Archive

QR

Tumblr fyrir Android

Flestir sem hafa lesið hugrenninga frá mér þekkið sjálfsagt Twitter. En það eru því miður færri sem virðast þekkja Tumblr. Tumblr.com er síða sem hefur náð mikilli dreifingu í Bandaríkjunum. Hún er þeim eiginleikum gædd að mjög auðvelt er að deila hlutum, hvort sem það er myndband, textafærsla, infógraf eða eitthvað allt annað. Hver er þá munurinn á Tumblr og Facebook, Blogger, Twitter og öllum hinum samfélagsmiðlunum. Ég horfi á þetta svona: ef Twitter er örblogg og WordPress er blogg þá myndi ég segja að Tumblr væri eitthvað akkurat þar á milli. Það er nefnilega svo rosalega auðvelt að deila á Tumblr og það kemur í svo þægilegri tímalínu. Tumblr snýst meira um myndefni heldur en venjulegar bloggsíður og hentar því mjög vel í svona myndablogg, betur en t.d síður eins og Blogger. Skoðið Tumblr-inn hjá mér til að sjá hvað ég er að meina

Tumblr er til dæmis með frábært snjallsímaforrit sem gerir deilingu í rauntíma svona líka þægilega. Eins er skemmtilegt að deila myndum þar til að sjá þær á í tímalínu, frekar en t.d. á Facebook þar sem allt blandast saman, myndir af fjölskyldunni, stöðuuppfærslur og annað. Þá er Tumblr skemmtileg síða til að benda inn á, hvort sem það er af Facebook eða Twitter eða hvað. Tumblr er líka með svona fítus eins og Twitter að þú getur “elt”  (e. follow) hvern sem er, þannig ef þú finnur einhvern með áhugaverða síðu, þá eltirðu hann og uppfærslur frá honum munu koma upp í svona “newsfeed”.

Eins og ég segi þá er þetta skemmtilegur miðill með marga möguleika. Þegar slíkur miðill stekkur fram á sjónarsviðið er gaman að skoða hvernig vörumerki nýta sér hann til að koma sér á framfæri. Við skulum líta á nokkur dæmi.

Barack Obama

Obama hefur hafið endurkjörsherferð sína af krafti. Hann ætlar sér að nýta samfélagsmiðlana til fulls og er á Twitter, Tumblr, Foursquare og á fleiri miðlum, til að ná til sem flestra. Tumblr síðan hjá honum er skemmtileg og lifandi og sýnir forsetan í nýju ljósi. Efsta myndin í dag er til dæmis af honum með hundinn sinn. Með þessari síðu er Obama að gera sig miklu aðgengilegri fyrir kjósandann. Kjósandinn gefur sitt atkvæði að öllum líkindum þeim frambjóðanda sem honum líkar best við. Á Tumblr er hann að ná til ákveðins hóps og hefur þetta mælst vel fyrir.

Mashable

Mashable fréttaveitan er með Tumblr síðu en hún er ekki notuð í að vísa inn á fréttir af síðunni eða vekja athygli á því sem er í gangi á síðunni sjálfri. Nei þau nota Tumblr bloggið sitt til að leyfa lesendum vefsíðunnar að kynnast starfsfólkinu og hvað er í gangi baksviðs. Þannig eru allskonar myndbönd og linkar frá fólkinu sem vinnur hjá Mashable, bæði eitthvað sem tengist vinnunni og svo líka bara skemmtileg innslög inn á milli. Skemmtileg leið til að nota blogg til að kynna vinnustaðinn.

Alexander Mcqueen

Alexander Mcqueen var heimsfrægur fatahönnuður sem dó langt fyrir aldur fram árið 2010. Tískuhúsið og vörumerkið hafa samt sjaldan verið sterkari og það er einmitt að gera skemmtilega hluti á Tumblr. Tískuvörumerkin hafa einmitt verið mjög áberandi í upptöku á Tumblr enda er bæði auðvelt að deila myndum af nýjum og væntanlegum vörum eða myndum af módelum í fötum frá t.d. Alexander Mcqueen. Eins er mjög auðvelt fyrir tískuáhugafólk að fylgjast með bara með því að ýta á “Follow” takkann, og þá fær það nýjustu myndirnar beint í æð.

