Archive

Monthly Archives: June 2014

Ahh alltaf gaman að orðaleikjum.

Tónlist og sumarið eru svo nátengd að það er ekki fyndið. Á sumrin eru allir léttir. Fólk fer í frí, grillar, heldur partý, fer í útilegu og ferðast innanlands og utan. Hvert einasta sumar er fullt af sínum slögurum en svo eru líka til sumarplötur. Þær eru mismunandi hjá hverjum og einum og yfirleitt er það svona í lok sumarsins sem maður horfir til baka og getur sagt “þetta var sumarplatan í ár.

Hjá mér eru sumarplöturnar yfirleitt dansvæn diskótónlist. Elektóskotið indýpopp. Bróðir minn kallar mig hipster, ég ætti kannski að skipta yfir í sojalatte.

This is happening2010 – This Is Happening – LCD Soundsystem

Hljómsveitin LCD Soundsystem hefur verið ein af mínum uppáhalds síðan ég var í menntaskóla. This Is Happening er þriðja og síðasta plata sveitarinnar sem gaf mér það í 24 ára afmælisgjöf að leggja upp laupana. Síðustu tónleikarnir þeirra fóru í alvörunni fram á 24. afmælisdaginn minn. Þetta sumar bjó ég á Akureyri, vann í Símabúðinni á Glerártorgi og æfði af kappi (ekkert nógu mikið samt) fyrir mitt fyrsta hálfmaraþon. Lög eins og “Drunk Girls”, “I Can Change” og “You Wanted a Hit” voru sungin á meðan ég hljóp veginn upp í Hlíðarfjall og um götur Þorpsins. Alveg frábær plata!

The_Naked_and_Famous_-_Passive_Me,_Aggressive_You2011 – Passive Me, Aggressive You – The Naked and Famous

Þessi hljómsveit frá Nýja Sjálandi var spiluð aftur og aftur sumarið 2011. Fyrsta sumarið mitt í markaðsdeild. Og reyndar alveg rosalega mikið sumarið 2012 líka. Hér er um að ræða rífandi danstónlist með synthum, rafmagnsgíturum og almennri gleði. “Girls Like You”, “All Of This” og “Punching In A Dream” héldu manni alveg dansandi í sætinu og annarsstaðar. Passive Me, Aggressive You er fyrsta plata The Naked and Famous og var fylgt eftir með plötunni In Rolling Waves síðasta sumar. Sú var ekki eins ógeðslega góð en ágæt samt.

220px-GossamerPP2012 – Gossamer – Passion Pit

Ég er svakalegur Passion Pit aðdáandi og beið eftir þessari plötu númer 2 í ofvæni. Ég var meira að segja búinn að merkja daginn sem hún kom út hana í calendar hjá mér og keypti samdægurs. Þetta sumar fór mestmegnis að æfa (aftur ekki nógu mikið) fyrir heilt maraþon. “Take a Walk”, “Hideaway” og “It’s Not My Fault I’m Happy” stóðu mest upp úr en annars er erfitt að velja úr svona heilsteyptum grip. Sumarið var frábært, platan er æðisleg en við tölum ekkert mikið um hvernig gekk í maraþoninu.

220px-Random_Access_Memories2013 – Random Access Memories – Daft Punk

2013, fyrsta sumarið með minni sönnu ást í lífinu: Spotify (sorry Tinna). Platan Random Access Memories tekur Yeezus með Kanye West með örlítilli prósentu. Dómaraskandall! Í raun ætti sumarið 2013 að heita “Get Lucky”-sumarið mikla enda var það eina lagið sem heyrðist á öllum útvarpsstöðvum, skemmtistöðum, verslunum og heyrnartólum. Svo er Daft Punk dúó-ið bara svo svalt.

2014 – ?

Hvaða plata verður efst á listanum þetta sumarið? Síðustu vikur og mánuði hefur nokkrar verið gefnar út sem koma sterkar inn. Mexico frá GusGus rennur ágætlega í gegn, Lykke Li gaf út rólega plötu í vor, Jack White kom með sprengju fyrr í mánuðinum, The Antlers voru að gefa út nýja plötu og Íslandsvinirnir í Future Islands gáfu út eina skemmtilega í mars.

Þó það sé of snemmt að ákveða hver verður sumarplata ársins 2014 er ég samt kominn með eina í huga. Ég var orðinn ástfanginn af henni strax á þriðja lagi þegar ég hlustaði á hana fyrst í þessari viku. It’s album time frá norska stuðboltanum Todd Terje er nefnilega rosaleg. En það er ennþá bara júní. Bíðum og sjáum hvort einhver nái að skáka Norsaranum.

 

Gleðilegt sumar, ég er farinn í frí!

Kveðja
Sumar-Hjalti

sumarhjalti