Topp 10 2012 – Plötur ársins

Ég hef ákveðið að brjóta topp 5 regluna. Mér finnst árið 2012 hafa verið það gott í íslenskri tónlist að þær plötur sem hafa komið út eiga í fullu tré við þær erlendu. Það var gríðarlega erfitt að setja saman þennan lista enda hef ég a) sennilega aldrei hlustað jafn mikið á tónlist á þessu ári og b) man ég ekki eftir öðru eins tónlistarári. Það var rosalega erfitt að skilja eftir nokkrar plötur eins og t.d.  Jack White – Blunderbuss, Hot Chip – In Our Heads, Retro Stefson – Retro Stefson, Beach House – Bloom, Air – Le Voyage Dans la Lune og Ojba Rasta – Ojba Rasta.

En endanlegur topp 10 listi er svona:

10. Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar – Þar sem himinn ber við haf

jónasÞriðja plata Jónasar Sig er æðisleg. Hún er unnin með Lúðrasveit Þorlákshafnar, en Jónas steig sín fyrstu skref í tónlist með lúðrasveitinni. Ég fór á útgáfutónleikana sem voru haldnir í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn og sú upplifun var æðisleg. Tónlistin óaðfinnanleg og það er líka alltaf gaman á tónleikum með svona stórri hljómsveit.

Textarnir á plötunni eru dimmir og það eins og Jónas sé að gera upp eitthvað úr fortíðinni. Lög eins og “Fortíðarþrá” og “Mannstu þennan dag” endurspegla þetta. Eins sækir hann mikinn innblástur til hafsins og lífið í litlu þorpi við ströndina. Myndlíkingarnar koma líka fram í þessum óði til hafsins.

Jónas Sigurðsson er ekki allra, en hann hefur náð til mín síðustu mánuði.

9. Half Moon Run – Dark Eyes

Album ArtIceland Airwaves hátíðin er frekar ríkjandi á þessum topplista í ár. Fyrsta Airwaves platan á listanum er Dark Eyes eftir kanadísku sveitina Half Moon Run. Half Moon Run var sú hljómsveit sem stóð mest upp úr eftir hátíðina í ár. Ég sá þá tvisvar, í bæði skiptin á off-venue, enda voru þeir að spila á sama tíma og The Vaccines þegar aðal tónleikarnir þeirra voru. Dark Eyes er fyrsta plata sveitarinnar og hún er gríðarvel heppnuð. Half Moon Run spilar hlustendavæna popptónlist en meðlimir í sveitinni eru gríðarlega fjölhæfir. Til dæmis spilar einn meðlimurinn á hljómborð og trommur á sama tíma. Ég mæli með þessari sveit og vona að hún komi aftur á næsta ári.

8. The Killers – Battle Born

The_Killers_-_Battle_BornThe Killers er sveit sem ég var eiginlega búin að gefast upp á. Fyrsta platan þeirra, Hot Fuss, kom útárið 2004 og er ein af mínum allra uppáhalds plötum. Í kjölfarið fylgdu plöturnar Sam’s Town og Day and Age. Þær áttu sína slagara en náðu mér aldrei almennilega. Árið 2010 tóku meðlimir sér árs frí frá sveitinni og það virðist svo sannarlega hafa gert þeim gott.

Battle Born er gríðarlega falleg og heilsteypt plata. Hún fjallar um mikið um ástina og það að vera í burtu frá þeim sem þér þykir vænt um. Lögin “Runaways” og “Miss Atomic Bomb” hafa fengið spilum á öllum helstu útvarpsstöðvum og verið vinsæl. Mín uppáhalds af þessari plötu eru hins vegar “Be Still” og “Here With Me”.

Næsta sumar munu Killers spila á Wembley. Er einhver til í ferð til London í júní?

7. Japandroids – Celebration Rock

220px-Celebration_RockÞessi plata er æðisleg. Japandroids er samansett af 2 mönnum: Brian King og David Prowse. Uppstillingin er einföld – trommur og rafmagnsgítar í forgrunni. Celebration Rock er önnur plata sveitarinnar og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Hún inniheldur 8 eldhress lög sem eru hvert öðru kröftugra. Um daginn var ég úti að labba um Kópavoginn og stóð mig að því að syngja upphátt með. Japandroids kom og spilaði á Gauknum í ágúst og ég græt það ennþá að hafa ekki verið búinn að uppgötva þá.

6. Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ásgeir TraustiFyrsta plata Ásgeirs Trausta er frábær gripur sem hefur farið sigurför um landið. Lögin “Sumargestur” og “Leyndarmál” fóru eins og eldur í sinu um landann og allt í einu var þessi strákur sem enginn vissi hver var í maí orðinn að íslenskri súperstjörnu. Platan Dýrð í dauðaþögn kom út í október, ef mér skjátlast ekki, og hefur selst í yfir 20.000 eintökum. Það sem kom mér á óvart er að af öllum þessum seldu plötum eru aðeins um 1500 stk seld í á netinu. Kaupir fólk semsagt ennþá geisladiska?

Lögin eru samin af Ásgeiri sjálfum en textarnir eru samdir af Einari föður hans. Þetta eru fallegir textar við fallegar melódíur. Eins og áður segir hafa lögin “Leyndarmál” og “Sumargestur” verið mest spiluð, en uppáhalds lagið mitt hefur frá byrjun verið lag númer 6 – “Nýfallið regn”.

