Archive

Netið

Jæja nú er ég alveg að verða brjálaður. AAALVEG eins og Indriði félagi minn myndi segja.

Ég er nefnilega svo rosalega þreyttur á einhverju sem heitir “regional restrictions” eða svæðisbundnar takmarkanir. Ég geri rosalega mikið á internetinu. Ég er nettengdur heima hjá mér, í vinnunni og í símanum þegar ég er á ferðinni. Með hjálp internetsins neyti ég afþreyingar eins og tónlistar, bóka, kvikmynda, sjónvarpsþátta o.fl., eins og þú gerir eflaust sjálfur, lesandi góður.

Ég reyni að vera góður íbúi á Hótel Jörð og borga fyrir flesta þá hluti sem ég neyti. En aftur og aftur er ég neyddur til þess að stela. Af hverju? Vegna þess að efnið sem ég ætla að kaupa er ekki í boði fyrir mann með íslenska IP tölu!

Á Airwaves í haust sá ég frábæra hljómsveit frá Bandaríkjunum. Þegar ég kom heim langaði mig til að kaupa plötuna þeirra. Ég fór á heimasíðu sveitarinnar, Tónlist.is, Gogoyoko og skoðaði allar þær leiðir sem ég kunni til að nálgast plötuna en fann hana ekki. Hún var líka í boði á iTunes, en við getum víst ekki notað iTunes af því við búum á Íslandi. Þannig ég ákvað að hafa samband við sveitina og spyrja hvenær ég gæti keypt plötuna. Snemma 2012 í Evrópu, var svarið. Þannig ég þurfti að bíða í 3 mánuði eftir að geta keypt þriggja mánaða gamla plötu! Hver haldiði að lausnin hafi verið? PirateBay.

Frábær hljómsveit á Airwaves 2011

Í dag ætlaði ég að kaupa mér hljóðbók. Bókin er frá 2007 og ég fann hana á Amazon.com og á Audible.com. Ég er með áskrift á Audible.co.uk og kaupi þar 1-2 bækur í mánuði, þannig ég gerði nú bara ráð fyrir að bókin væri þar. Nei auðvitað ekki, hún er bara í boði á Bandaríkjunum, ekki í Evrópu. Hver haldiði að lausnin hafi verið? Jú auðvitað Piratebay aftur!

Að horfa á sjónvarpsþætti og kvikmyndir er frábær leið til að drepa tímann. Ég er af þeirri kynslóð sem vill geta stjórnað því hvenær hún neytir síns sjónvarpsefnis. Þannig draumastaðan fyrir mig er sú að kaupa aðgang að t.d. Netflix eða Hulu þar sem flestir bandarískir sjónvarpsþættir eru í boði í góðum gæðum. Þá gæti ég fyrir sanngjarnt verð horft á þættina mína, myndi hætta að stela þeim, framleiðendurnir fengju eitthvað fyrir sinn snúð. Allir vinna.

“Content is universal” – Efnið sem er framleitt er vara sem hægt er að neyta hvar sem er í heiminum. Ég get keypt bókina mína í kilju á Amazon og látið senda heim til mín, en ég get ekki sótt hljóðbókina. Að sama skapi hefði ég getað keypt geisladiskinn á CD Universe, látið senda hann heim til mín, brennt yfir á tölvuna og sett á iPodinn minn, en ég get ekki keypt MP3 útgáfuna.

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal, sama hversu margar SOPA, PIPA eða ACTA löggjafir verða til. Þess vegna er það fáránlegt að setja þeim sem vilja borga stólinn fyrir dyrnar. Ég vil að sá sem bjó til efnið sem ég er að njóta fái eitthvað fyrir sinn snúð og ég get ímyndað mér að hann vilji að ég borgi honum. Af hverju má ég ekki borga honum? Vilja þessir aðilar ekki peningana mína?

Þetta er ekki séríslenskt vandamál. Fólk út um allan heim er að lenda í þessu sama.

Fred Wilson er fjárfestir í New York, en hann hefur ítrekað talað um þetta á blogginu sínu:
Monetize the audience, not the content
Scarcity is a shitty business model 

MG Ziegler er reglulegur pistlahöfundur á Techcrunch.com og segir hér frá raunarsögu sinni varðandi Game of Thrones:
Help! I’m being forced to pirate Game Of Thrones against my will!

Daniel Barassi er vefstjóri Depeche Mode og sér um að stjórna YouTube viðveru hljómsveitarinnar auk þess að vera þekktur plötusnúður. Hann tók reiðiskast á Facebook síðunni sinni einn daginn.

…sem leiddi til að vefsíðan TechDirt fjallaði um málið:
Why Do The Labels Continue To Insist That ‘Your Money Is No Good Here?’

Það eina sem ég bið um er að fá að kaupa mína afþreyingu á sanngjörnu verði þannig ég fái að njóta þeirrar gleði sem fylgir því að lesa bók, hlusta á nýja plötu, horfa á spennandi sjónvarpsþátt o.s.frv. Af hverju þarf það að vera svona mikið vesen?

Ég ætla að byrja þessa færslu á því að efna til samkeppni um bestu þýðinguna á enska orðinu “newsjacking”. Ef þú hefur ekki heyrt þetta orð áður þá er ekki seinna vænna en að þú lesir færsluna!

Ég kýs að nota orðið “fréttastuldur”, þangað til einhver kemur með eitthvað betra. Fréttastuldur hefur verið til lengi og tíðkast í öllum brönsum í heiminum. Orðið kemur samt frá David Meerman Scott, manni sem ég hef skrifað um áður. Hann hefur notað það í mikið af sínum skrifum, bæði í bókum og á blogginu sínu. Nú síðast í nóvember gaf hann út stutta rafbók sem hægt er að kaupa fyrir Kindle.