Universal Music

Tónlistarbransinn er svipaður tískubransanum að því leiti að það er alltaf að koma nýtt efni. Universal Music hefur verið að nota Tumblr á skemmtilegan hátt með því að setja inn myndbönd, viðtöl, gömul plaköt og myndir frá listamönnum sem eru á samning hjá Universal.

Fleiri dæmi um vörumerki sem eru að nota Tumblr má sjá hér í þessari upptalningu.

Eru einhver íslensk dæmi?
Nú þekki ég ekki marga einstaklinga sem eru með Tumblr síður en ég þekki samt engin fyrirtæki eða vörumerki sem nýta sér þennan miðil hér á landi. Mér myndi helst detta í hug að hljómsveitir og fatahönnuðir myndu finna not í Tumblr, enda er þetta frábær síða til að vera með blogg sem snýst aðallega um myndir og myndbönd en minna um texta.
Ef ég fæ einhver góð dæmi fara þau beint hérna undir.

Í kvöld hef ég verið að leita að réttri þýðingu á enska orðinu “evangelist”. Samkvæmt Dictionary.com er “evangelist” prédikari eða prestur, samkvæmt Google Translate þýðir það trúboði, en Orðabók.is þýðir það sem prédikari. Ég henti spurningunni út í Twitter-heim og eftir smá samtal þar held ég að besta niðurstaðan sé boðberi – einhver sem breiðir út fagnaðarerindið. Talsmaður kom einnig til greina en það náði einhvernvegin ekki að lýsa inntaki enska orðsins nógu vel.

Það er blautur draumur hjá öllum markaðsfólki að eignast sýna boðbera eða “evangelista”. Boðberi fyrirtækisins er ötull talsmaður þess og breiðir einmitt út fagnaðarerindi fyrirtækjanna. Ef þú átt uppáhaldsveitingastað og mælir með honum við alla sem þú þekkir ertu boðberi. Við gerum þetta öll. Það er rosalega mikilvægt að eiga ötula boðbera, enda er miklu líklegra að óánægðir viðskiptavinir viðri skoðanir sínar. Þá verður þú að hafa einhverja sem eru tilbúnir að tala þínu máli.

En hvað geta fyrirtæki gert til þess að vinna sér inn slíka talsmenn. Til dæmis er hægt að veita framúrskarandi þjónustu, vera með besta verðið, bestu vöruna eða fara fram úr væntingum þinna viðskiptavina. Þau fyrirtæki sem ná þessu eru með sterk vörumerki (e. brand). Sterk vörumerki eru það vinsæl í hugum neytandans að hann velur þau framyfir öll önnur, óháð verði. Bestu dæmin um þetta eru annars vegar Coca Cola og hins vegar Apple. Hver heldur þú að ástæðan sé að fólk biðji frekar um Kók heldur en Pepsi? Þetta er það sama, ofsykraður kóladrykkur. Vinsældir Apple þekkja allir. Steve Jobs heitinn virðist eignast nýjan boðbera með hverju seldu raftæki frá Apple.

Fyrirtæki geta líka borgað fólki til þess að tala vel um sig. Til eru dæmi um að stórfyrirtæki reyni að borga bloggurum sem þykja áhrifamiklir. Þetta er því miður leið sem er dæmd til að falla um sjálfa sig, þar sem pistlarnir sem viðkomandi myndi skrifa væru augljóslega litaðir og á endanum myndu lesendur sjá í gegn um skrifin. Og fyrir vikið myndi fyrirtækið sjálft missa trúverðugleika og koma verr út. Betra er að vinna fólk yfir með góðri þjónustu og góðu viðmóti.

En fyrst ég er búinn að tala almennt um vörumerki, boðbera og Apple ætla ég að segja dæmisögu máli mínu til stuðnings. Ég ætla að gerast boðberi fyrir Íslandsbanka og hér kemur af hverju.

Ég er búinn að vera í viðskiptum við Íslandsbanka í tæpt ár. Ég skipti yfir vegna þess að Tinna kærastan mín var með öll sín viðskipti þar og hennar fjölskylda þekkti vel inn í útibúið sem var á Háaleitisbraut. Þannig ég lét til leiðast og hoppaði inn einn daginn og talaði við þann þjónustufulltrúa sem mælt  hafði verið með við mig. Hún sá um allan flutninginn úr Arion Banka og bjó mér þannig í haginn að ég færi nú í aðeins hagstæðari kjaraleið heldur en ég átti að vera í, enda var ég fátækur námsmaður með engar eignir á bakinu. Hún gaf mér nafnspjaldið sitt og ef ég hef þurft eitthvað síðan hef ég bara sent henni tölvupóst og hún reddar því um leið.

