíðan var þessi, forsíða BTB.is sem er persónuleg heimasíða Björgólfs Thors.

Hugrenningar - btb.is

 

Á þessari síðu er enginn hlekkur þar sem hægt er að kaupa bókina, ekkert um það hvort bókin sé komin út, engar upplýsingar um hvar má nálgast hana eða hvort það sé yfir höfuð hægt að kaupa hana hérlendis.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og lokaði síðunni án þess að fjárfesta í eintaki. Þarna varð Björgólfur Thor af örfáum krónum frá mér.

Ég reikna með að markmiðið með þessum vefborða hafi verið að vekja athygli á bókinni. Það tókst, enda smellti ég á borðann. Það sem þarf hins vegar að hugsa er hvað tekur við þegar maður er búinn að smella. Lokamarkmið hlýtur svo að vera að maður kaupi bókina og meðtaki boðskapinn. Það er alltaf jákvætt þegar það er gert auðveldara fyrir mann.

Og hérmeð segi ég ráðleggingum mínum til Björgólfs Thors lokið. Vonandi kemst þetta til skila og vonandi finn ég einhversstaðar hvar ég get keypt bókina.

dontmakemething

Ég var að klára bókina “Don’t Make Me Think” eftir Steve Krug. Hún er eins konar “common sense” kennslubók fyrir vefstjóra. Af hverju var ég að lesa hana? Ég er ekki tölvunarfræðingur eða vefhönnuður heldur viðskiptafræðingur (næstum því). Stór hluti af minni vinnu fer hins vegar fram á netinu. Ég er að rýna í og segja mína skoðun á lendingarsíðum, vörusíðum, forsíðunni, sölulínum á vefnum og margt fleira. Og flestir þeir sem starfa í markaðsgeiraum í dag eru að gera það nákvæmlega sama.

Steve Krug er sérfræðingur í “web usability”, eða vef nytsemi á íslensku. Fyrsta útgáfan af bókinni kom út árið 2000. Á þeim tíma var partý í gangi sem heitir “Dotcom”-bólan og allir og amma þeirra kepptust við að smíða vefsíður og veffyrirtæki og allt sem hét staðlar og samræmt úti var að verða til. Önnur útgáfa af bókinni kom út árið 2006 og þriðja útgáfa í desember á síðasta ári. Ég las aðra útgáfu, enda var sú nýjasta ekki til á Bókasafni Kópavogs. Ég bjóst fyrirfram við að ég myndi rekast á fullt af úreldum stöðlum og hugmyndum um hvernig ætti að nota vefinn en raunin var allt önnur. Vissulega eru dæmin oft frekar gömul en undirstöðuatriðin eru í grunninn þau sömu.

En það besta við bókina er að það var ekkert nýtt í þessu. Í raun var verið að segja manni frá hlutum sem flestir geta sagt sér sjálfur. Þetta er nefnilega oft “common sense”. En stundum þarf bara að benda manni á það.

Nokkur atriði sem ég greip úr bókinni:

Ekki láta mig hugsa

Samkvæmt Steve eigum við að reyna eftir fremsta megni að koma í vef fyrir að gestir á síðunni okkar þurfi að hugsa. Þeir eiga að komast að upplýsingunum sem þeir eru að leita að með sem einföldustum hætti og leiðin á áfangastað á að vera skýr. Í hvert skipti sem einhver þarf að stoppa og hugsa er hann líklegri til að gefast upp og fara eitthvað annað. Höfum hlutina einfalda og skýra.

dmmt example

Less is more

Við dettum rosalega oft í þá gildru að reyna að segja allt á einni síðu. Troðum öllum upplýsingum um vörurnar okkar þar inn og reynum að koma öðrum vörum þangað inn því auðvitað viljum við selja meira. Það sem þetta gerir samt er oftar en ekki að flækja málin fyrir þeim sem heimsækir síðuna. Hann er kannski að leita sér að upplýsingum um eitthvað eitt og ef það er erfitt fyrir hann að finna þær þá er hann líklegri til að loka síðunni og fara annað.

