Archive

Monthly Archives: December 2012

Ég hef ákveðið að brjóta topp 5 regluna. Mér finnst árið 2012 hafa verið það gott í íslenskri tónlist að þær plötur sem hafa komið út eiga í fullu tré við þær erlendu. Það var gríðarlega erfitt að setja saman þennan lista enda hef ég a) sennilega aldrei hlustað jafn mikið á tónlist á þessu ári og b) man ég ekki eftir öðru eins tónlistarári. Það var rosalega erfitt að skilja eftir nokkrar plötur eins og t.d.  Jack White – Blunderbuss, Hot Chip – In Our Heads, Retro Stefson – Retro Stefson, Beach House – Bloom, Air – Le Voyage Dans la Lune og Ojba Rasta – Ojba Rasta.

En endanlegur topp 10 listi er svona:

10. Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar – Þar sem himinn ber við haf

jónasÞriðja plata Jónasar Sig er æðisleg. Hún er unnin með Lúðrasveit Þorlákshafnar, en Jónas steig sín fyrstu skref í tónlist með lúðrasveitinni. Ég fór á útgáfutónleikana sem voru haldnir í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn og sú upplifun var æðisleg. Tónlistin óaðfinnanleg og það er líka alltaf gaman á tónleikum með svona stórri hljómsveit.

Textarnir á plötunni eru dimmir og það eins og Jónas sé að gera upp eitthvað úr fortíðinni. Lög eins og “Fortíðarþrá” og “Mannstu þennan dag” endurspegla þetta. Eins sækir hann mikinn innblástur til hafsins og lífið í litlu þorpi við ströndina. Myndlíkingarnar koma líka fram í þessum óði til hafsins.

Jónas Sigurðsson er ekki allra, en hann hefur náð til mín síðustu mánuði.

9. Half Moon Run – Dark Eyes

Album ArtIceland Airwaves hátíðin er frekar ríkjandi á þessum topplista í ár. Fyrsta Airwaves platan á listanum er Dark Eyes eftir kanadísku sveitina Half Moon Run. Half Moon Run var sú hljómsveit sem stóð mest upp úr eftir hátíðina í ár. Ég sá þá tvisvar, í bæði skiptin á off-venue, enda voru þeir að spila á sama tíma og The Vaccines þegar aðal tónleikarnir þeirra voru. Dark Eyes er fyrsta plata sveitarinnar og hún er gríðarvel heppnuð. Half Moon Run spilar hlustendavæna popptónlist en meðlimir í sveitinni eru gríðarlega fjölhæfir. Til dæmis spilar einn meðlimurinn á hljómborð og trommur á sama tíma. Ég mæli með þessari sveit og vona að hún komi aftur á næsta ári.

8. The Killers – Battle Born

The_Killers_-_Battle_BornThe Killers er sveit sem ég var eiginlega búin að gefast upp á. Fyrsta platan þeirra, Hot Fuss, kom útárið 2004 og er ein af mínum allra uppáhalds plötum. Í kjölfarið fylgdu plöturnar Sam’s Town og Day and Age. Þær áttu sína slagara en náðu mér aldrei almennilega. Árið 2010 tóku meðlimir sér árs frí frá sveitinni og það virðist svo sannarlega hafa gert þeim gott.

Battle Born er gríðarlega falleg og heilsteypt plata. Hún fjallar um mikið um ástina og það að vera í burtu frá þeim sem þér þykir vænt um. Lögin “Runaways” og “Miss Atomic Bomb” hafa fengið spilum á öllum helstu útvarpsstöðvum og verið vinsæl. Mín uppáhalds af þessari plötu eru hins vegar “Be Still” og “Here With Me”.

Næsta sumar munu Killers spila á Wembley. Er einhver til í ferð til London í júní?

