Archive

Monthly Archives: April 2013

Bækur er hægt að nýta sér til skemmtunar og fróðleiks. Þær er hægt að lesa eða hlusta á einhvern lesa þær. Ég geri mikið af báðu. Hljóðbækurnar henta vel núna þegar hlýnar í veðri og sólin hækkar. Þá fer maður að vera meira úti, til dæmis að hjóla í vinnuna. Venjulegar bækur er gott að lesa uppi í sófa, í bústaðnum eða úti á palli (þegar hann verður tilbúinn.

Akkurat núna er ég með 3 bækur í gangi:

Hljóðbókin – Marketing 3.0 eftir Philip Kotler, Hermawan Kartajaya og Iwan Setiawan

marketing 3.0

Í tilefni þess að Philip Kotler er að koma til Íslands í næstu viku ákvað ég að kíkja á hugmyndafræðina sem hann er að fara að prédika . Marketing 3.0 er hugmyndafræði sem segir að þau fyrirtæki sem ætla að lifa af þurfa að tileinka sér ákveðin gildi sem þau vilja standa fyrir og uppfylla þau. Neytendur með svipuð gildi munu þá vilja eiga viðskipti við fyrirtækið og báðir græða. Í Marketing 1.0 snérist allt um vöruna og í Marketing 2.0 snérist allt um viðskiptavininn.

Ég er rétt að verða hálfnaður með bókina. Það sem hún segir er kannski ekkert nýtt og brautryðjandi, en mér finnst hugmyndafræðin er þó gríðarlega áhugaverð og því gaman að kafa dýpra í hana. 

Rafbókin – The Truth About E-mail Marketing eftir Simms Jenkins

truth about e-mail

Þetta er biblía þeirra sem vilja ná árangri með tölvupóst markaðssetningu. Í henni fer höfundur í alla anga hennar, allt frá því hvernig þú átt að stækka póstlistann þinn, yfir í hvernig pósturinn á að líta út og hvað þú átt að segja. Í mínu starfi sé ég meðal annars um að halda utan um netklúbb og þess vegna keypti ég bókina á sínum tíma.

Ég er búinn með svona 3/4 af bókinni en er strax búinn að skrifa 3 blaðsíður af glósum upp úr henni með hugmyndum um eitthvað sem hægt er að nota, breyta og bæta. Ég myndi mæla með henni fyrir alla sem eru að spá í þessum málum, sama hvort þú sért vanur tölvupóstmarkaðssetningu eða ert að prófa þig áfram.

Bókin – Gvendur Jóns – Prakkarasögur úr Vesturbænum eftir Hendrik Ottósson

henrikottoson_gvendurjonsogvidhinir

Þetta er kannski frekar óvænt bók á þessum lista. Ég las allar þessar sögur þegar ég var lítill. Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um sögurnar af honum Gvendi Jóns og Vesturbæjargenginu, sérstaklega eftir að mamma sagði mér að hann Bjarni langafi minn hafði þekkt Gvend sjálfan. Það var svo ekki ónýtt að fá að heyra sögurnar frá fyrstu hendi frá honum afa mínum!

Sögurnar af Gvendi Jóns eru stuttar og skemmtilegar. Þær fjalla um prakkarastrik, ævintýri og áflög við strákana hinum enda bæjarins. Þær mála líka skemmtilega mynd af Reykjavík fyrir rúmlega 100 árum þegar borgin var bara lítið þorp. Gvendur og sögurnar af honum eru tilvaldar þegar þarf aðeins að slökkva á hausnum fyrir svefninn.

BÓNUS! Vefsíðan – www.sabotagetimes.com

Ég ákvað að skella síðu sem ég er að elska þessa stundina. Sabotage Times er bresk vefsíða sem á að höfða til karlmanna. Þar er tekin fyrir tíska, tónlist, íþróttir, kvikmyndir og margt annað. Umfjallanir eru flestar vel skrifaðar, pennarnir ískra af breskri kaldhæðni og tónninn á síðunni er svona smá “in your face” sem getur verið alveg gríðarlega skemmtilegur.

Tökum sem dæmi þessa grein um nýju Justin Timberlake plötuna: Justin Timberlake 20/20: The Greatest Pop Album This Century.
Eða The Me Generation: A Celebration of Not Giving A F*ck.
Og svo þessa umfjöllun um David De Gea, markvörð Man Utd: David De Gea: Why United’s Vampire Is Better Than City’s Joe Hart.