Staðlar eru af hinu góða

Ég hef tilhneigingu til að vilja gera allt upp á nýtt. Finna nýjar leiðir. Vera svo ótrúlega skapandi. En við skulum ekki gleyma því að ef við fáum lánaða staðla sem virka frá öðrum síðum þá erum við að gera notendum auðveldara fyrir að nota okkar síðu vegna þess að þeir þekkja leiðakerfið og veftréð, jafnvel þó þeir hafi ekki heimsótt þig áður.

video_testingTesting, testing, testing

Láttu prófa síðuna þína. Þó þú skiljir hana mjög vel þá þarf ekki endilega að vera að pabbi þinn geri það. Hann eyðir ekki öllum vinnudeginum að lesa hana og yfirfara eins og þú. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að láta prófa allt vegna þess að þú færð ómetanlega innsýn í það hvernig aðrir upplifa síðuna þína.

Það er líka mikill misskilningur að prófin þurfi að vera flókin og dýr. Í raun er nóg að vera með 2 stóla, tölvu og myndavél. Tilgangurinn er einfaldlega sjá það sem notendur sjá þegar þeir nota síðuna þína.

“There’s no such thing as an offline business”
– Aaron Shapiro

Vefurinn er nefnilega eitt mikilvægasta markaðstólið sem við höfum. Hugsaðu þér hvernig þú sjálf/ur leitar þér að upplýsingum um vörur. Ef þú sérð auglýsingu athygli þína, til dæmis frá Intersport, er ekki það fyrsta sem þú gerir að fara á Intersport.is eða Google og skrifa Intersport til að leita þér að frekari upplýsingum.

Ég mæli með “Don’t Make Me Think” fyrir alla þá sem koma á einhvern hátt að heimasíðum. Sama hvort það sé lítið frumkvöðlafyrirtæki sem þarf bara að sýna símanúmerið sitt, flóknar vefverslanir eða bara einyrki með prjónablogg. Ég kann ekki að forrita, hef aldrei opnað InDesign og er nýbúinn að læra fyrir hvað skammstöfunin CSS stendur. Ég lærði samt heilmikið á bókinni sem ég get nýtt við í leik og starfi.

Við þurfum öll að hugsa eins og vefstjórar og þess vegna ættu sem flestir að tileinka sér fróðleik frá mönnum eins og Krug.

Síðasta mánuðinn hef ég orðið háður Spotify. Það er æðislegt að geta nálgast svotil alla tónlist heimsins í fullkomnum gæðum fyrir aðeins 10€ á mánuði. Meira að segja Bubbi Morthens og Sálin hans Jóns míns eru þarna inni. Þar að auki er hægt að hlusta á hana í öllum tækjum, símanum þínum, tölvunni eða spjaldtölvunni – svo lengi sem þú ert í netsambandi. Þú getur notað Spotify þér að kostnaðarlausu en þá færðu auglýsingar á milli laga, auk þess sem þú getur ekki notað snjallsímaforritið eða gert tónlist “available offline”. Þannig ég mæli með tíu evrunum.

Eitt það skemmtilegasta við Spotify er að þú getur tengt forritið við Facebook og þannig fylgst með því sem vinir þínir eru að hlusta á. Einnig geturðu búið til playlista og deilt þeim, búið til “útvarpsstöðvar” eftir tónlistarstefnum og náð þér í öpp.

Svona lítur Spotify út

Svona lítur Spotify út

radioblogclub

Ég hef neytt tónlistar á allan mögulegan máta í gegn um tíðina, allt frá því að kaupa geisladiska, yfir í ólöglegt niðurhal, kaup á MP3 skrám og svo auðvitað streymi á netinu. Hver man eftir RadioBlogClub? RadioBlogClub var fyrsta streymisþjónustan sem maður fór að fikta í. Svo prófaði ég allan fjandann, allt frá Songza yfir í Deezer og svo að sjálfsögðu Grooveshark. Síðan má auðvitað finna alla tónlist heimsins á YouTube.

Síðustu ár hefur krafan frá tónlistarunnendum orðið þannig að þeir vilja geta nálgast sína tónlist hvar sem er og á hvaða tæki sem er, hvort sem um er að ræða tölvu, vinnustöð eða í símanum sínum. Ég leitaði heillengi að almennilegri þjónustu sem bauð upp á þetta, enda er óþolandi að þurfa að vera að færa tónlist á milli úr tölvu með snúru til þess að geta haft hana til dæmis á símanum sínum. Besta lausnin sem ég fann er Google Music. Sá galli er hins vegar á Google Music að þú þarft að hlaða tónlistinni niður, áður en þú hleður henni upp í skýið. Þá ertu með alla þá tónlist sem þú hefur safnað í gegn um tíðina á einum stað og getur nálgast hana hvar sem er.

Auðvitað er eina vitið að tónlistin sé bara geymd á einum stað og þú borgir einfaldlega fyrir að hlusta. Það er líka einfaldast og þá geturðu jafnvel hlustað á tónlist sem þú hefur ekki kynnst áður án þess að stela henni, en þú þarft samt ekki að kaupa plötuna fullu verði. Tónlistarmenn fá svo greitt eftir því hversu mikið tónlist þeirra er spiluð. Þetta er nútíðin og framtíðin.

Nýja Google Music appið

Það er því ekkert skrítið að Google hafi kynnt sína eigin tónlistar-streymisþjónustu í síðustu viku þar sem viðskiptavinum býðst aðgangur að 18 milljónum laga fyrir fast gjald: $7,99 á mánuði. Samhliða þessu fengu bæði Google Music viðmótið og Android appið andlitslyftingu og er orðið svona líka fallegt og appelsínugult.

Miðað við það sem ég hef fundið er þessi nýja þjónusta mjög svipuð Spotify. Hún geymir tónlistina þína, kemur með áhugaverðar ábendingar miðað við þinn tónlistarsmekk og svo geturðu skoðað það sem vinir þínir eru að hlusta á. Reyndar eru það vinir þínir á Google Plus, þannig ekki búast við mikilli virkni þar. Að því ógleymdu að þjónustan virkar ekki á Íslandi nema með smá fiffi.

Samkvæmt internetinu er Apple að vinna í svipaðri þjónustu fyrir sín iTunes, enda á fyrirtækið undir högg að sækja ef fólk hættir að kaupa plötur og streymir öllu.

Alltaf þegar ný þjónusta eða vara kemur á markað og á að keppa við eitthvað aðra vinsæla vöru þá er talað um hana sem hugsanlegan “killer”. Þannig var Kindle Fire titlaður sem hugsanlegur “iPad killer” og það er talað um Samsung Galaxy símana sem “iPhone killer”. Sömuleiðis átti Spotify að ganga frá öðrum þjónustum eins og Pandora þegar þjónustan lenti í Bandaríkjunum.

spotify killer

Samkeppni virkar þannig að nokkrar þjónustur eða vörur keppast um peninga og athygli neytenda. Neytendur velja svo þá þjónustu eða vöru sem hentar þeirra þörfum. Fleiri keppinautar geta líka stækkað markaðinn, þannig að mögulegur viðskiptavinahópur stækkar og allir (flestir) græða. Þannig getur Google Music hentað ákveðnum hópi, á meðan Pandora hentar öðrum og svo koll af kolli. Þá eru örugglega einhverjir þarna úti sem eru fastir í því að hlaða öllu niður í gegn um Torrent eða kaupa ennþá geisladiska. Verði þeim að góðu.