Íslandsbanki fyrir Android

Þar að auki get ég stundað mín bankaviðskipti í farsímanum. Ég er með Íslandsbanka forritið sem gerir mér kleift að millifæra og greiða reikninga í símanum mínum sem er einmitt frábært fyrir mann eins og mig. Þar að auki er Íslandsbanki með Twitter aðgang og sér um að veita viðskiptavinum sínum og öðrum þjónustu þar. Ég hef til dæmis verið í sambandi við Íslandsbanka í gegn um Twitter varðandi app-málin hjá þeim. Þjónustan hjá þeim sem lætur þig vita þegar þú ert að fara yfir á kortinu þínu er til dæmis sprottin upp úr Twitter samskiptum, eftir því sem ég heyri. Það er frábært þegar fyrirtæki hlusta og bregðast við.

Í síðasta mánuði var ég aðeins að skoða fjármálin hjá mér og ákvað að líta aðeins yfir bílalánið mitt. Við nánari athugun á láninu komst ég að því að ég var að greiða of háa vexti að mínu mati. Lánið var tekið 2010 þegar fjármögnunarmarkaðurinn var í ruglinu og þar að auki var ég ekki í viðskiptum við bankann á þeim tíma. Ég hafði samband við Íslandsbanka (þessi deild heitir reyndar Ergo) með tölvupósti og spurði hvort hægt væri að færa vextina niður í þau kjör sem ég átti að fá. Það var nú minnsta vesenið og ég fékk þessu breytt samdægurs.

Til að toppa ánægju mína með Íslandsbanka var bréf frá þeim til mín sem beið eftir mér í forstofunni þegar ég kom heim úr vinnunni í morgun. Í bréfinu var skafa merkt Ergo fjármögnun og bréf sem þakkaði mér fyrir viðskiptin. Einnig kom fram hvernig ég gæti komist í samband við þau. Ég kunni vel að meta þetta, enda vantaði mig sköfu á þessum frostatímum.

Það má ýmislegt segja um íslensku bankana. Þeir hafa vissulega stigið rosaleg feilspor síðustu ár og eiga alla gagnrýni skilið. Að mínu mati hefur Íslandsbanki staðið sig best hvað varðar að byggja upp sína ímynd, þið megið alveg rífast við mig ef þið eruð ósammála. Ég er ánægður í mínum bankaviðskiptum hjá Íslandsbanka og ég gef þeim eitt stórt klapp fyrir. Birna Einarsdóttir, ég vona að þú sjáir þetta.

Þetta lesendur góðir var pistill frá boðbera. Ég er á engan hátt tengdur Íslandsbanka utan þess að eiga viðskipti við fyrirtækið. Endilega ekki vera hrædd við að viðra ykkar skoðun, enda getur hún verið allt önnur en mín.

Fyrsta kynslóð iPod

Hlaðvörp (e. podcasts) eru eins konar útvarpsþættir á netinu. Hver sem er getur tekið upp hlaðvarp og sett það á netið sem þýðir að næstum hver sem er getur hlustað á það sem útvarpað er á tíma sem honum hentar. Hlaðvörp fóru að verða vinsæl með útbreiðslu iPod-ana góðu en þá fór fólk að sækja þau í gegn um iTunes og svo hlusta á þau í iPod spilaranum sínum.

Fyrir stuttu síðan var ég búinn að ákveða að hlaðvörp væru bara fyrir nörda. Af einhverjum ástæðum var ég búinn að ákveða að þeir sem byggju til og hlustuðu á hlaðvörp væru myndasögulúðar í Bandaríkjunum. Hvað gaf mér þá hugmynd veit ég ekki, en á síðustu vikum hef ég byrjað að hlusta á hlaðvörp sjálfur. Kannski flokkast ég undir skilgreininguna á myndasögulúða en þá er það bara svalt.