7. Japandroids – Celebration Rock

220px-Celebration_RockÞessi plata er æðisleg. Japandroids er samansett af 2 mönnum: Brian King og David Prowse. Uppstillingin er einföld – trommur og rafmagnsgítar í forgrunni. Celebration Rock er önnur plata sveitarinnar og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Hún inniheldur 8 eldhress lög sem eru hvert öðru kröftugra. Um daginn var ég úti að labba um Kópavoginn og stóð mig að því að syngja upphátt með. Japandroids kom og spilaði á Gauknum í ágúst og ég græt það ennþá að hafa ekki verið búinn að uppgötva þá.

6. Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ásgeir TraustiFyrsta plata Ásgeirs Trausta er frábær gripur sem hefur farið sigurför um landið. Lögin “Sumargestur” og “Leyndarmál” fóru eins og eldur í sinu um landann og allt í einu var þessi strákur sem enginn vissi hver var í maí orðinn að íslenskri súperstjörnu. Platan Dýrð í dauðaþögn kom út í október, ef mér skjátlast ekki, og hefur selst í yfir 20.000 eintökum. Það sem kom mér á óvart er að af öllum þessum seldu plötum eru aðeins um 1500 stk seld í á netinu. Kaupir fólk semsagt ennþá geisladiska?

Lögin eru samin af Ásgeiri sjálfum en textarnir eru samdir af Einari föður hans. Þetta eru fallegir textar við fallegar melódíur. Eins og áður segir hafa lögin “Leyndarmál” og “Sumargestur” verið mest spiluð, en uppáhalds lagið mitt hefur frá byrjun verið lag númer 6 – “Nýfallið regn”.

5. Dirty Projectors – Swing Lo Magellan

swing lo magellanÖnnur Airwaves platan á listanum er Swing Lo Magellan með New York sveitinni Dirty Projectors. Þetta var ein fyrsta hljómsveit þessarar hátíðar sem ég kynnti mér. Þau stóðu fyllilega undir væntingum og héldu flotta tónleika í Listasafninu.

Swing Lo Magellan er sjötta plata sveitarinnar og hefur hún fallið vel í kramið hjá gagnrýnendum. Það er frekar erfitt að lýsa tónlistinni, en þetta flokkast sem indý rokk. Platan er róleg og einkennist af fallegum melódíum. Það sem hreyfir helst við mér við hana er fallegur söngur hjá Amber Coffman, aðalsöngkonu sveitarinnar, en þau lög sem hún syngur finnst mér skara fram úr og þá sérstaklega lagið “The Socialites”.

4. Poliça– Give You The Ghost

Polica Give You The GhostÞessi plata flokkast sem Airwaves plata, þó svo að sveitin hafi hætt við að koma til Íslands aðeins nokkrum vikum áður en hátiðin byrjaði. Sem var einmitt mjög leiðinlegt því ég var búinn að hlakka mikið til að sjá hana.

Poliça er elektró-indý hljómsveit frá Minneapolis. Aðal vítamínssprauturnar í henni eru Ryan Olson og Channy Leaneagh. Give You The Ghost er fyrsta plata sveitarinnar og er gríðarlega vel heppnuð. Það sem stendur upp úr er annars vegar söngurinn hjá Leaneagh og svo trommurnar á bakvið, en ef grannt er hlustað má heyra að á plötunni eru tveir trommuleikarar sem gefa plötunni gríðarlega þykkt “beat”. Bestu lögin að mín mati eru “Amongster”, “Wandering Star” og “Lay Your Cards Out”

3. Passion Pit – Gossamer

GossamerÞetta er sú plata sem ég var búinn að vera sem spenntastur fyrir á þessu ári. Löngu áður en hún kom út var ég búinn að merkja dagsetninguna inn í Outlook hjá mér og keypti hana sama dag og hún kom út. Fyrsta plata Passion Pit, Manners, er ein af mínum uppáhalds eins og ég lýsti í “Topp 5 Comeback ársins” og því voru væntingarnar ekki litlar.

Gossamer stendur fyllilega undir þeim væntingum. Ég veit ekki hvað það er en ég elska þennan hljóm sem þeir hafa náð að tileinka sér. Platan hjálpaði mér mikið þegar ég var að hlaupa í sumar og ég þurfti oft að halda aftur af mér að dansa ekki á meðan.