Persónulega nota ég Google Music og Spotify til skiptis. Ég er með allt tónlistarsafnið mitt á Google Music en næstum öll önnur tónlist er á Spotify. Notendaviðmótið þessa stundina er miklu betra á Google Music en úrvalið miklu meira á Spotify. Það getur nefnilega verið truflandi að vera með of mikið úrval, þá getur maður ekki valið hvað maður vill hlusta á. Svo er ég auðvitað Android notandi þannig það er mér eðlislægt að nota Google þjónustur.

Svo getur vel verið að það komi einhver ofurþjónusta á næstu árum sem mun “drepa” allar þessar ofargreindu. Við bíðum bara og sjáum.

P.s. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á Lord of the Rings tilvitnuninni í titlinum.

Á þessu ári komust GIF síður í tísku. Sú síða sem sló hvað mest í gegn var What Should We Call Me. Í kjölfarið spruttu upp nokkrar GIF síður hér á Íslandi, en ætli þær vinsælustu hafi ekki verið eða séu Gulir miðar úr gleðibankanum og The Berglind Festival.

Þessar síður eiga sér það allar sameiginlegt að byrja á Tumblr, enda er Tumblr.com tilvalið apparat til að hýsa svona myndablogg. Það eiga sér allir (flestir) sína uppáhalds Tumblr síður. Uppáhalds íslenska síðan mín þessa stundina er Hverjir voru hvar, en það er aðallega út af Retro Stefson stöntinu sem kom geðveikt vel út fyrir bæði síðuna og hljómsveitina.

En eins og ég segi þá eiga allir sínar uppáhalds Tumblr síður. Þetta eru mínar:

What happens in Media Planningsögur úr birtingardeildum á auglýsingastofum.

Mo Farah Running Away From Things – Mo Farah er breskur hlaupari sem tók gullið í 10 km hlaupinu á Ólympíuleikunum í sumar. Þegar hann kom í mark náðist þessi mynd af honum, sem hefur svo verið notuð aftur og aftur til að sýna hann hlaupandi í burtu frá m.a. grameðlunni í Jurassic Park, Predator og Voldemort svo dæmi séu tekin.

Rich Kids of Instagram – Þar er safnað saman myndum þar sem ríkir krakkar út um allan heim eru að setja inn myndir af sér í einkaþotum, með $100.000 reikning á veitingastað eða í partý að spreyja Dom Perignon kampavíni út um allt. Það getur verið mjög gaman að fylgjast með!

White People Mourning Mitt Romney – Þegar Obama sigraði forsetakosningarnar um daginn urðu stuðningsmenn Mitt Romney að sjálfsögðu gríðarlega sorgmæddir og í kjölfarið var að SJÁLFSÖGÐU komin upp Tumblr síða daginn eftir með myndum af sorgmæddu fólki að “syrgja” Romney. Sumar myndirnar eru alveg ógeðslega fyndnar.

Hver er uppáhalds Tumblr síðan þín? Sendið mér einhverjar góðar í athugasemdum.

Þann 6. nóvember næstkomandi skunda Bandaríkjamenn á kjörstað og velja sér forseta. Um hituna berjast Barack Obama og Mitt Romney. Obama er núverandi forseti (eins og allir ættu að vita) en Mitt Romney er milljónamæringur og fyrr um ríkisstjóri Massachusetts fylkis.

Þessar kosningar hafa mikil áhrif á heimsbyggðina, líkt og allar aðrar kosningar í Bandaríkjunum, enda eru Bandaríkin sennilega valdamesta ríki í heiminum. Árið 2008 bar Obama sigur úr bítum eftir að hafa gersigrað John McCain í sögulegum kosningum og varð þar með fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna embætti forseta. Obama nýtti netið í miklum mæli í aðdraganda kosninganna og tók samfélagsmiðlum opnum örmum. Menn segja að það hafi verið lykillinn að sigri hans. Ég held að það sé að mjög stóru leiti satt. Það og mótframbjóðandinn var vonlaus.