Það sem fyrst opnaði glufu fyrir hlaðvörpin hjá mér var bókin The New Rules of PR and Marketing eftir David Meerman Scott, sem ég hef verið að reyna að lesa. Ég segi reyna að lesa af því ég held ég hafi byrjað á henni í september og svo glugga ég í hana á köflum, eftir því hversu mikið er að gera hjá mér. Vonandi næ ég að klára hana fyrir áramót. Nokkrum vikum síðar var ég að tala við frænda minn sem alltaf hlusta á hlaðvörp þegar hann er að vinna. Á endanum keypti ég hugmyndina um hlaðvörp þegar vinnufélagi minn sagðist vera orðinn háður því að hlusta á þau í gegn um forrit í símanum sínum.

Þegar ég heyrði að það væri til forrit í símann var ég undireins seldur. Auðvitað var það eina sem þurfti forrit í símann, það er svo geðveikt sniðugt! Þannig ég sótti forritið Pocket Casts og fór að sækja mér nokkra þætti. Og viti menn, ég er háður. Það vill nefnilega þannig til að það er hægt að finna hlaðvörp um allan fjandann. Ég hlusta mest á eitthvað sem tengist tækni, samfélagsmiðlum og markaðsfræði, en þú gætir fundið allt frá uppistandi til tónlistarþátta, hagfræði eða Sesame Street. Ricky Gervais er til dæmis með geysivinsælt hlaðvarp sem hægt er að gerast áskrifandi að.

Pocket Casts fyrir Android

Síðustu vikuna hef ég m.a. hlustað á This Week in Google (TWIG), vikulegan þátt um hvað Google er að brasa, viðtal við forstjóra Coca Cola á Harvard Business Review rásinni auk nokkurra viðtala á Marketing Profs rásinni. Ég hef verið að hlusta á þetta þegar ég er á leiðinni í vinnuna, úti að hlaupa eða ef ég hef 10 mínútur þar sem ég hef ekkert annað að gera. Þetta er frábær leið til að ná sér í smá fróðleik, og það besta er að maður getur verið að gera eitthvað annað á meðan. Ef fólk fer inn á iTunes og í iTunes Store er hægt að skoða öll þau hlaðvörp sem í boði eru. Ég mæli endilega með að þið prófið þetta.

En hvernig er það, eru einhverjir Íslendingar að taka upp hlaðvörp og senda þau út á netið fyrir okkur hin að hlusta? Ef einhver er með ábendingar má sá hinn sami endilega stíga fram. Ef einhver veit um fleiri góð er ég meira en tilbúinn að hlusta.

Hér fyrir neðan er Michael Porter að tala í podcasti sem heitir Rethinking Capitalism frá Harvard Business Review.

Audible fyrir Android

Ég hef aldrei hlustað á hljóðbækur. Í vor skráði ég mig samt með aðgang á Audible.com og ætlaði svo aldeilis að fara að hlusta. Nýir meðlimir fá að sækja eina bók sér að kostnaðarlausu og ég rakst á bókina Tribes: We need you to lead us eftir Seth Godin. Svo varð að sjálfsögðu ekkert af allri hlustuninni fyrr en ég fór út að hlaupa um helgina. Þá sótti ég Audible forritið í símann minn og gróf bókina upp úr einhverri möppunni.. Það er furðu þægilegt að hlusta á hljóðbækur, sérstaklega þegar maður er að hlaupa. Maður er aðallega að láta hugann líða þegar maður hleypur og þannig er mjög gott að demba í sig smá fróðleik í leiðinni.

Seth Godin

Seth Godin er nokkuð merkilegur maður. Hann er bandarískur frumkvöðull og rithöfundur. Hann ferðast um allan heim og heldur fyrirlestra auk þess sem hann heldur úti bloggsíðu. Hann setur inn færslu á hverjum einasta degi og hefur gert í yfir 10 ár sem hefur gert hann að einum vinsælasta bloggara í heimi. Hann talar aðallega um markaðsmál og vörumerki, en hann hefur líka farið inn á tengd málefni eins og stjórnun, leiðtogahæfni og sjálfshvatningu. Bækurnar hans hafa selst í milljónum eintaka, þær helstu heita Purple Cow, All marketers are liars og Permission marketing, auk Tribes að sjálfsögðu.

