Topp 5 vonbrigði ársins

Já árið er svo sannarlega búið að vera viðburðaríkt í tónlistinni. Sem betur fer hefur það góða staðið upp úr en auðvitað eru einhverjir svartir sauðir inn á milli. Þetta er listinn yfir vonbrigði ársins. Ég ætti kannski að skilgreina vonbrigði, en þau eru í mínum huga eitthvað sem beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu en nær svo ekki þeim standard. Svo það sé á hreinu er ég ekki að telja upp lélegustu plötur ársins. Einungis að benda á hluti sem ég bjóst við meiru af.

Eins og í listanum yfir Topp 5 “too late” uppgötvanir ársins þá er þetta ekki neinni sérstakri röð. Og alveg eins og þá er ég mjög til í að fá ykkar skoðun, þó hún skipti í raun engu máli þar sem þetta er jú minn listi.

1. Justice – Audio Video Disco

Justice eru svo miklir snillingar. Platan The Cross sló alveg í gegn árið 2007 með slögurum eins og DVNO og D.A.N.C.E. Ég beið því eftir nýrri plötu með mikilli eftirvæntingu. Audio, Video, Disco kom út seint í október. Að mínu mati nær hún engu almennilegu flugi. Hún er alveg sæmileg með ágætis partý inn á milli. En í heildina nær hún engum hæðum og hún er eyðilögð með of miklum söng. Það er kannski helst lokalagið á plötunni sem kveikir eitthvað í manni, en það ber sama nafn og platan. Ég held mig samt við það að besta efni sem hefur komið frá Justice er Planisphere sem var DJ set fyrir Louis Vuitton tískusýningu. Skoðaðu það ef þú þekkir það ekki nú þegar.

2. Coldplay – Mylo Xyloto

Ég veit ekki hvort það telst til vonbrigða þegar Coldplay gefur út slaka plötu. Aðalvonbrigðin hjá mér eru í raun að þeir hafi gefið út plötu. Coldplay gáfu út frábæra fyrstu plötu, Parachutes, mjög góða aðra plötu, A Rush of Blood to the Head, og ágæta þriðju plötu, X&Y. Síðan þá hefur leiðin bara legið enn meira niður á við og engin húrrahróp heyrðust fyrir fjórðu plötunni, Viva la Vida, og þau heyrast svo sannarlega ekki fyrir flötustu plötu í heiminum, Mylo Xyloto. Hvernig væri að sleppa því að gera þetta ef þið ætlið ekki að gera þetta vel? Eina lagið sem stendur upp úr að mínu mati er númer 3, Paradise. Erum við ekki bara að horfa á aðra U2 í uppsiglingu?

3. Radiohead – The King of Limbs

Getur einhver sagt það með hreinni samvisku að hann hafi hlustað á King of Limbs síðan í svona mars? Jú hún vakti rosalegt hype þar sem fólk skiptist á að lofsyngja hana eða rakka niður. Ég hélt henni nú á lofti fyrst um sinn og varði hana fyrir gagnrýnendum enda er ég mikill Radiohead maður. En svona þegar ég hugsa til baka, þá hlustaði ég á hana nokkrum sinnum og svo hef ég ekki heyrt eitt einasta lag síðan í mars. Þegar In Rainbows kom út þá hlustaði ég á hana aftur og aftur og ég hlusta ennþá á hana af og til í dag og það er eins með Kid A og OK Computer. Ég hreinlega bjóst við meiru af Radiohead og mér finnst ég eiga rétt á því. Ég mun samt alltaf hafa hljómsveitina í hávegum og mun vera jafn spenntur fyrir næstu plötu. Hér er fyrsta smáskifan af plötunni, lagið Little by Little.

4. The Strokes – Angles

Það er frekar merkilegt að þessi plata skuli rata inn á vonbrigðalistann þar sem hún er jú alveg þokkaleg. En þegar maður er búinn að bíða í 5 ár eftir nýrri plötu til að fylgja eftir eins rosalegri plötu og mér fannst First Impressions of Earth vera þá er ekki hægt að vera annað en vonsvikinn. Strokes-mönnum fannst þeir samt vera að fara nær fyrstu tveimur plötunum sínum, og það er alveg rétt. Angles er miklu léttari en þriðja platan og líkari This is It og Room on Fire en eins og ég segi minn listi, mínar reglur. Ég hefði viljað sjá meira frá The Strokes, eitthvað í anda við First Impressions of Earth sem ég elska og hlusta enn mikið á. Það vantar einhvernveginn kraftinn sem einkenndi þá plötu. Mér skilst reyndar að hljómsveitarmeðlimum komi bara ekki vel saman og þannig hafi verið mikil streyta í kring um gerð Angles. Ætli það sé útskýringin?

5. Glasvegas – Euphoric///Heartbreak

Ég veit ekki hversu oft ég hlustaði á fyrstu plötuna frá Glasvegas, Glasvegas. Hún á allavega sérstakan sess í hjartanu. Það var eitthvað svo töff við soundið hjá þeim, skoski hreimurinn rosalega einkennandi og gítarhljómurinn einhvernveginn flæddi um allt. Lagið Geraldine er enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi plata er nákvæmlega ekkert sérstök. Hún bætir engu við í tónlistarflóruna og hefði mín vegna alveg mátt sleppa sér alfarið. Gagnrýnendur eru samt ósammála mér enda fékk hún 9 af 10 hjá NME. Hér er lagið Shine Like Stars.

Ég á það nú til að vera yfirlýsingaglaður hvað varðar tónlist og plötur og hef oftar en ekki þurft að éta ofan í mig hvað mér finnst þegar það fær annan séns. Vonandi verður það þannig með þessar fimm.

Topp 5 vonbrigði ársins var annar listinn af fjórum. Nú á ég bara eftir að kynna bestu íslensku plöturnar og bestu erlendu plöturnar. Ég er ekki ennþá búinn að ákveða mig alveg í þeim efnum, þannig það er ennþá hægt að hafa áhrif á valið þar. Endilega sendið mér skilaboð með uppástungur.

Annars segi ég bara gleðileg jól frá okkur í Kópavoginum!

Advertisements
5 comments
  1. Flott Blogg. Ég er ekki sammála Coldplay, finnst diskurinn persónulega mjög skemmtilegur, eru alltaf jafn skemmtilegir.

  2. Tek undir með Svanssyni, gott blogg. En verð þó að setja spurningamerki með Radiohead plötuna, smekkur manna er jú misjafn, en þarna er á ferðinni toppplata að mínu mati. Þú settir reyndar inn vitlaust lag við Little by little, hér er réttur linkur http://www.youtube.com/watch?v=TDpiJ7cyWz4

  3. Ég þakka kærlega fyrir ábendinguna kæri Gunnar. Þessu hefur hérmeð verið breyttEn hvað varðar Radiohead þá er þetta alls ekki léleg plata. Ég bjóst bara við svo miklu meiru eftir 4 ára bið og meistarastykki eins og In Rainbows

  4. Gott blogg þetta! Sammála með Justice plötuna, hún var arfaslök m.v. fyrri plötuna og væntingar. Planisphere mixið er hinsvegar hrikalega sterkt!

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s