Þrátt fyrir að Gossamer gríðarlega hress og dansvæn plata þá má greina dimman undirtón í textum plötunnar. Michael Angelakos hefur lengi glímt við þunglyndi og það skín oft í gegn í textunum. Bestu dæmin um þetta eru lög eins og “Take A Walk” og “It’s Not My Fault, I’m Happy”.

Það vill gerast með góðar plötur að maður eignast mörg uppáhaldslög á henni og skiptir reglulega um, fram og til baka. Á Gossamer var “Take A Walk” fyrst í uppáhaldi, svo “Hideaway” og svo “It’s Not My Fault, I’m Happy”.

2. I Break Horses – Hearts

I-Break-Horses-Hearts-SMALL1-500x500Fjórða og síðasta Airwaves platan á þessum lista. Hún fær að vera með á þessum lista þrátt fyrir að hafa komið út árið 2011, þar sem hún fékk ekki almennilega athygli (hjá mér a.m.k.) fyrr en á þessu ári. I Break Horses er elektróband frá Svíþjóð og það er gaman að segja frá því að Maria Linden og Frederick Balck kynntust á spjallborði þar sem fólk hittist og ræðir um sjúdóma. Þau segjast bæði vera rosalega bakteríufælin (e. hypochondriacs) og því tilvalið að nota þetta sameiginlega áhugamál og búa til tónlist.

Hearts er fyrsta plata sveitarinnar og hún er gríðarlega þétt. Ég hef rosalega mikið verið að fíla svona elektró-gítar-riff síðustu mánuði og þessi plata smellpassar inn í þann flokk. Hún er gríðarlega jöfn yfir og heldur sig við sama hljóminn alla leið. Þau lög sem standa helst upp úr eru “Winter Beats”, “I Kill Your Love, Baby”, “Cancer” og “Load Your Eyes”.

Ég var svo spenntur að sjá I Break Horses á Airwaves í ár að ég skyldi alla vini mína eftir í Hörpunni og hljóp einn yfir í Iðnó að sjá þau. Þau kláruðu settið og gott betur. Rosalega flott hljómsveit.

1. Tilbury – Exorcise

Besta plata ársins er Exorcise með hinum alíslenska Þormóði Dagssyni og félögum í hljómsveitinni Tilbury.

Exorcise er ein af þessum plötum sem þú vissir ekkert um, hafðir engar væntingar til og hún slær þig svo fast utanundir að það er ekki einu sinni fyndið. Það eru ÖLL lögin góð á þessari plötu. Allt frá fyrsta laginu, hinu létta “Tenderloin” yfir í aðeins þyngra “Drama” og píanóglamrandi “Picture”. Ef ég lýt yfir mest spiluðu plötuna í Google Music hjá mér trónir Exorcise á toppnum, ekki bara á þessu ári, heldur síðan ég stofnaði þjónustuna.

Það er ekkert meira hægt að segja um þenna grip heldur en KAUPTU hann núna!

Þá er listamaníu ársins lokið. Ertu sammála, ósammála eða kannski alveg sama?

Gleðileg nýárskveðja.
Hjalti

Jæja þá er komið að vonbrigðum árins í tónlist. Í flestum eða öllum tilvikum er hér um að ræða plötur sem ég hef beðið lengi eftir og hafa ekki staðið undir þeim væntingum sem ég gerði til þeirra. Í mörgum tilvikum eru það samt fínar plötur sem valda vonbrigðum. Í þeim tilvikum held ég að það sé meira að sakast við mig og mínar væntingar en tónlistarmennina.

1. Sigur Rós – Valtari

valtariJá fyrsta plata á blað er fimmta breiðskífa Sigur Rósar, sú leiðinlegasta til þessa. Ég og margir aðrið voru búnir að bíða eftir þessari plötu lengi og hún olli fullkomnum vonbrigðum. Engu að síður var hún áhugaverður viðsnúningur frá hinni poppuðu Með suð í eyrunum við spilum endalaust. Ég er alltaf fylgjandi því þegar hljómsveitir taka sénsa og breyta um stíl. Í mörgum tilvikum verður það til þess að fyrsti gripurinn í nýja stílnum er algjör hörmung en svo gæti orðið úr áhugaverð samsuða.