Tribes er bók um leiðtogahæfni. Í henni talar Seth um muninn á því að leiða (e. leading) og stjórna (e. managing). Rauði þráðurinn í bókinni er sá að fólk flykkir sér á bakvið leiðtoga og myndar þannig fylkingar (e. tribes). Leiðtogi segir pattstöðu stríð á hendur. Hann reynir að hafa áhrif á fólk og hrífur það með sér. Ef þú ert leiður á ástandinu sem þú ert í áttu að standa upp og gera breytingar. Ekki láta teyma þig í hjörð heldur taktu af skarið og myndaðu þína eigin fylkingu. Með tilkomu internetsins varð svo miklu miklu auðveldara að mynda fylkingar. Allt í einu voru til blogg þar sem hver var orðinn sinn eigin sérfræðingur því allir hafa rödd á netinu. Miðlar eins og Facebook og Twitter hafa auðveldað fylkingamyndun enn meira.

Bókin er ágæt. Hún er uppfull af dæmisögum og hún veitir sannarlega innblástur. Margt sem hann segir á fullkomlega rétt á sér, sérstaklega þegar kemur að því að segja stöðnun stríð á hendur og gera eitthvað. Ef ég á að setja út á eitthvað þá er hún með full mörgum dæmisögum. Seth kemur efninu frá sér fullkomlega í fyrstu köflunum og virðist vera að reyna að teygja lopann með því að bæta enn fleiri dæmisögum, sem er merkilegt miðað við að bókin er ekki nema 160 bls, eða tæpir 4 tímar sem hljóðbók. Ég myndi gefa 3 stjörnur af 5.

Við tilheyrum öll einhverjum fylkingum. Obama myndaði fylkingu sem skilaði honum forsetastóli. Steve Jobs myndaði fylkingu af fólki sem trúði á hann og hann gerði Apple að verðmætasta fyrirtæki í heimi. Þeir sem ganga nú til kosninga í Sjálfstæðisflokknum á næstu viku munu annað hvort fylkja sér á bakvið Hönnu Birnu eða Bjarna Ben, þau eru leiðtogar hvor í sínu horni með fylkingar á bakvið sig. Jón Gnarr var orðinn þreyttur á stöðnuninni í íslenskri pólitík þannig hann stofnaði Besta Flokkinn. Þá sögu þekkja allir.

Ég tel ykkur lesendur góðir sem meðlimi í minni fylkingu.

Hér fyrir neðan er Seth Godin að tala á Ted fyrirlestri til að fylgja bókinni sinni eftir. Ef þið hafið skoðanir á honum, ekki hika við að skilja eftir athugasemdir.

 

Kauptu bókina fyrir Kindle eða í kilju á Amazon eða hljóðbókina í gegn um Audible.

Ég fór fyrst á Airwaves árið 2004, þá 17 ára gamall með nokkrum vinum mínum. Hvernig okkur var hleypt inn á alla tónleikana veit ég ekki en það var allavega tryllt sjúkt gaman – ég leyfi mér að nota þessi lýsingarorð –  að sjá öll böndin sem þá voru að spila. Ég var í pyttinum á Mínus, sá Maus í Listasafninu, labbaði út af Keane og hlustaði á The Shins, sem ég svo uppgötvaði ekki fyrr en nokkrum áður síðar. Síðan þá hef ég farið 2005, 2008 og 2010 og alltaf skemmt mér jafnvel.

Það frábæra við Airwaves er á hversu litlu svæði hátíðin er haldin. Það tekur ekki lengur en 10 mínútur að labba á milli þeirra tónleikastaða sem lengst eru frá hvorum öðrum. Að vísu verður að taka hugsanlega biðröð með í reikninginn.

Hátíðin hefur lengi verið þekkt fyrir að vera stökkpallur fyrir íslenskar hljómsveitir sem vilja koma sér á framfæri en einnig fyrir að ná til sín minna þekktar erlendar hljómsveitir, sem síðan blómstra á heimsvísu. Þannig hafa The Rapture, Keane, The Bravery, Florence and the Machine, White Lies, The Shins, Clap Your Hands Say Yeah og CSS allar spilað á Airwaves – ásamt miklu fleirum!

Tónlistarhátíðin hefur svo sannarlega undið upp á sig frá því hún var haldin í flugskýli Flugfélags Íslands fyrst árið 1999. Núna eru yfir 5000 gesta, þar af stór hluti af útlendingum og þetta hefur færst úr því að vera lokuð hátíð fyrir fáa, yfir í að breyta borginni í iðandi suðupott menningar alla helgina. Fjöldinn allur af tónleikum á svokölluðum “off-venues” eru skipulagðir en þar geta þeir sem eru svo óheppnir að vera ekki með miða fengið smjörþefinn af hátíðinni sér að kostnaðarlausu.