Fréttastuldur er í raun mjög einfaldur í framkvæmd. Nýttu þér fréttir til að koma sjálfum þér og/eða vörum þínum á framfæri. Þetta gengur út á að finna sjónarhorn á fréttum þar sem þú getur troðið inn á snjallan hátt og þannig “stelur” þú augnablikinu. Þetta frábær leið til fyrir fólk og fyrirtæki sem hefur lítið auglýsingabudget og vantar einhverja umfjöllun.

En hvernig nærðu þessu? Það er hægt að gera þetta klassíska, hringja í fréttamenn eða senda þeim tölvupóst og vona að þeir fjalli um þig í kjölfarið. En auðveldasta leiðin er auðvitað að nota hina svokölluðu samfélagsmiðla. Ef þú eða fyrirtæki þitt ert með blogg, Facebook síðu, Twitter aðgang eða eitthvað slíkt, þá er mjög auðvelt fyrir þig að smella þér inn í umræðuna, án mikillar áreynslu. Best er að nýta þessa miðla alla saman.

Eigum við að taka nokkur dæmi?

Joe Payne er á Twitter

Fyrirtækið Eloqua sérhæfir sig í hugbúnaði  fyrir markaðsfyrirtæki sem samhæfir vefmælingar, tölvupóstsendingar og aðrar aðgerðir á vefnum. Forstjórinn, Joe Payne (svalt nafn), varð þess áskynja að Oracle var að ganga frá kaupum á aðal samkeppnisaðilanum, Market2Lead. Það hefði verið auðvelt fyrir Joe Payne að kalla inn allt starfsfólkið á krísufund og haft áhyggjur af nýjum risa á markaðnum. Í staðinn settist hann niður, skrifaði bloggfærslu þar sem hann bauð Oracle velkomið og sagði það ánægjulegt fyrir þennan bransa að risarnir á hugbúnaðarmarkaðnum væru farnir að horfa í þennan markað.

Þessi eina bloggfærsla skilaði sér í umfjöllun í Business Week, InfoWorld, PC World og fleiri og fleiri. Á næstu vikum sprungu allir sölukanalar upp út af allri athyglinni og í kjölfarið var skrifað undir $500.000 samning við Red Hat. Payne hefur sagt að þessi litla bloggfærsla hafi fært fyrirtækinu um MILLJÓN dollara í tekjur.

Man einhver eftir stóra saltmálinu hér um daginn?

Ég sá frábært dæmi um fréttastuld þegar stóra saltmálið komst í hámæli. Þannig var mál með vexti að Ölgerðin hafði verið að selja fólki iðnaðarsalt sem var svo notað í matargerð. Þetta var rosalega hávært og leiðinlegt mál, sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Þegar listi yfir þá viðskiptavini sem keypt höfðu saltið komst í fjölmiðla fór allt í háa loft, enda voru þar á meðal nokkrir af stærstu matvælaframleiðendum landsins.

Útiplönin hjá Eðalfisk

Daginn eftir að listinn var gerður opinber sendi fyrirtækið Eðalfiskur frá sér fréttatilkynningu, en Eðalfiskur var á listanum. Þar segir að fyrirtækið fordæmi vinnubrögð Heilbrigðiseftirlitsins þar sem gefið er í skyn að Eðalfiskur hafi notað iðnaðarsaltið til matvælaframleiðslu. Það sé rétt að Eðalfiskur keypti bretti af umræddu salti, en þegar fólk sá að það var merkt sem iðnaðarsalt var því dreift á útiplön fyrirtækisins, ekki notað í framleiðslu. Þetta fór eins og eldur í sinu um netheima, Eyjan, Visir.is, MBL.is og sjónvarpsfréttirnar tóku þetta fyrir og fyrir vikið fékk Eðalfiskur ókeypis umfjöllun sem sýndi að þar væri gæðaeftirlitið í lagi.

Þó að fréttastuldur sé mjög skemmtileg og árangursrík leið til að fá umfjöllun um fyrirtækið þitt þá er hann mjög vandmeðfarinn og getur auðveldlega sprungið í höndunum á þér.

Besta dæmið um illa heppnaðan fréttastuld er þegar tískufyrirtækið Kenneth Cole reyndi að nýta sér mótmælaöldu í Egyptalandi til að vekja athygli á útsölunni hjá sér með því að setja inn tvít merkt #Cairo.

Í stað þess að bera tilætlaðan árangur og vekja athygli á útsölunni fóru að streyma inn blogg, tvít og tölvupóstar þar sem fyrirtækið var skammað og látið heyra það. Á endanum var færslan fjarlægð og fyrirtækið baðst afsökunar.

Hvað getur þú gert?

Vertu vakandi fyrir öllum þeim fréttum sem snerta þig, þinn markað og þína samkeppnisaðila. Ef tækifærið gefst skaltu stökkva til og sjá hvernig þú getur nýtt þér það. Skrifaðu frétt á heimasíðu eða blogg fyrirtækisins og deildu henni svo á Twitter og Facebook síður fyrirtækisins og þína eigin. Ef efnið er nógu djúsí þá mun það verða gripið á lofti og tekið áfram.

Ég mæli líka með bókinni Newsjacking. Hún er stutt og þú kemst í gegn um hana á ca. klukkutíma. Eins kostar hún sáralítið og er vel peninganna virði. Ef þú lest hana og finnst hún áhugaverð mæli ég með fleira efni eftir sama höfund. David Meerman Scott er virtur markaðsgúru með mikla reynslu úr bransanum. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og mun sennilega mæta oftar hingað inn í hugrenningarnar.

Endilega skjótið á mig fleiri dæmum um fréttastuld í athugasemdum!