Lagið “Varúð” er samt ágætt og hljómaði vel á tónleikunum í Laugardalshöll.

2. The Shins – Port of Morro

port of mororwHér er plata sem ég var búinn að bíða eftir í 5 ár. Indý-kóngarnir í The Shins hafa alltaf átt sérstakan stað í hjarta mínu eftir að ég horfði á myndina Garden State. Fyrir þá sem hafa ekki séð þá mynd, vinsamlegast bætið úr því núna. Fyrsta platan þeirra, Oh Inverted World var alveg frábær og þriðja plata þeirra Wincing the Night Away mjög góð sömuleiðis. James Mercer, aðalforsprakki The Shins hefur líka verið duglegur í augaverkefnum og gaf t.d. út frábæra plötu með Danger Mouse sem hljómsveitin Broken Bells.

Ég var því gríðarlega spenntur fyrir fjórðu plötu The Shins, sem ég hafði beðið eftir í 5 ár. Lagið “Simple Song” fór í spilun nokkru áður og mér fannst það ágætt. Daginn sem platan kom út var hún keypt á Tónlist.is og byrjað að hlusta. Strax frá fyrstu hlustun var hún ekki að gera sig. Það var eitthvað að sem ég gat ekki alveg bent á. Svo kom það, ég fór að heyra lögin af henni á Bylgjunni. Shins eru indý-kóngar Bandaríkjanna. Ef lögin eru orðin það hlustendavæn að Bylgjan getur spilað þau þá er eitthvað í gangi. Kannski er ég bara snobbaður…

3. Mumford & Sons – Babel

babelHér er dæmi um plötu sem ég var ekki viss hvort að ætti heima á listanum yfir vonbrigði ársins. Ég ákvað samt að leyfa þeim að vera með. Það getur verið rosalega erfitt að fylgja eftir frábærri fyrstu plötu. Árið 2010 gáfu Mumford & Sons út þá stórkostlegu plötu Sigh No More. Þegar þú gefur út 10 laga frumburð þar sem öll lögin eru góð þá er erfitt að toppa það. Babel er ágætis plata og er á lista hjá mörgum yfir betri plötur ársins. Hún telur sem vonbrigði ársins hjá mér, en ætli það sé ekki mér og mínum óraunhæfu væntingum að kenna.

4. Muse – 2nd Law

muse 2nd lawÉg held að þetta sé ein leiðinlegasta plata ársins. Hljómurinn á plötunni er út um allt. Það glittir í gamla Muse í lögum eins og “Supremacy” og “Survival” en svo virðast vera áhrif allsstaðar að í öðrum lögum. Það má heyra smá U2 og Queen áhrif, en svo má líka heyra eitthvað af DJ Tiesto í lögum eins og “Follow Me”. Greinilega mikil tilraunastarfsemi í gangi þarna hjá Muse flokknum.

En þrátt fyrir að platan í heildina frekar slæm, þá tek ég þessum tilraunum fagnandi. Ég var orðinn gríðarlega þreyttur á þessu heimsendagauli í Matthew Bellamy og félögum og fannst hljómurinn hjá þeim staðnaður. The Resistance, síðasta plata sveitarinnar, kveikti til dæmis ekkert í mér. Þannig ég vona að tilraunastarfseminni ljúki í frábærri næstu plötu. Ég býð allavega spenntur!

Leyfum Ólympíulaginu sjálfu að fylgja með, enda einn af ljósu punktum plötunnar.

5. Titus Andronicus – Local Business

Local businessHér er plata sem náði ekki að heilla mig. Ég kynntist Titus Andronicus í fyrra og lofaði síðustu plötu þeirra, The Monitor, í hástert þegar ég var að telja upp Topp 5 “Too late” uppgötvanir síðasta árs.