James Murphy

Á Iceland Airwaves í ár verður einvalalið hljómsveita. Allar helstu íslensku hljómsveitanna verða á svæðinu, t.a.m. Gusgus, HAM, Hjaltalín, Vicky, Agent Fresco og Of Monsters and Men. Meðal erlendra gesta í ár má nefna Beach House, Sinead O´Connor, John Grant og James Murphy úr LCD Soundsystem. Einn okkar helsti tónlistamaður, Björk, mun einnig halda tvenna tónleika á hátíðinni í tengslum við nýju plötuna sína Biophilia í Hörpunni og er takmarkað magn miða í boði þar.

Ég á eftir að fínpússa þetta og hella mér almennilega yfir dagskrána en hérna eru drög að því sem ég ætla að sjá:

Wednesday:
20:30 – Gang Related
21:40 – Mammút
23:20 – Dikta
23:20 – Agent Fresco
00:10 – Of Monsters and Men

Thursday:
22:00 – Retro Stefson
23:00 – Beach House

Friday:
19:10 – Gang Related
20:50 – Svavar Knútur
21:00 – Sinéad O’Connor
21:40 – Mugison
22:00 – Agent Fresco
22:30 – Who Knew
00:00 – HAM
00:10 – Of Monsters and Men

Saturday:
21:40 – Berndsen
00:00 – James Murphy DJ Set
00:10 – John Grant

02:20 – Legend

Airwaves Android

Þessa dagskrá setti ég saman með nýju appi sem Síminn framleiddi sérstaklega fyrir Airwaves. Þar er að finna alla dagskrána, hægt að velja sína eigin dagskrá, skoða myndbönd og upplýsingar um einstaka flytjendur, tékka sig inn á Foursquare fylgjast með röðum og margt margt fleira. Appið er mjög skemmtilegt vegna alls efnisins sem þar er að vinna, til dæmis viðtölin við hljómsveitirnar. Einnig eru tekin viðtöl við íslenska tónlistarspekúlanta sem fara yfir erlendu gestina. Ég mæli sérstaklega með að það sé sótt og prófað. Í augnablikinu er það bara til fyrir Android en iPhone útgáfan ætti að detta inn næstu daga. Skannið kóðan til að prófa appið. Ég er yfir og út en skil eftir mig QR kóða með appinu ásamt YouTube myndbandi úr því.

Update 8/10/2011 – Nú geta iPhone notendur líka verið súperkúl og verið með Airwaves Appið

Airwaves fyrir iPhone

Google Music er nýjasta undrið frá vinum mínum hjá Google. Þetta er semsagt tónlistarspilari frá þeim þar sem þú getur hlaðið inn öllu tónlistarsafninu þínu og hlustað hvar sem er – svo lengi sem þú ert með Google reikning (Gmail). Þú færð 20.000 lög til þess að byrja með og þarft bara að hlaða niður mjög einföldum “uploader” til þess að byrja að hlaða inn tónlist. Svo velurðu bara hvaða möppu þú vilt henda inn í skýið og voilá – þú getur hlustað á tónlistina þína hvar sem er. Google Music er enn ein viðbótin í Google samfélagið sem ég hef minnst á áður, og styrkir ennfrekar nýju Chromebook tölvuna þeirra (sjá hér).

Þessi nýi fítus hjá þeim er náttúrulega snilld fyrir 21. öldina. Fólk er að vinna á svo mörgum endatækjum. Tökum sem dæmi sjálfan mig. Ég er með tölvuna mína heima með allri tónlistinni minni, svo er ég með tölvu í vinnunni með öðru tónlistarsafni og að lokum er ég með símann minn sem ég nota líka sem tónlistarspilara. Það getur verið þreytandi að færa alltaf á milli ef þú vilt geta hlustað á plötur sem þú hefur kannski keypt heiðarlega, nú eða hlaðið niður óheiðarlega. Einnig er ein mjög lítil en stórskemmtileg virkni í þessum spilara. Ef þú ert með plötu sem vantar umslagið framan á (þetta skiptir suma máli), þá leitar hann sjálfur á netinu og sækir myndina fyrir þig. Þannig allt lítur fallega út.