Tumblr fyrir Android

Flestir sem hafa lesið hugrenninga frá mér þekkið sjálfsagt Twitter. En það eru því miður færri sem virðast þekkja Tumblr. Tumblr.com er síða sem hefur náð mikilli dreifingu í Bandaríkjunum. Hún er þeim eiginleikum gædd að mjög auðvelt er að deila hlutum, hvort sem það er myndband, textafærsla, infógraf eða eitthvað allt annað. Hver er þá munurinn á Tumblr og Facebook, Blogger, Twitter og öllum hinum samfélagsmiðlunum. Ég horfi á þetta svona: ef Twitter er örblogg og WordPress er blogg þá myndi ég segja að Tumblr væri eitthvað akkurat þar á milli. Það er nefnilega svo rosalega auðvelt að deila á Tumblr og það kemur í svo þægilegri tímalínu. Tumblr snýst meira um myndefni heldur en venjulegar bloggsíður og hentar því mjög vel í svona myndablogg, betur en t.d síður eins og Blogger. Skoðið Tumblr-inn hjá mér til að sjá hvað ég er að meina

Tumblr er til dæmis með frábært snjallsímaforrit sem gerir deilingu í rauntíma svona líka þægilega. Eins er skemmtilegt að deila myndum þar til að sjá þær á í tímalínu, frekar en t.d. á Facebook þar sem allt blandast saman, myndir af fjölskyldunni, stöðuuppfærslur og annað. Þá er Tumblr skemmtileg síða til að benda inn á, hvort sem það er af Facebook eða Twitter eða hvað. Tumblr er líka með svona fítus eins og Twitter að þú getur “elt”  (e. follow) hvern sem er, þannig ef þú finnur einhvern með áhugaverða síðu, þá eltirðu hann og uppfærslur frá honum munu koma upp í svona “newsfeed”.

Eins og ég segi þá er þetta skemmtilegur miðill með marga möguleika. Þegar slíkur miðill stekkur fram á sjónarsviðið er gaman að skoða hvernig vörumerki nýta sér hann til að koma sér á framfæri. Við skulum líta á nokkur dæmi.

Barack Obama

Obama hefur hafið endurkjörsherferð sína af krafti. Hann ætlar sér að nýta samfélagsmiðlana til fulls og er á Twitter, Tumblr, Foursquare og á fleiri miðlum, til að ná til sem flestra. Tumblr síðan hjá honum er skemmtileg og lifandi og sýnir forsetan í nýju ljósi. Efsta myndin í dag er til dæmis af honum með hundinn sinn. Með þessari síðu er Obama að gera sig miklu aðgengilegri fyrir kjósandann. Kjósandinn gefur sitt atkvæði að öllum líkindum þeim frambjóðanda sem honum líkar best við. Á Tumblr er hann að ná til ákveðins hóps og hefur þetta mælst vel fyrir.

Mashable

Mashable fréttaveitan er með Tumblr síðu en hún er ekki notuð í að vísa inn á fréttir af síðunni eða vekja athygli á því sem er í gangi á síðunni sjálfri. Nei þau nota Tumblr bloggið sitt til að leyfa lesendum vefsíðunnar að kynnast starfsfólkinu og hvað er í gangi baksviðs. Þannig eru allskonar myndbönd og linkar frá fólkinu sem vinnur hjá Mashable, bæði eitthvað sem tengist vinnunni og svo líka bara skemmtileg innslög inn á milli. Skemmtileg leið til að nota blogg til að kynna vinnustaðinn.

Alexander Mcqueen

Alexander Mcqueen var heimsfrægur fatahönnuður sem dó langt fyrir aldur fram árið 2010. Tískuhúsið og vörumerkið hafa samt sjaldan verið sterkari og það er einmitt að gera skemmtilega hluti á Tumblr. Tískuvörumerkin hafa einmitt verið mjög áberandi í upptöku á Tumblr enda er bæði auðvelt að deila myndum af nýjum og væntanlegum vörum eða myndum af módelum í fötum frá t.d. Alexander Mcqueen. Eins er mjög auðvelt fyrir tískuáhugafólk að fylgjast með bara með því að ýta á “Follow” takkann, og þá fær það nýjustu myndirnar beint í æð.

Universal Music

Tónlistarbransinn er svipaður tískubransanum að því leiti að það er alltaf að koma nýtt efni. Universal Music hefur verið að nota Tumblr á skemmtilegan hátt með því að setja inn myndbönd, viðtöl, gömul plaköt og myndir frá listamönnum sem eru á samning hjá Universal.

Fleiri dæmi um vörumerki sem eru að nota Tumblr má sjá hér í þessari upptalningu.

Eru einhver íslensk dæmi?
Nú þekki ég ekki marga einstaklinga sem eru með Tumblr síður en ég þekki samt engin fyrirtæki eða vörumerki sem nýta sér þennan miðil hér á landi. Mér myndi helst detta í hug að hljómsveitir og fatahönnuðir myndu finna not í Tumblr, enda er þetta frábær síða til að vera með blogg sem snýst aðallega um myndir og myndbönd en minna um texta.
Ef ég fæ einhver góð dæmi fara þau beint hérna undir.

Fyrsta kynslóð iPod

Hlaðvörp (e. podcasts) eru eins konar útvarpsþættir á netinu. Hver sem er getur tekið upp hlaðvarp og sett það á netið sem þýðir að næstum hver sem er getur hlustað á það sem útvarpað er á tíma sem honum hentar. Hlaðvörp fóru að verða vinsæl með útbreiðslu iPod-ana góðu en þá fór fólk að sækja þau í gegn um iTunes og svo hlusta á þau í iPod spilaranum sínum.

Fyrir stuttu síðan var ég búinn að ákveða að hlaðvörp væru bara fyrir nörda. Af einhverjum ástæðum var ég búinn að ákveða að þeir sem byggju til og hlustuðu á hlaðvörp væru myndasögulúðar í Bandaríkjunum. Hvað gaf mér þá hugmynd veit ég ekki, en á síðustu vikum hef ég byrjað að hlusta á hlaðvörp sjálfur. Kannski flokkast ég undir skilgreininguna á myndasögulúða en þá er það bara svalt.