Sabotage Times er algjört möst í netrúntinn.

Góðar stundir.

 

daftpunk3

Nú er ég spenntur.

Þann 21. maí verður nýjasta plata franska rafdúettsins Daft Punk gefinn út. Gripurinn ber nafnið Random Access Memories og er fyrsta stúdíóplata þeirra Guy-Manuel de Homem Christo og Thomas Bangalter síðan Human after all árið 2005. Þeir hafa þó ekki setið auðum höndum því í millitíðinni hafa fóru þeir á Alive tónleikarferðalegið (besta live plata ever?) og stjórnuðu heilli sinfóníusveit í bland við elektró þegar þeir gerðu tónlistina fyrir myndina Tron: Legacy.

Daft Punk er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum. Discovery platan var ein sú mest spilaða á meðan ég var í menntaskóla og hún opnaði í raun glufuna á það að ég fór yfir höfuð að hlusta á danstónlist. Ég er því búinn að fylgjast með Daft Punk lengi þannig ég er alltaf spenntur fyrir nýju efni frá þeim.

Það sem er ennþá skemmtilegra að fylgjast með, fyrir svona nörda eins og mig, er öll markaðssetningin í kringum útgáfuna. Hún er eiginlega case study útaf fyrir sig. Ég hef bara aldrei séð annað eins.

Í febrúar uppfærði Daft Punk heimasíðuna sína og vísuðu á hana á Facebook síðu sveitarinnar. Í kjölfarið trylltist internetið. Daftpunk.com hrundi og Twitter-inn logaði af sögum um að Daft Punk væri að fara að gefa út nýtt efni. Tilkynningin var þó ekki alveg svo stór, heldur voru Frakkarnir tveir að tilkynna að þeir hefðu skrifað undir hjá plötuútgefandanum Colombia. Þetta var 26. febrúar.

daftpunk2

Fljótlega bættust við sjónvarpsauglýsingar í kringum Saturday Night Live þættina. Þær byrjuðu frekar dularfullar en hafa verið að afhjúpa meira og meira varðandi plötuna eftir því sem vikurnar líða.  Svona var fyrsta auglýsingin:

Þann 24. mars fór svo markaðsvélin í gang af alvöru. Þá var tilkynnt nafn á nýrri plötu og vísað á sérstaka slóð – randomaccessmemories.com.

Í kjölfarið fóru að birtast myndbönd á YouTube undir nafninu The Collaborator Series. Þar er talað við hina ýmsu aðila sem koma að plötunni. Þegar þetta er skrifað hafa birst 4 viðtöl við Giorgio Moroder, Todd Edwards, Nile Rodgers og Pharell Williams. Mér finnst Moroder áhugaverðastur enda einn af frumkvöðlum raftónlistar á sínum tíma. Hann vann meðal annars mikið með Donnu Summer.

Þessir þættir hafa dúkkað upp út um allt! Á tónlistarbloggum, fréttasíðum, á Twitter og síðast en ekki síst í fréttaveitunni á Facebook. Eftirvæntingin virðist vaxa með hverju myndbandi.

Nú síðast var stönt á Coachella hátíðinni í Bandaríkjunum, einni stærstu tónlistarhátíð í heiminum. Á milli atriða kviknaði á risaskjánum og 90 sekúndna trailer fyrir plötuna fór í gang. Fólk greip að sjálfsögðu snjallsímana, tók myndir og myndbönd og tjáði sig á netinu og um leið var Daft Punk orðið eitt umtalaðasta efnið á Twitter. Í þessum trailer var listinn af samstarfsmönnum kunngjörður en þar er til dæmis að finna Julian Casablancas, söngvara The Strokes, Giorgio Moroder, Todd Edwards, Nile Rodgers og Pharell Williams sem ég taldi upp áðan, ásamt fleirum. Núna, 5 dögum síðar, er búið að spila þennan trailer 1,5 milljón sinnum!

Það áhugaverða er að það hefur ekki eitt lag lekið út eða farið í spilun. Venjulega senda hljómsveitir frá sér smáskífur til að vekja athygli á nýjum plötum en ekki Daft Punk. Þeir senda bara frá sér smá hluta úr lagi, sem gerir mann alveg brjálaðan af því mann langar að heyra nýtt efni!