Á Local Business er eins og allur krafturinn sem einkenndi fyrri plötuna sé horfinn. Þetta er engu að síður frekar hresst pönk en það er eins og það vanti einhvern neista. Það er allavega ekkert sem hvetur mann til að hlusta aftur og aftur eins og hin platan gerði.

Jæja nú er ekki nema vika eftir af árinu. Flestir miðlar eru búnir að birta sína topplista fyrir árið þannig ég held það sé besta að ég geri það líka. Í fyrra birti ég 4 lista: Topp 5 vonbrigðin 2011, Topp 5  “Too late” uppgötvanir, Topp 5 íslenskar plötur og Topp 5 erlendar plötur.

Listarnir verða með svipuðu sniði í ár, fyrir utan að Topp 5 “Too late” uppgötvanir fá að víkja fyrir Topp 5 Comeback ársins. Sem er einmitt þessi pistlill.

Árið 2012 hefur verið all rosalegt tónlistarlega séð. Ég held ég hafi aldrei hlustað eins mikið á tónlist og einmitt á þessu ári. Ég var að fara í gegn um My Music möppuna í tölvunni minni og hún taldi u.þ.b. 60 plötur! Þetta eru bæði nýjar plötur sem komu út á þessu ári, hljómsveitir sem maður hefur verið að uppgötva og svo eitthvað sem vantaði í safnið inn á milli.

Á hverju ári þá reynir maður að kynnast eins mikið af nýrri tónlist og maður getur. Þess á milli eru alltaf plötur sem maður hlustar reglulega á. Svo eru alltaf einhverjar plötur sem dúkka upp og maður hlustar óvenjulega mikið á. Stundum er það af því þú hittir einhvern sem minnti þig á ákveðið lag, þú heyrðir lag í bíómynd sem dró þig að plötunni og stundum er bara engin leið til að útskýra það. Þessi listi fjallar um þeir plötur sem ég hef einhverntíman hlustað á og skutu sér aftur inn á sjónarsviðið hjá mér á árinu 2012. Listinn er ekki í neinni sérstakri röð.

1. Passion Pit – Manners

Ég hef alltaf hlustað reglulega á Passion Pit. Þeir gáfu út plötuna Gossamer núna í júlí og ég reikna með að það sé ástæðan að Manners fór aftur í spilun. Þetta er plata sem ég hef verið rosalega hrifinn af síðan sumarið 2009. Passion Pit er frá Bandaríkjunum og spilar einhverskonar indí elektró popp sem er alveg hreint frábært. Í stað þess að fjölyrða meira um það ætla ég að láta lagið “Moths Wings” tala sínu máli.

2. Hot Hot Heat – Elevator

Hér er eitt fullkomlega random comeback. Hot Hot Heat var frekar vinsæl hljómsveit þegar ég var í menntaskóla. Myndbandið við lagið “Bandages” var til dæmis alltaf á Skjá Einum. Svo kom út platan Elevator árið 2005, sem var með slögurum eins og “Middle of Nowhere” og “Goodnight Goodnight”. Ég veit ekki hvers vegna þessi plata komst aftur inn á radarinn hjá mér enda skiptir það engu máli. Hot Hot Heat, fyrir þá sem ekki vita, spila hresst gítarrokk. Meðfylgjandi er lagið “Middle of Nowhere”.

3. The Postal Service – Give up

Þessi plata hreinlega öskrar 4. bekkur í MA. Sem er frekar fyndið vegna þess að hún kom út árið 2003, þegar ég var í 1. bekk. The Postal Service stendur saman af 2 mönnum, Ben Gibbard (söngvaranum úr Death Cab for Cutie) og Jimmy Tamborello. Í sumar var ég að þrífa eldhúsið og fékk allt í einu þörf fyrir að hlusta á “Such Great Heights” og í kjölfarið var platan Give Up á repeat hjá mér í nokkrar vikur. Give Up var eina platan sem Postal Service gaf út og hún er algjört meistaraverk.  Lagið sem fylgir með heitir “Nothing Better”.

4. The Knife – Silent Shout

Í vor vorum við að horfa á auglýsingu frá Sony í vinnunni þar sem “Heartbeats” með Jose Gonzalez er undir. Í kjölfarið fórum við að tala um útgáfuna af laginu sem The Knife sungu. Í kjölfarið var platan Silent Shout nefnd sem ein besta elektróníska plata sem hefur verið gefin út. Ég hafði ekki hlustað á The Knife í nokkur ár og fannst tilvalið að rifja upp kynni mín af sænsku systkinunum. Þessi plata kom út árið 2006 og er alveg tryllt. Þau hafa ekki gert plötu síðan en samkvæmt nýjustu fréttum kemur út ný plata í apríl á þessu ári. Lagið “We Share Our Mother’s Health” er inni á öllum mínum partýplaylistum.

5. LCD Soundsystem – Sound of Silver

LCD Soundsystem er uppáhaldshljómsveitin mín. Ég kynntist fyrstu plötunni lauslega í menntaskóla, en varð svo ástfanginn af henni árið 2008 þegar ég fór að hlusta á Sound of Silver. Þriðja platan This is Happening fylgdi mér svo í undirbúningnum fyrir hálfmaraþonið sem ég hljóp sumarið 2010. Ég græt það reglulega að hún sé hætt. Sound of Silver fór í óeðlilega mikla spilun hjá mér í haust eftir að ég horfði á myndina Shut Up and Play the Hits sem er heimildarmynd um lokatónleikana sem James Murphy og félagar héldu fyrir fullu húsi í Madison Square Garden. Myndin er alveg frábær og ég hvet alla til að sjá hana.

Hvað Sound of Silver varðar þá er það besta platan sem LCD Soundsystem gerði. Hún er svo rosalega persónuleg fyrir lagahöfundinn og það skín í gegn í öllum textum. Það eru öll 9 lögin á henni frábær, en “All My Friends” og “Someone Great” eru í sérstöku uppáhaldi.

Jæja þá er fyrsti listinn kominn í hús. Restin ætti að detta inn á milli jóla og nýárs. Fylgist með!

Það er mjög fyndið þegar maður bítur eitthvað í sig. Stundum myndar maður sér skoðun á einhverju og svo heldur maður eins fast í hana eins og maður getur til þess að lenda ekki í þversögn við sjálfan sig, jafnvel þó maður sé löngu búinn að skipta um skoðun.

retro stefson 2

Ég hef alltaf verið hrifinn af Retro Stefson. Þeir sem hafa farið á tónleika með sveitinni vita að það er ekki hægt að standa kyrr, maður verður hreinlega að dansa. Þau eru svakalega hress og syngja á íslensku, ensku og spænsku – allt í bland. Plöturnar þeirra hafa reyndar aldrei kveikt neitt sérstaklega í mér, enda er þetta hljómsveit sem plummar sig lang best á sviði, tala nú ekki um þegar “Killing in the name of” riffið hljómar inn á milli í lögunum hjá þeim.

Þegar nýja platan með Retro Stefson kom út þá fussaði ég og sveiaði. Ég sagði að mér þætti þetta hundleiðinleg plata, langaði ekkert til að hlusta á hana, Retro Stefson væru bara skemmtileg live, fyrsta smáskífan Qween væri ekkert spes, ég saknaði gamla hljómsins, skyldi ekki af hverju allir væru að missa sig yfir þessu Glow myndbandi og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo gerðist eitthvað.

Ég held það hafi gerst með nýjustu smáskífunni, Julia. Allt í einu var ég farinn að syngja það lag þegar ég mætti í vinnuna á morgun, enda er Ómar á X-inu frekar duglegur við að spila það. Það lag opnaði dyrnar að plötunni. Ég er búinn að vera með hana á repeat núna síðustu 2 daga og ég er alveg háður því platan er alveg frábær!