Það sem fyrst opnaði glufu fyrir hlaðvörpin hjá mér var bókin The New Rules of PR and Marketing eftir David Meerman Scott, sem ég hef verið að reyna að lesa. Ég segi reyna að lesa af því ég held ég hafi byrjað á henni í september og svo glugga ég í hana á köflum, eftir því hversu mikið er að gera hjá mér. Vonandi næ ég að klára hana fyrir áramót. Nokkrum vikum síðar var ég að tala við frænda minn sem alltaf hlusta á hlaðvörp þegar hann er að vinna. Á endanum keypti ég hugmyndina um hlaðvörp þegar vinnufélagi minn sagðist vera orðinn háður því að hlusta á þau í gegn um forrit í símanum sínum.

Þegar ég heyrði að það væri til forrit í símann var ég undireins seldur. Auðvitað var það eina sem þurfti forrit í símann, það er svo geðveikt sniðugt! Þannig ég sótti forritið Pocket Casts og fór að sækja mér nokkra þætti. Og viti menn, ég er háður. Það vill nefnilega þannig til að það er hægt að finna hlaðvörp um allan fjandann. Ég hlusta mest á eitthvað sem tengist tækni, samfélagsmiðlum og markaðsfræði, en þú gætir fundið allt frá uppistandi til tónlistarþátta, hagfræði eða Sesame Street. Ricky Gervais er til dæmis með geysivinsælt hlaðvarp sem hægt er að gerast áskrifandi að.

Pocket Casts fyrir Android

Síðustu vikuna hef ég m.a. hlustað á This Week in Google (TWIG), vikulegan þátt um hvað Google er að brasa, viðtal við forstjóra Coca Cola á Harvard Business Review rásinni auk nokkurra viðtala á Marketing Profs rásinni. Ég hef verið að hlusta á þetta þegar ég er á leiðinni í vinnuna, úti að hlaupa eða ef ég hef 10 mínútur þar sem ég hef ekkert annað að gera. Þetta er frábær leið til að ná sér í smá fróðleik, og það besta er að maður getur verið að gera eitthvað annað á meðan. Ef fólk fer inn á iTunes og í iTunes Store er hægt að skoða öll þau hlaðvörp sem í boði eru. Ég mæli endilega með að þið prófið þetta.

En hvernig er það, eru einhverjir Íslendingar að taka upp hlaðvörp og senda þau út á netið fyrir okkur hin að hlusta? Ef einhver er með ábendingar má sá hinn sami endilega stíga fram. Ef einhver veit um fleiri góð er ég meira en tilbúinn að hlusta.

Hér fyrir neðan er Michael Porter að tala í podcasti sem heitir Rethinking Capitalism frá Harvard Business Review.

Í Bandaríkjunum í dag þykir töff að klára ekki háskóla heldur elta drauminn og stofna eigið sprotafyrirtæki. Sögur af fyrirtækjum eins og Twitter, Facebook og Groupon heilla mörg ungmennin og allt í einu þykir ekki flott að vera með gráðu frá Harvard heldur er meira töff að hafa einmitt HÆTT í Harvard. Flest þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að þau eru byggð á einhverskonar vefsamfélagi og flest þeirra eiga það sameiginlegt að eigendurnir vilja ekki ganga með bindi. Skoðum þetta aðeins nánar.

Það fylgir því venjulega að þegar fyrirtækið þitt er skráð í kauphöll þá ertu orðinn frekar mikilvægur maður. Ég vinn í frekar afslöppuðu umhverfi þegar kemur að fatnaði en það er munur á að vera snyrtilegur eða líta út eins og þú sért nýkominn frá því að lana með vinum þínum.

Hvað er pælingin á bakvið þetta? Er þetta einhver uppreisn gegn heiminum sem þeir starfa í, eða er þetta viljandi gert til að ýta undir einfalt og þægilegt umhverfi á vinnustaðnum? Þetta virðist allavega vera trend í tækniheimum og mín kenning er sú að þetta sé þeirra leið til að verða ekki of “corporate”. Þeir semsagt vilja halda í háskólaandann og ekki sýnast vera eins gráðugir og fjárfestarnir sem þeir hafa þurft að leita á náðir til.

Tökum nokkur dæmi:

Nafn: Mark Zuckerberg
Aldur: 27 ára
Fyrirtæki: Facebook
Virði: $80,000,000,000 (sept 2011)

Zuckerberg hefur verið tíður gestur í hugrenningum mínum enda sennilega sá sem setti staðalinn fyrir þessa nýju Kísildals-nörda. Mark kemur alltaf fram í stuttermabol og sandölum, en þegar hann vill poppa sig upp hendir hann jafnvel hettupeysu yfir sig.

Nafn: Seth Priebatsch
Aldur: 22 ára
Fyrirtæki: SCVNGR
Virði: $100,000,000 (maí 2011)

Seth Priebatsch er enn eitt undrabarnið. Hann er aðeins 22 ára og á og stýrir leikjafyrirtækinu SCVNGR sem byggir á sömu hugmynd og Foursquare. Hann titlar sig “Chief Ninja” og labbar um með appelsínugul sólgleraugu á hausnum. Hann einmitt hætti í Princeton til að láta drauminn rætast.

Nafn: Mark Pincus
Aldur: 45 ára

Fyrirtæki: Zynga
Virði: $15,000,000,000 (júní 2011)


Marc Pincus er forstjóri leikjafyrirtækisins Zynga sem bjó til leikina Farmville og Cityville á Facebook. Zynga stefnir á að skrá sig á hlutabréfamarkað núna á næstu vikum. Ætli það komi Pincus úr stuttermabolnum í jakkafötin?

Nafn: Dennis Crowley
Aldur: 35 ára

Fyrirtæki: Foursquare
Virði: $600,000,000 (júní 2011)


Foursquare er ennþá eitt af heitustu sprotunum ytra. Dennis Crowley er annar stofnandi fyrirtækisins og hann stýrir öllum 70 starfsmönnunum í hettupeysu.

En tískan er ekki aðeins bundin við Bandaríkin. Hún teygir sig að sjálfsögðu líka hingað heim. Tökum sem dæmi flottasta tæknifyrirtækið á Íslandi í dag, CCP. Hefur Hilmar Veigar Pétursson einhverntíman komið fram í fjölmiðlum öðruvísi klæddur en í stuttermabol?