5. Dirty Projectors – Swing Lo Magellan

swing lo magellanÖnnur Airwaves platan á listanum er Swing Lo Magellan með New York sveitinni Dirty Projectors. Þetta var ein fyrsta hljómsveit þessarar hátíðar sem ég kynnti mér. Þau stóðu fyllilega undir væntingum og héldu flotta tónleika í Listasafninu.

Swing Lo Magellan er sjötta plata sveitarinnar og hefur hún fallið vel í kramið hjá gagnrýnendum. Það er frekar erfitt að lýsa tónlistinni, en þetta flokkast sem indý rokk. Platan er róleg og einkennist af fallegum melódíum. Það sem hreyfir helst við mér við hana er fallegur söngur hjá Amber Coffman, aðalsöngkonu sveitarinnar, en þau lög sem hún syngur finnst mér skara fram úr og þá sérstaklega lagið “The Socialites”.

4. Poliça– Give You The Ghost

Polica Give You The GhostÞessi plata flokkast sem Airwaves plata, þó svo að sveitin hafi hætt við að koma til Íslands aðeins nokkrum vikum áður en hátiðin byrjaði. Sem var einmitt mjög leiðinlegt því ég var búinn að hlakka mikið til að sjá hana.

Poliça er elektró-indý hljómsveit frá Minneapolis. Aðal vítamínssprauturnar í henni eru Ryan Olson og Channy Leaneagh. Give You The Ghost er fyrsta plata sveitarinnar og er gríðarlega vel heppnuð. Það sem stendur upp úr er annars vegar söngurinn hjá Leaneagh og svo trommurnar á bakvið, en ef grannt er hlustað má heyra að á plötunni eru tveir trommuleikarar sem gefa plötunni gríðarlega þykkt “beat”. Bestu lögin að mín mati eru “Amongster”, “Wandering Star” og “Lay Your Cards Out”

3. Passion Pit – Gossamer

GossamerÞetta er sú plata sem ég var búinn að vera sem spenntastur fyrir á þessu ári. Löngu áður en hún kom út var ég búinn að merkja dagsetninguna inn í Outlook hjá mér og keypti hana sama dag og hún kom út. Fyrsta plata Passion Pit, Manners, er ein af mínum uppáhalds eins og ég lýsti í “Topp 5 Comeback ársins” og því voru væntingarnar ekki litlar.

Gossamer stendur fyllilega undir þeim væntingum. Ég veit ekki hvað það er en ég elska þennan hljóm sem þeir hafa náð að tileinka sér. Platan hjálpaði mér mikið þegar ég var að hlaupa í sumar og ég þurfti oft að halda aftur af mér að dansa ekki á meðan.

Þrátt fyrir að Gossamer gríðarlega hress og dansvæn plata þá má greina dimman undirtón í textum plötunnar. Michael Angelakos hefur lengi glímt við þunglyndi og það skín oft í gegn í textunum. Bestu dæmin um þetta eru lög eins og “Take A Walk” og “It’s Not My Fault, I’m Happy”.

Það vill gerast með góðar plötur að maður eignast mörg uppáhaldslög á henni og skiptir reglulega um, fram og til baka. Á Gossamer var “Take A Walk” fyrst í uppáhaldi, svo “Hideaway” og svo “It’s Not My Fault, I’m Happy”.

2. I Break Horses – Hearts

I-Break-Horses-Hearts-SMALL1-500x500Fjórða og síðasta Airwaves platan á þessum lista. Hún fær að vera með á þessum lista þrátt fyrir að hafa komið út árið 2011, þar sem hún fékk ekki almennilega athygli (hjá mér a.m.k.) fyrr en á þessu ári. I Break Horses er elektróband frá Svíþjóð og það er gaman að segja frá því að Maria Linden og Frederick Balck kynntust á spjallborði þar sem fólk hittist og ræðir um sjúdóma. Þau segjast bæði vera rosalega bakteríufælin (e. hypochondriacs) og því tilvalið að nota þetta sameiginlega áhugamál og búa til tónlist.

Hearts er fyrsta plata sveitarinnar og hún er gríðarlega þétt. Ég hef rosalega mikið verið að fíla svona elektró-gítar-riff síðustu mánuði og þessi plata smellpassar inn í þann flokk. Hún er gríðarlega jöfn yfir og heldur sig við sama hljóminn alla leið. Þau lög sem standa helst upp úr eru “Winter Beats”, “I Kill Your Love, Baby”, “Cancer” og “Load Your Eyes”.

Ég var svo spenntur að sjá I Break Horses á Airwaves í ár að ég skyldi alla vini mína eftir í Hörpunni og hljóp einn yfir í Iðnó að sjá þau. Þau kláruðu settið og gott betur. Rosalega flott hljómsveit.

1. Tilbury – Exorcise

Besta plata ársins er Exorcise með hinum alíslenska Þormóði Dagssyni og félögum í hljómsveitinni Tilbury.

Exorcise er ein af þessum plötum sem þú vissir ekkert um, hafðir engar væntingar til og hún slær þig svo fast utanundir að það er ekki einu sinni fyndið. Það eru ÖLL lögin góð á þessari plötu. Allt frá fyrsta laginu, hinu létta “Tenderloin” yfir í aðeins þyngra “Drama” og píanóglamrandi “Picture”. Ef ég lýt yfir mest spiluðu plötuna í Google Music hjá mér trónir Exorcise á toppnum, ekki bara á þessu ári, heldur síðan ég stofnaði þjónustuna.

Það er ekkert meira hægt að segja um þenna grip heldur en KAUPTU hann núna!

Þá er listamaníu ársins lokið. Ertu sammála, ósammála eða kannski alveg sama?

Gleðileg nýárskveðja.
Hjalti

1 comment

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s