En bíðum við. Það sem hefur gerst er að nú eru fjöldinn allur af myndböndum og lögum á netinu þar sem plötusnúðar um allan heim eru búnir að taka þessi litlu brot og mixa saman. Það er ekki hægt að hlusta á heila útgáfu af laginu ennþá, en þú getur hlustað á “hugsanlega” útgáfu. Og á meðan eru allir að tala um Daft Punk!

Það sem þeir hafa líka gert svo rosalega vel eru allir þessir “teaser-ar”. Dularfull auglýsing á besta tíma í bandarísku sjónvarpi. Óvæntur trailer á Coachella. Viðtöl við samstarfsmenn sem lýsa því hversu frábær þessi plata er. Þetta á allt þvílíkan þátt í því að eftirvæntingin eykst og umtalið sömuleiðis. Daft Punk er allsstaðar!

Ég hef allavega sjaldan verið jafn spenntur fyrir nokkurri plötu. Ég er búinn að kaupa vínylinn í forsölu og stafræn útgáfa fylgir með, þannig ég fæ hana strax og hún kemur út. Þangað til getur verður maður bara að bíða eftir næsta þætti af Collaborator Series.

Já ég ákvað að nota dramatískan titil þar sem það er langt síðan ég bloggaði. Datt í hug að það myndi kveikja í fólki og vekja áhuga á að smella á hlekkinn og lesa færsluna.

Hljómur vorsins gæti verið fuglasöngur, hann gæti verið hlátur í börnum sem eru loksins farin að geta leikið sér úti án þess að frjósa í hel, frambjóðendur í kosningaham, eða það gætu verið strákarnir sem spila körfubolta fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér á kvöldin.

Nei, eftir hina dimmu og þöglu vetrarmánuði janúar og febrúar er allt í einu farið að lifna yfir plötuútgáfu. Með vorinu fara nefnilega aftur að koma út plötur. Hingað til hafa komið út plötur með nokkrum stórstjörnum. Til dæmis gaf David Bowie út sína fyrstu plötu í 10 ár sem kom skemmtilega á óvart, Depeche Mode kom með frekar slaka plötu og Íslandsvinurinn John Grant gaf út frekar skrítna plötu þar sem John Grant er blandað saman við GusGus.

En það sem ég er að hlusta á þessa dagana er:

The Knife – Shaking the Habitual

Ég var búinn að bíða eftir þessari plötu lengi. Sænsku systkinin í The Knife gáfu síðast út hina stórgóðu Silent Shout árið 2006. Shaking the Habitual kom út í síðustu viku og ég er búinn að renna henni í gegn 3-4 sinnum. Hún er mun þyngri en sú síðasta og svolítið erfið í meltingu. Ég mæli samt með að þú sækir hana því mig langar að heyra skoðun annarra. “A tooth for an eye” var eitt fyrsta lagið sem heyrðist af henni og með fylgdi þetta stórskemmtilega myndband.

Nick Cave & the Bad Seeds – Push the sky away

Hörkugóð plata frá Cave-aranum. Ég er tiltölulega nýbyrjaður að hlusta á Nick Cave enda er það ekki létt verk að demba sér í tónlistarmann sem er með rúmlega 30 ára feril og hefur gefið út fleiri en 15 plötur. Push the sky away er stórgóð plata þar sem farið er yfir allt frá gleðikonunni Bee á Jubilee Street yfir í Higgs boðeindina. Hún er róleg en lög og textar alveg frábærir.

Urban Cone – Our Youth

Urban Cone er sænsk rafpoppsveit sem gaf út sína fyrstu plötu, Our Youth, á síðasta ári. Platan er uppfull af hressu rafpoppi sem alveg smellpassar við hækkandi sól og hlýnandi veður. Urban Cone er eins af þessum hljómsveitum sem þú spilar helst bara á fimmtudögum og föstudögum þegar helgin er nærri. “We should go to France” og “Searching for silence” eru lögin sem þú ættir að leita að á YouTube en líka lagið “Freak”.

Justin Timberlake – The 20/20 Experience

Þessi maður og þessi plata eru efni í heila færslu. Justin er orðinn fullorðinn. Karlinn er búinn að gifta sig og er orðinn fjárfestir. Það vill svo til að tónlistin virðist hafa þroskast með honum. Klúbbahittarar eins og “SexyBack” og “Summer love” eru farnir en í staðinn eru komnar poppballöður eins og “Mirrors” og “That girl”….og ég er að fílaða. Diskurinn er frábær og hefur farið nokkrar ferðir í gegn um heyrnartólin hjá mér á síðustu vikum.

Er ég að missa af einhverju?