En þá spyr maður sig, er þetta ekki bara bransinn? Þeir sem eru í tölvubransanum aðgreina sig greinilega frá þeim sem eru í fjármálabransanum. Fatnaður er ein leið til þess. Eiga fötin að skipta einhverju máli? Eiga verkin ekki frekar að tala frekar en klæðnaður og aldur? Eða eru þeir allir að herma eftir manni sem kom aldrei fram nema í rúllukragabol, gallabuxum og hvítum strigaskóm? Setti hann staðalinn fyrir klæðaburð í tölvugeiranum.

Þetta var svona léttur pistill um tískuna í tölvuheimum, svona eftir alvarleika síðustu færslu.

Google Music er nýjasta undrið frá vinum mínum hjá Google. Þetta er semsagt tónlistarspilari frá þeim þar sem þú getur hlaðið inn öllu tónlistarsafninu þínu og hlustað hvar sem er – svo lengi sem þú ert með Google reikning (Gmail). Þú færð 20.000 lög til þess að byrja með og þarft bara að hlaða niður mjög einföldum “uploader” til þess að byrja að hlaða inn tónlist. Svo velurðu bara hvaða möppu þú vilt henda inn í skýið og voilá – þú getur hlustað á tónlistina þína hvar sem er. Google Music er enn ein viðbótin í Google samfélagið sem ég hef minnst á áður, og styrkir ennfrekar nýju Chromebook tölvuna þeirra (sjá hér).

Þessi nýi fítus hjá þeim er náttúrulega snilld fyrir 21. öldina. Fólk er að vinna á svo mörgum endatækjum. Tökum sem dæmi sjálfan mig. Ég er með tölvuna mína heima með allri tónlistinni minni, svo er ég með tölvu í vinnunni með öðru tónlistarsafni og að lokum er ég með símann minn sem ég nota líka sem tónlistarspilara. Það getur verið þreytandi að færa alltaf á milli ef þú vilt geta hlustað á plötur sem þú hefur kannski keypt heiðarlega, nú eða hlaðið niður óheiðarlega. Einnig er ein mjög lítil en stórskemmtileg virkni í þessum spilara. Ef þú ert með plötu sem vantar umslagið framan á (þetta skiptir suma máli), þá leitar hann sjálfur á netinu og sækir myndina fyrir þig. Þannig allt lítur fallega út.

Svona lítur safnið út

Ég hef núna svo gott sem sagt skilið við iTunes því frá því ég byrjaði að nota Google Music hefur spilarinn ekki hikstað einu sinni og viðmótið er bara svo fjandi skemmtilegt. Það eina sem ég sakna virkilega úr iTunes er að sjá ekki hversu oft einstakt lag hefur verið spilað. Ég er rosalega hrifinn af allskonar listum og finnst gaman að skoða hvaða lög ég hef mest hlustað á í gegn um tíðina. Ég vona að því verði bætt við.

Svona lítur farsímaviðmótið út

Google Music fyrir Android

Að sjálfsögðu er til forrit fyrir Android. iPhone er eitthvað aðeins á eftir, ég fann allavega ekki iOS útgáfu á App store. En þá spyrja sumir: “Er ekki dýrt að streyma tónlist í gegn um síma hvort eð er? Ég ætla ekkert að borga neina formúgu!” Svarið við þessu er jú, vissulega er dýrt að streyma miklu magni af tónlist yfir farsímanet, en það er alltaf hægt að streyma yfir WiFi eða láta símann vista valin lög á minninu, og það þráðlaust! Ég elska tæknina allt of mikið!

Að sjálfsögðu er galli á gjöf Njarðar. Google Music er bara í boði í Bandaríkjunum og er ennþá í Beta útgáfu. Sem þýðir að hver notandi fær aðeins örfáa boðslykla og hann þarf að fara krókaleiðir til þess að skrá sig. Einnig er ekki hægt að ná í Android forritið nema bakdyramegin. Ég reikna með að þetta sé allt leyfisskilt hvað varðar höfundarrétt og annað þannig Google Music verður pott þétt ekki í boði fyrir sótsvartan almúgan í heiminum strax. En eins og áður segir er alltaf hægt að fara krókaleiðir. Ef þú þekkir einhvern sem er með Google Music, biddu hann um að bjóða þér. Ég á ófáa eftir þannig fyrstur kemur, fyrstur fær. Eftir að þú ert kominn með boðslykil, fylgdu þá eftirfarandi leiðbeiningum:

  1. Þú þarft að plata tölvuna þína þannig hún haldi að hún sé í Bandaríkjunum. Það er auðveldlega gert. Þú ferð inn á þessa síðu og finnur þér proxy server í Bandaríkjunum.
  2. Opnar Firefox og breytir proxy settings. Það er undir Tools – Options – Advanced Network. Þar seturðu inn IP tölu proxy þjónsins og port.
  3. Þú smellir á boðslykilinn sem var sendur á þig.
  4. Sækir Music Manager (getur gert það með því að smella hér
  5. Velur möppuna með tónlistinni þinni og byrjar að hlaða upp
  6. Hlustar eins og vindurinn

Eins og með allar nýjar þjónustur hefur Google sett eldhressa auglýsingu á netið. Endum þetta með henni.

Við erum í miðri tilboðsmaníu. Hún hófst snemma í vor með tilkomu Hópkaup.is, með stuðningi frá Dilar.is og fékk svo byr undir báða vængi með fæðingu Aha.is. Í kjölfarið spruttu upp bæði Kaupmáttur.is og Kaupnet.is og  svo nú fyrir stuttu kom fram á sjónarsviðið WinWin.is. Það gera samtals SEX síður sem bjóða upp á það sama hérna á litla Íslandi.