Við Íslendingar og restin af heiminum sitjum á hliðarlínunni og getum ekki haft áhrif á úrslit kosninganna. Við getum hins vegar fylgst með og fyrir þá sem gera það dettur inn allskonar góðgæti á veraldarvefinn. Það vill nefnilega svo til að pólitískar kosningar eru eins konar karnival fyrir allt markaðsfólk og því er rosalega gaman að fylgjast með hvaða útspilum báðir kandídatar og stuðningsmenn þeirra henda á borðið. Mig langar að kíkja á nokkur dæmi. Það er kannski rétt að minnast á að internetið virðist halda með Obama (hver hefði giskað á það??).

Sarah Silverman

Sarah Silverman er þekktur grínisti og harður stuðningsmaður núverandi forseta. Hún var talsmaður hans í síðustu kosningum og kom fram í herferðinni “The Great Schlep” þar sem markmiðið var að fá eldri Gyðinga í Flórída til að kjósa Obama. Nú er hún komin á ferðina í myndbandinu “Get Nana a Gun” þar sem hún hvetur fólk til að fá sér byssuleyfi til að vera með gild skilríki svo það geti kosið. Silverman notar kaldhæðni og bölvar mikið sem er alltaf vinsælt á internetinu og fær þannig mikla dreifingu og hittir beint í mark í ákveðnum markhópum.

Wake the FUCK up!

Hver elskar ekki Samuel L. Jacksson að öskra orðið “FUCK“? Þeir sömu og greiða fyrir “Get Nana a Gun” eru kostendur að þessu myndbandi. Það gengur út á að virkja fólk á ný. Fólk sem safnaði pening og studdi Obama fyrir fjórum árum virðist ekki vera að gera það í sama mæli núna. WTFU er beint til þeirra. Myndbandið er í svipuðum stíl og þau með Sarah Silverman, vinna með kaldhæðni, beittan húmor og blótsyrði. Alveg tilvalið til að virkja internetkynslóðina.

The Patriot Game

Það er svolítið gaman að fylgjast með ræðunum hjá forsetaframbjóðendunum. Ef þú rýnir í stikkorðin þá nota þeir sömu áherslupunktana og eru í raun að keyra á sömu frösunum. Í “The Patriot Game” eru búið að taka hluta úr ræðum þeirra og stilla upp hlið við hlið þar sem frambjóðendurnir keppast um stig í flokkum eins og “flag power”, “heart power” og “dollar power”. Hver stendur uppi sem sigurvegari?

Eins og ég sagði áðan þá virðist internetið halda með Obama. Hann hefur verið duglegur á samfélagsmiðlum, tók m.a. við spurningum í gegn um Reddit, heimsótti Facebook, hélt Google Hangout auk þess að vera með prófíla á öllum samfélagsmiðlum sem virðast vera til – meira að segja Myspace!

En greyið Mitt Romney er líka bara svo duglegur að gefa færi á sér! Það byrjaði nú ekki vel fyrir hann þegar Clint Eastwood tók “Empty chair” ræðuna sem átti að vera til stuðnings Romney. Þá lak út myndband af honum þar sem hann sakaði 47% þjóðarinnar um að lifa á ríkisstjórninni, internetið fílaði það ekki. Að lokum baðst hann afsökunar og sagðist hafa “said something completely wrong”. Það virkaði nú ekki betur en að hann er búinn að eigna sér þessi tvö orð. Prófaðu að slá inn “completely wrong” á Google og skoða myndirnar. Eru þær svona?

Það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með kosningunum þann 6. nóvember, því sama hver vinnur þá mun það hafa ótrúlega mikil áhrif á heimsbyggðina. En þangað til þá fylgjumst við með efninu sem fer á netið og brosum að því sem við getum brosað að.

Veit einhver um góð stuðningsmyndbönd fyrir Mitt Romney? Eða fleiri góð fyrir Obama?