Svona lítur safnið út

Ég hef núna svo gott sem sagt skilið við iTunes því frá því ég byrjaði að nota Google Music hefur spilarinn ekki hikstað einu sinni og viðmótið er bara svo fjandi skemmtilegt. Það eina sem ég sakna virkilega úr iTunes er að sjá ekki hversu oft einstakt lag hefur verið spilað. Ég er rosalega hrifinn af allskonar listum og finnst gaman að skoða hvaða lög ég hef mest hlustað á í gegn um tíðina. Ég vona að því verði bætt við.

Svona lítur farsímaviðmótið út

Google Music fyrir Android

Að sjálfsögðu er til forrit fyrir Android. iPhone er eitthvað aðeins á eftir, ég fann allavega ekki iOS útgáfu á App store. En þá spyrja sumir: “Er ekki dýrt að streyma tónlist í gegn um síma hvort eð er? Ég ætla ekkert að borga neina formúgu!” Svarið við þessu er jú, vissulega er dýrt að streyma miklu magni af tónlist yfir farsímanet, en það er alltaf hægt að streyma yfir WiFi eða láta símann vista valin lög á minninu, og það þráðlaust! Ég elska tæknina allt of mikið!

Að sjálfsögðu er galli á gjöf Njarðar. Google Music er bara í boði í Bandaríkjunum og er ennþá í Beta útgáfu. Sem þýðir að hver notandi fær aðeins örfáa boðslykla og hann þarf að fara krókaleiðir til þess að skrá sig. Einnig er ekki hægt að ná í Android forritið nema bakdyramegin. Ég reikna með að þetta sé allt leyfisskilt hvað varðar höfundarrétt og annað þannig Google Music verður pott þétt ekki í boði fyrir sótsvartan almúgan í heiminum strax. En eins og áður segir er alltaf hægt að fara krókaleiðir. Ef þú þekkir einhvern sem er með Google Music, biddu hann um að bjóða þér. Ég á ófáa eftir þannig fyrstur kemur, fyrstur fær. Eftir að þú ert kominn með boðslykil, fylgdu þá eftirfarandi leiðbeiningum:

  1. Þú þarft að plata tölvuna þína þannig hún haldi að hún sé í Bandaríkjunum. Það er auðveldlega gert. Þú ferð inn á þessa síðu og finnur þér proxy server í Bandaríkjunum.
  2. Opnar Firefox og breytir proxy settings. Það er undir Tools – Options – Advanced Network. Þar seturðu inn IP tölu proxy þjónsins og port.
  3. Þú smellir á boðslykilinn sem var sendur á þig.
  4. Sækir Music Manager (getur gert það með því að smella hér
  5. Velur möppuna með tónlistinni þinni og byrjar að hlaða upp
  6. Hlustar eins og vindurinn

Eins og með allar nýjar þjónustur hefur Google sett eldhressa auglýsingu á netið. Endum þetta með henni.

Jæja, mér finnst ég hafa verið svo dramatískur, pólitískur og heilsusamlegur undanfarið að ég held að það sé klárlega kominn tími á einn nörda-síma-forrita-pistil. Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil undir heitinu “Íslensk “Öpp””. Sá pistill var mjög Android miðaður, enda er ég Android maður eins og flestir vita. Nú eru liðnir sirka 4 mánuðir og fleiri forrit hafa bæst í hópinn. Einnig fæ ég reglulega fyrirspurnir hvort það séu ekki fleiri íslensk forrit og svo vísar Google fólki oft inn á síðuna mína þegar fólk er að leita sér að upplýsingum um íslensk forrit. Er Google Analytics ekki dásamlegt?

Sem fyrr eru QR kóðarnir bara fyrir Android en ég set hlekki sem vísa beint inn á viðkomandi forrit í hverja færslu sem við á.

Lumman

Lumman er forrit fyrir fótboltafíkla. Það er framleitt af sömu mönnum og hönnuðu Leggja.is forritið, Stokkur Software. Það er til í Android og er væntanlegt í iPhone á næstu vikum segja þeir. Forritið virkar þannig að það tekur nýjustu fótboltafréttirnar af helstu fréttasíðum landsins – Fotbolti.net, MBL.is, Visir.is, Sport.is – ásamt því að vera með úrslitaþjónustu beint í símann, þar sem m.a. er hægt að fylgjast með úrslitum í íslenska boltanum. Forritið er ókeypis og ég mæli hiklaust með að því sé hlaðið niðurÍslandsbanki
Fyrir skömmu setti Íslandsbanki nýjan farsímavef í loftið. Sá er mjög fullkominn og er sérstaklega góður fyrir snjallsíma. Það er hægt að skoða hann með því að fara inn á m.isb.is. Ég fór að sjálfsögðu á fullt og spurði Íslandsbanka á Twitter hvort það væru ekki einhverjar app pælingar í gangi hjá þeim. Ég fékk þau svör að vinna væri í gangi og viti menn, stuttu síðar fæ ég direct message frá þeim sem benti mér á forritið. Ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka Íslandsbanka sérstaklega vel fyrir góða þjónustu. Forritið er frábært, lítið og létt og virkar alveg eins og heimabankinn þinn. Að sjálfsögðu verðurðu að vera í viðskiptum við bankann til að það nýtist þér en það er annað mál. Eina spurningamerkið sem ég set við það er hvernig þeir munu leysa öryggismálin þegar auðkennislyklarnir verða lagðir niður og rafrænu skilríkin tekin upp að fullu. Ætli forritið verði þá úrelt? En það er seinni tíma vandamál. iPhone forritið er einnig væntanlegt samkvæmt Twitternum þeirra.

Smáralind

Smáralind reið á vaðið með tilboðsforrit fyrir snjallsímanotendur. Þeir sem sækja forritið eiga kost á því að sækja sér afsláttartilboð sem þeir svo sýna þegar þeir versla viðkomandi vörur. Það verður að segjast að forritið er frekar hægt og ég reikna með að það taki frekar mikið gagnamagn þar sem það sækir myndir og annað á netið. En hugmyndin er mjög sniðug og ég vona innilega að þeir haldi áfram að uppfæra það og betrumbæta eftir því sem líður á. Það hefur strax stórbatnað miðað við hvernig það byrjaði. Það var hannað af auglýsinastofunni Ennemm og er til fyrir bæði iPhone og Android. iPhone forritið má sækja hér.

Bland.is
Fyrr á árinu fengu vefirnir Barnaland.is, ER.is, Dyraland.is og Bloggland.is yfirhalninu og voru allir sameinaðir í Bland.is. Þar að auki var búinn til farsímavefurinn m.bland.is og einnig smáforrit fyrir bæði iPhone og Android notendur. Fyrir þá sem ekki vita er Barnaland eða Bland eins og það heitir núna, vefur þar sem fólk skiptist á myndum, sögum og ráðum fyrir börnin sín. Einnig hefur myndast eitt öflugasta markaðstorg Íslands þar inni sem og sennilega virkasta spjallborð landsins. Fyrir þá sem vilja fylgjast með sínum þráðum, sérstaklega ef það er að selja eitthvað er náttúrulega tilvalið að fá sér forritið í símann! Sækja má Bland.is fyrir iPhone hér.

Locals recommend
Þetta forrit er mjög skemmtilegt þó það sé kannski ekki endilega hannað fyrir íslenskan markað. Í forritinu má finna samansafn af myndböndum þar sem heimamenn (locals) segja utanaðkomandi hvað þeir eiga að gera í Reykjavík. Hugmyndin er einföld og góð og byrjaði með Reykjavík en af heimasíðunni að dæma ætla þeir félagar svo sannarlega að færa út kvíarnar og mér sýnist Stokkhólmur, Peking og Bangkok vera næst á dagskrá. Ég mæli endilega með að þetta sé skoðað því það er aldrei að vita nema þú finnir einhvern falinn fjársjóð sem þú vissir ekki af. iPhone forritið má nálgast hér.

Enn og aftur er ég viss um að þetta sé ekki tæmandi listi því það er fullt af hlutum að gerast í íslenskri hugbúnaðarþróun. Endilega ef ég gleymdi einhverju eða það vantar einhverjar upplýsingar þá skulið þið skilja eftir athugasemd hér fyrir neðan nú eða senda mér skilaboð á Twitter.

Að lokum vil ég benda á fleiri góða sem eru að fjalla um snjallsíma og smáforrit. Í sumar hafa sprottið upp a.m.k. tvær heimasíður sem fjalla um þessi mál. Þær eru Radarinn og Símon.is. Einnig er hægt að elta þær Twitter með @Radarinn og @Simon_is. Það er ánægjulegt að sjá að einhver nennir að spá í þessu annar en ég!

Update: 18/08/11
iPhone appið fyrir Íslandsbanka er komið út. Það má nálgast það með því að skanna kóðann fyrir neðan.