Þessar síður græða sína peninga með því að hafa samband við fyrirtæki og bjóða þeim að selja hjá sér vöru eða þjónustu á mun lægra verði en gengur og gerist. Það eru allskonar fyrirtæki sem nýta sér þjónustuna, t.d. er Veggsport að selja árskort á Hópkaup.is og Sumarferðir eru að selja ferð til Tenerife á WinWin.is. Tilboðssíðurnar kaupa þessi gjafabréf t.d. á 50% afslætti og smyrja síðan ofan á einhverri álagningu. Fyrirtækin fá fjöldakaup, nýja viðskiptavini og auglýsingu en vefsíðan tekur mismuninn. Viðskiptavinir fá svo vöru á mun lægra verði en ella. Þetta getur verið mjög sniðug leið til að kynna sig og fá nýja viðskiptavini. Einnig er þetta sniðugt til að selja vöru með hárri framlegð í miklu magni, nú eða losa sig við úreldar birgðir.

Nú þegar virðast sigurvegararnir vera farnir að skera sig frá og skilja hina eftir, en Dilar.is hefur ekki verið með nýtt tilboð svo vikum skipti og það virðist vera lítil hreyfing bæði á Kaupmætti og Kaupneti. Hópkaup hafa náð miklum vinsældum út á það að hafa verið fyrstir á markaðinn en Aha var fyrsta síðan til að vera með tilboð fyrir fólk úti á landi. WinWin.is virðist síðan vera með ágætis bakland en áður en hún fór í loftið voru meðal annars auglýsingar á strætóskiltum og í blöðum til að vekja athygli á henni. Hún er síðan að skera sig úr sem svona “fínni” tilboðasíða fyrir konur, þ.e. verið að selja snyrtimeðferðir, spaferðir og nudd svo eitthvað sé nefnt.

En hvaðan kemur þessi snilldar hugmynd sem allir fengu á sama tíma?

Fyrirmynd allra þessara síða kemur frá vefsíðu sem sett var í loftið í nóvember 2008 og heitir Groupon. Groupon var fyrsta síðan til að slá í gegn með þessu viðskiptamódeli en hún hefur riðið tröllum um öll Bandaríkin síðustu misseri og hefur síðan hasslað sér völl út um allan heim í gegn um kaup á svipuðum síðum. Til dæmis keypti Groupon síðurnar Darberry.ru í Rússlandi og Qpod.jp í Japan og rekur þær nú undir eigin nafni. Samkvæmt Wall Street Journal eru um 83 milljónir notendur sem fá tilboð sent daglega í gegn um tölvupóst og starfsmenn eru rétt yfir 7000 talsins og helmingurinn af þeim eru sölumenn.

Groupon er eitt af stjörnufyrirtækjunum sem er að ýta undir alla þá maníu sem ríkir í Kísildalnum þessa dagana og í byrjun júní sóttu þeir um skráningu á hlutabréfamarkað. Þeir eru all svakalega góðir með sig og höfnuðu til að mynda 6 milljarða dollara tilboði frá Google síðasta haust. Heildarverð fyrirtækisins er allt að 30$ milljarðar samkvæmt sumum fréttum. Og nota bene, á þeim 3 árum sem það hefur verið til hefur það ekki skilað hagnaði á einum einasta ársfjórðungi. Sagan segir að þegar bjallan glymur muni Groupon byrja í $25 milljarða virðinu.

Andrew Mason forstjóri Groupon

En það eru ekki allir sannfærðir um ágæti þessa fyrirtækis. Í fyrsta lagi hafa þeir eins og áður segir ekki ennþá skilað hagnaði og það lítur ekkert út fyrir að það gerist strax. Þeir hafa jú vaxið ógurlega mikið á fyrstu árunum og eitt gífurlegum fjárhæðum í þann vöxt en það vill svo til að þeir eru á markaði sem frekar auðvelt er að koma inn á.

Eftir að yfirtökutilboðinu var hafnað, ákvað Google að rúlla út Google Offers. Fyrst í Portland, Oregon og svo fylgdu New York City og San Fransisco í kjölfarið. Amazon, risinn í verslun á netinu ætlar ekki að láta þetta framhjá sér fara, og er farinn að keyra á “Daily deals”. Einnig eru síður eins og Living Social einnig að hassla sér völl án þess að vera að sporta keppnistapi eins og Groupon. Þeir þurfa einfaldlega að fara á markað til að geta haldið áfram að lifa því nú þegar þrengir að þá lokast allar lánalínur og það hægist á vextinum. Við skulum vona að það standi eitthvað eftir þegar markaðurinn jafnar sig aftur.

Ég hef talað um netbóluna hér og Kísildals-mafíuna hér. Ég myndi aldrei setja pening í þetta fyrirtæki eins og staðan er í dag.  Ég reikna með að þeir sem séu að fjárfesta í Groupon í dag séu að leita sér að skammtímaávinningi – þ.e. að kaupa bréfin og reyna að selja þau á sem hæstu verði – og sá sem kaupir sé með sama ávinning í huga. Þetta gerir ekkert nema að skapa bólu.

Rob Wheeler tók þetta allt saman í bloggfærslu á Harvard Business Review sem ber nafnið “Groupon doomed by too much of a good thing“. Ég leyfi honum að eiga síðasta orðið.

Update 8/9/11 – Ég var að taka eftir því að það fer að opna ný síða – www.kraftkaup.is! Hvar endar þetta?

Grjótið alveg með þetta

Allir þekkja auglýsingar. Auglýsingar geta verið augljósar eins og þær sem við sjáum í auglýsingahléum í sjónvarpinu og svo eru líka til faldar auglýsingar eins og t.d. vörulauma (e. product placement). Fyrirtæki reyna að auglýsa sig á sem flestan hátt, til dæmis með því að setja upp merkingar, styrkja íþróttamót, gefa markaðsvörur eins og sólgleraugu og listinn telur áfram.

