Archive

Monthly Archives: September 2014

plöturtÉg gef nú ekki mikið fyrir keðjustatusa á Facebook en síðustu daga hefur samt einn skemmtilegur verið að ganga. Fólk á að nefna 10 plötur sem hafa haft áhrif á mann á einhvern hátt. Mig langaði hins vegar til að taka þetta skrefinu lengra og segja aðeins hvenær og af hverju hver plata snerti mig á þann hátt sem hún gerði. Mig langar til að þakka Rúnu frænku minni fyrir að tagga mig í sína færslu.

Að velja 10 plötur er nú ekki auðvelt verk en ég er samt nokkurn veginn búinn að koma mér niður á listann.

Hér kemur listinn, í engri sérstakri röð.

Quarashi – Xeinezes

Ó elsku Quarashi. Þetta var eiginlega fyrsta hljómsveitin sem ég gat kallað uppáhaldshljómsveitina mína. Ég man að ég keypti þennan geisladisk og spilaði hann aftur og aftur og aftur í Aiwa ferðageislaspilaranum mínum. Hefur því miður ekki elst neitt sérstaklega vel og verið lítið spilaður upp á síðkastið. En ást mín á Xeinezes varð meira að segja til þess að ég tók upp tónlistarmyndband við lagið “Tarfur” í kvikmynda-valáfanga í Madison High School í New Jersey. Geri aðrir betur!

Weezer – Blue album

Þetta er uppáhaldsplatan mín í öllum heiminum.  Ég byrjaði að hlusta á Weezer þegar ég bjó í Bandaríkjunum en samband okkar fór upp á annað stig á meðan ég var í menntaskóla. Ég er með geisladiskinn í bílnum mínum og spila hann oft. Og í hvert einasta skipti sing ég hástöfum “SAY IT AIN’T SOOOO”.

Nirvana – Unplugged in New York

Það var mjög erfitt, en ég valdi Unplugged in New York framyfir Nevermind. Ég held að ástæðan sé aðallega sú að ég hlustaði svo miklu miklu meira á Unplugged. Þessi plata er einstök og eiginlega frábær í alla staði og hjálpaði mér mikið þegar ég var að eiga við þau ímynduðu vandamál sem allir unglingar glíma við. Pródúseringin á þessum tónleikum er frábær, lagavalið hjá Nirvana er dimmt og drungalegt og flutningur Kurt Cobain er svakalega tregafullur en geðveikur.

LCD Soundsystem – Sound of Silver

Allt frá því ég heyrði fyrst í James Murphy og félögum þá hefur hann verið einn mínum allra uppáhalds tónlistarmönnum. Þessi plata er algjört meistaraverk. Það eru öll lögin á henni góð. Allt frá “North American Scum”, til hins hugljúfa “New York I Love You But You’re Bringing Me Down” . Það virðist einkenna góðar plötur að eftir því sem maður hlustar meira á þær þá eignast maður alltaf ný uppáhaldslög. Hjá mér var það fyrst  “North American Scum”, svo “All My Friends”, “Sound of Silver” o.s.frv. En ég er nokkuð viss um að “Someone Great” sé bara eitt fallegasta lag sem ég hef heyrt. Hlustið á textann.

Kanye West – My dark twisted fantasy

Besta plata sjálfhverfasta manns í heimi. Toppaði lista hjá mörgum gagnrýnendum fyrir árið 2010. Ég hef bara hlustað á þessa plötu í svo mörgum aðstæðum: í partý, úti að hlaupa, í sólbaði, að læra, í vinnunni. Það er eins og hún passi við allt.

Tilbury – Exorcise

Ég verð að viðurkenna að mér finnst í raun ótrúlegt að þessi hljómsveit og þessi plata hafi ekki fengið enn meiri umfjöllun. Hún er svo rosalega melódísk og er einmitt þannig að öll lögin eru góð. Í raun kom hún inn í líf mitt eins og þruma úr heiðskýru lofti. Ég hafði aldrei heyrt um Tilbury og hvað þá Þormóð Dagsson. En hún sigraði allavega árið 2012, var valin plata ársins (af mér). Þeir gáfu út aðra plötu í fyrra sem heitir Northern Comfort og sem er líka fantagóð.

Passion Pit – Manners

Þessi plata átti sumarið 2009. Ég rak verslun á Laugaveginum þetta sumar, veðrið var geðveikt, ég var á ferð og flugi allt sumarið og platan var spiluð á repeat allan tímann. Ég var til dæmis svo hrifinn af laginu “Moth’s Wings” að ég fór að sjá mynd í bíó BARA af því það var notað í trailernum! Í hvert skipti sem ég heyri lag af henni þá fæ ég svona ánægjutilfinningu í magann

Eminem – Marshall Mathers

Það var ekki hægt að sleppa þessari. Kannski ekki besta platan á listanum og hún er alls ekki mikið spiluð í dag. En ef það á að gera lista með plötum sem hafa haft áhrif á mig í gegn um tíðina er ekki hægt að sleppa Marshall Mathers með Eminem. Ég var nýfluttur til Bandaríkjanna og “The Real Slim Shady” var að tröllríða MTV. Ég man ég fór á Napster (já Napster) og sótti öll lögin hans. Svo voru skrifaðir diskar. Ég man eftir að hafa verið að ræða textana við mömmu og hún var ekki hrifin, en studdi samt soninn sem var loksins að spá í einhverskonar ljóðlist. En platan er sjúk, skrifuð af sjúkum manni eins og lagið “Kim” gefur til kynna.

The Killers – Hot fuss

Þessi er bara í svo miklu uppáhaldi. Sennilega ein besta fyrsta plata í heimi og leiðinlegt hvað The Killers hafa aldrei náð sömu hæðum að mínu mati. Þetta er náttúrulega eðal popprokk og átti svo sannarlega upp á pallborðið á útvarpsstöðvum á árunum 2004-2005. Þó ég hafi straujað í gegn um smáskífurnar þegar platan kom út var það ekki fyrr en svona 1-2 árum síðar sem platan small hjá mér. “Glamorous Indie Rock And Roll”, “Smile Like You Mean It” og “Change Your Mind” eru til dæmis allt frábær lög líka en fengu á sínum tíma litla spilun og athygli.

The Postal Service – Give up

Þessi plata á sérstakan stað í hjarta mér. Þó hún hafi komið út árið 2003 fór hún víst mjög hægt af stað og sló veit ég ekki í gegn fyrr en löngu seinna. Sjálfur datt ég inn á hana í 4. bekk í MA. Hér er um að ræða fallegt indie popp í rólegri kantinum. Ég held það séu fá lög í heiminum sem ég hef hlustað jafn oft á í gegnum tíðina og “Such Great Heights”, en það er bara eitt af 10 frábærum lögum á plötunni.