Hljómurinn er orðinn þroskaðri og búið er að búa til sterka blöndu af suðrænni danstónlist frá Stefánssonum og elektrópoppi frá Hermigervli. Textarnir eru líka þroskaðri, fjalla um stelpur (syngja ekki allir alvöru listamenn um stelpur) og ástina í lögum eins og Qween og Miss Nobody og svo um það að verða fullorðinn, t.d. í laginu Time. Þá má líka heyra gamla Retro Stefson hljóma í lögum eins og (o)Kami.

Umslagið framan á plötunni er rosalega flott. Myndirnar eru teknar af Ara Magg og hannaðar af Halla Civelek. Platan er seld í 7 mismunandi eintökum, með mynd af hverjum meðlimi hljómsveitarinnar. Allar myndirnar fylgja með þegar þú kaupir plötuna, en þú getur þá skipt um mynd ef þú verður leiður á einni. Allar myndirnar má skoða á Facebook síðu hljómsveitarinnar.

Mig langar að biðja ykkur afsökunar á því að hafa talað niður plötuna ykkar í fyrstu. Eftir að hafa hlustað á hana núna síðustu daga þá er þar kominn sterkur kandídat á topplista ársins. Til hamingju með frábæra plötu.

Sjáumst 30. desember!

Prófin eru byrjuð hjá flestum ef ekki öllum háskólanemum. Sjálfur er ég bara að fara í tvö próf, en þau hitta bæði á sama daginn. Ýkt óheppinn.

En í öllum lestrinum þá datt ég inn á frekar áhugaverða glæru úr áfanganum Vörumerkjastjórnun sem snéri að því hvernig á að snúa sér þegar velja á nafn á fyrirtæki eða vörumerki.

glæra

Þetta eru semsagt viðmið þegar kemur að því að velja nöfn. Ef þú fylgir þessum einföldu viðmiðum þá ættirðu að finna gullið nafn sem tryggir þér árangur. Þú getur haft nafnið lýsandi fyrir starfsemina, leiðandi þar sem dregin er fram ákveðið virði eða virkni, haft það samsett úr tveimur orðum – oft óvenjulegum, klassísk og byggð á latínu eða grísku, notað raunveruleg orð sem hafa enga augljósa tengingu við fyrirtækið eða sett saman falleg orð sem hafa auglósa merkingu.

Já kæri lesandi, það er von að þú klórir þér í hausnum. Samkvæmt fræðunum getur nafnið í raun hvað sem þú vilt og það er engin raunverulegt ferli sem þú þarft að fara í gegn um til að ákveða nafn.  Það eina sem þarf að passa er að það sé auðvelt að muna það.

Mitt ráð er að velja nokkur nöfn sem þér finnst passa vel við þína hugmynd. Svo skalltu opna netvafra (browser), opna Google og slá inn þau nöfn sem þú ert að skoða. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef þú hyggst fara eitthvað út fyrir landsteinana. Ástæðan fyrir því að það er mikilvægt að gúggla er:

1. Til að athuga hvort einhver annar sé að nota nafnið.
2. Þú vilt vita hvort það sé einhver slæm tenging sé við orðið sem þú valdir. Ef þú ætlaðir að skýra fyrirtækið þitt Santorum til dæmis þá myndirðu annað hvort fá upp upplýsingar um fyrrum forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum, eða upplýsingar um eitthvað annað mjög slæmt. Prófaðu bara að slá “Santorum” inn í Google.
3.  Þú vilt líka vita hvort orðið þýði eitthvað neikvætt á öðrum tungumálum. Chevrolet Nova náði til dæmis aldrei vinsældum í Suður-Ameríku vegna þess að “no va” þýðir “gengur ekki”. Það vill enginn kaupa bíl sem gengur ekki

Besta dæmi í heiminum um mann sem hefði átt að nota Google áður en nafnspjöldin voru prentuð er auðvitað hann Tobias Funke úr Arrested Development. Hann var bæði menntaður “analysist” og “therapist”. Þegar þú setur þessi 2 orð saman kemur út “analrapist”. Þarna hefði nú verið gott að gúggla áður en farið var af stað!