Ein ágætis leið til þess að koma vöru sinni á kortið er í gegn um vörulaumur. Ef þið sáuð t.d. myndina Fast Five þá var The Rock aldrei klæddur í neitt annað en Under Armour og ef þið horfið á Modern Family þá á heimilisfaðirinn Phil Dunphy iPad sem hann elskar og allir hinir nota Apple tölvur. Ég hef rosalega gaman af svona vörulaumum og skima sérstaklega eftir þeim þegar ég horfi á bíómyndir.

Auglýsendur vilja að sjálfsögðu að sem flestir sjái efnið sem þeir eru að framleiða. Flestir sem framleiða sjónvarpsauglýsingar setja þær einnig á YouTube en ef einhverjum finnst auglýsingin fyndin og/eða skemmtileg þá deilir viðkomandi henni jafnvel til vina sinna. Það eru til mýmörg dæmi um auglýsingar sem fá mikla umfjöllun á netinu og verða “viral” eins og sagt er. Auglýsingin hérna fyrir neðan hefur fengið rétt undir 40 milljón áhorf á netinu, eitthvað sem Volkswagen menn eru mjög stoltir af.

Netið býður upp á marga nýja möguleika í skemmtilegri markaðssetningu. Á síðastu árum hafa dúkkað upp tvö fyrirtæki sem taka að sér að gera “branded content” eins og þeir kalla það. Rauði þráðurinn er sá að fyrirtækin framleiða skemmtilega stiklu um einhverja vöru og svo fer hún í birtingu á netinu. Þetta er semsagt skemmtilegur skets sem framleiddur er í markaðslegum tilgangi. Það má kalla þetta sketsa með mjög augljósri vörulaumu.

Funny or Die er í eigu Will Ferrell og Adam McKay. Þeir byrjuðu seint árið 2006 með stutta sjónvarpsþætti og sketsa á netinu. eins og til dæmis Between two ferns með Zach Galifianakis. Í þessari stiklu unnu þeir með Keystone bjór og gerðu fyndinn skets með Keith Stone, frontmanni Keystone. Þetta var bara framleitt og sýnt á netinu sem skemmtiefni og því ekki um hefðbundna auglýsingu að ræða.

DumbDumb var stofnað í fyrra af Jason Bateman og Will Arnett. Þeir nýta frítíma sinn milli þess að þeir leika í bíómyndum til að taka upp svipaða sketsa og minnst var á hér fyrir ofan. Stiklan hér fyrir neðan er framleidd fyrir Orbit tyggjóið.

Man einhver eftir Merzedes Club? Sumarið 2008 var framleitt tónlistarmyndband í samstarfi við Símann, þar sem Egill “Gillz” Einarsson og félagar í hljómsveitinni sýndu hvað það var sniðugt að vera á MSN í símanum og svo á einum tímapunkti öskrar Jóhann Ólafur, eða Partý-Hans, “1-2-3 VINIR!”. Mér fannst þetta skemmtilegt framtak á sínum tíma og það væri gaman að fá að sjá fleiri svona myndbönd gerð hjá íslenskum fyrirtækjum.

Ef einhver veit um fleiri dæmi má sá hinn sami endilega láta mig vita.

Núna á fimmtudaginn fór fram stærsta hlutafjárútboð hjá netfyrirtæki síðan Google fór á markað 2004. LinkedIn, sem ég hef talað um áður, var skráð á markað og það með hvelli! Upprunalegt verð á hlut var í kring um $45 en þegar líða tók á daginn voru hlutir að seljast á rétt yfir $120 en lækkaði síðan niður í $94 þegar markaðurinn lokaði. $94 x 94,50 m útgefnir hlutir gera fyrirtækið rétt undir $9 milljarða virði! Ef við reiknum þetta í krónum þýðir það að markaðsvirði LinkedIn er 1.035.000.000.000 krónur á gengi dagsins í dag! Til gamans má geta að það gerir LinkedIn verðmætara en t.d. Herbalife ($6,20ma), Abercrombie & Fitch ($6,5ma) og JC Penney ($7,8ma).

Menn segja að andrúmsloftið í kauphöllunum hafi minnt á tíunda áratuginn þegar allir voru að dæla peningum í þessi framtíðarfyrirtæki sem voru aðeins rekin á netinu. Það ævintýri endaði í “DotCom” bólunni sem sprakk upp úr árinu 2000 þegar kom í ljós að þessi ofur fyrirtæki voru ekki að hala inn neitt af tekjunum sem þau áttu að vera að gera og voru þannig ekki að skila fjárfestum neinu. Allir vildu selja sína hluti og búmm bólan sprungin.

Geðþekka nördið Mark Zuckerberg

Núna eru blikur á lofti að svipað sé í gangi. Fyrirtæki eins og FacebookTwitterLinkedIn og Groupon eru að tröllríða öllu og fjárfestar eru víst bankandi á dyrnar að bjóða peningana sína á hverjum degi. Allt virðist stefna í að stór hluti þeirra ætli sér í opið hlutafjárútboð (IPO) og sigra heiminn. Nú fyrir stuttu bar t.d. Google víurnar í Groupon, en það síðarnefnda hafnaði tilboði upp á 6 milljarða dollara og ætla frekar að sækja sér fé á opnum markaði. Við erum ekki að tala um neina smá peninga! Þegar Facebook fór í síðasta útboð var virði þess um $50 milljarðar og hefur bara hækkað síðan þá. Fregnir herma að vinir okkar hjá Facebook ætli sér í opið hlutafjárútboð á næsta ári. Það er eins og allir vegir liggi á opinn markað þessa dagana.

En er þá ekki hætta á að það sama gerist og fyrir réttum 10 árum, að allt fari á hausinn og hlutabréfin standi aldrei undir væntingum? Auðvitað er það möguleiki. Sérfræðingar The Economist segja til dæmis að við séum í miðri tæknibólu.

En það er hins vegar munur á fyrirtækjunum í dag og var á síðustu öld. Áætlað var að Facebook hafi verið með rétt undir $2 ma í tekjur á síðasta ári BARA frá seldum auglýsingum. LinkedIn skilaði hagnaði upp á $15 milljónir árið 2010, þar sem mest telur þóknanir frá stærri fyrirtækjum að leita sér að starfskrafti. Þar liggur munurinn, þessi fyrirtæki eru í einhverri sölu og eru að skila inn tekjum og hagnaði, ólíkt því sem var áður. Eina fyrirtækið sem ég hef einhverjar áhyggjur af eru vinir mínir Biz Stone og Jack Dorsey hjá Twitter, enda á Twitter ennþá eftir að sýna fram á stöðugt tekjustreymi.

Einnig virðast stofnendur þessara fyrirtækja vera þolinmóðari í dag og safna að sér fé í hægum skrefum, þar sem fjárfestarnir eru handvaldir. Til dæmis varð Facebook 7 ára í febrúar, LinkedIn varð 8 ára í mars og Twitter 5 ára í apríl. Til samanburðar þá var NetScape stofnað árið 1994 og sett á markað einu og hálfu ári seinna eftir að hafa orðið vinsælasti netvafri heims á stuttum tíma. Þess má til gamans geta að Netscape gerði Marc Andreessen að miljónamæringi og í dag á hann hluta í Facebook, Twitter, Foursquare og Zynga. Allt vaxandi fyrirtæki í netheimum.

Jack Dorsey er ögn svalari en Zuckerberg

Í þriðja lagi hafa þessi fyrirtæki verið að ná sér í pening, hingað til að minnsta kosti, hjá litlum hópi fjárfesta. Sú staðreynd hefur t.d. ekki áhrif á vísitölur Nasdaq eða NYSE. Og ef það skildi eitthvað koma upp á áður en allir fara í hlutafjárútboð þá hefur það aðeins áhrif á þennan litla hóp.

Framtíðin verður að leiða í ljós hvort tekjurnar sem fyrirtækin eru að skila í dag sé góð réttlæting á þessum svakalegu upphæðum sem við lesum um í fréttunum. En þangað til verðum við bara að fylgjast með og hafa gaman að þessu. En það eru spennandi tímar framundan í tækniheiminum, svo mikið er víst.

Þá er Google komið í tölvubransann. Það hefur lengi legið í loftinu að þeir séu að vinna í stýrikerfi fyrir tölvur og nú er komið að því að rúlla þeim út á markaðinn. Gripurinn ber nafnið Chromebook og frá og með 15. júní geta neytendur í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu nálgast einn slíkan. Það er hægt að fá tvær útgáfur, eina framleidda af Samsung og hina af Acer. Tölvurnar líta þokkalega út, þeir hafa ákveðið að halda sig við svarta litinn eins og í næstum öllum símum sem þeir keyra.

Nýjungin sem fylgir Chromebook er að það er í raun ekkert innbyggt minni til að vista gögn eða forrit. Chrome viðmótið er alveg eins og Chrome netvafrinn (sem er að mínu mati BESTI netvafrinn, hægt að nálgast hann hér) og það er í raun enginn eiginlegur harður diskur. Öll forrit eru á netinu og öll gögn eru vistuð í skýi. Þeir lofa því að tölvan sé ægilega hröð, það á víst að taka hana 8 sekúndur að ræsa sig!

Netforrit segirðu? Hvað með forrit sem allir þurfa eins og Office pakkann, iTunes og MSN?

Óþarft! Google Docs verður fullkomnara með hverri vikunni og getur gert meirihlutann af því sem Office getur í Powerpoint, Word og Excel, Google kynnti Google Music Beta, þjónusta þar sem þú getur hlaðið inn allt að 20 þúsund lögum og nálgast þau hvar sem er í gegn um netið. Ég þarf ekki einu sinni að minnast á MSN, það notar það enginn lengur… Einnig verður hægt að nota Gmail, Google Calendar og Google Docs, þó að tölvan sé ekki nettengd.

Til þess að nota tölvuna þarf að sjálfsögðu að vera með Gmail netfang. Þú notar netfangið þitt til að skrá þig inn og út úr tölvunni. Svo ef vinur þinn vill fá að nota hana þá notar hann bara sitt netfang og þá þarf hann ekkert að sjá það sem þú hefur verið að skoða. Það er hægt að fá annað hvort bara með WiFi (þráðlausu neti) eða með 3G tengingu fyrir nokkra auka dollara.  Tölvan er á fínum prís, $499 fyrir 3G útgáfuna frá Samsung.

Þetta lítur allt mjög spennandi út. En hvernig er upplifunin? Snillingarnir hjá Engadget fengu prótótýpu í hendurnar fyrir jól og sögðu að Chrome stýrikerfið ætti ennþá langt í land með að ná hefðbundnum tölvum í virkni og þægindum. Það er einnig erfitt að tengja nokkurs konar utanáliggjandi búnað við tölvuna, en skv. FAQ flipanum á Chromebook síðunni, er einungis hægt að tengja headset, hátalara, USB drif, lyklaborð o.s.frv. Ekkert minnst á Android eða eitthvað slíkt. En hvernig ætli það sé að vera með tölvu sem er sítengd við netið? Þegar maður er farinn að streyma öllu, t.d. bíómyndum og tónlist þarf að passa gagnamagnið sem verið er að sækja, sérstaklega sé maður tengdur á 3G. Reyndar er gaman að segja frá því að Google var að setja í loftið YouTube Movies. Það er skemmst frá því að segja að úrvalið af fríu myndunum sem við getum horft á er vægast sagt hræðilegt!

Ætli niðurstaðan sé ekki sú að tölvan sé langt því frá að leysa tölvurnar sem við notum í dag af hólmi. En það má ekki gleyma að þetta er fyrsta tölvan sinnar tegundar. Þróunin á henni verður að öllum líkindum gríðarlega hröð. Ég held að í framtíðinni munu allar tölvur vera sítengdar við netið og öll gögn verði í skýi.

Auglýsingin frá Google fyrir Chromebooks: